09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. ráðh. er ekki mættur til fundar né heldur hv. frsm. meiri hl. n., sem þetta mál var hjá, en til þeirra beggja hafði ég hugsað mér að beina nokkrum orðum og jafnvel varpa fram nokkrum spurningum í þeirra áheyrn. Ég vil þess vegna hinkra við með ræðu mína andartak, ef hæstv. forseti leyfir, og bíða þess sérstaklega, að hæstv. ráðh. komi á fundinn. En til þess að nota tímann, þangað til þessar tvær mikilvægu hv. persónur birtast hér í hv. d., vildi ég leyfa mér að lesa upp bréf, sem hv. þm. Ed. hafa borizt og varða málið, sem til umr. er Þetta eru bréf frá samtökum verkfræðinga. Mér hefði fundizt, að þessi bréf verðskulduðu það að verða birt sem fskj. með nál., en svo var nú ekki, og þess vegna tel ég ekki illa farið nú í upphafi míns máls, að ég lesi upp þessi bréf, þannig að þau þó geymist sem skjöl varðandi þetta mál í þingtíðindunum.

Fyrsta bréfið, sem ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa upp, er frá stjórn Verkfræðingafélags Íslands. Það er dagsett 12. marz 1964 og hljóðar þannig:

„Frv. til laga um lausn kjaradeilu verkfræðinga liggur nú fyrir Alþingi. Það hefur farið gegnum þrjár umr. í Nd. og er nú komið til Ed. Frv. þetta var lagt fyrir Alþingi til staðfestingar á brbl. um lausn kjaradeilu verkfræðinga, er sett voru af forseta Íslands hinn 17. ágúst 1963. Var frv. samhljóða brbl. og forsendur allar hinar sömu, en Nd. gerði breyt. á 4. gr. þess. Brbl. og umræddu frv. er ætlað að taka til: a) Launakjara verkfræðinga, sem starfa hjá öðrum en ríkinu. b) Gjaldskrár fyrir verkfræðistörf, sem unnin eru í ákvæðisvinnu eða tímavinnu. Stjórn Verkfræðingafélags Íslands hefur oft rætt þessi lög og frv. og leyfir sér hér með að skora á hv. Alþingi að samþykkja ekki lagafrv. það, sem nú liggur fyrir. Viljum vér áskorun vorri til stuðnings telja eftirtalin rök:

Gjaldskrá: 1. Lagafrv. og bráðabirgðalögum svo og brbl. um gjaldskrá, er staðfest voru á Alþingi sem lög nr. 46 13. apríl 1963, hefur í rauninni verið ætlað að taka til launakjara verkfræðinga. Í orði kveðnu var þeim hins vegar fyrst og fremst beint að gjaldskrá fyrir verkfræðistörf. Í öllum þessum lagasetningum er á grófan og lítt skiljanlegan hátt ruglað saman þessum tveim málum, eins og m.a. kemur fram í heiti frv. og forsendum þess. Þar eru ekki sett fram nein rök fyrir nauðsyn þess að lögbjóða gjaldskrá, enda þótt lögunum sé ætlað slíkt hlutverk. Gjaldskrá er hagsmunamál verkfræðinga, sem reka sjálfstæðar verkfræði- og teiknistofur, og ákveður hún þóknun fyrir selda verkfræðiþjónustu atvinnurekenda. Launakjör verkfræðinga eru hagsmunamál verkfræðinga í launuðum, föstum störfum. Lagasetning um gjaldskrá leysir því enga kjaradeilu verkfræðinga, og misstu því fyrri brbl. um þóknun fyrir verkfræðistörf frá vorinu 1963 algerlega marks, eins og sýnt mun verða fram á hér á eftir.

2. Eins og gerðardómur 1963 sýnir, er það ekki á annarra færi en verkfræðinganna sjálfra að ákveða gjaldskrá fyrir verkfræðiþjónustu. Verkfræðingar samþykktu nýja gjaldskrá, er tók gildi hinn 1. maí 1962. Með brbl., er sett voru 2. maí 1962 og síðar samþ. á Alþingi sem l. nr. 46 13. apríl 1963, var lögfest gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá 1955 og þar með felld úr gildi hin nýja gjaldskrá. Gerðardómur sá, sem skipaður var skv. brbl. frá 17. ágúst 1963, komst hins vegar að þeirri niðurstöðu við samanburð gjaldskránna, að gjaldskráin frá 1955 er að sumu leyti orðin óviðunandi og ónothæf sem grundvöllur að ákvörðun þóknunar. Gerðadómur lögfesti síðan nýja gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands að mestu leyti óbreytta. Hin fyrri brbl. voru því ástæðulaus. Samþykkt lagafrv. þess, sem nú liggur fyrir hv. Alþingi, er af sömu ástæðum tilefnislaus.

3. Einsdæmi er, að hv. Alþingi lögbjóði gjaldskrá sem þessa.

Launakjör. 4. Launamál verkfræðinga eru í höndum Stéttarfélags verkfræðinga, og mun sá aðili væntanlega gera grein fyrir þeirri hlið málsins.

Niðurlag. 5. Tækniþróun er mjög ör. Af þeirri ástæðu er óhjákvæmilegt að endurskoða gjaldskrá fyrir verkfræðilega þjónustu og samræma hana nýjungum eftir þörfum hverju sinni. Lögbinding gjaldskrárinnar um óákveðinn tíma kemur í veg fyrir slíkt og er því andstæð hagsmunum verkfræðinga, viðskiptavina þeirra og þjóðarinnar allrar. Mun afleiðingin verða rýrnun verkfræðiþjónustu í landinu, bæði að gæðum og magni.

6. Neðri deild hv. Alþingis gerði þá breytingu á frv., að í 4. gr. þess voru m.a. tekin upp ákvæði um gildistíma ákvarðana gerðardómsins skv. 1. gr., þ.e. dómsorðinu eru þar sett tímamörk eftir árslok 1965. Hins vegar er í frv. ekki gert ráð fyrir neinum mörkum um gildistíma laganna. Ef það yrði samþ., væri búið að svipta um ótiltekinn tíma verkfræðingastéttina, eina allra stétta í landinu, rétti til setningar gjaldskrár fyrir störf sín og samningsrétti um kjör sín, en í staðinn væri kominn til frambúðar lögboðinn gerðardómur um gjaldskrá fyrir útselda verkfræðiþjónustu og launakjör verkfræðinga hjá öllum öðrum en ríkinu, þar sem sérhvert frávik frá dómsorðinu væri lögbrot og varðaði sektum. Í þessu sambandi er rétt að leiða hugann að því, hvað mundi ske, ef fjölmennari stéttir væru beittar slíkum brögðum.

Með tilvísun til framangreindra raka vill stjórn Verkfræðingafélags Íslands endurtaka áskorun sína til hv. Alþingis um að samþykkja ekkí frv. til l. um lausn kjaradeilu verkfræðinga, sem nú liggur fyrir Alþingi.

Stjórn Verkfræðingafélags Íslands:

Einar B. Pálsson. Geir Arnesen. Egill Skúli Ingibergsson. Ríkharður Steinbergsson. Gunnar Sigurðsson. Páll Flygenring. Guðmundur Björnsson.“

Þannig hljóðar bréf Verkfræðingafélags Íslands til þm. Ed., dags. 12. 3. 1964.

Annað bréfið, sem ég les, er frá stjórn Stéttarfélags verkfræðinga. Það er dagsett 13/3 1964 og hljóðar þannig:

„Til þingmanna efri deildar Alþingis, Alþingishúsinu, Reykjavík.

Frv. til l. um lausn kjaradeilu verkfræðinga liggur fyrir hv. Alþingi. Það er borið fram til staðfestingar á brbl, um sama efni frá 17. ágúst 1963. Frv, hefur farið gegnum þrjár umr. í Nd., þar sem gerðar voru breyt. á 4. gr., m. a. þess efnis, að gildi ákvarðana gerðardóms skv. 1. gr. eru sett tímamörk. Hins vegar eru lögunum sjálfum engin tímamörk sett. Af tilefni þessa frv. viljum við taka fram eftirfarandi:

1. Í rökstuðningi fyrir brbl. frá 17. ágúst 1963, sem hér um ræðir, og enn fremur í 2. gr. 1. mgr. l. og frv. er hugsanagangurinn þveröfugur við 7. og 20. gr. I. frá 17. apríl 1962, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Því hefur einnig margsinnis verið haldið fram af því opinbera, að leiðrétting á kjörum opinberra starfsmanna væri til samræmis við kjör sambærilegra manna hjá öðrum en ríkinu og gæti kjaradómur því alls ekki verið fordæmi að kjarabótum annarra stétta. Þetta sjónarmið er svo augljóslega rétt, að ekki orkar neins tvímælis. En af þessu leiðir það, að það er fjarstæða að gera launakerfi ríkisins að fordæmi fyrir kjörum félagsmanna Stéttarfélags verkfræðinga og gera þar með kjör þeirra, einna allra landsmanna, að afleiðingu af kjörum opinberra starfsmanna. Slík aðferð er bein ofsókn gegn verkfræðingastéttinni.

Ekki verður annað séð en að brbl, hafi verið sett til þess að hindra kjarasamninga, svo voru að takast, sbr. grg. verkfræðistofanna, bls. 22–24, í gerðardómi skv. l. nr. 64 frá 17. ágúst 1963. Þetta var gert, enda þótt kjaratillögur vorar hafi allar verið komnar fram, löngu áður en kjaradómur gekk, dómnum verið kunnugt um þær og engin krafa af vorri hendi byggð á kjaradómi.

3. Í desember s.l. urðu um 10–17% kauphækkanir, sem náðu til allflestra stéttarfélaga í landinu. Síðan hafa aðrar stéttir einnig fengið kjarabætur til samræmis við þessar kauphækkanir, m.a. bændur og kaupmenn. Eftir svona miklar og almennar kjarabætur eru brbl. orðin að tvímælalausum áníðslulögum, sem ber að nema úr gildi án tafar.

4. Verkfræðingar hafa frá upphafi litið á I. sem skerðingu á mannréttindum sínum, þar sem þau meina þeim frjálsa samninga um kjör sín, á sama tíma og öðrum stéttum eru samningar frjálsir, og geta alls ekki sætt sig við slíka meðferð.

Í upphafi þessa máls var að því vikið, að gildistíma laganna væru engin takmörk sett, heldur eru í 4. gr. frv. sett tímamörk fyrir dómsorði gerðardómsins skv. 1. gr. Með þessu, ef að lögum yrði, væri verkfræðingastéttin svipt ótímabundnum samningsrétti um kjör sín og verkfallsrétti, sem er helgur réttur allra stéttarfélaga. Stéttarfélag verkfræðinga hefur frá stofnun þess fyrir tíu árum starfað skv. l. nr. 80 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Samþykkt frv. mundi m.ö.o. jafngilda afnámi þeirra l. að því er verkfræðingastéttina snertir. Það er vandséð, hvaða heilbrigðum, uppbyggjandi tilgangi lagasetning af þessu tagi eigi að þjóna. Þvert á móti er augljóst, að með samþykkt frv. væri farið inn á braut, sem leiðir til úlfúðar og átaka í samfélaginu. Það er ástæða til að hugleiða, hvers konar þjóðfélag væri upp risið í landinu, ef þessi aðferð væri notuð við allar stéttir.

5. Á árunum 1961–1962, þegar unnið var eftir ráðningarskilmálum verkfræðinga frá 7. júlí 1961, kom stöðvun á brottflutning verkfræðinga úr landinu. Nú, síðan brbl. voru sett, hefur aftur vaknað greinileg tilhneiging verkfræðinga til þess að leita erlendis til starfa. Ástæðan til þessa er að sjálfsögðu hin óvinsamlega hegðun ríkisvaldsins gagnvart verkfræðingastéttinni. Með þessu er í reynd unnið gegn verkmenningu landsmanna og þar með efnahagskerfinu og hagsmunum þjóðarinnar.

6. Vér viljum að lokum vísa til gerðardóms skv. l. nr. 64 frá 17. ágúst 1963 og allra hans gagna til upplýsingar á kjaradeilu verkfræðinga.

Með tilliti til þess, sem hér hefur verið rakið og vitnað til, leyfum vér oss að treysta því, að hv. Alþingi nemi úr gildi umrædd lög.

Virðingarfyllst,

Stjórn Stéttarfélags verkfræðinga.

Gunnar H. Bjarnason: Ragnar Árnason. Jóhann Indriðason. Haukur Pálmason. Gunnar H. Pálsson. Egill Skúli Ingibergsson. Gunnar Baldvinsson. Páll Lúðvíksson. Jón Guðmundsson.“

Þriðja bréfið, sem ég vil leyfa mér að lesa upp, er frá Verkfræðingafélagi Íslands, dags. 20. 3. 1964:

„Verkfræðingafélag Íslands hélt í gær sérstakan félagsfund, þar sem rætt var um frv. það til l., sem ætlað er að lögbinda gjaldskrá fyrir verkfræðistörf og launakjör verkfræðinga hjá öðrum aðílum en ríkinu. Að loknum umr. var gerð eftirfarandi fundarsamþykkt:

Fyrir Alþingi liggur nú frv. til l., sem felur í sér lögbindingu á bæði gjaldskrá fyrir verkfræðistörf og launum þeirra verkfræðinga, sem starfa hjá öðrum en ríkinu. Ef frv. verður að l., geta verkfræðingar hvorki sett gjaldskrá né gert samninga um kjör sín. Félagsfundur í Verkfræðingafélagi Íslands þann 19. marz 1964 telur fráleitt að svipta þannig stétt manna sjálfsögðum mannréttindum og skorar á Alþingi að afgreiða ekki umrætt lagafrv.

Vér leyfum oss hér með að koma þessari fundarsamþykkt á framfæri við yður. Virðingarfyllst.

F. h. Verkfræðingafélags Íslands.

Einar B. Pálsson. Hinrik Guðmundsson.“ En bréfíð er stílað til mín.

Ég hef þá lesið upp þessi þrjú bréf, sem fjalla um þetta mikilvæga mál, og gert það fyrst og fremst í því skyni, að það megi geymast ásamt öðrum plöggum um þetta mál í Alþingístíðindum.

Nú sé ég, að hv. frsm. nefndarmeirihl. er kominn ,á fundinn, en mig langaði til að fara örfáum orðum um þá ræðu, sem hann flutti hér í dag.

Ræða frsm. meiri hl. var ekki löng, en ég hygg, að hún hafi samt á ýmsa lund verið lærdómsrík, og ég held, að meira megi læra af því, sem þar var ekki sagt, heldur en af því, sem sagt var. Hv. frsm, meiri hl. hafði orð á því í upphafi sinnar ræðu, að þetta frv. hefði nú verið alllengi til meðferðar í hv. d. Þetta er rétt. Það mun hafa verið 12. og 16. marz, sem 1. umr. um málið fór fram hér í hv. d., og síðan hefur það legið hjá n., þ.e.a.s. það er búið að liggja um nærri því tveggja mánaða tíma í n. En allt um það, þótt tíminn sé þetta langur, þá er hann að mínum dómi ekki nógu langur, því að hann átti ekki að vera tveir mánuðir, tíminn sem frv, lægi hjá n., hann mátti gjarnan vera eilífur, og eins og fram hefur verið tekið hér fyrr í dag, hefði farið bezt á því, að þetta frv. hefði aldrei komið frá n. til 2. umr.

Hv. frsm. meiri hl. hafði orð á því, að það væri mjög hörmulegt að þurfa að grípa til slíkra ráðstafana sem þessara brbl. Víst var það hörmulegt að grípa til slíkra ráðstafana. En hver segir, að það hafi þurft að gera það? Þetta fullyrti þó hv. frsm., að það hefði þurft að grípa til slíkra ráðstafana. Hann gerði ekki minnstu tilraun til að finna þessum orðum sínum stað. Það bar honum þó að gera sem frsm. meiri hl. Og yfirleitt var það sérstaklega áberandi við ræðu þessa ágæta manns, hv. frsm. nefndarmeirihl., að hann hliðraði sér algerlega hjá að ræða málið. Hann hliðraði sér hjá, eins og hann sagði sjálfur, að rekja málsatriðin. Ég skil þetta í raun og veru ofboð vel. En þar fyrir get ég ekkí tekið slíkt sem góða og gilda vöru af nefndarmeirihluta, að hliðra sér þannig hjá að ræða málefnið, sem til umræðu er. En ég skil hv. frsm. Ég þykist þess fullviss, að hann hafi hliðrað sér hjá að ræða málsatriðin vegna þess, að hann hefur skömm á öllu málinu, eins og það liggur fyrir. Hann vill eiga sem minnstan hlut í afgreiðslu þessa máls á Alþ. Þetta er a.m.k. mín skýring á því, að hv. frsm. meiri hl. hliðraði sér hjá að ræða málsatriðin. Ég hef það álit á honum, að hann muni ekki langa til að blanda sér mikið inn í þetta leiðindamál. En sérstaklega hef ég þó ætlazt til þess af honum og geri enn, að hann geri grein fyrir því í hv. deild, hvers vegna hafi þurft að grípa til þessara ráðstafana, svo hörmulegar sem hann telur þær vera.

Ég hef hlustað á ræðu hæstv. ráðh. um þetta mál, og ég hef aldrei fengið skýringu á því, hvers vegna það hafi þurft að grípa til þessara ráðstafana, hvers vegna ekki eru a.m.k. reyndar aðrar leiðir úður af stjórnarvöldunum.

Herra forseti. Nú er ég þar kominn í ræðu minni, að ég hefði viljað beina nokkrum orðum að því, sem hæstv, ráðh. sagði við 1. og 2. umr. þessa máls, og ef hæstv. ráðh. er ekkí kominn í húsið, þú vil ég mælast til þess, að hæstv. forseti geri fundarhlé. (Forseti: Ég vil geta þess, að hæstv. ráðh. hefur verið gert aðvart um óskir hv. þm., en hvort hann kemur, það get ég ekki sagt um og hef ekki vald til að skipa honum hingað.) Herra forseti. Ég læt mér ekki koma til hugar, að hæstv. ráðh. sé flúinn af hólmi, og ég vil ekki taka það sem góða og gilda vöru, að hann sé flúinn af hólminum. Ef hann hefði flúið af hólminum og tekið þetta frv. með sér út úr þinginu, þá hefði ég ekki harmað, þótt hann kæmi ekki, en því er ekki að fagna, og ég vil enn þá ítreka það, að hæstv. forseti geri nokkurra mínútna fundarhlé. En ef hæstv. forseti vill ekki gera það, þá get ég svo sem staðið hér nokkrar mínútur, meðan beðið er eftir hæstv. ráðh. (Forseti: Það eru fleiri á mælendaskrá, og ef hv. þm. vill hvíla sig í bili, þá er rétt, að hann geri það og næsti maður á mælendaskrá taki til máls.) Herra forseti. Ég hef ekki lokið ræðu minni. (Forseti: Já, en varla ætlar þm. að fara að standa í ræðustólnum og tefja starf þingsins þannig.) Ætlar hæstv. forseti að leyfa mér að halda áfram þessari ræðu þá á eftir, sem ég taki til máls í fyrsta sinn? (Forseti: Já, ræðunni er frestað — [Frh.]