14.11.1963
Neðri deild: 15. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki á þessu stigi að deila um það, hver nauðsyn var á því, að þessi brbl. voru sett. Ég vil aðeins vísa til þeirrar fyrri skoðunar minnar, sem hefur komið fram hér í umr. á Alþingi, að ég álíti, að ríkisvaldið eigi ekki að hafa önnur afskipti af launadeilum en að vinna að samkomulagi milli deiluaðila, og í samræmi við það mun ég greiða atkv. um þessi brbl., þegar að því kemur. Það, sem mér finnst hins vegar rétt nú við 1. umr. málsins, er að vekja athygli á því, að ef Alþingi samþykkir þessi brbl., felst í því stefnuyfirlýsing og viljayfirlýsing af hálfu Alþingis þess efnis, að laun hjá einkafyrirtækjum skuli ákveðin með hliðsjón af launum hjá ríkinu á þann hátt, að laun einkafyrirtækja séu a.m.k. 11% hærri en hjá ríkinu, og vil ég nú færa þessum orðum mínum stað.

Eins og fram kemur í 1. gr. brbl., er það tilgangur þeirra að ákveða kjör verkfræðinga, sem starfa hjá öðrum en ríkinu, og það skuli vera gert með gerðardómi. Sem sagt, þessi lög fjalla um það, hvernig ákveða eigi kjör verkfræðinga, sem vinna hjá einkafyrirtækjum, sem vinna hjá öðrum en ríkinu. Og í 2. gr. er svo sagt til um það, hvernig sá gerðardómur, sem um þetta á að fjalla, á að vinna að þessu máli, hvernig hann á að finna það út, hvert kaup verkfræðinga hjá einkafyrirtækjum eigi að vera, og um það segir svo í 2. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Gerðardómurinn skal við ákvörðun mánaðarlauna, vinnutíma og launa fyrir yfirvinnu hafa hliðsjón af því, hver séu kjör verkfræðinga og annarra sambærilegra starfsmanna hjá ríkinu samkv. launakerfi því, sem gildir frá 1. júlí 1963.“

Sem sagt, sú stefna, sem hér er sett fram hjá hæstv. ríkisstj. um það, hvernig eigi að finna út laun verkfræðinga hjá einkafyrirtækjum, er, að sá gerðardómur, sem um þetta fjallar, á að hafa hliðsjón af þeim launum, sem slíkum starfsmönnum eru greidd hjá ríkinu. Það á sem sagt, þegar fundin eru út laun hjá verkfræðingum, sem vinna hjá einkafyrirtækjum, að miða við það, sem þessir starfsmenn fá hjá því opinbera, ríkinu og bæjarfélögum. Reglan, sem ríkisstj. byggir hér á, er, að launin hjá einkafyrirtækjum eigi að vera ákveðin með hliðsjón af því, sem ríkið borgar.

Eins og kunnugt er, var skipaður gerðardómur samkv. þessum brbl. Sá gerðardómur var útnefndur af hæstarétti, og vafalaust hafa verið valdir í hann mjög hæfir menn. Mér er því miður ekki kunnugt um, hverjir það eru, enda skiptir það ekki máli, en þeir hafa að sjálfsögðu farið eftir 2. gr. laganna og miðað úrskurð sinn við það, að laun verkfræðinga hjá einkafyrirtækjum væru ákveðin með hliðsjón af því, hver séu kjör verkfræðinga og annarra sambærilegra starfsmanna ríkisins samkv. úrskurði kjaradóms á s.l. sumri. Og samkv. því, sem hæstv. landbrh. upplýsti hér, þegar þetta mál var til umr. fyrir tveimur dögum, þá er úrskurður þessa gerðardóms í stuttu máli sá, að verkfræðingar hjá einkafyrirtækjum skuli hafa til jafnaðar um 11% hærri laun en verkfræðingar hjá ríkinu og sambærilegir starfsmenn hjá ríkinu. Þetta er samkv. því, sem hæstv. ráðh. upplýsti, byggt á því, að verkfræðingar, sem starfa hjá einkafyrirtækjum, búa ekki við eins mikið atvinnuöryggi og þeir, sem vinna hjá ríkinu, og þeir hafa að ýmsu leyti minni fríðindi. Þess vegna gat ég ekki heldur heyrt annað en hæstv. ráðh. tæki undir það, að þetta væri réttur úrskurður hjá gerðardómnum, að ákveða launin hjá einkafyrirtækjunum hvað verkfræðingana snertir 11% hærri en hjá ríkinu. Og með því að mæla með framgangi þessa frv. hér í þinginu, eftir að úrskurður þessa gerðardóms er kunnur, þá hlýtur að felast í því sú viljayfirlýsing og stefnuyfirlýsing hæstv. ríkisstj., að hún telji ekki óeðlilegt, að laun hjá einkafyrirtækjum séu ákveðin 11% hærri en hjá ríkinu. En það gefur að sjálfsögðu auga leið, að þegar búið er að skapa þá hefð, að verkfræðingar hjá einkafyrirtækjum hafi 11% hærri laun en sambærilegir starfsmenn hjá ríkinu, þá hlýtur slíkt einnig að gilda um aðra starfshópa. Þá er ekki nema eðlilegt, að slíkt gildi líka t.d. um skrifstofumenn, verzlunarmenn og annað fólk, sem vinnur hjá bæði einkafyrirtækjum og ríkinu. Ég verð því að líta svo á, að það, að hæstv. ríkisstj. mælir með framgangi þessa frv., eftir að þessi gerðardómur er kunnur, þá telji hún það eðlilegt og það sé hennar stefna, að þegar um sambærilega starfshópa sé að ræða, eigi einkafyrirtækin að greiða um 11% hærri laun en ríkið greiðir.

Mér finnst rétt að rifja þetta upp, vegna þess að fyrr á þessu þingi hafa verið nokkrar deilur um kaupkröfur og kröfur um kjarabætur, sem vissir starfshópar hafa gert, eins og verkamenn, verzlunarmenn og iðnaðarmenn. Þessir starfshópar hafa farið fram á kjarabætur, bæði með hliðsjón af hinni auknu dýrtíð í landinu og eins með tilliti til þess, að þeir telja eðlilegt, að þeir séu ekki lakar launaðir en ríkisstarfsmenn eru samkv. úrskurði kjaradóms á s.l. sumri. Og það furðulega hefur skeð í þessum umr., að þessum óskum verkamanna og verzlunarmanna og annarra hliðstæðra stétta, sem hafa ekki gengið lengra en það að óska eftir sambærilegum kjörum og ríkisstarfsmenn, hefur verið mjög illa tekið, og það hefur verið talið sjálfsagt að neita þeim. En mér virðist, að eftir að hæstv. ríkisstj. mælir með samþykkt þessa frv., sem felur það raunverulega í sér, að laun þeirra starfsmanna, sem það fjallar um, skuli vera 11% hærri hjá einkafyrirtækjum en ríkinu, þar með séu niður fallnar þær mótbárur, sem hún hefur áður haldið uppi um það, að ósanngjarnt væri af verkamönnum og verzlunarmönnum að krefjast hliðstæðra launa og ríkið borgar sínum starfsmönnum.

Ég skal ekki leggja dóm á það, tel mig ekki hafa kunnugleika til þess, hvort þessi munur, sem gerðardómurinn ákveður á launum verkfræðinga hjá einkafyrirtækjum og ríkinu, sé réttur. En mér finnst hins vegar ástæða til að fagna því, að það virðist koma hér fram hjá hæstv. ríkisstj. talsvert önnur afstaða en áður, þar sem hún t.d. í sambandi við kaupbindingarlögin vildi enga úrlausn veita þeim stéttum, sem eftir eru að fá hliðstæðar launabætur og opinberir starfsmenn, að í þessu máli leggur hún hins vegar til og virðist telja eðlilegt, að það sé 11% launamunur hjá starfsmönnum í þjónustu einkafyrirtækja og ríkisins. Ég vil vænta þess, að þessi breytta afstaða hæstv. ríkisstj. verði til þess að greiða fyrir lausn þeirra mála og hún sé þar með vikin frá hinni fjarstæðu stefnu sinni að neita t.d. verkamönnum og verzlunarmönnum og iðnaðarmönnum og öðrum slíkum starfshópum um svipaðar launabætur og opinberir starfsmenn hafa þegar fengið.