08.05.1964
Efri deild: 85. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

220. mál, ávöxtun fjár tryggingafélaga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál er komið frá hv. Nd., þar sem það hefur verið samþ. með litlum breyt. frá því, sem frv. var, þegar það var lagt fram.

Meginefni frv. er að skylda líftryggingafélög til þess að leggja nokkuð af sínu ráðstöfunarfé í vaxtabréfakaup húsnæðismálastjórnar til þess að afla hinu almenna veðlánakerfi frekari tekna en það nú hefur.

Eins og hv. þdm. kannast við, var hér nýlega flutt frv. um hækkun skyldusparnaðar úr 6% upp í 15% fyrir unglinga frá 16 til 25 ára til þess að leggja í þennan húsnæðismálastjórnarsjóð; og hér er lagt til, að líftryggingafélög verði skylduð til þess að leggja fram 25% af sínu ráðstöfunarfé til þessara vaxtabréfakaupa.

Þá er enn fremur lagt til, að öðrum tryggingafélögum, þ.e.a.s. tjónatryggingafélögum, verði gert að skyldu, ef ráðh. ákveður svo, að kaupa fyrir sama hundraðshluta af sinu ráðstöfunarfé þessi bréf.

Það er gert ráð fyrir, að þetta muni gefa á ársgrundvelli í kringum 20 millj. kr., þannig að tekjuöflun til húsnæðismálastjórnar með hækkun skyldusparnaðarins og þessu frv. á að geta numið í allt um 50 millj. kr.

Ég geng þess að vísu ekki dulinn, að þetta muni ekki nægja til þess að fullnægja hinni gífurlega miklu eftirspurn, sem er eftir lánum hjá húsnæðismálastjórn, og ekki heldur og enn síður þörfinni til þess að hækka einstök lán, sem nú eru aðeins 150 þús. kr. Það hafa verið ýmsar fleiri leiðir til athugunar og eru enn. Það hefur t.d. verið rætt við stjórnir lífeyrissjóðanna ýmissa um það, að þeir legðu fram fé í þessu skyni, en það hefur ekki tekizt, vegna þess að við þá hefur ekkert samkomulag náðst enn sem komið er. En það hlýtur að þýða það, að meðlimir lífeyrissjóðanna, sem fá lán hjá þeim, verða látnir mæta afgangi í úthlutun lána húsnæðismálastjórnar, þannig að þeir, sem hafa ekki nein slík lán upp á að hlaupa, hafi nokkurs konar forgangsrétt til lánanna.

Önnur atriði eða aðrar leiðir eru einnig í athugun hjá ríkisstj., þótt það sé ekki komið svo langt, að hægt hafi verið að festa þær í frumvarpsformi. En það verður haldið áfram að vinna að því að auka enn það fé, sem húsnæðismálastjórn hefur til umráða á næstunni.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. að þessari umræðu lokinni, en vildi mega fara þess á leit við n., að hún gæti tekið málið til afgreiðslu fljótlega, þar sem nú er væntanlega skammt til þingloka.