12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér til 1. umr. í Nd., urðu um það talsvert miklar umr., og af eðlilegum ástæðum drógust nokkuð inn í þær umr. aðgerðir hæstv. ríkisstj. í kaup- og kjaramálum stéttarfélaga, en það frv., sem hér liggur fyrir, er einmitt til staðfestingar á brbl., sem hæstv. ríkisstj. hafði sett varðandi launakjör ákveðins stéttarfélags, Stéttarfélags verkfræðinga. Þá var á það minnt, að það virtist standa alveg sérstaklega á hjá hæstv. ríkisstj, með þetta stéttarfélag, því að þetta væri í annað skiptið á stuttum tíma, sem ríkisstj. sæi sig tilneydda til þess að grípa inn í mál þessa stéttarfélags með löggjafarafskiptum.

Nú hefur að vísu hæstv. ríkisstj. verið að lýsa því yfir alltaf annað slagið, að það beri að forðast slík afskipti af launamálum almennt, nema þá í slíkum tilfellum, þar sem er um alger neyðartilfelli að ræða. En á því getur enginn vafi leikið, að það rak engin neyð ríkisstj. til þess að skipta sér af þessum málum á þann hátt, sem hún gerði, hvorki í fyrra tilfellinu né hinu síðara. Þvert á móti liggur það fyrir, eins og var einnig bent hér á við fyrri umr. þessa máls, að það mátti telja nokkurn veginn víst, að eðlilegir samningar hefðu tekizt á milli Stéttarfélags verkfræðinga og verkfræðivinnustofa hér í Reykjavík um launasamning, hefði ríkisstj. ekki blandað sér í málið og sett brbl. þau, sem hér er lagt til að staðfest verði.

Það liggur nú fyrir á alveg óvefengjanlegan hátt í yfirlýsingu frá fulltrúum verkfræðistofa, að þeir höfðu þegar í viðræðunum komizt það langt, að allt benti til þess, að daginn eftir mundu samningar takast. En þá hafði hins vegar hæstv. ráðherra hlaupið til og sétt sín brbl. og spillt öllum möguleikum til samninga, þannig að það var ekki hægt að leysa þessa deilu með eðlilegum hætti.

Svona vinnubrögð ber vitanlega að vita. Og þau geta ekki leitt neitt gott af sér, enda hefur líka reynslan orðið sú í þessu tilfelli.

Við vitum, að það eru gildandi í okkar landi lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Innan ramma þeirra laga verða öll stéttarfélög að starfa. Það er að vísu rétt, að ef samningar geta ekki tekizt um launakjör stéttarfélaganna við vinnuveitendur, þá getur komið til verkfalla. En það er mikill misskilningur, ef hæstv. ríkisstj. heldur, að nokkurt stéttarfélag fari út í verkfall að ástæðulausu. Verkfall kostar vitanlega viðkomandi aðila miklar fórnir á ýmsa lund. Því er það líka svo, að í hvert skipti, sem gengið er á eðlilegan hátt til samninga um launamál, þá finnast auðvitað leiðir til samninga. Stundum getur það tekið nokkurn tíma og nokkrar þrautir, en leiðirnar finnast ævinlega, og ég segi það sama, sem ég sagði hér við 1. umr. þessa máls, að mér dettur ekki í hug að leggja trúnað á það, að verkfræðingar landsins séu svo einstakir meðal starfsstétta í landinu, að það sé ekki hægt að koma tauti við þá, það sé ekki hægt að semja við þá eins og aðra menn.

Engin önnur atvinnustétt í landinu hefur verið leikin á þann hátt sem verkfræðingar hafa verið leiknir af hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Nú er það líka svo, að auðvitað eru hér í okkar landi margar aðrar starfsgreinar, sem þurfa að gera sína samninga við vinnuveitendur eða þá setja gjaldskrár um sín störf. Og mér er nær að halda, að m.a. ætti hæstv. ríkisstj. að þekkja t.d. til einnar stéttarinnar talsvert í þessum efnum, sem er stétt lögmanna. Ég hygg, að það séu ekki minna en 4 af hæstv. ráðh., sem eru lögfræðingar. Lögfræðingar hafa sína gjaldskrá, og ýmsum hefur þótt, að þeir verðlegðu sína vinnu í einstökum tilfellum ekki mjög lágt. Ég hygg meira að segja, að sú skipan sé á, að dómsmrh. landsins verði að staðfesta þeirra reglugerð um gjaldskrá. Mér er sagt af kunnugum mönnum, sem hafa gert samanburð á gjaldskrá þeirri, sem Stéttarfélag verkfræðinga hafði sett, og gjaldskrá lögfræðinga, að þá liggi gjaldskrá lögfræðinga allmiklu hærra en gjaldskrá verkfræðinga í öllum tilfellum.

Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. greip ekki inn í í sambandi við setningu gjaldskrár hjá lögmönnum? Hvernig stendur á því, að hún hefur ekki gripið inn í í sambandi við setningu á gjaldskrám hjá fjöldamörgum öðrum starfsfélögum í landinu? Hvernig stendur á því, að verkfræðingar eru einir teknir út úr á þennan hátt og þeim meinað beinlínis að gera samninga við sína vinnuveitendur, sem hafa lýst því yfir, að þeir vildu gjarnan gera samninga við þá. Og hvað gott hefur svo leitt af þessu hjá hæstv. ríkisstj.? Þeir, sem hafa einhver skipti við vitamálaskrifstofu landsins, þekkja nokkur dæmi um það. Hefur ekki svo að segja öllum verkfræðingum verið sópað af þeirri skrifstofu, þannig að ekki er hægt að fá afgreiðslu á þeim málum, sem þar hafa hingað til verið afgreidd fyrir fjöldamarga menn í landinu? Með þessum aðförum er vitanlega hægt að trufla stórkostlega ýmis störf á vegum opinberra aðila og koma þessum málum öllum inn á það svið, sem er vægast sagt mjög ógeðugt fyrir opinbera aðila að þurfa að taka þátt í.

En að sjálfsögðu leggjast störfin ekki niður. Við getum ekki rekið okkar uppbyggingarstarfsemi í landinu án verkfræðinga. Það verður til þeirra leitað, og það hefur verið til þeirra leitað. Og þá er vitanlega farin sú leið í fjöldamörgum tilfellum, að það er gengið fram hjá slíkum lagasetningum sem þessum, sem hæstv. ráðherra stendur fyrir.

Nei, hér er um mjög varhugaverða leið að ræða, þegar ríkisstj. vill ekki viðurkenna samningafrelsi stéttarfélaga í landinu. Og það mál kemur ekki aðeins við verláræðinga í landinu, það kemur líka við öll önnur stéttarfélög landsins, því að það er vitanlega alveg auðskilið mál, að komist ríkisstj. upp með það að blanda sér á þann hátt í samninga stéttarfélaga, sem gert er með þessum lögum, þá efast enginn um það, sem þekkir til hennar vinnubragða, að hún muni halda áfram, að hún muni gjarnan hugsa til þess að grípa inn í í fleiri tilfellum. Og við sáum nokkurn forsmekk af því hér um síðustu áfamót, þegar ríkisstj. ætlaði sér að fara þá leið að banna með lögum öll verkföll, að svipta verkalýðsfélögin í landinu raunverulega samningsrétti, og mér er nær að halda, því miður, að m.a. vegna þess, hvað ríkisstj. hefur komizt upp með í þessu tilfelli varðandi verkfræðinga, þá sé hún ekki enn þá búin að reka úr huga sér þessa hættulegu vitleysu, að ætla að leysa kaupgjaldsmálin í landinu á þennan hátt, — að ríkisstj. sé ekki alveg laus við þetta mál enn þá, þó að hún sitji nú við samningaborðið með fulltrúum verkalýðssamtakanna í landinu, þá sé hún e.t.v. með eitthvað í erminni og það megi jafnvel búast við einhverju ljótu, áður en langir tímar líða.

Á því er enginn efi, að hæstv. ríkisstj. þarf að gera sér fulla grein fyrir því, að það þarf að viðurkenna samningsrétt stéttarfélaganna í landinu og það á að leyfa vinnuveitendum í hverju tilfelli og fulltrúum stéttarfélaganna að semja um sín milli sín á milli með eðlilegum hætti. Inngrip af hálfu ríkisvaldsins í slíkum tilfellum er stórhættulegt.

“Mál verkfræðinga út af fyrir sig er svo býsna lærdómsríkt að öðru leyti. Hér á Alþingi við viss hátíðleg tækifæri ræðir hæstv. ríkisstj. mjög hátíðlega um þá miklu nauðsyn, sem sé í okkar þjóðfélagi á því, að við eignumst fleiri og fleiri tæknimenntaða menn. Vissir ráðh. eyða jafnvel heilu útvarpskvöldi í það að tala um framleiðsluaukningu í atvinnuvegum þjóðarinnar og tíma framtíðarinnar sem tíma verkfræði og verkmenningar. En þeir sömu aðilar, sem tala á þennan veg, hafa svo fundið sérstaka ástæðu hjá sér til þess að beita samtök verkfræðinga í landinu harðari og óbilgjarnari kjörum en samtök annarra starfsstétta. Geta menn nú búizt við því, að okkur gangi vel á þeirri braut á næstu árum að halda verkfræðingum við nauðsynleg störf í okkar landi, ef þannig er á málunum haldið, eins og gert hefur verið í þessum tilfellum af hæstv. ríkisstj.? Mér er sagt, að nú séu starfandi erlendis yfir 70 íslenzkir verkfræðingar, — og vegna hvers? Það er vegna þess eflaust, að það fer fram hart og mikið kapphlaup milli flestra landa í heiminum um það að fá verkfræðimenntaða menn í sína þjónustu. En íslenzka ríkisstj. tekur þannig þátt í þessu kapphlaupi milli þjóðanna, að hún ætlar að beita íslenzka verkfræðinga eða samtök þeirra sérstökum ofbeldisaðgerðum. Það er óviturlegt í mesta máta. Ég held, að hæstv. ríkisstj. hefði átt að læra nokkuð af reynslunni í þessu máli. Mig minnir, að hæstv. forsrh. hafi komizt einhvern veginn þannig að orði í útvarpsumr. í gærkvöld, að við þyrftum allír að læra, við þyrftum að læra af mistökunum og þetta væri allt saman þýðingarlaust, þetta strögl okkar, ef við sætum alltaf í sama farinu og kynnum ekki að draga réttar ályktanir af því, sem reynslan hefði kennt okkur. Hvernig væri nú fyrir hæstv. ríkisstj, að læra nokkuð af reynslunni einmitt í þessu máli? Sannleikurinn er sá, að það kostar hæstv. ríkisstj. tiltölulega lítið að falla gersamlega frá því að láta staðfesta þessi lög, að láta þau nú bara niður falla. Hvað mundi svo sem gerast? Gerðardómurinn hefur starfað. Hann hefur lesið upp sinn dóm. En skyldi það vera eitthvað hættulegt, þó að verkfræðingar fengju aðstöðu til þess að taka nú upp á nýjan leik samninga samkv. l. um stéttarfélög og vinnudeilur við sína samningsaðila um sín málefni? Væri nú ekki reynandi fyrir hæstv. ríkisstj. að prófa þessa leið og reyna frið við verkfræðinga landsins í staðinn fyrir þann ófrið, sem hún virðist vilja halda áfram? Því er vitanlega ekki hægt að neita, að hér er farið allt öðruvísi með verkfræðinga en alla aðra menn í landinu.

Nú er það svo, að hæstv. ríkisstj. hefur alltaf annað slagið a.m.k. verið að boða það, að hún vildi auka frelsi í sem flestum greinum. Henni hefur t.d. ekki þótt það neitt athugavert, þó að kaupmenn í landinu og ýmsir aðrir, sem mjög ráða verðlaginu, fengju frjálsar hendur um að ákveða sitt kaup, — ekki það, að þeir fengju samningsrétt við neinn, nei, aðeins að þeir hefðu verzlunarfrelsi, eins og það hefur verið kallað, að þeir mættu ákveða sin launakjör sjálfir, jafnvel það að það verkaði þannig á hin viðkvæmu dýrtíðar- og verðlagsmál eins og allir vita, að það gerir, og ríkisstj. hefur reynt að fikra sig áfram eftir þessari stefnu. Hún hefur gefið kaupmönnum og ýmsum öðrum frelsi til þess að ákveða upp á eindæmi sín launakjör. En á sama tíma og þetta gerist segir ríkisstj.: Það er alveg útilokað að leyfa verkfræðingum að fara eftir settum lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og leyfa þeim að semja um málin. Það verður að taka af þeim samningsréttinn. Það verður að skikka á þá eina allra sérstaka gjaldskrá, þó að fjöldamargar aðrar starfsstéttir setji alveg óhindrað og samningslaust einnig sínar gjaldskrár.

Nei, vinnubrögð eins og þessi ná vitanlega engri átt. Þau egna til úlfúðar og geta vitanlega leitt mikið illt af sér, því að það má ríkisstj. vita, að samtök launþega í landinu, jafnvel þó að þau séu lauslega hnýtt í ýmsum tilfellum og standi ekki öll saman í einu sambandi, þá finna þau til hvert með öðru. Þau gera sér fyllilega grein fyrir því, stéttarfélögin, að sá réttur, sem af einu þeirra er tekinn, getur líka verið tekinn af öðru. Og ríkisstj. hefur einmitt verið að finna það að undanförnu, að hún hefur í rauninni ekkert vald í þjóðfélaginu til þess að bjóða öllum launþegasamtökum í landinu byrginn. Hún hefur engan mátt til þess. Hún verður að láta af slíkri pólitík. Og það er auðvitað vegna þess, að hún hefur séð það, sem hún hefur núna setzt að samningaborðinu til þess að reyna að ræða um þessi mál við launþegasamtökin, og það er einmitt það, sem hún á að gera nú líka í þessu tilfelli. Hún á að hætta við að staðfesta þessi brbl., sem voru sett á óeðlilegan hátt og til þess að koma í veg fyrir samninga, sem voru að takast. Ríkisstj. á einmitt að sýna það, sem hæstv. forsrh. talaði um í síðustu útvarpsumr., að hún hefur lært, hún vill læra af reynslunni, hún vill taka upp önnur vinnubrögð. Hættan er engin. Samkvæmt þessu frv., eins og það er orðið nú eftir breytinguna í Ed., er gert ráð fyrir því, að lög þessi skuli gilda til ársloka 1965. Það má segja, að með þessari breytingu hafi ríkisstj. hnikað nokkuð til, því að upphaflega var sýnilegt, að þessum lagaákvæðum var ætlað að standa um alla framtíð. Ekki var annað sjáanlegt en samtök verkfræðinga skyldu vera í þessu bandi um áákveðinn tíma. Það virðist sem sagt vera, að hæstv. ríkisstj. hafi við nánari athugun á málinu séð, að þetta var óeðlilegt, og það rak vitanlega engin nauður til að binda þessi samtök á þennan hátt. En vill nú ekki hæstv. ríkisstj. endurskoða þetta á nýjan leik? Vill hún nú ekki líka falla frá þessu og ákveða, að þessi lög skuli vera hér með búin. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. þykir það nokkuð súrt í broti vegna þess, sem á undan er gengið. Hún á svolítið erfitt með að viðurkenna staðreyndir í þessum efnum, jafnvel þó að hún finni á sér, að það væri hollast og bezt.

Ég hef ekki heyrt þ~að frá hæstv. samgmrh., sem sett hefur þessi brbl., að nein þau rök séu á takteinum, sem réttlæti það að binda samtök verkfræðinga á þann hátt, sem gert er með þessu frv., ekki einu sinni í heilt ár enn eða hálft annað ár enn. Ég hef ekki heyrt nein rök, sem styrkja það, að þetta sé nauðsynlegt. Þegar hæstv, ráðh. rauk til og setti brbl., þá a.m.k. hafði hann það að yfirvarpi, að það þyrfti endilega að setja þessi lög og ákveða um gerðardóminn, til þess að tryggt væri, að samningar yrðu ekki gerðir um laun verkfræðinga, sem raskað gætu því hlutfalli launa, sem ákveðið væri með gerðardómi um laun opinberra starfsmanna. En þessi gerðardómur samkv. brbl. er búinn að starfa. Og með því að falla frá því, að l. yrðu staðfest, fær hæstv. ráðh. a.m.k. að reyna það, hvort þessi gerðardómur hefur komið þessum málum inn á eitthvað réttara spor. Nú er það hans að reyna það.

Gerðardómurinn, sem starfaði samkv. þessum brbl., komst beinlínis að raun um það, að fyrri inngrip hæstv. ráðh. í málefni verkfræðinga hefðu verið að stórum hluta á misskilningi byggð. Sú reglugerð eða sú gjaldskrá, sem verkfræðingar höfðu sett um ýmis störf sín og nam úr gildi eldri reglugerð frá 1955 um þessi mál, sem var orðin úrelt í mörgum greinum, það var þessi reglugerð, sem hæstv. ráðh. sá sig tilneyddan til þess að nema úr gildi og lögbinda gömlu reglugerðina áfram, sem var orðin úrelt. Nú komst gerðardómurinn, sem hæstv. ráðh. stóð fyrir að skipa, að þeirri niðurstöðu, að í rauninni væri ekki hægt að byggja nema mjög takmarkað á reglugerðinni frá 1955 og það ætti raunverulega að styðjast við hina fordæmdu reglugerð. Svona vill þetta vitanlega vera, þegar ráðh. er að blanda sér í mál, sem hann þekkir tiltölulega lítið inn á og í rauninni koma hans starfi tiltölulega lítið við. Vitanlega hefði verið miklu betra í þessum tilfellum að leyfa réttum samningsaðilum að fjalla um þessi mál, en að sjálfsögðu hefði það verið gert einnig um reglugerðarákvæðin, þegar samningurinn hefði verið gerður, að því leyti til, sem þau störf hefðu þar fallið undir. Ég hef hér fyrir mér m.a. umsögn gerðardómsins um þessa reglugerð eða gjaldskrá frá 1955, sem ráðh. vildi endilega binda í lögum og leggja til grundvallar greiðslu fyrir ýmis störf verkfræðinga. Dómurinn segir m.a. orðrétt á þessa leið, og er þar með auðvitað að kveða dóm upp yfir ráðh. fyrir hans fyrri inngrip í þessi mál, — dómurinn segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Dómurinn hefur eftir föngum kynnt sér ákvæði gjaldskrárinnar frá 1955 um þóknun fyrir ákvæðisvinnu, svo og hliðstæð ákvæði í frv. að gjaldskrá VFI frá apríl 1962. Við samanburð gjaldskránna hefur komið í ljós, að gjaldskráin frá 1955 er að sumu leyti orðin óviðunandi og ónothæf sem grundvöllur að ákvörðun þóknunarinnar. í gjaldskrána vantar ákvæði um ýmsar greinar verkfræði, sem nú eru stundaðar. Auk þess eru ákvæði um skyldur verkfræðinga eigi ætíð sem fyllilegust. Af þessum ástæðum hefur dómurinn ákveðið, að frv. frá apríl 1962 skuli lagt til grundvallar við samningu nýrrar gjaldskrár.“

Þetta er nú þokkalegur dómur fyrir hæstv. ráðh., að fá þetta lesið upp yfir sér af þeim gerðardómi, sem hann hefur sjálfur sett. Áður er hann alveg á tilefnislausan hátt búinn að ógilda gjaldskrá, sem þessi samtök setja, gjaldskrá, sem átti að leysa af hólmi algerlega úrelta gjaldskrá, sem ekki passar í mörgum tilfellum og náði ekki til aðkallandi hluta. Þá hélt hæstv. ráðh. því fram, að það hafi verið brýn nauðsyn að grípa þarna inn í á þennan hátt, sem hann gerði, og lögbinda gjaldskrána frá 1955 og afnema gjaldskrána frá 1962, og auðvitað tók hæstv. ráðh. engum rökum, þegar honum var á þetta bent hér á Alþingi á sínum tíma, aðeins þessi einfalda aðferð notuð, að lemja hausnum við vegginn. En svo kemur bara gerðardómurinn og kveður upp þennan dóm yfir athöfnum hæstv. ráðh. Það er eins og ég segi, svona fer auðvitað fyrir ráðh., sem eru að blanda sér í mál, sem þeir þekkja harla lítið til og þeir ættu ekki að skipta sér af, auk þess sem það er erfitt að draga aðrar ályktanir af þessu tiltæki hæstv. ráðh. og svo síðari brbl. en þær, að honum sé eitthvað sérstaklega í nöp við verkfræðingastéttina og telji hana alveg sérstaklega hættulega, því að ég geri ekki ráð fyrir öðru en hæstv. ráðh. hafi glöggvað sig á því, hvað það er hættulegur leikur í sjálfu sér að vera að blanda sér í kaupgjaldsmál stéttarfélaga og vinnuveitenda og hvað það er óæskilegt að gera slíkt, nema nauður reki til.

Hæstv. ráðh. óskar sýnilega ekki eftir því að hafa hér ýkjamörg orð um þetta frv. Hann vill ekki ræða það á neinn hátt efnislega eða tildrög málsins eða gang málsins allan, enda höfum við tekið eftir því hér þessa síðustu daga, á meðan málið hefur legið fyrir Alþingi, að umr. um þetta mál hafa farið fram með býsna einkennilegum hætti. Málið hefur að sjálfsögðu verið á dagskrá, og allir hafa vitað, að á bak við það stóð ósk a.m.k. einhvers ráðh. um, að það þyrfti að smokra málinu í gegn og ljúka þessum skratta af. En það fór auðvitað ekki fram hjá hæstv. ríkisstj. frekar en öðrum alþm., að þeir, sem hér áttu mest hlut að máli, verkfræðingar í landinu, heimsóttu Alþingi um þessar mundir og vildu gjarnan fá að heyra, hvaða rök lægju til þess hjá þeim, sem þetta mál flyttu, að það þyrfti endilega að meðhöndla þá eina allra á þennan hátt. Og það er alveg greinilegt, að áhugi verkfræðinga var svo mikill, að þeir sátu hér ekki aðeins tímunum saman til þess að bíða eftir umr. um þetta mikilvæga mál sitt, heldur sátu þeir hér líka hálfar eða heilar næturnar. En af hverju þurftu mennirnir að sitja svona lengi? Hvernig stóð á því, að þessi fríði hópur verkfræðinga, sem hingað kom, kom hér dag eftir dag og jafnvel nótt eftir nótt? Jú, það var engu líkara en svo, að þeir, sem réðu hér meðferð mála á Alþingi, eða þar sem þetta mál var á dagskrá, að þeir hrökkluðust í sífellu undan og væru að sæta lagi með það að láta ræða þetta mál, þegar þeir, sem málið varðaði mest, væru ekki viðstaddir, og því var snúizt í kringum þetta mál á dagskránni og málin á undan að sjálfsögðu tekin, en einnig málin á eftir, og þetta fært fram og til baka á dagskránni, ef það mætti finnast eitthvert útskot að taka málið fyrir á réttum tíma, þannig að verkfræðingarnir hlýddu ekki á umr. um málið.

Þó að það kunni að vera svo fyrir þann hæstv. ráðh., sem stóð að því að setja þessi brbl., að það sé nokkur álitshnekkir fyrir hann að láta þetta mál liggja, úr því sem komið er, held ég nú samt, að það væri langbezt fyrir hann og ríkisstj. Hæstv. ráðh. kemst ekki hjá því. Það er sýnilegt. Þeir eru svo þrásæknir hingað á þingið, verkfræðingarnir, að hann kemst ekki hjá því, að málið verði rætt hér nokkuð í þeirra áheyrn, og því held ég, að bezta úrræðið fyrir hæstv. ráðh. og ríkisstj. alla væri að leggja málið réttilega til hliðar, hætta þessum fjandskaparleik við verkfræðinga og leyfa þeim eins og öðrum að eiga eðlileg viðtöl við sína viðsemjendur og hafa rétt til þess að setja reglugerð eða gjaldskrá um sín störf á svipaðan hátt og ýmsir aðrir aðilar hafa í þjóðfélaginu, sem vinna ekki óáþekk störf.

Ég vék hér aðeins að því áðan, að a.m.k. sumar ríkisstofnanir hefðu orðið nokkuð hart úti vegna alls þessa leiks ríkisstj. í málefnum verkfræðinga. Það væri nú kannske ástæða til þess að spyrja hæstv. ríkisstj. um það, hvort hún telji, að þetta skipti engu máli, hvort hún telji t.d. það viðunandi ástand, sem verið hefur á vitamálaskrifstofunni nú um alllanga hríð. Einnig væri ástæða til þess að spyrja ríkisstj. um það, hvað hún telji sig hafa sparað opinberum aðilum mikið fé með því að standa í þessu stríði við verkfræðinga. Það væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um það. Mín reynsla er sú, að það hafi orðið harla lítill sparnaður af þessu, en miklar truflanir og miklar tafir í ýmsum efnum, sem býsna erfitt getur verið að verðleggja.

Ég drap á það áðan, að það væri þegar orðinn allstór hópur íslenzkra verkfræðinga, sem starfaði erlendis. Það væri ekki heldur óeðlilegt, að ríkisstj. svaraði því, hvort hún teldi ekkert athugavert við slíka þróun, hvort hún teldi ekki nokkra ástæðu vera til þess að eiga þannig skipti við samtök verkfræðinga, að hægt væri, m.a. fyrir forgöngu samtaka verkfræðinga, að fá eitthvað af þessum verkfræðingum heim til landsins til starfa, sem bíða hér úrlausnar. Það er auðvitað enginn vafi á því, að það er rétt, sem sagt hefur verið hér í sambandi við þessi mál, að það er eitt mesta nauðsynjamál, sem nú stendur fyrir dyrum í íslenzku atvinnulífi, að koma okkar tæknimenningu allri á hærra stig. Það er álit mitt t.d., að eitt þarfasta verk, sem við gætum gert og hefði átt að gera, ef okkar þjóðfélagi sem heild hefði verið stjórnað af einhverjum myndarskap, væri að senda ekki minna en 30–40 verkfræðinga — ekki minna en það — eða vel tæknimenntaða menn til framleiðslustöðva allt í kringum landið og fela þeim það verkefni, a.m.k. í eitt ár, að gagnskoða þá vinnuaðstöðu, sem við búum nú við og höfum búið við í langan tíma í sambandi við okkar aðalframleiðsluatvinnuvegi, og gefa þeim það verkefni að koma sérstaklega með till. um það, hvernig mætti spara vinnuafl við þessi störf, því að ég efast ekkert um, að það er hægt að gera það til mikilla muna, og hvernig mætti koma þar á meiri framleiðni, meiri framleiðsluaukningu, afkastaaukningu. Ég er ekkí í neinum vafa um það, að við mundum í slíkum tilfellum eða þjóðin sem heild uppskera á ríkulegri hátt en jafnvel með því að bæta við okkur nýjum framleiðslutækjum eins og góðum fiskiskipum op draga meira á land, og hef ég þó ekki verið að letja það, að við reyndum að standa vel að því að útbúa okkar framleiðslutæki, þau sem við vinnum í fyrstu framleiðslulínu með. Ég er þvert á móti á þeirri skoðun, að aðstaða okkar til vaxandi framleiðslu sé svo gífurlega mikil, einkum við sjávarsíðuna, að nú á næstu árum sé mesta hættan beinlínis á því, að við fiskum svo mikið, að við drögum svo mikinn afla á land, að við megum ekki vera að vinna hann, varla. eins mikið og við höfum gert, að jafnvel úrvinnsla aflans fari minnkandi, dragist saman, fari á lægra stig en hún hefur verið. — En ef við snerum okkur á réttan hátt að hinu verkefninu, þ.e.a.s. að ná réttum tökum á úrvinnslu alls aflans, að því að hafa vinnuaðstöðu við framleiðslustörfin sem haganlegasta, þá er þar um mikil auðæfi að ræða. Þar er um mikla möguleika að ræða. En til þess að verk eins og þetta sé unnið, þurfum við einmitt á verkfræðingum að halda. Við þurfum á tæknimenntuðum mönnum að halda. Við þurfum að geta lifað í friði við þá, og við þurfum að geta fengið þá til samstarfa við okkur, en það á ekki að vera aðalverkefni stjórnarvaldanna í landinu að liggja í hernaði við stéttarsamtök þessara aðila.

Við höfum hér fyrir stuttu rætt um það, að komið yrði upp hér í landinu einu nýju iðnfyrirtæki, kísilgúrverksmiðju, og í sambandi við umr. um það mál féllu hjá flestum ræðumönnum nokkur mjög lofsamleg velvildarorð í garð íslenzkra verkfræðinga og efnafræðinga og það þótti hafa komið í ljós í sambandi við undirbúning þess máls, að okkar menn, sem að þessum störfum höfðu unnið, hefðu hreint ekki reynzt neitt liðléttari eða kunnáttuminni en erlendir stéttarbræður þeirra, nema síður væri. Störf þessara manna í þessu tilfelli sýndu sig að geta verið dýrmæt. Þó skal ég taka það fram, að þótt ég vilji óska kísilgúrverksmiðjunni alls góðs og vona, að sá nýi útflutningsiðnaður, sem þar kann að verða efnt til, megi heppnast, sýnist mér, að allur fjárhagslegur grundv8llur undir þeirri framleiðslu verði að tel jast vægast sagt mjög veikur, miðað við okkar íslenzku aðstæður. En ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef við tækjum okkar tæknimenntuðu menn, verkfræðinga og efnafræðinga, og beittum þeirra kröftum á eitthvað svipaðan hátt til undirbúnings í sambandi við okkar aðalatvinnuvegi og alla þá möguleika, sem eru tengdir við þá, þá gætum við uppskorið margfalt það, sem ég hef a.m.k. trú á að við getum uppskorið í sambandi við þetta nýja útflutningsiðnaðarfyrirtæki, kísilgúrverksmiðju.

Ég hef lítillega fylgzt með því nú síðustu árin, að nokkrar, aðeins nokkrar verkfræðilegar breytingar, sem átt hafa sér stað hjá okkur í síldariðnaði landsins, hafa verið að færa okkur tugi milljóna króna, og möguleikarnir eru þar enn þá alveg gífurlegir. En það er rétt, við þurfum á tæknimenntuðum mönnum að halda til þess að geta komið þessum breytingum fram. Það er undirstaðan. Síðan þarf auðvitað í mörgum tilfellum nokkurt fjármagn líka. Nei, það dugir ekki í þessum efnum að tala fagurlega um framtíð tæknimenntunar og öld verkfræði og verkmenningar, ekki einu sinni þó að það sé afar mjúklega og elskulega sagt í útvarpsumræðum, hvað menn þrái þetta mikið og óski mikið eftír þessu, — slíkt vitanlega dugir ekki, ef menn vinna hins vegar þannig frá degi til dags, að verk þeirra fara alveg í þveröfuga átt. En það að standa í stórátökum og deilum alveg að óþörfu við stéttarsamtök verkfræðinga, eins og gert hefur verið, það er vitanlega að vinna alveg í gagnstæða átt við þessar þarfir.

En þá er maður kominn í þessu máli, eins og í ýmsum fleiri málum hér á hv. Alþingi, í þessa einkennilegu stöðu, að hafi einhver ráðh. lagt eitthvað til og jafnvel sett brbl. um eitthvað eða hafi ríkisstj. lagt fram eitthvert mál, sé hún búin að gera einhverja skyssu, þá er lífsins ómögulegt að fá nokkra leiðréttingu á málinu. Þá er eins og allt sé komið í baklás. Við höfum jafnvel dæmi um það hér í þingstörfunum, að frv. hafi verið flutt af ríkisstj. og það hafi ýmist verið alveg sýnilegar málvillur sums staðar eða beinlínis skekkja einhvers staðar í frv., og það er ekki með nokkru móti hægt að kippa þessu í liðinn aftur, í gegn skal það fara, eins og ríkisstj. lagði til, hversu vitlaust sem það er. Breytingum er varla hægt að koma fram. Eins er það í þessu máli, að ég er næstum því viss um, að þó að ríkisstj. viðurkenni það, þar sem ekki allt of margir heyra til, að hún hafi gert skyssu í þessum efnum, að hún sé hér komin inn á óheillabraut, að hér hefðu þessi skref betur aldrei verið stigin, þá getur hún ekki með nokkru móti haft sig í það að snúa til baka, viðurkenna villu sína. Hún skal í lengstu lög reyna að þjösna málinu í gegn.

Afar oft hefur ríkisstj. átt eitt ágætt ráð í þessum efnum, að þegar hún hefur annaðhvort verið að koma fram einhverjum óréttlátum málum gagnvart alþýðu manna eða öðru því, sem fundið hefur verið að hér á Alþingi, þá hefur ríkisstj. bara gripið til þess einfalda ráðs að segja, að allir, sem á móti henni væru, væru fjandans kommúnistar og þar af leiðandi væri ekkert mark takandi á því, sem þeir segðu, og síðan hefur auðvitað allur kór ríkisstj. sungið þetta með henni, að hér væru bara á ferðinni vondir kommúnistar og á þá mætti ekki hlusta í málinu, og þannig hefur verið hægt að sefja menn í þessum efnum og hinn rangi málstaður barinn í gegn.

Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. vill segja það, að allir verkfræðingarnir séu bara bölvaðir kommúnistar líka og séu að reyna að steypa ríkisstj. með því að vilja eiga samningsrétt eins og önnur stéttarsamtök í landinu. Kannske hikar hún eitthvað við að halda slíku fram. En hver eru þá rökin fyrir því, að ríkisstj. þarf að halda þannig áfram með þetta mál, sem hún gerir? Hvar eru rökin fyrir því? Hvað er það, sem knýr á?

Nei, að mínum dómi er það svo, að jafnvel þótt stéttarsamtök verkfræðinga hafi nokkra sérstöðu í hópi hinna almennu stéttarfélaga í landinu, þó auðvitað enga sérstöðu fram yfir ýmis önnur, en talsverða sérstöðu miðað við hin almennu verkalýðsfélög, þá er það nú svo, að ríkisstj. hefur verið og er enn í þeim ham gagnvart launastéttunum í landinu yfirleitt, gagnvart stéttarfélögunum almennt séð, gagnvart svo að segja öllum launþegum, að hún virðist sjá rautt, þegar hún þarf að skipta eitthvað við þessa aðila, og er ákaflega fljót til að kenna þessum aðilum um allt, sem aflaga fer í landinu. Það eru þessir aðilar, sem eiga að bera ábyrgð á því, að dýrtíðin hefur nú vaxið eins og hún hefur vaxið á undanförnum árum. Þeir eiga alla þá sök. Og ríkisstj. virðist hugsa sér, að það, sem eigi að vera hennar fyrsta og æðsta starf, sé að reyna að hafa einhvern veginn hemil á öllum launastéttum í landinu, það sé þessi órólegi lýður, og jafnvel verkfræðingarnir, sem maður hafði nú haldið við fyrstu athugun á málinu, að ríkisstj. hefði ekki alveg í sama númeri og meginhlutann af launastéttunum, jafnvel þeir sogast inn í þessa fylkingu í hugmyndaheimi ríkisstj, og verða fyrir barðinu á ríkisstj. á þann hátt, sem raun ber vitni um í þessum efnum, á sama tíma sem ríkisstj. beitir sinum ráðstöfunum gagnvart ýmsum öðrum aðilum á gersamlega annan hátt.

Ég býst við því, að verkfræðingar og reyndar margar fleiri starfsstéttir, sem mikla menntun hafa, geti verið nokkuð kröfuharðir í launamálum sínum, það má vel vera, ég er ekkert gerkunnugur því, og að þeir vilji hafa talsvert góða greiðslu fyrir ýmis störf sín, eins og margar aðrar starfsstéttir, sem hafa langskólanám að baki. En mér dettur ekki í hug að halda, að jafnvel þó að verkfræðingunum væri borgað tiltölulega vel fyrir sín störf, svo þýðingarmikil sem þau eru í flestum eða öllum tilfeilum, þá hafi það meiri þýðingu í efnahagslífi þjóðarinnar en greiðslur til svo að segja allra aðila í landinu, sem hafa verzlun eða viðskipti með höndum, selja vöru eða þjónustu, þeir megi vera frjálsir að því að leggja sér út kaup eins og þeim sjálfum sýnist. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að sú ráðstöfun ríkisstj. að veita álagningarfrelsi á fjöldamörgum vörutegundum og margs konar þjónustu, sú ráðstöfun er miklu örlagaríkari í efnahagskerfinu heldur en þó að verkfræðingum væri borgað jafnvel aðeins of mikið, miðað við einhvern málstokk, sem kann að verða lagður á það.

En þannig er þessu varið núna í þjóðfélaginu. Við vitum, að það eru svo fjölmargir aðilar nú, sem ákveða þýðingarmikla þætti í verðlaginu í landinu, þeir ákveða það alveg upp á eigin spýtur. Mér dettur t.d. í hug núna, að við vorum að samþykkja hér, það var víst næsta mál á undan þessu á þessum fundi, þá vorum við að samþykkja allmyndarlega ríkisábyrgð handa Flugfélagi Íslands til flugvélarkaupa, og er ekkert nema gott um það að segja. Flugfélagið rekur merkilega og gagnlega þjónustu eins og aðrir þeir, sem hafa með samgöngumál í landinu að gera. En þeir hafa líka fengið algert frelsi um það að ákveða sjálfir öll fargjöld á þeirra vegum. Þegar ég var eitt skipti að ferðast með þessu ágæta flugfélagi rétt um áramótin, þá var nýbúið að hækka fargjöld allmyndarlega. Nú fyrir örfáum dögum voru aftur hækkuð fargjöld eitthvað um 12%. Þannig ákveða þessir ágætu menn þetta bara sjálfir og spyrja hvorki kóng né prest um það. Svona er þessu háttað í fjöldamörgum tilfellum í þjóðfélaginu, að ýmsir slíkir aðilar sem þessir ákveða sína eigin þóknun sjálfir. En ef það gerist aftur á móti, að ýmis stéttarfélög í landinu geta náð samningum við samningaborðið við sína vinnuveitendur um ákveðna breytingu á launagreiðslum, þá þarf ríkisstj. alveg endilega að hlaupa inn í málið, rífa í sundur gerða samninga, ógilda gerða samninga, eins og hún hefur gert í mörgum tilfellum, vegna þess að hún þykist vera að bjarga efnahagskerfi þjóðarinnar, koma í veg fyrir verðhækkanir.

Það er þessi afstaða ríkisstj. til stéttarsamtakanna í landinu, sem er mjög hættuleg, og að því leyti til lít ég eins á þessa deilu ríkisstj. við stéttarsamtök verkfræðinga eins og deilur hennar við stéttarsamtökin í landinu almennt séð. Og það skiptir mig litlu máli í þessum efnum, hvort starfsstéttin, sem í hlut á, er flugmenn, verkamenn eða verkfræðingar. Við höfum líka lifað það hér á Alþingi, að ríkisstj. hefur verið að blanda sér í launakjör eða samningsrétt flugmanna á mjög ómaklegan hátt. Við þurfum vissulega á þessum starfsstéttum að halda, og við þurfum að reyna að lifa þannig í þjóðfélaginu, að við getum átt friðsamlegt samstarf við þessar starfsstéttir og fengið þær til þess að starfa eftir getu sinni að gagnlegum störfum, en stríð ríkisvaldsins við slíkar vinnustéttir sem þessar er það hættulegasta af öllu, sem til er.

Ríkisstj. sagði í upphafi síns valdaferils, að hún ætlaði ekki að blanda sér í neina kaupgjaldssamninga, þeir ættu að útkljást af réttum samningsaðilum, launþegum annars vegar og atvinnurekendum hins vegar. Ríkisstj. hefur auðvitað brotið þetta fyrirheit sitt æ ofan í æ. Og hún hélt því þá fram, að hún þyrfti ekki að ræða þessi mál við fulltrúa stéttarsamtakanna í landinu, hún hefði meirihlutaaðstöðu á Alþingi til þess að ráða þessum málum til lykta þar, og það ætti því ekki sú vera að blanda neinum utanþingsaðilum í þessi mál. En ég ætla, að ríkisstj. hafi þegar lært það, a.m.k. gagnvart ýmsum þýðingarmiklum stéttarsamtökum í landinu, að það gildir ekki þessi regla. Það er vonlaust að fara eftir henni til lengdar, og því verða nú þeir, sem af mestum hroka á sínum tíma sögðu, að þeir þyrftu ekki að ræða um þessi mél við utanþingsaðila og að þeir þyrftu ekki að ræða við þessa aðila neitt um þennan þýðingarmikla þátt efnahagslífsins, þeir hafa vitanlega orðið að brjóta odd af oflæti sínu, reynslan hefur kennt þeim það, og neyðin hefur rekið þá til þess að ganga að samningaborðinu við þessa aðila og reyna samninga. Og það er mín skoðun, að fyrr eða síðar muni einnig þessi ríkisstj. læra nauðsyn þessara vinnubragða gagnvart samtökum eins og samtökum verkfræðinga.

Ríkisstj. hefur vitanlega ekki nema mjög takmarkað vald á því að leysa þessi mál einhliða með lagasetningu, með ósanngjarnri lagasetningu. Hún getur, eins og ég hef sagt, valdið tilfinnanlegum truflunum og skaða með þessu, hún getur jafnvel flæmt nokkuð af þessum þýðingarmiklu starfsmönnum úr landi, og hún getur svipt ýmsa opinbera aðila starfskröftum þessara manna, en hún vitanlega leysir aldrei málið nema á þennan eina hátt, að vilja eiga heiðarlegt samstarf við þessa aðila, viðurkenna félagsréttindi þeirra og samtakafrelsi og samningafrelsi.

Mér er stundum nokkuð gjarnt í málum eins og þessu að byrsta mig nokkuð og vera kannske nokkuð hvassyrtur, hafa það til jafnvel að skamma ríkisstj. í slíkum tilfellum sem þessum. Það getur verið, að þetta sé ekki rétt leið, það væri reynandi að fara eitthvað betur að stjórninni, það kæmi jafnvel til greina kenningin hans Björns á Löngumýri, hv. 5. þm. Norðurl. v., að vera ekki að þessum skömmum, heldur reyna hina mýkri leiðina. Ég skal alveg játa það, að ég teldi það ekkert eftir mér að fara þá leið í sambandi við jafnþýðingarmikil mál og þessi, að reyna að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstj. varðandi hennar almennu afstöðu til launþegasamtakanna í landinu. Ég skyldi reyna að leggja mig allan fram um það að reyna að blíðka ríkisstj. og fara vel að henni í þessum efnum, ef ég hefði trú á því, að það mætti bera árangur, en ég hef nú einhvern veginn trú á því, að þeir, sem standa mér nokkru nær með það að reyna að fara blíðskaparleiðina að hæstv. ríkisstj., hafa betri aðstöðu til þess en ég og hafa annan aðgang að henni, — ég hef einhvern veginn trú á því, að þeir hafi reynt þessa leið, það sé búið að reyna þessa leið, eins og mögulegt er, að koma vitinu fyrir ríkisstj. og leiðbeina henni í þessum efnum. Ég trúi því t.d. ekki, að þeir fjölmörgu forustumenn víða í stéttarsamtökum í landinu, sem á undanförnum árum hafa hvað eftir annað lent í allhörðum átökum út af launa- og kjaramálum, en hafa þó opinberlega verið stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., hafa verið flokksmenn þeirra flokka, sem standa að ríkisstj., — mér dettur ekki í hug að trúa öðru en að þessir menn séu búnir að reyna að leiða ríkisstj. það fyrir sjónir, hvað hún sé á rangri braut í þessari almennu afstöðu sinni, hvað hún sé hér að leika hættulegan leik. Ég held því, að það sé búið að gera það, sem hægt er að gera, til að fá ríkisstj. til að leiðrétta sín mistök í þessum málum almennt séð og því sé í rauninni lítið annað að gera en að skamma hana nokkuð fyrir það óþurftarverk, sem hún er að gera.

Ég minntist á það hér fyrr í minni ræðu, að ýmsar aðrar starfsstéttir í landinu þyrftu á því að halda að setja gjaldskrár um störf sín, og minntist þá á það, að mér hefði verið sagt það af mörgum kunnugum mönnum, að t.d. gjaldskrá lögmanna væri allmiklu hærri en þessi umdeilda gjaldskrá verkfræðinga, og ég vék að því, að ríkisstj. ætti nú út af fyrir sig, þar sem í henni sætu 4 lögfræðingar og sumir þeirra hafa a.m.k. notað þessa gjaldskrá eitthvað talsvert, að þeir ættu e.t.v. að geta skilið, að það væri ekki með öllu óeðlilegt, að starfsstétt eins og verkfræðingar vildi hafa gjaldskrá ekki miklu lægri en gjaldskrá lögfræðinga. En ég vil nú spyrja hæstv. ríkisstj.: Finnst henni það sanngjarnt, finnst henni það eðlilegt, að lögmannasamtökin í landinu megi ákveða sína gjaldskrá, og það sé jafnframt eðlilegt, að dómsmrh. skrifi bara þegjandi og hljóðalaust upp á þeirra gjaldskrá og staðfesti hana, á sama tíma sem ríkisstj. neitar samtökum verkfræðinga um að mega setja gjaldskrá? Finnst ríkisstj. vera réttlæti í þessu? Heldur hún, að hún komist upp með slík vinnubrögð sem þessi til lengdar? Og hvað er að segja um margar og margar aðrar starfsstéttir? Setja ekki tannlæknar sína gjaldskrá sjálfir? Ætli ýmsir meistarar ákveði ekki nokkuð sjálfir, hvað þeir taka fyrir hin ýmsu störf? Getur hæstv. ríkisstj. búizt við því, að verkfræðingasamtökin í landinu uni slíku misrétti sem þessu, að þau skuli vera beitt þessum ákvæðum, þegar aðrir fá að starfa alveg óáreittir? Ég efast ekkert um það, að ríkisstj. skilur, að svona vinnubrögð eins og þessi fá ekki staðizt til lengdar. Það er hægt að lemja höfðinu við steininn ákveðinn tíma og nokkrum sinnum, en það getur enginn gert það um alla framtíð.

Það væri auðvitað ástæða til þess að tala hér alllangt mál um þetta frv., fyrst og fremst vegna þess, að það fjallar um mál, sem snertir einmitt þessi allra stærstu og þýðingarmiklu málefni, sem barizt er um nú í okkar íslenzku stjórnmálum. Að mínum dómi er ekki hægt að einangra þetta mál eingöngu við samtök verkfræðinga, það er alveg útilokað. Þetta mál er miklu víðtækara í eðli sínu, og þetta er baráttan um það að sannfæra ríkisstj. um að láta af þessari meginstefnu sinni gagnvart stéttarfélögunum í landinu. Og þetta er baráttan um það að sannfæra hana um, að hún getur ekki til lengdar haldið uppi þeirri pólitík að leyfa ýmiss konar milliliðum og þeim, sem annast sölu á varningi og þjónustu, að leika lausum hala og græða stórfé og hækka verðlagið í landinu, eins og þeir gera í mörgum tilfellum. Það er ómögulegt að halda uppi slíkri stefnu og ætla á sama tíma að halda hinum einstöku starfsstéttum í einhverjum lagaböndum. Slík lagabönd hljóta að bresta fyrr eða síðar, og ég held, að það væri bezt, að ríkisstj. viðurkenndi þetta einmitt á almennum grundvelli, eins og mér sýnist að hún sé nú að sveigjast til í sambandi við þær viðræður, sem hún er nú einmitt að taka upp við verkalýðssamtökin í landinu um kjaramál verkalýðsstéttarinnar. En þá ætti ríkisstjórnin einnig að stíga skref í þessa átt gagnvart samtökum verkfræðinga.

Ég veit það, að hæstv. forsrh., sem nú er kominn hér í salinn, gerir sér alveg fulla grein fyrir því, að þó að þessi brbl. verði nú ekki staðfest, þó að þau fái bara að liggja, úr því sem komið er störfum þessa þings, getur það ekki breytt neinu í þessum almennu vandamálum, sem við er að glíma í okkar þjóðfélagi. Það getur ekki breytt neinu, nema að því leyti til, að samningar verða þá einnig teknir upp við verkfræðinga um viss störf þeirra og reynt að ná friði við þá, engu síður en aðrar launastéttir í landinu. Ég vil því skora alveg sérstaklega á hæstv. forsrh., sem, eins og ég sagði hér áður, brýndi það mjög fyrir mönnum í útvarpsumr. í gærkvöld, að menn ættu að læra af reynslunni og það væri gagnslitið að standa í þessu, ef menn lærðu ekkert og stæðu alltaf í sama farinu, — ég vil nú skora alveg sérstaklega á hann að rifa sig nú upp úr gamla farinu í þessum efnum, hætta þessum leik, stöðva þetta frv. Ég veit, að hann þarf ekki nema eitt orð til þess við samgmrh. og segja honum það, að þetta frv. sé með öllu þýðingarlaust, úr því sem komið sé. Hæstv. forsrh. getur þetta mjög auðveldlega. Og ég held auk þess, að öll staða hans sé þannig, að hann geti líka tekið petta á sig, þó að ríkisstj. finnist nú, að þetta sé nokkur ósigur fyrir sig vegna þess, sem á undan er gengið. Ég held, að hann stæði það alveg af sér, ég held, að hann ætti þennan meiri hl. sinn á Alþingi nokkurn veginn jafnöruggan jafnt eftir sem áður og hann ylti ekkert úr stólnum fyrir því.

Ég skal nú ekki ræða þetta mál að sinni öllu meira en ég hef gert, a.m.k. í sérstakri von um það, að hæstv. ríkisstj. sé farin að hugleiða málið á nokkuð öðrum grundvelli en hún hefur gert hingað til. En það má ríkisstj. alveg vita, að ef hún getur ekki fallizt á eðlilega lausn á þessu máli, þá geta bæði orðið hér miklar og áframhaldandi umr. um málið á Alþingi enn, og þetta mál er þess eðlis, að það getur líka dregið á eftir sér allhættulega hluti. Ég endurtek því áskorun mína til hæstv. ríkisstj., að hún falli nú frá því að afgreiða þetta mál og láti það liggja, þar sem það er komið.