09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Alfreð Gíslason [frh.]:

Herra forseti. Hæstv. samgmrh. er nú mættur til fundar, og því get ég haldið áfram máli mínu. Ég vona, að ég hafi ekki talað neitt illa um hæstv. ráðh., meðan hann var fjarverandi. Ég sagði að vísu, að ég tryði því ekki, að hann væri flúinn af hólmi, enda var svo ekki. Ég vona, að hann taki það ekki upp sem neina nauðung, þótt til þess sé ætlazt, að hann mæti hér í þessari hv. d. við 3. umr. þessa máls, því að nauðung vildi ég sízt af öllu beita hæstv. ráðh., og aldrei dytti mér í hug að bera fram frv. til neins konar nauðungarlaga um ráðh.

Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkra grein fyrir efni þessa frv. í stórum dráttum og séð frá mínum bæjardyrum. Ég benti á, að launakjör verkfræðinga, sem vinna hjá öðrum en ríkinu, skyldu samkv. frv. ekki í framtíðinni ákveðin með kjarasamningi viðkomandi aðila. Ég benti á, að það væri gerðardómur, sem eftirleiðis skyldi að öllu ákveða kjör þessarar stéttar, og ég benti á, að gerðardómur ætti í senn að setja verkfræðingum, sem vinna sjálfstætt, gjaldskrá og við setningu hennar hafa hliðsjón af gamalli og úreltri gjaldskrá, og að gerðardómur ætti jafnframt að ákveða laun þeirra verkfræðinga, sem eru í annarra þjónustu. Ég benti á, að í þessu frv. fælist, að verkfræðingum í þjónustu einkaaðila yrði eftirleiðis bannað með öllu að gera verkfall, og ég benti á, eins og málið horfði við, að með frv. væri stefnt að því, að öll þessi réttindi skyldu tekin af verkfræðingastéttinni um aldur og ævi.

Þetta er efni frv., ef allar umbúðir eru utan af því teknar. í þessu frv, eru öll grundvallarréttindi frjálsra launþegasamtaka fótum troðin og að engu gerð. Ég benti á, að slíku tilræði ríkisvaldsins við lýðfrelsi almennt bæri að mótmæla kröftuglega og þá skipti ekki máli, hvort um væri að ræða fámenna stétt eða stétt, sem væri fjölmenn. Við 1. umr. greindi ég nokkuð frá því, hvernig hæstv. ríkisstj. hefði frá upphafi vega lagt samtök verkfræðinga í einelti. Haustið 1959 sagði Stéttarfélag verkfræðinga upp kjarasamningum, og munu þeir hafa gengið úr gildi seint á því ári. Síðan var á annað ár unnið án samninga, og það var fyrst á miðju ári 1961, að félagið boðaði vinnustöðvun, og þ~að má segja, að allan þann tíma og æ síðan hafi hæstv. ríkisstj. beitt sér gegn hagsmunamálum verkfræðinga og ekki aðeins komið í veg fyrir samninga þeirra við ríkisstofnanir, heldur einnig att öðrum atvinnurekendum gegn þeim.

Svo er það sumarið 1962, að hæstv. ríkisstj. grípur til örþrifaráða í fyrsta sinn og gefur út nauðungarlög um gjaldskrá verkfræðinga. En þau lög, eins og þau lög, sem nú eru til umr., voru vindhögg og þegar hæstv. ríkisstj. varð það ljóst, að svo var um þessi bráðabirgðalög hennar, þá gaf hún bara út ný þvingunarlög, enn víðtækari og enn öfgafyllri en hin fyrri. Þessi síðari brbl. voru gefin í ágúst 1963, og er nú með þessu frv., sem hér liggur fyrir, leitað staðfestingar Alþ. á þeim.

Á þetta benti ég í ræðu minni við 1. umr. þessa máls. Hæstv. ráðh. tók til máls á eftir. Ég minnist þess sérstaklega úr hans ræðu, að hann fullyrti, að verkfræðingar hefðu sætt sig við brbl. og sumir þeirra væru jafnvel ánægðir með þau nú orðið, sagði hæstv. ráðh., en það var í marz s.l.. Mér kom þetta spánskt fyrir sjónir, þegar hæstv. ráðh. sagði þetta, því að samtök verkfræðinga höfðu einróma mótmælt lögunum þegar eftir setningu þeirra í ágúst 1963. En ég fór að spyrja sjálfan mig á eftir, hvort hugur verkfræðinganna til l. hefði breytzt síðar, þannig að hæstv. ráðh. hefði þrátt fyrir allt rétt fyrir sér í þessu máli. Ég fékk fljótt svar við þessu. Verkfræðingafélag Íslands gaf sitt álit einmitt sömu dagana, sem frv. var hér til 1. umr., og sömu dagana og hæstv. ráðh. lýsti svo fagurlega ánægju verkfræðinganna með l., og Stéttarfélag verkfræðinga gaf sitt svar daginn eftir, og svörin eru ótvíræð. Verkfræðingafélag Íslands skorar í bréfi sínu til þm. Ed., dags. 12. marz s.l.., á Alþ. að samþykkja ekki þetta lagafrv. Degi síðar, eins og ég sagði áðan, 13. marz, skrifar Stéttarfélag verkfræðinga þm. bréf, þar sem því er treyst, að Alþ. nemi úr gildi brbl., og á það bent, að þau séu orðin að tvímælalausum áníðslulögum, sem feli í sér beina ofsókn gegn verkfræðingastéttinni, eins og komizt er að í orði í bréfinu. Undir þessi kröftugu mótmæli skrifa nöfn sín allir stjórnendur beggja félaganna, 7 talsins í öðru félaginu og 9 í hinu. Þetta er. þá öll ánægjan, sem hæstv. ráðh. hafði svo falleg orð um hér við 1. umr. málsins. Og ég get bætt því við, að þau eru ekki aðeins stjórnir þessara félaga, sem mótmæla. Almennur félagsfundur í Verkfræðingafélagi Íslands, haldinn 19. marz 1964, gerði samþykkt varðandi frv., og segir í henni, að fundurinn telji fráleitt að svipta stétt manna sjálfsögðum mannréttindum, eins og gert sé í brbl., og skorar fundurinn á Alþ. að afgreiða ekki umrætt frv. Hæstv. ráðh. sagði í sinni fyrstu ræðu, að verkfræðingar sættu sig við l. og sumir þeirra væru meira að segja ánægðir með þau. En þarf frekar vitnanna við, hér liggja skjalfest mótmæli stéttarfélaganna, skjalfest mótmæli þeirra og óánægja með lögin.

Ég geri þetta sérstaklega að umtalsefni nú vegna þess, að ég held, að allur málflutningur hæstv. ráðh. í þessu máli sé á sömu bókina lærður og þessi yfirlýsing hans um ánægju verkfræðinganna. Allar röksemdir hans og málflutningur í heild er í stíl við þessa yfirlýsingu, sem hann gaf hér í hv. d. í upphafi umr. um málið.

Hv. frsm. nefndarminnihl. ræddi hér í dag um gjaldskrá verkfræðinga og gerði því máli mjög góð skil. Hann benti á, að verkfræðingar hefðu talið gjaldskrá þá, sem sett var 1955, ónothæfa og úrelta. Hann benti einnig á, að í frv. því, sem hér liggur fyrir, væri þó gert ráð fyrir því, að gerðardómurinn við setningu gjaldskrár fyrir verkfræðistörf skyldi hafa hliðsjón af gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá 1955, en ekki af þeirri gjaldskrá, sem verkfræðingar síðar hefðu set,t sér, en hún var sett 1962. Frá þessu greindi hv. frsm. minni hl. Síðan sagði hann frá því, að gerðardómur hefði ekki getað unað þeirri fyrirskipun, sem honum var gefin í brbl., við athugun hefði dómurinn komizt að raun um, að það væri ógerlegt að styðjast við gjaldskrána frá 1955, og að gerðardómurinn hefði sniðgengið ákvæði 2. gr. brbl. og þvert ofan í það ákvæði lagt gjaldskrá frá apríl 1962 til grundvallar nýju gjaldskránni, sem gerðardómurinn setti. Hæstv. ráðh. gerði þetta að umtalsefni í sinni ræðu áðan, og hann virtist ákaflega hneykslaður á orðum hv. frsm. minni hl., að hann skyldi leyfa sér að bera annað eins á borð og það, að gerðardómur bryti lög, sniðgengi lög. Og það er vegna þessarar hneykslunar hæstv. ráðh., að ég fer að tala um þetta, annars hefði ég ekki á það minnzt, því að svo góð skil gerði frsm. nefndarminnihl. því máli í dag.

En hæstv. ráðh. virtist vilja mótmæla algerlega ummælum hv. frsm. minni hl. Hvað er satt í þessu og rétt? Hv. frsm. minni hl. gerði grein fyrir máli sínu; og ef ég geri grein fyrir málinu nú, þá geri ég það með nákvæmlega sömu orðum og hann gerði. En ég held, að það sé engin vanþörf á þeirri endurtekningu.

Í 2. gr. brbl. segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Við setningu gjaldskrár fyrir verkfræðistörf unnin í ákvæðisvinnu og tímavinnu skal höfð hliðsjón af gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá 19. apríl 1955 og reglum, er gilt hafa um framkvæmd hennar.“

Þetta segir í 1. Gerðardómnum er skipað að hafa hliðsjón af gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands, ekki þeirri frá 1962, heldur þeirri frá 1955. En hvað hefur gerðardómurinn sjálfur að segja um þetta mál? Gerðardómurinn segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Dómurinn hefur eftir föngum kynnt sér ákvæði gjaldskrárinnar frá 1955 um þóknun fyrir ákvæðisvinnu, svo og hliðstæð ákvæði í frv. að gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá apríl 1962. Við samanburð gjaldskránna hefur komið í ljós, að gjaldskráin frá 1955 er að sumu leyti orðin óviðunandi og ónothæf sem grundvöllur að ákvörðun þóknunar. Í gjaldskrána vantar ákvæði um ýmsar greinar verkfræði, sem nú eru stundaðar, auk þess eru ákvæði um skyldur verkfræðinga eigi ætíð sem fyllilegust. Af þessum ástæðum hefur dómurinn ákveðið, að frv. frá apríl 1962 skuli lagt til grundvallar við samningu nýrrar gjaldskrár.“

Orðrétt, og ég endurtek: „Af þessum ástæðum hefur dómurinn ákveðið, að frv. frá apríl 1962 skuli lagt til grundvallar við samningu nýrrar gjaldskrár.“ M.ö.o.: gerðardómurinn getur ekki farið eftir ákvæðum 2. gr. brbl. um að hafa hliðsjón af gjaldskránni frá 1955 og leggur gjaldskrána frá apríl 1962 til grundvallar við samningu nýrrar gjaldskrár. Er þetta lögbrot? E.t.v. getur þetta reiknazt lögbrot. En þetta er sannleikurinn í málinu alveg umbúðalaus. Ég áfellist ekki gerðardóminn fyrir þetta. Hæstv. ráðh. kann að gera það, ef það verður honum nokkurn tíma ljóst, að gerðardómurinn hefur að þessu leyti við sín störf brotið í bága við ákvæði 2. gr. brbl. Og það þýðir ekki að hneykslast, þó að ræðumaður eða ræðumenn hér í hv. Ed. bendi á þessa staðreynd. Það þýðir ekki heldur að standa upp á eftir og hneykslast á því, að orð skuli vera haft á slíku hér á Alþingi. Ég bið nú hv. þdm. nánast afsökunar á því, að ég skuli endurtaka þetta, en ég geri það í þeirri von, að hið rétta í málinu með því móti nái að ganga inn í hið göfuga höfuð hæstv. ráðh.

Lagafrv. þetta hefst á þessari setningu, með leyfi hæstv. forseta:

„Hæstiréttur nefnir 3 menn í gerðardóm, sem ákveði kjör verkfræðinga, sem starfa hjá öðrum aðilum en ríkinu.“

Það er mikið, sem felst í þessari einu setningu. Hér eru margs konar mannréttindi tekin af heilli stétt manna. Stéttarfélag verkfræðinga er háð að réttu lagi sömu lögum og önnur stéttarfélög og hefur rétt til að semja um kjör sín og til að gera verkfall. Þetta er frá því tekið með þessum brbl. Þar með eru verkfræðingar settir út af sakramentinu. Þeir eru sviptir réttindum, sem önnur frjáls og fullgild stéttarfélög í landinu hafa. Á bekk með hverjum eru verkfræðingar þá settir með þessum ákvæðum? Margir kynnu að ætla, að með þessu væru verkfræðingarnir settir á bekk með opinberum starfsmönnum. En ef einhver skyldi halda það, þá er það mesti misskilningur. Þeir eru settir langtum neðar í almennum réttindum en opinberir starfsmenn. Í l. um opinbera starfsmenn frá 17. apríl 1962, samþykktum á Alþingi, segir svo í 4. gr.:

„Launakjör starfsmanna ríkisins skulu ákveðin með kjarasamningum aðila þeirra, sem í 2. og 3. gr. getur.“

Þ.e.a.s.: launakjör opinberra starfsmanna skulu ákveðin með kjarasamningum ríkisvaldsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Opinberir starfsmenn mega m.ö.o. semja um kjör sín við vinnuveitendur. Þeir mega semja um þau fram og aftur, og ef ekki tekst samkomulag, þá má vísa málinu til sáttasemjara. Hafa verkfræðingar, sem vinna hjá öðrum en ríkinu, þennan rétt samkv. frv.? Nei, alls ekki. Þeir hafa alls engan rétt til að semja um sín kjör. Að þessu leyti eru þeir langtum verr settir en opinberir starfsmenn. Það er fyrst, ef samningar takast ekki milli ríkisvaldsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að deilumálinu skal vísað til kjaradóms. Og hvað tekur þá við? Þá tekur við kjaradómur, sem er skipaður ákveðinni tölu dómenda, og af þeim skal hæstiréttur skipa þrjá, fjmrh. einn og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja skipar einn dómanda. M.ö.o.: opinberir starfsmenn hafa sinn fulltrúa inni í kjaradómnum. Hafa verkfræðingar í þjónustu annarra en ríkisins þennan rétt samkv. lógunum? Nei, ekki aldeilis. Gerðardómurinn, sem á að gera út um þeirra mál, er að öllu leyti skipaður af hæstarétti. Þar hafa verkfræðingarnir engan fulltrúa.

Af þessum tvennu, sem ég nú hef bent á, er það augljóst, að verkfræðingar, sem vinna í þjónustu annarra en ríkisins, eru langtum verr settir með þessum þvingunarl. heldur en opinberir starfsmenn, sem þó eru ekki taldir of vei settir og sízt af öllu telja sig nú of vel setta með sinn rétt. Eftir síðasta úrskurð kjaradóms er mikil áánægja ríkjandi hjá opinberum starfsmönnum, og nú koma þeir til með að heimta fullan rétt til að semja um sín kjör og þar með verkfallsréttinn.

Allt ber þetta vitni um fádæma hroðvirkni í vinnubrögðum. Þess er ekki gætt, að neitt samræmi sé í hlutunum. Það er rokið í að gefa út þvingunarlög, sem snerta eina fámenna stétt, og einskis samræmis gætt um samanburð við aðrar stéttir. Þannig hefur hæstv. ríkisstj. farið á ýmsan hátt algerlega í gegnum sjálfa sig í þessu máli. Og hugsunarruglingurinn er nærri takmarkalaus. Þegar opinberir starfsmenn fengu sín kjör bætt með gerðardómi, þreyttist hæstv. ríkisstj. aldrei á að klifa á því, að þessar kjarabætur ættu ekki að vera fordæmi að kjarabótum annarra stétta, hér væri verið að leiðrétta gamalt misrétti og það ætti engan veginn að skapa fordæmi öðrum stéttum til kröfugerðar. En þegar hæstv. ríkisstj. þarf á því að halda, eins og í þessum l., þá snýr hún þessu alveg við. Þá á úrskurður kjaradóms að vera fordæmi, eins og greinilega kemur fram í frv. Í 2. gr. stendur: „Gerðardómurinn skal við ákvörðun mánaðarlauna, vinnutíma og launa fyrir yfirvinnu hafa hliðsjón af því, hver séu kjör verkfræðinga og annarra sambærilegra starfsmanna hjá ríkinu samkv. launakerfi því, er gildir frá 1. júlí 1963,“ — samkvæmt kjaradómi með öðrum orðum. Samt áttu þær kjarabætur alls ekki að verða öðrum stéttum fordæmi. Þannig virðist mér allt á eina bókina lært. Í raun og veru er ekki heil brú í þessu frv. Þar er engin skynsemi, ekkert hóf, ekkert samræmi, aðeins glórulaust ofstæki. Þetta er það, sem unnt er að lesa út úr frv.

Hvað kom nú hæstv, ríkisstj. til þess að hafast þetta að? Eitthvað stórkostlegt hlýtur að hafa verið á ferli, úr því að hún greip til þessara ráðstafana, greip til þess að gefa út þessi brbl. í ágúst 1963. Ef við leitum að svari við þessu, þá er það helzt að finna í forsendunum fyrir útgáfu brbl. Þar segir, að með atferli verkfræðinganna þá undanfarið sé öllu samræmi launakerfis ríkisins stefnt í hættu og þannig unnið gegn efnahagskerfi landsins. Já, var það furða, þótt hæstv. ríkisstj. tæki kipp? Það var ekki lítið í húfi. Öllu efnahagskerfi landsins stefnt í hættu! Já; ef þetta er rétt, þá má segja, að útgáfa þessara brbl. sé ekki í neinu ósamræmi við stjórnarskrána. En hvert var svo þetta atferli verkfræðinganna um þessar mundir? Þetta er fámenn stétt, mjög fámenn. Hún hafði heimtað betri laun og betri starfskjör, og um síðir hafði hún lögum samkvæmt gert verkfall. Þetta var allur voðinn, sem var á ferðinni, og eftir forsendum brbl. skyldi maður ætla, að hér væri um alveg einstætt atvik að ræða, að ein stétt skuli leyfa sér að heimta launahækkun og fara í verkfall, ef hún fær ekki launahækkun. Með þessu atferli á þessi fámenna stétt að hafa stefnt öllu samræmi launakerfis ríkisins í hættu og þannig orðið til þess að vinna gegn efnahagskerfi landsins.

Nei, kaupkröfur og verkföll eru ekki óalgeng á síðustu árum, og má hæstv. ríkisstj. sér þar að miklu leyti um kenna. Það var engin ástæða til að gefa út þessi fádæma þvingunarlög af þeirri ástæðu. Það er eitthvað annað, sem hér liggur að baki, og skal ég ekki leiða neinum getum að því. En einhvern veginn virðist hæstv. ríkisstj. hafa fengið þessa stétt manna á heilann, hvað sem því veldur. Það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. hafi tekið verkfræðingastéttina út úr, sett á hana nauðungarlög og gert þetta einungis vegna þess, að hún liti á verkfræðinga — íslenzka verkfræðinga, sem skaðræðismenn.

Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hafa nokkurn tíma í sinn hóp eða við aðra kallað íslenzka verkfræðinga skaðræðismenn í þjóðfélaginu, en það mætti vel segja mér slíkt, ef dæma á eftir framkomu hæstv. ríkisstj. í garð verkfræðinganna. Það skal viðurkennt, að verkfræðingar kröfðust kjarabóta og þeir gerðu verkfall. En hverjar voru svo þessar kjarabætur, sem þeir fóru fram á og ekki mátti veita þeim? Voru þær óheyrilegar, þannig að þjóðhættulegt væri að ganga að þeim? Ég held ekki. Og ég held ekki, að verkfræðingar hafi farið fram á hærri laun en ýmsar aðrar stéttir manna hafa farið fram á og fengið orðalaust og átölulaust af hæstv. ríkisstj. Verkfræðingar fóru fram á það m.a., að verkfræðingur fengi 21800 kr. í mánaðarlaun eftir 13 ára þjónustu eða lengri, — 21800 kr. Fannst hæstv. ríkisstj. þetta óheyrileg krafa? Ég get ekki sagt, að mér finnist það. Ég las í Morgunblaðinu fyrir nokkru auglýsingu. Þar var auglýst eftir flugþernum, og í auglýsingunni var tekið fram, að þær skyldu fá í kaup fyrstu 6 mánuðina 13 þús. kr. á mánuði og síðan 26 þús. kr. á mánuði. Verkfræðingarnir fóru fram á 21800 kr. eftir 13 ára þjónustu, en flugþernunum voru boðnar 26 þús. kr. eftir 6 mánaða þjónustu. Þetta er aðeins lítið og þó talandi dæmi um það, hvernig hæstv. ríkisstj. virðist stundum loka augum og eyrum fyrir ýmsu, sem hún þó ekki þolir öllum. Gerðardómurinn ákvað hámark launa verkfræðinga á mánuði 16030 kr., og það skyldu þeir fá eftir 10 ár.

Ég las það líka í Morgunblaðinu fyrir skömmu, að sagt var frá því, að vikukaup kvenna f frystihúsum hefði komizt upp f 4000 kr. á viku, eða sem svarar 18 þús. kr. á mánuði. Verkfræðingarnir eiga að fá 16 þús. kr. á mánuði eftir 10 ára þjónustu, á meðan stúlkur í frystihúsum geta komizt upp f það að fá 18 þús. kr. á mánuði. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. hefur fengið kipp, þegar hún las þessa frétt í blaðinu sínu, en ég hef ekki heyrt um neinn slíkan kipp í hæstv. ríkisstj. Nei, sannleikurinn er sá, að kröfur verkfræðinganna voru ekki ófyrirleitnar á neinn hátt, og það er ástæða til að taka það fram, að gerðardómurinn ákvað byrjunarlaun verkfræðinga nokkru hærri en þeir höfðu gert kröfu um. Það sýnir vel, að ekki fóru þeir mjög geyst í sakirnar.

Það hefur allmikið verið rætt um gjaldskrá verkfræðinga við þessa umr. Það hefur verið á það bent, að ýmis önnur stéttasamtök hafi sína gjaldskrá til að fara eftir. En verkfræðingarnir eru sér sem í öðru teknir úr. Þeim er af gerðardómi sett hámarksgjaldskrá, á meðan öll önnur stéttasamtök setja sér lágmarksgjaldskrá sjálf.

Það var minnzt á það hér fyrr í dag, að lögfræðingar hefðu sína gjaldskrá að vinna eftir. Lögmannafélag Íslands setur meðlimum sínum gjaldskrá. Síðast var þeirri gjaldskrá breytt og hún samþykkt á aðalfundi Lögmannafélagsins 11. okt. 1963, og ég hygg, að hún hafi þegar verið samþykkt af hæstv. dómsmrh. skv. ákvæðum laga. Ekkert virðist hæstv. ríkisstj. hafa haft við gjaldskrá lögfræðinganna að athuga. Í hverju liggur það? Er það af því, að sú gjaldskrá sé lægri en gjaldskráin, sem verkfræðingarnir höfðu sett sér? Nei, það er ekki. Það hefur verið reiknað út, að gjaldskrá Lögmannafélagsins er í öllum atriðum ofan við gjaldskrá verkfræðinga frá 1962, — í öllum atriðum fyrir ofan og sums staðar mikið fyrir ofan gjaldskrá verkfræðinganna. Hvers vegna hefur ekki hæstv. ríkisstj, tekið þetta fyrir og gert ráðstafanir til, að Lögmannafélaginu yrði sett gjaldskrá? Ég held, að svarið við því sé suðfundið, og það var á það minnzt í ræðu fyrr í dag. Hæstv. ríkisstj. þorir betur til við verkfræðingana en lögfræðingana. Ætli það sé ekki sú sanna skýring á því, að hin háa lágmarksgjaldskrá Lögmannafélagsins er látin í friði, en lægri gjaldskrá verkfræðinganna bönnuð með brbl.

Það mætti ýmislegt fleira segja um þetta óvenjulega mál hæstv. ríkisstj., en ég skal nú a.m.k. að sinni láta staðar numið.

Ég vil þó aðeins minna á það, sem oft hefur verið minnt á, að þetta frumhlaup hæstv. ríkisstj., þessi árás hæstv. ríkisstj. á verkfræðinga landsins, er þjóðhættulegt framferði. Það er hættulegt að þröngva kjörum mikilsverðra stétta. Það er alveg sama, hvort það eru verkfræðingar, læknar eða hverjir aðrir. Ef við viljum, að þessar stéttir beri merkið hátt, þá verðum við að gera vel til þeirra, annars drabbast þær niður.

Það hefur ýmislegt verið frá því sagt, að íslenzkir verkfræðingar flýi land í leit að betri kjörum annars staðar. Um tölu þeirra skal ég ekki fullyrða að þessu sinni, en víst er það, að á milli 70 og 80 verkfræðingar dveljast nú erlendis, þ.e.a.s. eru búsettir erlendis. Þetta er þó kannske ekki það alvarlegasta. Hitt er enn alvarlegra, að með þessari árás og öðrum slíkum á stéttina er unnið að því ósleitilega að fæla unga og efnilega námsmenn frá því að nema þetta fag. Það er hættulegast framtíðarinnar vegna.

Í vetur hefur á ýmsum stöðum farið fram starfsfræðsla, þar sem fjöldi ungra manna hefur leitað sér fræðslu um hin ýmsu störf í þjóðfélaginu. Og það mun ekki hafa ýtt undir unga námsmenn að fara í verkfræðideild að sinni, þegar þeir heyrðu, hver starfskjörin eru. En allir, sem til starfsfræðslunnar leita, eða nálega allir, leggja mikið upp úr því, hver kjörin séu ,í þessu eða hinu starfinu.

Mig tekur það að vissu leyti sárt, að það skuli vera þessi hæstv. ráðherra, sem ber hitann og þungann af erfiðinu í sambandi við þetta frv. Ég hefði getað unnt honum betra hlutskiptis en að þurfa að beita sér í máli, sem jafnmikil rangsleitni er fólgin í og þessu máli. Það lái ég honum ekki, þótt hann eigi fá rök fram að bera málinu til stuðnings, því að þau eru ekki mörg til að mínum dómi. En mér þykir þó sérstaklega leiðinlegt að verða þess var, að hæstv. ráðherra virðist vilja afgreiða þetta mál með því að yppta öxlum og gera sem minnst úr því, láta sem minnst um það tala. Í þessu felst að mínu áliti nokkur lítilsvirðing á verkfræðingastéttinni, og það kann að koma til af því, að verkfræðingastéttin er fámenn. Ef meta á stétt eftir fjölmenni, þá er ekki von til þess, að hæstv. ríkisstj. meti verkfræðingastéttina mikils.

Ég hef séð blað, sem heitir Suðurland, frá laugardeginum 28. sept. 1963. Þar er mikil grein eftir hæstv. ráðh. Ingólf Jónsson. Greinin heitir: „Tryggja ber þann árangur, sem náðst hefur.“ Greinin fjallar í höfuðdráttum um þörfina á því að halda niðri kjörum hins starfandi manns, halda kaupinu niðri. Hann talar af mikilli vinsemd og virðingu um ýmsar fjölmennar stéttir og þ. á m. bændur, en hann talar ekki með sérlega mikilli virðingu um verkfræðingastéttina. Hann afgreiðir það mál ósköp stuttaralega og ég fæ ekki betur séð en með nokkurri lítilsvirðingu. Orðin eru þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkfræðingar gerðu miklar kröfur, sem kunnugt er. En þeir voru afgreiddir með brbl. og munu fá gert út um sín kjör skv. gerðardómi.“

Hér þurfti ekki að hafa nein faguryrði. Það var hægt að segja það stutt og laggott um verkfræðingana, að þeir eru afgreiddir með brbl. Þeir eru úr sögunni. En þetta er því miður afstaða, sem mér finnst ég hafa orðið var við hjá hæstv. ráðherra og þar með hæstv. ríkisstj. gagnvart verkfræðingunum. Það er lítilsvirðing og að vissu leyti óvildarhugur blandaður lítilsvirðingu, — Líkt og þegar sparkað er í hund. En það er kannske ekki að furða, þótt svona sé ef hæstv. ríkisstj. hefur fengið það einhvern veginn í sig, að íslenzkir verkfræðingar séu skaðræðismenn í íslenzku þjóðfélagi.