11.10.1963
Sameinað þing: 0. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 1. kjördeildar (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég skal verða við óskum forseta að hefja ekki umr. um þetta mál. En vegna þeirrar ræðu, sem hér var flutt, tel ég, að mér beri fyrir hönd kjördeildar, sem ég hafði framsögu fyrir, skylda til að kynna þinginu, hvað lá fyrir kjördeildinni frá yfirkjörstjórn Norðurl. v., og þarf ekki að vera langt mál. Í endurriti úr gerðabók yfirkjörstjórnar Norðurl. v. segir svo:

„Yfirkjörstjórn var afhent bréf, er talið var innihalda 10 utankjörstaðaatkv., er framvísað var á Siglufirði, eftir að kjörfundarstofu hafði verið lokað kl. 23. Var dyravörður fenginn til að opna aftur, eftir að hann hafði vísað frá a.m.k. einum kjósanda. Þá átti kjörstjórn eftir að ganga frá utankjörstaðaatkv. og kjósa sjálf. Meiri hl. kjörstjórnar, 2 af 3, úrskurðaði, að atkv. skyldi ekki veitt móttaka, og umboðsmenn þriggja flokka af fjórum studdu þann úrskurð.

Ganga verður út frá, meðan ekki annað sannast, að kjörstjórn hafi ekki látið loka og vísa frá kjósendum, nema hún teldi öruggt, að klukkan væri raunverulega orðin 23, enda virðist það samkv. bókum kjörstjórnar hafa verið gert með samþykki allra kjörstjórnarmanna og umboðsmanna listanna.

Yfirkjörstjórn tók málið til úrskurðar samkv. kröfu umboðsmanna eins listans og kvað upp svofelldan úrskurð.

Hin umdeildu utankjörstaðaatkv., er undirkjörstjórn vísaði frá sér, skulu ekki tekin gild nú, en vísast til úrskurðar Alþingis. Yfirkjörstjórnarmaðurinn Indriði Guðmundsson óskar þó að taka það fram, að hann teldi, að kjörstjórn hefði verið skylt að taka atkv. til greina, þar sem hún átti sjálf eftir að greiða atkv., er kjörbréfið með utankjörstaðaatkv. barst.“

Síðan er bókað hér eftir umboðsmönnum B-listans: „Við undirritaðir umboðsmenn B-listans mótmælum framanrituðum úrskurði yfirkjörstjórnar, þar sem upplýst er og viðurkennt, að kjörstjórnarmenn höfðu ekki greitt atkv., er hér um ræddum utankjörstaðaatkv. var skilað, og atkvgr. þar af leiðandi ekki lokið, sbr. 4. mgr. 71, gr. kosningalaga. Auk þess er ekki örugglega sannað, að klukkan hafi verið orðin 23, er kjörstjórn gaf fyrirmæli um lokun, og á sá vafi auðvitað að koma kjósendum til góðs í samræmi við allan anda kosningalaga. Þá er og upplýst, að dyravörður hleypti þeim manni inn, sem atkvæðasendingunni skilaði. Loks mótmælum við því harðlega, að svo stór hópur kjósenda sé með þessum hætti útilokaður frá kosningaþátttöku, enda getur slíkt hæglega raskað kosningaúrslitum. Af framangreindum ástæðum krefjumst við þess, að umrædd atkv. verði tekin gild.

Umboðsmaður D-listans óskar bókað, að hann gerir ákveðna kröfu til þess, að rannsakað verði, með hvaða hætti sá maður, sem hin umdeildu atkv. flutti á kjörstað, hafi komizt inn til kjörstjórnar, eftir að hún hafði lokað að sér til undirbúnings kjörfundarslitum.“

Þetta eru þau gögn, sem lágu fyrir kjördeildinni, og taldi ég rétt, úr því að umr. eru hafnar, að þau kæmu hér fram.