13.12.1963
Efri deild: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

97. mál, ríkisreikningurinn 1962

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. fann að því, bæði í upphafi og lok ræðu sinnar, að Alþingi væri ætlaður of skammur tími til athugunar á ríkisreikningi, ef ætlunin væri að afgreiða lögin um samþykkt á honum fyrir jól. Það var áður fyrr, eins og hv. frsm. fjhn. tók fram, venja eða réttara sagt óvani, að Alþingi fékk ríkisreikning til samþykktar ekki fyrr en nokkrum árum eftir reikningsárið. Stundum var 3–4 ára gamall reikningur hér á ferðinni. Það þarf auðvitað ekki að rökstyðja, hversu fráleitt það er, að ríkið hagi sinni reikningsfærslu og staðfestingu sinna reikninga með þeim hætti. Það þykir sjálfsagt í hverju sæmilega reknu fyrirtæki að gera reikninga upp og ganga endanlega frá þeim sem allra fyrst eftir lok reikningsárs. En að þessu leyti hefur þessi ósiður ríkt hjá ríkinu. Á síðustu árum hefur verið reynt að kippa þessu í lag og leggja frv. til samþykktar á ríkisreikningi fyrir Alþingi fyrr en áður í fyrra tókst það í fyrsta sinn að fá reikninginn endanlega afgreiddan frá Alþingi á næsta ári eftir reikningsárið, þ.e.a.s. fyrir árslok 1962 var hér endanlega afgreiddur reikningur ríkisins fyrir árið 1961. Ætlunin er að fá þetta frv. einnig samþykkt fyrir áramót, og þó að nokkurrar þrákelkni gæti hjá hv. framsóknarmönnum í þessu efni að halda við hinum gamla ósið, þá ætla ég þó og vona, að þeir sannfærist um, að hér er stefnt í rétta átt og að slík málsmeðferð er til bóta fyrir öll fjármál og reikningsfærslu ríkisins.

En kvörtunin um það, að Alþingi hafi of skamman tíma til þess að athuga reikninginn, er ekki á rökum reist. Hv. þm. miðar við það, að frv. og reikningnum prentuðum með aths. yfirskoðunarmanna var ekki útbýtt fyrr en s.l. mánudag eða 9. des. En hann sleppir að geta þess, að hv. alþm. fengu reikninginn prentaðan í hendur 21. okt. s.l., þ.e.a.s. reikninginn allan, en þá höfðu yfirskoðunarmenn ekki lokið aths. sínum og till., þegar svör lágu fyrir frá öllum ráðuneytum, og það eru þær aths., svör og till., sem nú fyrst liggja fyrir. Hins vegar hafa hv. þm. haft nærri 8 vikur til stefnu til þess að athuga sjálfan ríkisreikninginn, og ætla ég, að það sé ekki á rökum reist að kvarta um of skamman tíma.

Hv. þm. minntist á það, að tekjur ríkisins hefðu farið allmjög fram úr áætlun, eða um 300 millj. kr., og væru það tolltekjurnar, sem þar skiptu mestu máli. Ég heyrði ekki í hans ræðu, að hann bæri fram neina gagnrýni á þessu, en hins vegar er rétt að minnast þess, að stjórnmálablað eitt hér í bænum fann mjög að því, að fjmrh. skyldi hafa leyft sér að innheimta 300 millj. meiri tekjur í ríkissjóð en fjárlög höfðu áætlað, og hélt því fram, að ráðh. hefði gerzt sekur um hreint lögbrot og embættisafglöp með slíku athæfi. Sem betur fer hef ég nú ekki heyrt þessa fullyrðingu innan þingsalanna og vænti þess varla, að hún komi fram, þó að þetta blað standi nú mjög nærri þm. í þessari hv. d., en ég bendi á þetta sem dæmi um furðulegan málflutning og hversu fátt er til bjarga orðið, ef þarf að nota slíka hluti til árása á ríkisstj., því að það er vitanlega öllum ljóst, að það er ekki ólöglegt athæfi, heldur er það lögskylda hverrar ríkisstj. og embættismanna að innheimta tolla og önnur lögboðin gjöld, eftir því sem lög mæla fyrir, og upphæðin í fjárlögum er auðvitað aðeins áætlunarupphæð.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. minntist á 19. gr. fjárlaga og ríkisreiknings, óviss útgjöld, og gagnrýndi það, að útgjöldin hefðu þar farið fram úr áætlun um 3½ millj., voru áætluð 10 millj., en urðu 13½. Ég vil aðeins benda á það, að þessi umframgreiðsla á óvissum útgjöldum er lægri en þekkzt hefur áður. Ég lét fyrir nokkru gera samanburð á því yfir alllangt tímabil, hversu mikið óviss útgjöld hefðu í reynd farið fram úr áætlun fjári., og reyndust það, eins og menn vita, hafa orðið allháar upphæðir og háar prósentur oftast nær, og það var langlægsta hundraðstalan fyrir árið 1962. Því miður hef ég ekki þennan útreikning hér við höndina, en get kannske komið að honum síðar, svo að það er síður en svo, að það sé tilefni til ádeilu á þetta, þar sem svo er háttað sem ég nú lýsti. Það er auðvitað öllum vitanlegt, að óviss útgjöld er ákaflega erfitt að áætla með vissu, og það hefur verið löngum tilhneiging, bæði fyrir ríkisstj. og Alþingi, að fara ekki mjög hátt með þessi óvissu útgjöld, og þess vegna hafa þau, held ég, að jafnaði farið eitthvað fram úr áætlun, en sem sagt, hundraðstala þeirrar umframgreiðslu er minni á árinu 1962 heldur en áður.

Hv. þm. minntist á Reykjanesbraut og aths. yfirskoðunarmanna út af færslu vegagerðarinnar á tilkostnaði við hana og lántökum til hennar. Hér er um að ræða hreint bókhaldsatriði. Það kemur, eins og í svari samgmrn. greinir, skýrt fram, hvernig í málunum liggur, og spurningin, hvort átti að láta það nægja að láta þetta sjást í aukningu vegagerðarinnar eða taka það inn á sjálfan ríkisreikninginn, en auðvitað var hér engu verið að leyna. Hér er samt um hreint bókhaldsatriði að ræða, og hafa að sjálfsögðu verið gefin fyrirmæli um það að haga þeirri færslu framvegis eins og yfirskoðunarmenn hafa lagt til.

Þá minntist hv. þm. á nefndir og sagði, að ég hefði talað, mjög skömmu eftir að ég tók við þessu starfi, um fækkun nefnda, en það virtist nú ekki hafa færzt til betri áttar en áður, heldur jafnvel versnað. Þetta sagði hv. þm. Ég vil láta mér nægja að svara með aths. yfirskoðunarmanna um þetta málefni, í 23. aths. yfirskoðunarmanna við reikninginn fyrir 1961 segja þeir, með leyfi hæstv. forseta: „Árið 1960 voru á 19. gr. um 60 nefndir. Samkv. ríkisreikningnum eru nú rúmar 20 nefndir.“ Og í aths. þeirra um reikninginn 1962 skýrðu þeir frá því, að n. séu 17, sem voru 1960 60 að tölu. Ég ætla, að þetta tali skýru máli um það, að nefndunum hefur ekki farið fjölgandi, heldur fækkandi.

Þá minntist hv. þm. loks á ríkisendurskoðunina. Eins og hv. þdm. er kunnugt, er endurskoðunin á ríkisreikningnum tvenns konar. Annars vegar er endurskoðun hinna þriggja yfirskoðunarmanna, sem kosnir eru af Alþingi. Hins vegar er ríkisendurskoðunin, sem fastir embættismenn og starfsmenn ríkisins annast allt árið um kring. Það er hin síðarnefnda, sem stundum er kölluð hin umboðslega endurskoðun. Nú er það svo, að þessi umboðslega endurskoðun hefur jafnan verið alllangt á eftir um ýmsar stofnanir og starfsgreinar ríkisins. Þannig hefur það stundum verið, að hún hefur ekki komizt til þess að endurskoða reikninga einstakra fyrirtækja eða stofnana fyrr en 3–4–5 árum á eftir. Á þessu hefur hins vegar orðið veruleg breyting nú hin allra síðustu ár, þannig að hún er miklu skemmri tíma á eftir nú en fyrr. Og að því er stefnt að gera hér enn meiri umbætur á og helzt að koma þeirri skipan á, að þessi umboðslega endurskoðun geti farið fram jafnóðum, sem kallað er, þ.e.a.s. hún fari fram annaðhvort að staðaldri eða öðru hverju á sama ári og gjöld og tekjur verða til eða eru innt af hendi. Þessi endurskoðun, sem færi fram þannig jafnóðum, en ekki eftir á, er auðvitað æskileg, en hún kostar töluvert aukið starfslið hjá ríkisendurskoðuninni og verður þess vegna miklu dýrari en sá háttur, sem hingað til hefur verið á hafður. Þó er þessi endurskoðun jafnóðum komin á hjá nokkrum deildum eða stofnunum ríkisins. Það hefur aldrei, svo að mér sé kunnugt, verið talin ástæða til þess að fresta samþykkt Alþingis á ríkisreikningi vegna þess, að ríkisendurskoðunin eða umboðslega endurskoðunin hefði ekki að fullu lokið endurskoðun allra reikninga fyrir umrætt ár. Það hefur mér vitanlega aldrei komið fyrir. Hins vegar má ráða það af eðli málsins, að þegar reikningur er ekki lagður til samþykktar fyrir Alþingi fyrr en kannske 3–4 árum á eftir, er auðvitað hinni umboðslegu endurskoðun nokkru lengra á veg komið en þegar unnt er að afgreiða reikninginn strax árið eftir reikningsár.

Ég ætla, að þessar aths. nægi, en vil þó bæta því við, að þó að ríkisendurskoðunin hin umboðslega. hafi ekki að fullu lokið endurskoðun á öllum reikningum fyrir árið 1962, þá hefur það að sjálfsögðu engin áhrif á þann reikning eða reikning þess árs. Ef kynnu að koma fram einhverjar skekkjur eða villur, sem leiðrétta þarf, koma þær að sjálfsögðu fram í ríkisreikningi árið eftir. Og að því leyti sem endurskoðunin gefur tilefni til þess, að einhverjar áminningar eða umvandanir séu um hönd hafðar við viðkomandi starfsmenn, þá er auðvitað nákvæmlega eins hægt að koma þeim við, þótt eitthvað seinna verði.

Ég vil taka þetta sérstaklega fram varðandi endurskoðunina, vegna þess að af hálfu hv. framsóknarmanna hefur ekki aðeins nú, heldur áður verið gefið í skyn jafnvel, að endurskoðuninni miði verr áfram nú en áður, sem er alveg þvert á móti staðreyndum. Hún hefur stórbatnað frá því, sem áður var. Og í öðru lagi er talað eins og það sé fráleitt, að Alþingi afgreiði reikninginn, nema hin umboðslega endurskoðun liggi fyrir um hvern einasta reikning. Það hefur aldrei átt sér stað, og er engin ástæða til þess heldur að bíða eftir því.