13.12.1963
Efri deild: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

97. mál, ríkisreikningurinn 1962

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað frv. um staðfestingu á ríkisreikningnum fyrir árið 1962, og svo sem nál. n. á þskj. 129 ber með sér, mælir n. með því, að reikningurinn verði samþykktur. Hins vegar hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til að gera aths. við umr. málsins.

Svo sem að líkum lætur og venjulega gera ríkisendurskoðendur ýmsar aths. við reikninginn, og hefur n. athugað þær aths. Þessar aths. eru yfirleitt ekki veigamiklar, og samkv. niðurstöðu endurskoðenda telja þeir yfirleitt, að svör ráðh. við aths. séu að því leyti fullnægjandi, að þeir vísa engri af þessum aths. til aðgerða Alþingis, eins og stundum hefur átt sér stað áður, en í ýmsum tilfellum leggja þeir áherzlu á, að það sé til athugunar framvegis, sem þeir benda á. Engar þessar aths. yfirskoðunarmanna gefa tilefni til að ræða þær sérstaklega. Það er engin sérstök þeirra, sem sker sig úr að því leyti, heldur er um aths. að ræða, sem eðlilegt sýnist vera að hafi fram komið, og skal því ekki sérstaklega um þær frekar rætt með hliðsjón af því, sem ég áðan sagði, að endurskoðendur taka fram, að að svo miklu leyti sem þörf verði, muni þeir áfram fylgjast með þeim málum, sem þar er minnzt á. Þeir taka jafnframt fram, sem ástæða er til að lýsa ánægju yfir, að nú séu mun stærri reikningar óendurskoðaðir hjá hinni umboðslegu endurskoðun heldur en áður hafi verið. Það liggur í augum uppi og hefur áður verið á það bent í sambandi við ríkisreikninginn, eftir að farið var að hraða afgreiðslu hans, að það veltur á miklu, að aukinn hraði yrði á hinni umboðslegu endurskoðun, því að það hefur viljað verða svo, að hún væri alllöngu og jafnvel nokkrum árum á eftir með suma reikninga, og það væri ekki nema eðlilegt, að það kæmu fram aths. um það, eftir að farið er að hraða afgreiðslu ríkisreiknings, að það væri lítt viðunandi, að ekki yrði þá reynt að ljúka hinni umboðslegu endurskoðun nokkurn veginn samtímis því, sem endanlegar aths. ríkisendurskoðunarmanna lægju fyrir. Það er því ástæða til þess að láta í ljós ánægju yfir því, að ríkisendurskoðunarmenn staðfesta, að þessu hafi mjög þokað í þá átt, að nú sé um mun færri reikninga óendurskoðaða að ræða en áður, þó að enn þá skorti að vísu á, að allir reikningar hafi verið endurskoðaðir til ársloka 1962. Hins vegar lýsa ríkisendurskoðunarmenn því yfir, að þeir muni þá koma síðar að aths., ef tilefni gefst til, þegar þeir reikningar liggja endanlega endurskoðaðir fyrir, sem ekki hefur þegar verið lokið.

Það sýnist því engin sérstök ástæða til þess að fallast ekki á að staðfesta ríkisreikninginn með hliðsjón af þessum atriðum, sem ég hef á bent, og það er einnig ástæða til þess að láta í ljós ánægju yfir því, að reynt er að koma á þeirri skipan mála, að ríkisreikningur fyrir hvert ár sé afgreiddur innan loka næsta árs á eftir. Það hefur einmitt oft verið um það rætt í sambandi við ríkisreikning, að það væri næsta fánýtt að vera að ræða um reikning mörgum árum eftir að reikningsári lýkur, þannig að það er að sjálfsögðu svo með þann hátt, sem nú er á hafður, að það eru meiri líkur til, að þetta sé lifandi í huga manna, þar sem þeir á annað borð kynnu að vilja gera aths. við, miðað við þá afgreiðslu, sem ú sínum tíma var á fjárlögum fyrir viðkomandi ár.

Ég tel ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um málið, en n. leggur til, eins og ég áðan sagði, að ríkisreikningurinn verði samþykktur.