09.12.1963
Neðri deild: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni yfir því, hversu rækilega hv. formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa rætt það frv., sem hér er um að ræða. En báðir formenn stjórnarandstöðuflokkanna hv. þm. Lúðvík Jósefsson og hv. þm. Eysteinn Jónsson, hafa haldið mjög ýtarlegar og langar ræður um málið. Með því undirstrika þeir það, sem ríkisstj. einnig telur að hér sé um mjög mikilbægt mál að ræða. En ástæðan til þess, að ég fagna því, að þeir skuli hafa tekið frv. jafnalvarlega og raun ber vitni um, en einnig sú, að ég tel, að afstaðan til þessa frv. eða frv. eins og þess, sem hér er um að ræða, sé í raun og veru mjög góður prófsteinn á það, hvort stjórnarandstaðan er málefnaleg eða hvort hún er ekki málefnaleg. Það gefur mér tilefni til að svara málflutningi hv. stjórnarandstöðu nokkuð rækilega, einmitt þetta atreiði, að ég tel hér um að ræða mjög skýran og glöggan prófstein á það, hvort stjórnarandstaðan vill vera málefnaleg í andstöðu sinni eða hvort hún kýs hina auðveldu lýðskrumsleið í afstöðu til mála.

Hver er kjarni þess máls, sem hér er um að ræða? Í raun og veru er hann augljós Kjarninn er sá, að uppi eru nú og uppi hafa verið mörg undanfarin ár mjög sterkar óskir um aukin endurkaup afurðavíxla, þ.e. um aukin útlán af hálfu Seðlabankans til landbúnaðar og sjávarútvegs, og uppi hafa verið háværar óskir um, að Seðlabankinn tæki einnig að lána iðnaðinum með hliðstæðum hætti og hann nú lánar landbúnaði og sjávarútvegi. Nú á þessu hausti þarf að auka afurðalán í endurkaupaformi til landbúnaðar um um það bil 100 millj. kr., og nú á þessu hausti er auk þess augljóst, að það þarf að auka útlán til sjávarútvegs vegna hækkað rekstrarkostnaðar hans og óskir af hálfu iðnaðarins um lán úr Seðlabankanum til hans virðast aldrei hafa veri sterkari en einmitt nú, og undir þær er mjög sterklega tekið hér á hinu háa Alþingi.

Kjarni málsins er sá, höfuðrökin fyrir flutningi þessa frv. eru viðurkenning ríkisstj. á þeirri staðreynd, að þróun mála hefur verið sú að það þarf að auka lán til sjávarútvegs, landbúnaðara og iðnaðar, án þess að sparnaður í landinu vaxi? Er hægt að deila um þá staðhæfingu að útlán verða ekki aukin til atvinnuvega þjóðarinnar né heldur til einstaklinga, nema að baki þeirri útlánaaukningu standi aukinn sparnaður? Þarf í rauninni að vera að deila um þessa staðhæfingu hér á hinu háa Alþingi? Treystir maður, sem veri hefur fjmrh. lengur en nokkur annar íslenzkur maður, sér til að andmæla því, að það sé rétt, að eini grundvöllurinn undir heilbrigðri útlánaaukningu, hvort heldur er til sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar, er aukinn sparnaður í landinu? Því trúi ég ekki. M.ö.o.: ef hægt á að vera að auka útlæan til sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar, þarf það að gerast af auknum sparnaði þjóðarinnar í heild auknum sparnaði þjóðarbúsins í heild. Og sá aðili , sem auknu útlán á að hafa með höndum þar að hafa yfir að ráða hluta af sparnaði þjóðarinnar sem hinum auknu útlánum svara. Hér er um að ræða svo einfaldar staðreyndir og svo augljósar staðreyndir, að ég skil ekki í því, að um þær getir í raun og veru verið ágreiningur meðal viti borinni manna. Ætti það í raun og veru að vera gagnslítið að vera að þyrla upp moldviðri um atriði, sem eru alger aukaatriði í málinu, en hliðra sér hjá að ræða um þessa meginstareynd, sem er aðalatriðið í málinu, sem er kjarni málsins.

Sá aðili, sem á að hafa með höndum útlán til undirstöðuatvinnuveganna, þarf að eiga hlutdeild í heildarsparnaði þjóðarinnar, og ef einhverjum aðila í bankakerfinu er ætlað að auka útlán sín, hvort heldur er til landbúnaðar sjávarútvegs eða iðnaðar, þarf samtímis að auka hlutdeild þessa sama aðila í heildarsparnaði þjóðarinnar. Þetta er kjarni málsins og þessi kjarni málsins verður alderi nógu oft undirstrikaður, á honum verður ekki hamrað nóg , því að það er eins og til séu þeir menn, — ég trúi því ekki um hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson — að til séu þeir menn, sem hafa ekki gert sér þennan einfalda sannleik algerlega ljósan. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að ef hv. þm. Eysteinn Jónsson eða ef hv. þm. Lúðvík Jósefsson bæri bankastjóri væri engum mönnum ljósara en einmitt þeim, að þeir lána ekki út annað fé en það, sem þeir fá til umráða. Þó að hæfileikamiklir menn séu, þá eru þeir ekki þeim hæfileika gæddir að geta búið til fé í þeim stofnunum, sem þeim í því tilfelli hefði verið trúað fyrir. Þeir lána út það fé, sem þeim er trúað fyrir, meira mundu þeir ekki lána út, enda gætu þeir ekki lánað út meira.

Það, sem hér er um að ræða, er að uppi eru óskir um, að Seðlabankinn auki útlán til landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar, og ríkisstj. telur þær óskir vera eðlilegar og réttlætanlegar, og hún vill fyrir sitt leyti stuðla að því, að Seðlabankinn geti aukið útlán sín til landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar. Þá kemur að því: Hvernig á að gera Seðlabankanum þetta kleift? Ef það er haft í huga, að sömu reglur hljóta að gilda um Seðlabankann og aðra banka, hann ráðstafar ekki meira fé en því, sem honum er fengið, hafi menn einu sinni fyrir allt gert sér ljóst, að þær sömu reglur gilda um starfsemi seðlabanka og annarra banka, að hann ráðstafar ekki meira fé en því, sem hann hefur til umráða, þá er alveg augljóst mál, að ef ætlazt er til þess, að hann auki útlán sín, þá verður að fá honum meira fé til umráða. Og það er kjarni þessa frv. að fá Seðlabankanum meira fé til umráða en hann hefur haft til þess að gera honum kleift að auka sína útlánastarfsemi.

Önnur leið hefði að vísu komið til greina, sem ég ræddi nokkuð um í framsöguræðu minni og skal fara um fáeinum orðum. Það má segja, að það sé í raun og veru alls ekki hlutverk seðlabanka að annast kaup afurðavíxla, þ.e. annast lán til rekstrar atvinnufyrirtækja. Það er hlutverk viðskiptabanka. Þeir fá umráð yfir heildarsparnaði þjóðarinnar. Um leið hefði því sannarlega komið til greina, að Seðlabankinn hefði beinlínis hætt öllum endurkaupum, hefði hætt öllum lánum til sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar og sagt: Þetta er viðfangsefni viðskiptabankanna, þeir eiga að annast þetta viðfangsefni, og Seðlabankinn er reiðubúinn til þess að afhenda viðskiptabönkunum það fé, sem við nú höfum bundið í lánum til sjávarútvegs og landbúnaðar, — hann kaupir enga iðnaðarvíxla. — Það hefði komið til greina, önnur leiðin hefði verið sú, að Seðlabankinn afhenti viðskiptabönkunum það fé, sem hann nú hefur bundið í sjávarútvegi og landbúnaði, og segði: Þið skuluð halda áfram að lána þetta fé út, og þið skuluð þá taka á ykkar herðar þá auknu lánsfjárþörf, sem fyrir hendi er í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, enda fáið þið til umráða alla sparifjáraukningu þjóðarinnar. Þið hafið til umráða allt sparifé þjóðarinnar. — Þetta hefði fræðilega séð vel komið til mála. En af mörgum ástæðum er ríkisstj. þeirrar skoðunar, að miðað við íslenzka staðhætti sé þetta ekki heppileg leið, og hefur því ekki viljað stuðla að því, að þessi leið yrði farin.

Ég skal ekki eyða tíma í að rökstyðja það, hverjar orsakir liggja til þessarar afstöðu, en þetta er einnig afstaða Seðlabankans og þó alveg sérstaklega er þetta afstaða stærstu ríkisbankanna eða ríkisbankanna yfirleitt, að þessi leið væri ekki heppileg, hentaði ekki íslenzkum aðstæðum. Því hefur ríkisstj. viljað miða aðgerðir sínar við það, og um það eru ríkisstj. og Seðlabankinn sammála, að Seðlabankinn hafi áfram með höndum afurðalán til sjávarútvegs og landbúnaðar og undirbúi að taka að sér afurðalán til iðnaðar, og að Seðlabankinn auki þessi lán á næsta ári frá því, sem þau voru á þessu ári og hafa verið undanfarin ár. En af því leiðir óhjákvæmilega, að nauðsynlegt er að gera ráðstafanir til, að Seðlabankinn fái aukna hlutdeild í sparnaði þjóðarinnar frá því, sem hann hefur haft. Ef því hlutverki er í auknum mæli létt af viðskiptabankakerfinu að annast útlán til sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar, verður viðskiptakerfið líka á móti að afsala sér auknum hluta af heildarsparnaðinum til þess aðila, sem á að hafa útlánaaukninguna með höndum. Þetta er umbúðalaus kjarni málsins, og það er alveg sama, hvaða moldviðri menn reyna að þyrla upp í kringum þennan kjarna, þeir, sem eru glöggskyggnir á eðli málsins, og þeir, sem gera tilraun til að setja sig inn í eðli málsins, hljóta að viðurkenna, að þessar meginstaðreyndir eru réttar. Ef menn samt sem áður tala gegn þeim og vilja, að breytt sé gegn þessum staðreyndum, þá eru menn að víkja af vegi sannleikans, þá eru menn að víkja af vegi ábyrgrar afstöðu í málinu, og þá hafa menn tekið upp lýðskrumsafstöðu í málinu, þá einföldu afstöðu lýðskrumarans að segja við þá, sem þurfa á lánum að halda: Við viljum, að þér sé lánað aukið fé, — en breyta jafnframt þannig gagnvart þeim, sem eiga að lána féð, að þeir hafi ekki meira fé að lána. Þetta er afstaða lýðskrumarans, hins ábyrgðarlausa manns í máli eins og þessu, að segja við manninn, sem til nauðsynlegra hluta þarf á að halda auknu lánsfé: Þú átt að fá það, bankakerfið á að lána þér það, — en neita jafnframt að gera ráðstafanir til, að bankarnir geti veitt þessi auknu lán eða sá aðili í bankakerfinu, sem á að veita lánið, hafi aðstöðu til þess.

Það er meginkjarni í þeim aukaatriðaáróðri, sem þyrlað er upp í sambandi við þetta mál, bæði hér á hinu háa Alþingi og í blöðum, að undirstrika í sífellu, að verulegur hluti af sparifé landsmanna sé bundinn, sé frystur í Seðlabankanum. Ekki veit ég, hve oft hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, hefur sagt það í langri ræðu sinni hér áðan og á fundi fyrir nokkrum dögum, að spariféð hafi verið tekið úr umferð, það sé einn megingallinn á peningamálastefnu núv. ríkisstj., að hún hafi tekið spariféð úr umferð í stað þess að lána það út, í staðinn fyrir að halda því í útlánum, halda því í umferð. Hér er í raun og veru beitt mikilli blekkingu. Það er beinlínis rangt, — og það held ég að verði ekki sagt með nógu miklum áherzluþunga — það er beinlínis rangt, að Seðlabanki Íslands frysti nú nokkurt sparifé. Það er beinlínis rangt, að Seðlabankinn hafi tekið nokkurt sparifé úr umferð í þeim skilningi, að hann hafi fryst það, að hann hafi komið í veg fyrir, að spariféð sé notað til heilbrigðra þarfa í íslenzku efnahagslífi. Það er beinlínis rangt. Og sönnunina fyrir því, að þetta er rangt, skýringuna á því má fá með því að líta á reikninga Seðlabankans. Um reikninga Seðlabankans er það — mér liggur við að segja: því miður — að segja, að þeir eru, eins og bankareikningar oft, svo flókið skjal, að almenningur áttar sig ekki á því, hvað í raun og veru í því felst, og í skjóli þessa, að reikningar Seðlabankans eru mjög torskildir öllum almenningi, beinlínis í skjóli þessa er þeirri falsröksemd haldið á loft, ekki aðeins dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, heldur ár eftir ár, að Seðlabankinn hafi undanfarið og sé enn að frysta, að taka úr umferð, að hindra notkun einhvers verulegs hluta af sparifé landsmanna. En það er auðvitað hægt að gera reikninga Seðlabankans einfalda með því að draga liði þeirra saman, þá sem saman eiga, til þess að gera myndina ljósa og auðskilda — að ég held megi segja — hverju barni.

Ef reikningar Seðlabankans nú í októberlok eru dregnir saman og skýrðir, kemur í ljós, að heildarráðstöfunarfé Seðlabankans var þá 2291 millj. kr. Það fé, sem Seðlabankinn hafði umráð yfir og getur ráðstafað, var 2291 millj. kr. Í grundvallaratriðum er þetta fé þrenns konar. Það er í fyrsta lagi sjálft stofnfé bankans, sem er 1309 millj, kr., þ.e. seðlaveltan, eigið fé og mótvirðisfé. Þá hefur Seðlabankinn umráð yfir innlögum bankakerfisins samkv. hinum margumtöluðu bindingarreglum, því fé, sem kallað hefur verið bundið fé, að upphæð 756 millj. kr. Enn fremur hefur bankinn umráð yfir frjálsum innlögum banka og peningastofnana og frjálsum innlögum ríkissjóðs, samtals að upphæð 226 millj. kr. M.ö.o.: þessar 2291 millj., sem Seðlabankinn hefur yfir að ráða, uppruni þeirra er þannig, að 1309 millj. eru eigið fé bankans, 756 millj. eru þessar svokölluðu bundnu innstæður og 226 millj. eru frjálsar innstæður frá bankakerfinu og ríkissjóði. Þetta er það fé, sem Seðlabankinn getur ráðstafað. Meira fé getur hann ekki ráðstafað með heilbrigðum hætti. Þegar ég segi, að hann geti ekki ráðstafað fé með heilbrigðum hætti, hefur Seðlabankinn einn banka í bankakerfinu þá sérstöku aðstöðu að geta ráðstafað fé með óheilbrigðum hætti, ef stjórn hans er ábyrgðarlaus, vegna þess að hann hefur yfir seðlaveltunni að ráða. Hann hefur formlegan rétt til að auka seðlaveltuna, prenta nýja seðla og skapa sér þannig aukið ráðstöfunarfé. Þá aðstöðu hafa viðskiptabankarnir ekki. Þeir geta aðeins ráðstafað því fé, sem þeir fá frá sínum viðskiptamönnum, sparifjáreigendum og fyrirtækjum, og fá frá Seðlabankanum. Þeir eru því alveg bundnir, en segja má, að Seðlabankinn sé ekki alveg bundinn að þessu leyti. Það hefur verið skálkaskjól margra óábyrgra seðlabanka og margra óábyrgra ríkisstj. að notfæra sér þetta, að seðlabanki er ekki bundinn að þessu leyti varðandi sitt ráðstöfunarfé. En reynslan hefur kennt mönnum — bankamönnum, stjórnendum og stjórnmálamönnum, að eitt það helzta, sem ber að varast í stjórn peningamála, er að misnota þessa sérstöðu seðlabanka, að hann hefur seðlaútgáfuréttinn.

Hvað gerir nú Seðlabankinn við þessar 2291 milljónir, sem hann hefur til heildarráðstöfunar? Við skulum sundurliða eignarhlið Seðlabankans með hliðstæðum, einföldum hætti.

Gjaldeyriseign bankans, gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar, nemur 1203 millj. Lán til sjávarútvegs og landbúnaðar í formi endurkeyptra víxla af viðskiptabönkum nema 921 millj. Og útlán stofnlánadeildar sjávarútvegsins, sem Seðlabankinn stjórnar, nema 167 millj. Þetta eru samtals 2291 millj. kr. M.ö.o.: ráðstöfunarfé Seðlabankans er að meira en helmingi bundið í gjaldeyrisvarasjóði þjóðarinnar, í gjaldeyriseigninni. Hinn helmingurinn er bundinn í útlánum til sjávarútvegs og landbúnaðar, að meiri hluta til í útláni til sjávarútvegs.

Nú spyr ég hv. alþm.: Í hverju er frystingin fólgin? Í hverju er það fólgið, að Seðlabankinn hefur tekið fé úr umferð? Í hverju er það fólgið, að hann sé að halda hluta af sparifé þjóðarinnar, þessum margumtöluðu 756 millj. kr., sem kallað er bundið fé, — í hverju er það fólgið, að hann sé að halda því frá skynsamlegri notkun í þágu íslenzks efnahagslífs? Hvað er það eignamegin í reikningi Seðlabankans, sem ætti ekki að vera þar? Er það kannske gjaldeyrisvarasjóðurinn Ekki trúi ég því, að þeir, sem eru að óska eftir auknum afurðalánum til sjávarútvegs og landbúnaðar, telji endurkaupaliðinn vera of mikinn eða stofnlánadeildin hafi of mikið í útlánum. Hvað er það eignamegin í Seðlabankanum, sem má missa sig? Hvað ætti að hverfa, ef bundna féð hyrfi, ef því yrði skilað aftur til viðskiptabankakerfisins? Er það ekki alveg augljóst mál, að ef Seðlabankinn skilaði þessu fé skyndilega aftur, sem að vísu enginn leggur út í, enginn er svo ábyrgðarlaus að leggja það til, þá yrði hann að afsala sér einhverju af sínum eignum. Eflaust yrðu það hvorki endurkaupavíxlarnir né lán stofnlánadeildarinnar, það yrði þá gjaldeyrisvarasjóðurinn. Till. um það, að Seðlabankinn skilaði bundna fénu svokallaða aftur, getur ekki verið annað en till. um að skerða gjaldeyrisvarasjóðinn um sömu upphæð, enda mundi það tvímælalaust verða niðurstaðan. Ég sagði áðan: Svo ábyrgðarlaus er enginn að leggja það til. — En menn segja: Það var rangt að binda féð. — Þetta hefur gerzt á þremur árum, þessi svokallaða binding sparifjárins í Seðlabankanum, sem í raun og veru er ekki annað en það, að viðskiptabankarnir hafa lagt allt að 30% af innstæðuaukningu sinni á sérstakan reikning í Seðlabankanum, — þessi svokallaða binding hefur gerzt á undanförnum rúmum þremur árum, og það er hún, sem menn gagnrýna og segja: Hún hefði aldrei átt að eiga sér stað, hún hefði aldrei átt að gerast. En ef hún hefði ekki átt sér stað, er alveg augljóst, að þá gætu eignir Seðlabankans nú ekki verið eins miklar og þær eru. Seðlabankinn gæti ekki í eignum, ekki einu sinni í reikningum, haft 2291 millj., ef hann hefði ekki nema 1500 millj. skuldamegin. Þá er spurningin: Hvaða eignaliður hefði ekki myndazt, hvaða eign hefði ekki myndazt, ef Seðlabankinn hefði ekki fengið bundna féð? Ég trúi því ekki, að það geti verið ætlun nokkurra manna, að það ætti að draga úr endurkaupunum eða láta þau vaxa mun minna en þau hafa vaxið.

En getur ekki verið ætlunin, samtímis því, sem þeir bera það uppi í sér, að endurkaupin séu of lítil og þurfi enn að vaxa. En eign, sem Seðlabankinn hefði ekki getað eignazt á undanförnum 3–4 árum, ef hann hefði ekki fengið bundna féð, er auðvitað gjaldeyrisvarasjóðurinn. Kjarni allrar þessarar umræðu, kjarni alls þessa máls er því sá að ef menn hafa í raun og veru verið á móti því, að Seðlabankinn fengi þetta svokallaða bundna fé til umráða, þá hafa menn verið á móti því, að landið eignaðist gjaldeyrisvarasjóð, sem því nemur. Það er kjarni málsins. Þennan kjarna finnst mér, að alþm. a.m.k. ættu að skilja og játa að þeir skilja. Sérstaklega verður að gera þá kröfu til þeirra, sem árum saman og áratugum hafa setið í ráðherrastólum og borið ábyrgð á meðferð fjármála og viðskiptamála, að þeir skilji atriði eins og þetta.

Síðan í ársbyrjun 1960 hefur ráðstöfunarfé Seðlabankans aukizt mjög verulega. Það hefur aukizt um 1457 milljónir króna. Ráðstöfunarfé Seðlabankans hefur síðan í ársbyrjun 1960 aukist um 1457 millj. kr. af ýmsum ástæðum, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja nákvæmlega. Og þá má auðvitað spyrja: Í hvað hefur þetta fé farið? til hvers hefur þetta fé gengið? Gjaldeyrisstaða Seðlabankans gagnvart útlöndum hefur á sama tímabili batnað um 1394 millj. kr. og endurkaup víxla sjávarútvegs og landbúnaðar hafa aukist um 63 millj. kr., samtals 1457 millj. kr. Af hinu aukna fé Seðlabankans, síðan núv. ríkisstjórn tók við völdum, hefur m.ö.o. næstum allt farið til að bæta gjaldeyrisstöðuna gagnvart útlöndum, sem var neikvæð, þegar ríkisstj. tók við völdum. Og hér má enn spyrja sömu spurningarinnar. Aukning ráðstöfunarfjárins er föst upphæð, um hana verður ekki deilt. Ráðstöfunarféð hefur aukist um þessar 1457 millj. kr., og spurningin er: Hvað átti að gera við ráðstöfunarféð? Ríkisstj. svaraði og sagði: Við eigum að nota aukna ráðstöfunarféð fyrst til að bæta gjaldeyrisstöðuna, eyða gjaldeyrisskuldinni og safna okkur gjaldeyrisvarasjóði. — Þetta hefur verið gert. Var þetta rangt? Afgangurinn hefur svo verið notaður til lítils háttar aukningar á afurðakaupalánunum. Er það þetta, sem er rangt? Það er bezt, að menn segi það alveg skýrt og það komi alveg skýrt fram: Er það þetta, sem er rangt hjá núv. ríkisstj., að ráðstöfunarfé Seðlabankans, aukning þess, skuli nær eingöngu hafa gengið til þess að bæta við gjaldeyrisvarasjóðinn?ef menn meina, að það hafi verið rangt, þá er bezt að menn segi það, segi það skýrt og ekki með neinni tæpitungu. Ríkisstj. er enn þeirrar skoðunar, að þetta kjarnaatriði í stefnu hennar hafi einmitt verið rétt. Til þess bar einna brýnasta nauðsyn að bæta gjaldeyrisstöðuna, því að hún var svo léleg, hún var svo alvarleg, þegar ríkisstj. tók við völdum.

Mér dettur auðvita ekki í hug að bera á móti því, að það var hægt að hegða sér öðruvísi, enda höfðu margar ríkisstjórnir áður hegðar sér öðruvísi. Auðvitað var hægt að nota þetta aukna ráðstöfunarfé, 1460 millj. kr., til að auka endurkaupin í stórum stíl. En þá skulu menn gera sér ljóst, hvað það hefði þýtt. Þá hefði gjaldeyrisvarasjóðurinn ekki batnað, því tvisvar verður sama krónan ekki notuð. Það er ekki hægt að nota sama ráðstöfunarfé bæði til að auka útlánin innanlands og til að bæta gjaldeyrisstöðuna og til að safna varasjóði. Þarna á milli verða menn að velja. Og það er að þora ekki að horfa framan í vandamálin, það er að þora ekki að viðurkenna sannleikann, ef menn reyna að tala sig frá því, að valið var um þetta. Ríkisstj., sem á undan sat, tók því miður þann kostinn að velja hina leiðina — tvær ríkisstjórnir sem á undan sátu, að frátalinni stjórn Emils Jónssonar, sem var stjórn til bráðabirgða, tóku því miður hinn kostinn, að það ráðstöfunarfé, sem Seðlabankinn fékk yfir að ráða, var notað fyrst og fremst til aukningar á afurðalánum. Hver var afleiðingin? Hún var mjög mikill greiðsluhalli gagnvart útlöndum, eyðing gjaldeyrisvarasjóðsins, sem safnazt hafi í árslok 1954, og söfnun stórkostlegra gjaldeyrisskulda, eins og ég mun víkja nánar að hér á eftir.

Ef við hverfum áratug aftur í tímann og viðum fyrir okkur, hvernig ástandið í þessum málum var þá, með hliðstæðum hætti og ég hef skýrt ástandið núna, virðum fyrir okkur reikninga Seðlabankans í árslok 1954, hafði Seðlabankinn ekki yfir að ráða neinu fé nema sínu stofnfé, og það nam þá, í árslok 1954,583 millj. kr. hvernig ráðstafaði hann þessu stofnfé sínu þá? Þá átti Seðlabankinn gjaldeyriseign að upphæð 110 millj. kr. Hann hafði í endurkaupum lánað sjávarútvegi og landbúnaði 275 millj., útlán stofnlánadeildarinnar nam 71 millj., og Seðlabankinn lánaði bönkum og öðrum peningastofnunum og ríkissjóði, átti inni hjá þeim 126 millj. kr. Þá hafði Seðlabankinn ekki yfir neinu fé að ráða öðru en stofnfé sínu. Og hann hafði það að 1/6 hluta bundinn í lánum til sjávarútvegs og landbúnaðar, og afganginn hafði hann í lánum hjá bönkum, sparisjóðum og hjá ríkissjóði. Þannig var ástandið í árslok 1954.

En svo skulum við virða fyrir okkur, hvernig ástandið var orðið eftir 5 ár, þ.e. í árslok 1959, í ársbyrjun 1960, þegar núv. ríkisstj. tók við. Við skulum athuga, hvaða breyting var orðin á aðstöðu Seðlabankans á næstu 5 árum, þ.e. næstu 5 árum áður en núv. ríkisstj. tók við, í árslok 1959, þá var eigið fé Seðlabankans, þá var stofnfé Seðlabankans 828 millj. (Gripið fram í.) Sú stefna, sem nú er fylgt í efnahagsmálum, það var tekið að beita henni frá árinu 1960. Þess vegna tel ég rétt, — hitt má gera líka, en það er því máli ekki viðkomandi, sem ég er að ræða hér, — en ef athuga skal, hvaða áhrif stefna núv. stjórnar í peningamálum hefur haft, þá verður að miða við áramótin 1959–60, því að áhrifa stefnunnar fór ekki að gæta fyrr en á árinu 1960. (Forseti: Ég bið hæstv. ráðh. afsökunar, en ég hafði lofað, að flokksfundir mættu hefjast kl. 3.30 og að fundi yrði þá slitið. Treystir hæstv. ráðh. sér til að ljúka ræðu sinni á einni eiða tveim mínútum?) Nei, það get ég ekki, — ef ég má aðeins ljúka þessum þankagangi, sem þarna er um að ræða. (Forseti: Hæstv. ráðh. heldur ræðu sinni áfram enn um skeið.) Stofnfé Seðlabankans var í árslok 1959 828 millj. kr. Hann hafði þá enn ekki bundið fé, en bankinn var í gjaldeyrisskuld erlendis að upphæð 191 millj. kr. M.ö.o.: hanna útvegaði sér ráðstöfunarfé með því að vera í skuld erlendis, svo að samtals hafði hann yfir að ráða 1019 millj. kr. Og þessum 1019 millj.kr. varði bankinn þannig, að í endurkaupum hafði hann 858 millj., útlán stofnlánadeildarinnar voru 55 millj. og hjá bönkum og ríkissjóði átti hann 107 millj. kr. Á þessum 5 árum var m.ö.o. sú breyting orðin á aðstöðu Seðlabankans, að í staðinn fyrir að eiga gjaldeyriseign, í staðinn fyrir að hafa eigið fé sitt að hluta bundið í gjaldeyriseign, var hann nú farinn að útvega sér ráðstöfunarfé með því að skulda erlendis. Það er þetta, sem hefur verið gersamlega snúið við með þeirri stefnu í peningamálum, sem ríkisstj. hefur fylgt, að í stað þess, að Seðlabankinn skuldaði erlendis, eins og hann gerði í ársbyrjun 1960, á hann nú inni erlendis um 1200 millj. kr. Og það er þetta fyrst og fremst, sem er afleiðing þeirrar stefnu sem núv. ríkisstj. hefur fylgt í peningamálum og ég mun gera enn rækilegri grein fyrir í framhaldi ræðu minnar á næsta fundi hv. deildar. [Frh.]