12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta mál er eitt þeirra, sem hafa verið að meltast í meðferð Alþingis í sex mánuði eða svo og er því eins konar meltingur orðinn. Ég var farinn að halda, að hæstv. ríkisstj. væri orðin afhuga því að vera að pressa þessi brbl. gegnum þingið, og mér fannst það vera ákaflega skynsamlegt af henni og hélt, að það stæði e.t.v. í sambandi við þau breyttu viðhorf hæstv. ríkisstj. til stéttarsamtaka, sem nú virðast vera orðin, þar sem það er nú staðreynd, að viðreisnarstjórnin, sú ríkisstj., sem nú situr, sú, sem lofaði að láta kaupdeilumál á vinnumarkaðinum vera afskiptalaus og láta aðila vinnumarkaðarins leysa þau mál, en hefur, síðan hún settist í valdastóla, legið í látlausu stríði, látlausri styrjöld við verkalýðssamtökin í landinu, við hvers konar stéttarsamtök, hefur nú upp á síðkastið hins vegar talað í friðartón. „Það byrjaði sem blærinn, er bylgju slær á rein.“ Það byrjaði, held ég, í áramótaboðskap hæstv. forsrh., þegar hann sagði, að það bæri að sjálfsögðu að ástunda gott samstarf og góða sambúð við fjöldasamtökin í landinu. Með þessum fjöldasamtökum átti hann alveg greinilega við stéttarsamtökin í landinu, og Verkfræðingafélagið, sem hér á hlut að máli, er vissulega eitt af stéttarsamtökum okkar þjóðar. En það virðist samt ekki svo, að hæstv. ríkisstj. sé hætt við það að gera þessi brbl.l. eða fá þau staðfest sem lög frá Alþingi, því að síðustu stundir þessa þings, sem nú hefur setið í 7 mánuði, eru notaðar til þess að reyna að fá staðfestingu þingsins á þessum brbl.

Ég sagði áðan, að hæstv. ríkisstj. hefði legið í órofa stríði við stéttarsamtökin í landinu, frá því að hún eiginlega gaf loforðið um afskiptaleysi af þeim málum, og þannig ekki brugðizt neinu af þeim loforðum, sem hún hefur gefið þjóðinni, eins greypilega og þessu loforði sínu.

Menn hafa vafalaust tekið eftir því, að það hefur verið eins tíður viðburður í Morgunblaðinu að vitna í stríðsyfirlýsingu mína í Borgarnesi eins og hjá prestunum að vitna í guðspjöllin. Þetta hefur verið látlaust tema hjá Morgunblaðinu mánuðum saman. Hver var stríðsyfirlýsing mín í Borgarnesi? Hún var sú, að verkalýðssamtökin mundu halda áfram að berjast fyrir málstað launþeganna í landinu. Það stríð hafði verið opið stríð, frá því að hæstv. ríkisstj. settist að völdum, og það stríð hafði alls ekki verið á nokkurn hátt útkljáð með kosningunum í vor er leið. Ég hlaut því að taka það fram, að þó að uppgjör hefði orðið á pólitíska sviðinu, yrði haldið áfram því varnarstríði, sem verkalýðshreyfingin hefur orðið að heyja, að því er snertir launþegasamtökin og umbjóðendur þeirra. Það var það stríð, sem ég boðaði, og í því stríði höfum við staðið á árinu 1963, svo greypilega, að einsdæmi eru í allri sögu þjóðarinnar. Við urðum þá, til þess að verja okkar umbjóðendur, að gera þrisvar sinnum samninga um kaupgjaldsmál verkafólks. Að slíku leikur sér enginn, að slíku leika sér engin samtök. Við vorum til þess neyddir, það var gengið svo á kaupmátt launa hins vinnandi manns, að merkið varð að taka upp þrisvar sinnum á einu ári til þess að rétta hlut launþegans gagnvart sívaxandi dýrtíð og óðaverðbólgu. Ef við hefðum lagt niður vopnin í þessu stríði, hefði undireins frá degi til dags hallazt á okkar umbjóðendur og laun þeirra orðið enn pá meira óviðunandi en þau þó eru í dag. Er það ekki öllum ljóst, að þegar svona styrjöld verður að heyja, er það ekki af því, að neinir illviljaðir menn finni sér það til? Það er af því, að það ríkir sjúkdómsástand í efnahagsmálum þjóðarinnar og hefur gert lengi. Og verkföllin og kjaradeilurnar á s.l. ári eru ekkert annað en viðureign við þennan sjúkdóm. Ef sjúkdómurinn væri læknaður, ef stjórnarvöldin hættu sinni ágengnisstefnu gagnvart launastéttunum í landinu, væru verkalýðssamtökin alls ekki í stríði. Nú er það ekki svo, að hæstv. ríkisstj. hafi boðið fram hönd til friðar og sátta. Nei, eftir að við höfðum framkvæmt okkar síðasta uppgjör og sýnt þannig enn þá einu sinni, að stjórnmálaaðgerðum ríkisvaldsins til þess að niða niður kjör verkafólks yrði sífellt svarað með kaupgjaldsbaráttu, sem rétti hlut þeirra af á ný, þá buðum við í Alþýðusambandi Íslands að reyna með viðræðum við ríkisstj. um þýðingarmikil málefni að hefja viðræður við hana, ef verða mætti til þess, að árangur sá, sem út úr þeim fengist, gæti auðveldað kjarasamninga nú í vor milli verkalýðsfélaganna og samtaka atvinnurekenda, því að ég vænti, að allir skilji það, að upp úr viðræðum Alþýðusambandsins við ríkisstj. geta ekki komið neinir kjarasamningar. Það er aðeins hugsanlegt, að í þeim viðræðum leysist einhver þau þýðingarmikil mál að dómi verkalýðsstéttarinnar, að launamálasamningar náist með auðveldari hætti en ella. Ég óska einskis fremur en bitru stríði megi linna í kjaramálum verkalýðsstéttarinnar, en það getur því aðeins gerzt, að breytt sé um stjórnarstefnu og hætt að beita gengislækkunum, skattpíningu og sérhverjum öðrum stjórnmálalegum aðgerðum til þess að rýra kaupmátt umsaminna launa. En ef hæstv. ríkisstj. fellur frá sinni fyrri afstöðu í þessum málum, er verkalýðshreyfingin sáttfús, og hún er fús til þess að þrautreyna allar samningaleiðir, friðsamlegar samningaleiðir.

Það á auðvitað að ríkja fullt samningafrelsi um kaup og kjör í sérhverju lýðræðislandi. Lögfesting frv. eins og þessa væri skerðing á þessum grundvallarréttindum lýðræðisþjóðfélagsins, og það væri rangt af verkalýðshreyfingunni að láta það afskiptalaust, að níðzt væri svo á einni fámennri stétt manna eins og verkfræðingunum, án þess að leggja þar orð í belg. Það hefur engin lýðræðisþjóð mér vitanlega fundið önnur úrræði til þess að leysa deilumál vinnumarkaðar með farsællegum hætti, öðruvísi en það gerist við frjálst samningaborð aðilanna á viðkomandi vinnumarkaði. Þannig leysir móðurland lýðræðisins, Bretland, þessi mál og kann ekki önnur úrræði. Þannig leysast þessi mál á öllum Norðurlöndum, þannig leysast þessi mál í Bandarfkjum Norður-Ameríku o.s.frv., o.s.frv. Verkfallsbönn og gerðardómar hafa hvarvetna gefizt illa, og sú reynsla er fengin hér á landi hvað ofan í annað, eins og ég mun víkja að síðar.

Þetta frv., sem varð til fyrst sem brbl., gerir ráð fyrir þriggja manna gerðardómi, sem ákveði kjör verkfræðinga, sem starfa hjá öðrum en ríkinu. Þessi dómur á einnig að setja gjaldskrá fyrir verkfræðistörf, sem unnin eru í ákvæðisvinnu eða tímavinnu. Það er alveg greinilegt, að gerðardómnum er alveg ætlað að kveða á um öll launakjör verkfræðingastéttarinnar, þeirra, sem ekki eru í þjónustu ríkisins. Til þess að gera fyrirtækið fínt er hæstarétti falið að setja á hann húfuna, á að tilnefna formann dómsins.

Samkv. 2. gr. frv. á gerðardómurinn við ákvörðun mánaðarlauna og vinnutíma og launa fyrir yfirvinnu að hafa hliðsjón af því, hver séu kjör verkfræðinga og annarra sambærilegra starfsmanna hjá ríkinu samkv. launakerfi því, sem gildir frá 1, júlí 1963. Enn fremur segir, að við setningu gjaldskrár fyrir verkfræðistörf, unnin í ákvæðisvinnu og tímavinnu, skuli höfð hliðsjón af gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá 19. apríl 1955 og reglum, sem gilt hafa um framkvæmd hennar. Þetta var gerðardómsmönnunum sett fyrir, og þannig skyldu þeir starfa. Þeir skyldu hafa hliðsjón af gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá 19. apríl 1955 og reglum, sem gilt höfðu um framkvæmd hennar. En nú fór í verra. Þegar gerðardómsmennirnir fóru að athuga þann grundvöll, sem þeir skyldu starfa eftir, gjaldskrána frá 19. apríi 1955, komust þeir að þeirri niðurstöðu, að hún væri úrelt plagg og þeir gætu ekki starfað eftir henni, og þeir kváðu upp sinn dóm með hliðsjón af annarri reglugerð en 1. mæltu fyrir um, og má því mikið vera, ef þeirra gjörðir eru byggðar á 1., ef við því væri hreyft. Um þetta segja dómararnir á bls. 48, með leyfi hæstv. forseta:

„Dómurinn hefur eftir föngum kynnt sér ákvæði gjaldskrárinnar frá 1955 um þóknun fyrir ákvæðisvinnu, svo og hliðstæð ákvæði í frv. að gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá apríl 1962. Við samanburð gjaldskránna hefur komið í ljós, að gjaldskráin frá 1955 er að sumu leyti orðin óviðunandi og ónothæf sem grundvöllur að ákvörðun þóknunar. Í gjaldskrána vantar ákvæði um ýmsar greinar verkfræði, sem nú eru stundaðar. Auk þess eru ákvæði um skyldur verkfræðinga eigi ætíð sem fyllilegust. Af þessum ástæðum hefur dómurinn ákveðið, að frv. frá apríl 1962 skuli lagt til grundvallar við samningu nýrrar gjaldskrár.“ — Alls ekki gjaldskráin frá 1955, heldur önnur, sem þeir finna, sem þeir telja vera nothæfa til þess að hafa til hliðsjónar, en hún er bara frá 1962, sem l. alls ekki nefna á nafn. Þetta er náttúrlega heldur leiðinlegt víxlspor hjá þeim hæstv. ráðh., sem flumbraðist til að setja þessi brbl. og leggja dómendum fyrir að starfa eftir plaggi, sem þeir lýsa yfir að sé úrelt og ónothæft sem grundvöllur að ákvörðun þóknunar. Þó að ekkert hefði komið til annað en þetta, hefði verið ástæða til þess fyrir hæstv, ráðh. að kippa málinu til baka og hafa sem hljóðast um það. En hann hefur ekki valið þann kostinn, og þess vegna hlýtur hann að una því hlutskipti, að málið sé gert rækilega að umtalsefni.

Í 3. gr. kemur svo bannið við verkföllum. Verkföll í því skyni að knýja fram skipan kjaramála, sem lög þessi tala til, eru óheimil, þ. á m. framhald verkfalls Stéttarfélags verkfræðinga, sem nú er háð. Það er svo hastarlega gripið á þessu máli, að þegar brbl. eru fyrst sett, er yfirstandandi löglegt verkfall löglegs stéttarfélags, boðað og rekið samkv. gildandi löggjöf, vinnulöggjöfinni, l. um stéttarfélög og vinnudeilur, — þetta verkfall er lögbannað í miðjum klíðum. Það er ekki verið að koma í veg fyrir verkföll, sem vofa yfir, það er verið að grípa inn í löglega boðað og löglega rekið verkfall hjá stéttarfélagi, og það er gert með brbl., og síðan bætt við, að öll önnur verkföll, sem háð séu í því skyni að knýja fram skipun kjaramála, sem þessum I. er ætlað að leysa, skuli einnig bönnuð. Og þetta átti víst að gilda, eins og af stað var farið með frv., um alla framtíð, því að frv. var ótímabundið. Nú er búið að klastra við það á þann veg, að það skuli þó ganga úr gildi við árslok 1965. Þá eiga verkfræðingar að hafa gamlaársfagnað um það, að þeir hafi fengið sín mannréttindi á ný. Það verður mikið gamlaársdagskvöld hjá þeim. En þangað til er þeim ætlað, meðal fárra annarra stétta, að vera sviptir verkfallsrétti og þar með samningsrétti sínum um kaup og kjör, og þau skulu vera lögbundin sem einhvers konar hliðstæða við þau laun, sem verkfræðingar í opinberri þjónustu hafi á hverjum tíma.

En einmitt út af þessu ætla ég nú næst að víkja að því, hversu auðvelt það er, eða hitt þó heldur, fyrir verkfræðingana að vita um það með sanni, við hvaða kjör verkfræðingar í þjónustu ríkisins búa á hverjum tíma. Nú er a.m.k. ekki alveg ljóst, upp á hvaða kjör þeir verkfræðingar voru ráðnir, sem ráðnir voru í þjónustu ríkisins, meðan á verkfalli verkfræðinga stóð. Það er ekki alveg ljóst. Og það er einn af ljótu kapítulunum í sambandi við þetta mál, að ríkið hefur brotið lög, umboðsmenn ríkisvaldsins hafa verið látnir brjóta lög til þess að reyna að skapa upplausn í röðum verkfræðinga, því að einmitt þegar verkfall þeirra stóð, hið löglega háða og boðaða verkfall, tókst vegamálastjórninni að ráða til sín fjóra verkfræðinga, og eftir því, sem ég bezt veit, mun Stéttarfélag verkfræðinga líta svo á, að þessir verkfræðingar hafi framið verkfallsbrot gagnvart sínu stéttarfélagi og séu þannig hvorki meira né minna en verkfallsbrjótar. En til þess að gerast það hafa þeir óefað verið knúðir af ríkisvaldinu með einhverju móti. Í vinnulöggjöfinni er það bannað hverjum og einum að hafa áhrif á vinnudeilur, gang vinnudeilna, með vilyrðum eða uppbótum á laun til þeirra, sem í verkfalli standa. Það er ákveðið bannað í vinnulöggjöfinni. Og auðvitað hljóta þessi lög að ná til ríkisstj. alveg eins og til sérhvers borgara í landinu, og situr auðvitað sízt á ríkisstj. að brjóta landsins lög.

Það er talið, að vegamálastjórnin hafi á s.l. sumri með ráðningu hinna fjögurra verkfræðinga til sín beitt þeim aðferðum að heita þeim fríðindum í ýmsu formi, sem ekki yrði getið um í ráðningarsamningi þeirra, en væru nokkuð mikils virði fjárhagslega fyrir þá, einkanlega þegar þessi fríðindi gætu orðið skattfrjáls og þar með ríkisvaldið sjálft verið að semja við þjónustumenn sína um að vera skattsvikarar, svo fagurt sem það nú er, enda játar nú hver ráðh, hér á fætur öðrum, að skattsvik séu mjög algeng í þjóðfélaginu, og þeir vita um það, enda undrast ég það ekki, þegar ég hef þetta í huga, að þeir viti nokkuð vel um þessi mál.

Ef þetta er rétt, að verkfræðingunum, sem voru ráðnir til vegamálastjórnarinnar, hafi verið heitið fríðindum, ef þeir gengju út úr verkfallinu og brygðust þannig sínu stéttarfélagi, þá er ekki hægt að orða það öðruvísi en svo, að þeim hafi verið mútað, þeim hafi verið mútað af ríkisvaldinu til þess að brjóta lög, ekki aðeins l. um stéttarfélög og vinnudeilur, heldur einnig skattal., með þessu hafi þeir verið fengnir til að vega aftan að stéttarbræðrum sínum í verkfalli. Það má vel vera, að umboðsmenn ríkisvaldsins líti á þetta sem meinlitlar aðgerðir, en ég álít þetta alvarlegt brot. Það, að þessum verkfræðingum var svo vikið úr Stéttarfélagi verkfræðinga, sýnir, að stéttarfélagið taldi sig þarna hafa verið grátt leikið og taldi sig vita, að þarna hefðu gerzt þeir hlutir, sem vörðuðu við lög. Það væri suðvitað í sambandi við þetta mál mjög fýsilegt að fá um það vitneskju frá fyrstu hendi, t.d. frá hæstv. samgmrh., landbrh., flugmálaráðh., þeim ráðh., sem þetta heyrir undir, hvort sá orðrómur hafi við rök að styðjast, að þessu hafi verið þannig farið, og þess vegna vil ég bera fram til hæstv. ráðh. nokkrar spurningar, og ég vil óska þess af hæstv. forseta; að hann stuðli að því og sjái um, að hæstv. ráðh. verði hér viðstaddur, svo að hann geti hlýtt á mínar fsp. og þannig gefið sönn og rétt svör við þeim, því að hann er fær um það, hann hefur vitneskjuna. Á meðan ætla ég að gera hlé á máli mínu. (Forseti: Það er nú einn hæstv. ráðh. viðstaddur í þd.) En hefur hann nokkra vitneskju um þessi mál? (Dómsmrh.: Það er ómögulegt að vita, nema þm. spyrji.) Ég mundi nú heldur óska þess, af því að þingið starfar enn þá, þó að það sé nú búið að ljúka störfum í Ed., — þessi hv. þd. starfar enn þá, ég hefði viljað óska þess, að hæstv. ráðh., sem málið varðar, gæfi sér tóm til að vera hérna, og ég tel mig þar halda á mínum þingmannsrétti. Hitt er að vísu vel boðið hjá hæstv. dómsmrh. að hlaupa í skarðið fyrir sinn stéttarbróður. Það er beðið um að sækja ráðh. (Forseti: Ég vildi biðja hv. þm. að halda áfram ræðu sinni. Hæstv. flugmálaráðh. er ekki staddur í húsinu, og það er ekki á valdi forseta að tryggja það, að hann verði við nú þegar.) Já, ég harma það, ef hæstv. forseta tekst ekki að halda ráðh., sem málið heyrir undir, í húsinu, og það er enn þá ein óvirðingin, sem hann sýnir verkfræðingastéttinni og þessu máli, að láta önnur störf ganga fyrir þeirri skyldu sinni að vera hér við umr. Við eigum rétt á því þm., að ráðh. séu viðstaddir, þegar þau mál, sem þeir bera fyrir þingið, eru rædd. Hins vegar hef ég engar ásakanir í frammi við hæstv. forseta, ef hann hefur látið kanna það, að ráðh. sé ekki viðstaddur. En þá ætti, ef þingmannsrétturinn væri virtur, að fresta þingfundi, þangað til ráðh. gæti verið við.

Ég ætla þá að treysta á það, að hæstv. dómsmrh. hlaupi í skarðið fyrir sinn fjarverandi stéttarbróður, og bera fram spurningarnar. En spurningunum hefði ég viljað fá svarað undir þessum umr., og það er ekki aðeins ég, heldur allir þm., sem eiga rétt á því, að það, sem ég hér spyr um, sé upplýst. Fyrsta spurningin er þessi til hæstv. ráðh.: Var verkfræðingunum boðin eftirvinna og gert ráð fyrir því við þá, að fast samkomulag væri um hana? Hversu mikla eftirvinnu fá verkfræðingarnir greidda, ef svo er, og er sú eftirvinna unnin? En sumir halda því fram, að um það sé samið, að hana þurfi ekki að vinna. Önnur spurningin er á þessa leið: Var verkfræðingunum, einum eða öllum, veitt 60 þús. kr. lán til bifreiðakaupa vaxtalaust og að því er sagan segir til fárra ára í því skyni, að þeir gætu eignazt bifreið, svo að hægt væri að greiða þeim bifreiðastyrki, eftir að þeir hefðu eignazt bifreiðina? Þriðja spurningin er á þessa leið: Er það rétt, hæstv, ráðh., að verkfræðingunum sé greiddur bifreiðastyrkur, og þá hve mikill, og að sá styrkur verði ekki talinn þeim fram til tekna, þ.e.a.s. að hann sé skattfrjáls? Í fjórða lagi: Hve mikil eru raunveruleg laun þessara verkfræðinga, sem sagðir eru á kjörum samkv. kjaradómi? Kjaradómskjör 10 ára verkfræðings eru 14400 kr. Að því er verkfræðinga, sem starfa hjá Landssíma Íslands, varðar, fullyrðir almannarómur, að samið sé við þá um allt að 25% álag á kjaradómskjör, að þeim sé greitt þetta álag fyrir vinnu utan venjulegs vinnutíma og utan venjulegs vinnustaðar, að fyrir þetta álag komi ekki vinna nema að því leyti, að fyrir komi stundum, að fyrirspurnum sé beint til verkfræðinganna um síma utan vinnutímans. Fullyrt er, að landssímastjóri hafi leyfi fyrir þessum greiðslum frá ráðh. Að hve miklu leyti hefur þessi orðrómur við rök að styðjast, hæstv. ráðh.?

Þessi mál varða verkfræðingana. Úr því að gerðardómurinn á að ákveða þeim laun hliðstæð þeim launum, sem verkfræðingar í þjónustu ríkisins hafa, verða þeir að fá að vita sannleikann um þau mál, eiga heimtingu á því, því að séu þessi fríðindi veitt, eru þau ekki nein smáræðis viðbót við launakjör verkfræðinga — hin opinberu launakjör verkfræðinga í þjónustu ríkisins — og eiga þannig auðvitað að hafa mjög mikil áhrif á hin úrskurðuðu launakjör hinna verkfræðinganna, sem brbl. fjalla um.

Þá þætti mér afskaplega fróðlegt að fá upplýst af ráðh., svo að upplýsingarnar séu áreiðanlegar, að hve miklu leyti ríkisstofnanir hafi látið útlenda verkfræðinga starfa hjá sér hér á landi, meðan brbl. hin fyrri voru í gildi um lausn á kjaradeilu verkfræðinga. En þau lög bönnuðu að greiða fyrir verkfræðiþjónustu meira en 147.81 kr. fyrir hverja unna klst. Brbl. höfðu gildi sem lög um tíma, og þau bönnuðu, að nokkrum verkfræðingi væri borgað meira en 147.81 kr. á klst. Er það nú svo, að útlendur verkfræðingur eða útlendir verkfræðingar hafi verið hér í þjónustu ríkisins og ríkisstofnana, meðan þessi lög voru í gildi, og hafi haft einhverja smávægis umbun umfram 147.81 kr. og I. þannig verið brotin? Þá er ekki síður fýsilegt að fá um það vitneskju, hvernig greiðslum til þessara útlendinga var háttað. Er það t.d. rétt, að þeim hafi verið á sama tíma greitt allt að 1200 kr. á klst.? Þetta er fullyrt af mönnum í stjórn Verkfræðingafélags Íslands, og ég vil því spyrja hér með: Fer stjórn Verkfræðingafélagsins hér með staðlausa stafi eða ósannindi? Ég tel langsamlega eðlilegast, að hæstv. viðkomandi ráðh. þessara mála gefist kostur á að upplýsa allt þetta í sambandi við umr. um þetta mál, og teldi bókstaflega rangt, að umr. um það væri lokið, án þess að hæstv. ráðh. gæfist færi á að bera fram sín svör.

Það er látið í veðri vaka, að þessi brbl. séu gefin út til þess að koma í veg fyrir, að verkfræðingar okri á vinnu sinni, selji vinnuafl sitt of dýrt, og þá liggur sú spurning fyrir opin: Hefur þessum tilgangi l. verið náð? Tilgangi l. hefur ekki verið náð, ef verkfræðingum í opinberri þjónustu hefur með vissu móti verið mútað til þess að ganga í þjónustu ríkisins með ótalmörgum og margvíslegum þýðingarmiklum fríðindum umfram þau laun, sem þeir áttu að hafa samkv. niðurstöðu kjaradóms. Og tilgangi l. hefur ekki heldur verið náð, ef það er rétt, að þeir opinberu aðilar, sem ekki lögðust svo lágt að fara að knýja verkfræðinga til að gerast verkfallsbrjóta, sömdu við verkfræðingafyrirtæki um að taka hvers konar verk, sem þeir áður höfðu unnið í tímavinnu, í ákvæðisvinnu, þannig að til grundvallar fyrir ákvæðinu voru lagðir hinir auglýstu taxtar, sem verið var að berjast á móti. Ég hef það fyrir satt, að Hitaveita Reykjavíkur og fjöldamörg fyrirtæki önnur hafi látið vinna verkin upp á þau býti, að hin auglýsta gjaldskrá var lögð til grundvallar akkorði, og þannig algerlega komizt fram hjá því að borga verkfræðingunum eftir hinu fasta kaupi, sem kjaradómur ákvað. Þannig hafi verkfræðingarnir, þrátt fyrir allt þetta baks til þess að færa þá í fjötra, haldið sínu frelsi og það verði enginn sparnaður af þessu hjá því opinbera, heldur þvert á móti, hið opinbera verði í öllum tilfellum að borga verkfræðingum miklu hærra en þeir jafnvel fóru fram á upphaflega. Ef þetta er rétt, hefur engum tilgangi verið náð, en ríkisvaldið hefur bara fengið vansæmd af þeirri árás, sem það hefur gert á þessa sérfræðingastétt, þessa ómissandi sérfræðingastétt. Ef það, sem ég nú upplýsti síðast, hefur við rök að styðjast, er augljóst, að þetta tilræði ríkisvaldsins við verkfræðingastéttina hefur orðið til þess að gera þjónustu verkfræðinga í raun og veru dýrari en hún hefði orðið áreiðanlega, ef samningum hefði verið haldið áfram við þá og frá þeim gengið með eðlilegum hætti.

Ég tek eftir því, að það er hæstv. landbrh., Ingólfur Jónsson, sem hefur farið út á þessa brbl.-braut gagnvart verkfræðingunum. Hann hafði áður spreytt sig með brbl. gagnvart flugmönnum, og það er svo, illu heilli, að bændastéttin verður að búa við eins konar gerðardómsákvarðanir um sitt afurðaverð, og ríkir í þeirri stétt engin ánægja með þá tilhögun. Hatrammast er þetta gagnvart verkfræðingunum, sem höfðu stofnað sitt löglega stéttarfélag, og ný lög eru sett, þegar það starfar samkv. gildandi löggjöf landsins og á í vinnudeilu, þá er brbl, beitt gegn þeim. Opinberir starfsmenn hafa fengið kjaradóminn, en verið synjað um verkfallsrétt. Jú, það var ekki lítil lukka með fyrsta kjaradóminn, sem kveðinn var upp. En svo sýndi hann sig í annað sinn, og þá minnkaði lukkan heldur með hann. Þá gátu samtök opinberra starfsmanna ekki betur séð en kjaradómurinn væri orðinn verkfæri í hendi ríkisvaldsins og endurskoðunarrétturinn, sem átti að skapast, þegar almennar launahækkanir yrðu í landinu, hefði verið virtur að vettugi. Það höfðu orðið eftir að kjaradómur kvað fyrst upp sinn dóm, miðaðan við 1. júlí 1963, orðið almennt 15% kauphækkanir í landinu. Opinberir starfsmenn eða samtök þeirra töldu sig eiga rétt á, að fyrri kjaradómur yrði þá endurskoðaður og dómur felldur um það, að hve miklu leyti þeir ættu að fá hliðstæða launahækkun. En þeim var úrskurðað, að þeir skyldu enga launahækkun fá. Síðan hefur ekki ríkt ánægja með þann gerðardóm hjá hinum fjölmennu og sterku samtökum opinberra starfsmanna.

Það er nokkuð síðan l. um verðlagsráð sjávarútvegsins voru sett. Í þeim l. er ákvæði um, að fiskverð skuli ákveðið af gerðardómi, gerðardómi, sem samansettur sé af fulltrúum fiskkaupenda, fulltrúum sjómanna og fulltrúa frá ríkisvaldinu. í öll skipti hefur þessi gerðardómur klofnað og úrskurður verið felldur um fiskverðið af meiri hl. gerðardómsmanna gegn minni hl., þangað til nú síðast kastaði tólfunum, þá var kveðinn upp gerðardómur um fiskverð og þannig ákveðin lífskjör sjómanna í landinu gegn fulltrúum fiskkaupenda í dómnum, gegn fulltrúum sjómanna í dómnum, af einum ríkisembættismanni, sem sjaldan hafði á sjó komið, þ.e.a.s. manni, sem var ekki gerkunnugur, — það er a.m.k. ekki ofsagt, ekki gerkunnugur sjómennsku og fiskveiðum og átti þó að fjalla um þetta sem dómari. En bezt er að líta á það mál ópersónubundið. Þarna hefur það gerzt, að í gerðardómi, sem á að kveða upp úrskurð um lífskjör sjómannastéttarinnar, getur ríkisembættismaður í dómarasæti gegn öllum hinum dómendunum ráðið niðurstöðu og haft ákvörðunarvaldið í sinni hendi.

Halda menn nú virkilega, að þetta gerðardómsform sé til þess fallið að setja niður stéttadeilur í þjóðfélaginu? Nei, ég fullyrði, að við erum búnir að fá þá reynslu af gerðardómum, að það fer að verða öllum ljóst, að þeir verða til að sá sæði ófriðar og illinda innbyrðis í stéttum og milli stétta og milli stétta og ríkisvalds, svo að það liður ekki á löngu, þangað til þeir verða fordæmdir af öllum og enginn vill þeim lúta. Ég get sagt frá því, að nú er verðlagsráð sjávarútvegsins í upplausn. Það er í upplausn, eftir að dómendurnir voru þar beittir því gerræði, að einn úrskurðaði móti öllum hinum. Sumir af meðlimum verðlagsráðs sjávarútvegsins eru hættir að starfa, neita að mæta þar, og dómurinn er að verða óstarfhæfur, hann er að leysast upp. Þannig er nú að fara um þá sjóferð. Það átti að vera ósköp einfalt og þægilegt fyrir ríkisvaldið að ákvarða fiskverð í landinu og geta, ef svo bæri undir, falið einum embættismanni ríkisins að gera það, gegn þeim aðilum báðum, sem það mál varðar sérstaklega.

Þetta mál hefur verið mikið rætt í hv. Ed. og þar gerðar á því tvær smávægilegar breytingar. Önnur þeirra er þó ekki alveg þýðingarlaus. Hún er, eins og ég áðan drap á, um það, að þessi lög, ef þau verða samþ. af Alþingi, skuli ekki gilda nema til ársloka 1965. Það er betra en þau séu ótímabundin. En þó er ég sannfærður um, að það verða látlaust bornar fram till. á Alþingi um það, að þessi lög verði felld úr gildi, strax og næsta Alþingi kemur saman. Ef þetta frv. verður nú samþ., munu verða borin fram frv, um það, að þessi þvingunarlög verkfræðingastéttarinnar verði numin úr gildi. Og það verður að prófa það, hvort það er hinn frjálsi vilji Alþingis Íslendinga að taka þannig eina stétt út úr og beita hana lagaofbeldi.

Ég sé, að þeir menn, sem hafa mælt með því í hv. Ed., að frv. yrði samþ., eru þeir hv. 12. þm. Reykv., Eggert G. Þorsteinsson, hv. 10. þm. Reykv., Ólafur Björnsson, og hv. 6. þm. Norðurl, e., Magnús Jónsson. Ég er dálítið undrandi á því, að þessir tveir fyrstnefndu menn skuli geta mælt með svona frv. Það er þá í fyrsta tagi Ólafur Björnsson prófessor, hv. 10. þm. Reykv., hann var um langt árabil í stéttasamtökum. Hann var forustumaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um alllangt skeið. Þau samtök höfðu þá ekki verkfallsrétt og börðust undir hans forustu fyrir því að fá þann rétt, samningsrétt, frjálsan samningsrétt og verkfallsrétt, og þau berjast fyrir því að fá verkfallsréttinn enn þá, samningsréttinn klipptan og skorinn hafa þau hins vegar fengið. Ég hefði haldið, að þessi annars ágæti maður og sanngjarni hefði verið minnugur þess, að hann hafði árum saman í fylkingarbrjósti samtaka opinberra starfsmanna barizt fyrir þeim rétti, sem hér er verið að svipta eina af þeim stéttum, sem hafði þennan rétt, og ég hefði því helzt ekki trúað því, að hann legði nafn sitt við slíkt. En hér stendur það svart á hvítu, hann leggur til, að frv. verði samþykkt. Enn síður hefði ég þó viljað trúa því, að menn úr röðum hinnar almennu verkalýðshreyfingar kæmu hér fram á hv. Alþingi og mæltu með því, að frv., sem bannaði verkföll og svipti eina stétt manna samningsrétti, yrði samþykkt. En það gerir þó engu að síður hv. 12. þm. Reykv., Eggert G. Þorsteinsson. Hann var um langt skeið formaðúr Múrarafélags Reykjavíkur, félags, sem hafði samnings- og verkfallsrétt og mér er kunnugt um það, að þessi maður telur samnings- og verkfallsréttinn vera helgasta rétt allra frjálsra verkalýðssamtaka, og ég veit, að ef hans stéttarfélag, Múrarafélag Reykjavíkur, hefði átt í hlut og frv, verið borið fram um það á Alþingi að svipta það verkfallsrétti, þá hefði hann aldrei látið það á sig ganga að samþykkja það. En hitt fæ ég ekki skilið, að maður með slíka afstöðu skuli geta skrifað undir nál. um það á Alþingi, að hann mæli með því, að frv. verði samþykkt um að svipta Verkfræðingafélag Íslands samningsrétti og verkfallsrétti. Ég get ekki komið því heim og saman, hvernig einn og sami maður gæti verið reiðubúinn til að verja samnings- og verkfallsrétt eins stéttarfélags, en mæla með því, að annað stéttarfélag sé svipt þessum rétti. En svona geta menn nú stundum verið tvískiptir í afstöðu til mála.

Ég álít, að það sé gerræði hið mesta að setja lög, sem banni einni stétt samnings- og verkfallsrétt, og ég tel það til einskis sóma fyrir Alþingi Íslendinga að afgreiða frá sér slíka löggjöf. Ég hefði viljað bera fram eindregin tilmæli til hæstv. ráðh. um að taka þetta frv. aftur nú á síðustu stundum þingsins, eða ef hann fyrir metnaðar sakir þykist endilega þurfa að fá sín brbl. staðfest, að hann þá gæfi yfirlýsingu um það, að hann mundi annað tveggja gefa út brbl. um að nema þau úr gildi milli þinga eða lofa því að beita sér fyrir að flytja fn. um, að l. væru felld úr gildi í upphafi næsta þings. Öll þessi úrræði eru skárri heldur en ætla sér að knýja það fram í nafni þess hæpna þingmeirihl., sem stjórnarflokkarnir hafa á bak við sig, að svipta eina stétt svo dýrmætum mannréttindum sem hér er um að ræða, þegar það er þá margsinnis upplýst, að til þess rekur einnig nauður. Það er búið að gera upp þann gerðardóm, sem hér átti að kveða upp. Gerðardómurinn hefur starfað. L. eru hér eftir dúk og disk, og ég er sannfærður um það, að þó að þetta frv. verði lögfest, verður aldrei í það ráðizt aftur að kveða upp gerðardóm um kjör verkfræðinganna. Þau eru því pappírsgagn eitt. En að hafa slíka mannréttindasviptingu í lagasafni Alþingis, það er vanvirða, og þess vegna á að komast hjá því.

Ég vil enn, hæstv. forseti, fara þess á leit, að hæstv. ráðh. séu gerðar kunnugar þær spurningar, sem ég bar hér fram og allar snerta þetta mál mjög og ég á rétt á að verði svarað, áður en umr. lýkur, og bið því forseta enn að gera til þess ráðstafanir, að hinn önnum kafni hæstv. ráðh. komi hér til þess að vera viðstaddur við umr. þess máls, sem hann hefur sjálfur lagt fyrir Alþingi. Það er alveg óviðunandi fyrir Alþingi, að ráðh. skuli vera fjarverandi, þegar þeirra mál eru rædd, allra helzt þegar um deilumál er að ræða, mál, sem menn þurfa að eiga orðastað við ráðh, um, því að það er ekkert skemmtilegt fyrir mig eða aðra þm. að deila á fjarstadda menn, hvort sem það eru ráðh. eða aðrir. En í þessu tilfelli er það þó verst að geta ekki fengið nauðsynlegar upplýsingar um það mál, sem verið er að ræða, því að þess er engin von, að annar hæstv. ráðh., sem hér er staddur, geti, þó að hann hafi vilja til þess, hlaupið í skarðið fyrir þann ráðh., sem hér á hlut að máli, að því er svör við þessum spurningum viðkemur, enda býst ég varla við því, að hann geti gefið nein svör núna við umr. Skyldi það þó tekið gott og gilt, ef hann gæti það, en þannig eru mál vaxin, að þess er alls ekkí að vænta.

Ég skal svo láta máli mínu lokið í þetta sinn, en vænti þess, að svör ráðh, liggi fyrir, áður en umr. er lokið, og mundi þá e.t.v. segja nokkur orð að fengnum svörum hæstv. ráðh.