10.12.1963
Neðri deild: 28. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af því, sem hæstv. viðskmrh. hélt fram. — Svo var á honum að heyra, að stjórnin ætlaði að halda óbreyttri stefnu í peningamálunum, enda sjáum við það á þessu frv., sem hér liggur fyrir, að það muni vera ætlunin. Þó að þetta frv. hafi að yfirskini, að það skuli draga inn peninga úr viðskiptabönkunum til að lána þá í afurðalán framleiðsluatvinnuvegunum, þá fást engar yfirlýsingar frá hæstv. ráðh., eins og ég veit, að menn hafa tekið eftir, — þá fást engar yfirlýsingar frá honum um það, hversu mikið hugsunin væri að auka afurðalánin, hvað ætti að hækka afurðalánaprósentuna mikið, hún er núna 55% í sjávarútveginum og 53–55% í landbúnaðinum. Ég spurði, hvað væri þá hugsunin að hækka afurðalánaprósentuna mikið, en hæstv. ráðh. vék ekki að því einu orði.

Enn fremur spurði ég hæstv. ráðh. að því, hvort hann vildi ekki fallast á, að það yrði tekið inn í frv, ákvæði, til þess að ekki þyrfti að vera í vafa um, hvert væri stefnt, — ákvæði um, að það, sem bættist við bundnu innstæðurnar héðan af, yrði notað til þess að lána atvinnuvegunum. Þessu anzaði hæstv. viðskmrh. ekki heldur. Ég get vel skilið þetta. Það er vegna þess, að hæstv. ráðh. vill hafa óbundnar hendur um þetta. Þeir hugsa sér að halda áfram að draga spariféð inn í seðlabankakerfið og ætla sér ekki að lána það út fremur en þeim sýnist, ætla sér að hafa þarna meiri möguleika en áður til þess að binda sparifé í seðlabankakerfinu. En það er sannast að segja ósæmilegt, að hæstv. ráðh. skuli ekkí viðurkenna, að með því sé tekið lánsfé úr umferð miðað við það, sem ella væri, þegar féð er lagt inn í Seðlabankann og ekki lánað þaðan út aftur. Hvað er að taka fé út umferð, ef ekki þetta? Þetta fé, sem hlyti að vera í umferð, ef þessar ráðstafanir væru ekki gerðar, mundi áreiðanlega vera lánað út úr viðskiptabönkunum. Hæstv. ráðh. vildi samt í raun og veru ekki viðurkenna, að þeir hefðu gert ráðstafanir til að taka fé úr umferð. Þeir hafa þó dregið inn í Seðlabankann á 8. hundrað millj. á undanförnum árum og gert ráðstafanir til þess þar með, að það fé yrði ekki lánað út. Þetta kalla ég að draga inn, draga saman lánastarfsemina í landinu. En því miður mun það vera meiningin hjá þeim að halda þessu áfram, og þess vegna hefur hæstv. ráðh. hliðrað sér hjá því að svara spurningum þeim, sem ég beindi til hans.

En nú vil ég beina öðru til hæstv. ráðh., og það er þetta: Fyrst hann er svona heittrúaður á þessar aðferðir, sem þeir hafa haft í þessum efnum, að það leiði til góðrar niðurstöðu, vill hann þá skýra, hvað komið hefur fyrir, að þrátt fyrir þessa góðu eiginleika hafi leitt til meiri verðbólguþróunar og dýrtíðarþróunar en við höfum nokkru sinni áður átt við að búa. Hvað kemur til? Hvað hefur þá farið úrskeiðis, og hvernig ætlar hæstv. ráðh. sér að leysa verðbólguvandamálið með þeim aðferðum, sem hafa leitt til þessarar niðurstöðu? Auk þess skilst mér, að það sé hiklaust skoðun hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh., að efnahagsmálastefna stjórnarinnar hafi þar að auki haft í för með sér gífurlega ofþenslu. Það er þeirra túlkun, að nú sé í landinu gífurleg ofþensla, og verðbólguþróunina sjá allir, hvar sem litið er, og dýrtíðarvöxtinn. Það væri mjög æskilegt, að hæstv. ráðh. gerði grein fyrir því, hvernig stendur á þessu, að allt hefur mistekizt. Er það þá hans skoðun, að þetta sé svona fyrir það, að þeir hafi ekki dregið nógu mikið úr afurðalánunum til framleiðslunnar, að þeir hafi ekki dregið nógu mikið af fjármagni þjóðarinnar inn í Seðlabankann til þess að halda því úr umferð? Þetta hlýtur að vera hugsun ráðh., fyrst þeir ætla sér að nota sömu aðferðir áfram: að allt hafi farið svona úrskeiðis og sé komið í öngþveiti, vegna þess að þeir hafi ekki verið nógu duglegir að draga sparifé þjóðarinnar inn í Seðlabankann og halda því úr umferð, vegna þess að þeir hafi ekki verið nógu duglegir að draga úr afurðalánunum. Og ég spyr enn: Er það þetta, sem hæstv. ráðh. meinar með því að loka algerlega augunum fyrir því, hvernig komið er í efnahagsmálum landsins, og gerir sig þess í stað líklegan til að halda áfram að nota sams konar aðferðir við stjórn efnahagsmálanna og leitt hafa út í þetta öngþveiti.

Í þessu sambandi má svo minnast á, að hæstv. ráðh. viðhefur t.d. þess konar málflutning, að hann segir: Hafa bankalán samanlagt í landinu lækkað? Nei, þau hafa hækkað stórkostlega, svarar hann. Hann segir: Samanlögð bankalán í landinu hafa hækkað um 2000 millj. á nokkrum árum. Sýnir það lánasamdrátt? En ég spyr: Hvað hefur verðlagið hækkað? Hvað hafa fjárlögin hækkað? Fjárlögin hafa síðan 1958 hækkað sem allra næst um 1700 millj., bara fjárl. ein. Og svo segir ráðh.: Við höfum ekkert dregið úr útlánunum, því að útlánin hafa að krónutölu hækkað um 2000 millj. En hann sleppir því, að hækkun á útlánunum um 2000 millj. þýðir raunverulegan samdrátt vegna verðbyltingarinnar. Um það er ekkert að efast. Það væri fróðlegt, og ég mun gera það, ef þessum umr. heldur áfram, að bera saman, hvað lánað er út á afurðir landsmanna, sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir nú og hvað lánað var 1958 út á sömu afurðir. Þá mun koma í ljós, hvað gerzt hefur gagnvart undirstöðuatvinnugreinunum. Þá mun koma í ljós, að hækkunin á afurðalánunum er mjög lítilfjörleg í krónutölu samanborið við rýrnun á verðgildi peninganna og hækkun á öllum fjárhæðum yfirleitt í viðskiptalífinu. Enda þurfum við ekkert um þetta að deila, því að það er alveg augljóst, hverjar útlánareglurnar voru áður og hverjar þær eru núna. Áður voru útlánareglurnar þær, að Seðlabankinn endurkeypti sem svaraði 67% út á verð afurða til lands og sjávar og spariféð var yfirleitt lánað út. En nú hafa afurðalánin verið dregin saman úr 67% niður í 55% og 750 millj. dregnar af sparifé því, sem viðskiptabankarnir hefðu ella getað haft til meðferðar og sparisjóðirnir, inn í Seðlabankann og ekki látið þaðan út aftur. :

Þetta er sú breyting, sem hefur orðið á útlánapólitíkinni. En að virðist hæstv. ráðh. vera orðinn svo beygður, að hann vill ekki einu sinni viðurkenna, að þeir hafi gert ráðstafanir til þess að draga úr útlánunum, þó að það hafi verið tekin upp gersamlega allt önnur útlánastefna.

Þá komum við að því, sem er í raun og veru kjarni þessarar deilu, sem hér er háð um þessi efni, um hinar mismunandi stefnur í peningamálum, og það er þetta: Hæstv. ráðh. segir: Sú útlánaregla, sem viðhöfð var áður, sem sé að endurkaupa svona mikið af afurðavíslum inn í Seðlabankann og lána spariféð út án þess að leggja hluta af því fast í seðlabankakerfið, — sú aðferð hlaut að leiða til verðbólgu og versnandi afkomu út á við, það er óhugsandi annað, segir hæstv. ráðh., og þeir, sem halda öðru fram, eru lýðskrumarar og vilja ekki ræða málin á heilbrigðum grundvelli. En aftur á móti segir hann: Ef höfð er sú heilbrigða peningapólitík, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp, og endurkaupin á afurðalánunum lækkuð, t.d. niður í 55%, og dreginn inn í Seðlabankann hluti af sparifénu og lagður þar fastur, þá verður afkoman góð út á við, segir hæstv. ráðh., og heilbrigð þróun og jafnvægi í efnahagsmálunum.

En ég sýndi fram á það með algerlega óyggjandi rökum, sem hæstv. ráðh. reyndi ekki að hrekja, að á því tímabili, sem fyrri útlánastefnan var höfð, var dýrtíðarvöxturinn miklu mínni en hann hefur verið á því tímabili, sem síðari útlánastefnunni var fylgt. Þetta liggur alveg fyrir og hæstv. ráðh: gat ekki komizt fram hjá þessu. Hann var að tala um, að vísitalan væri máske lakari mælikvarði þá en núna á dýrtíðarvöxtinn, en ég held, að hver einasti heilbrigður maður, sem þekkir nokkuð til þessara mála, viti með fullri vissu, að dýrtíðarvísitalan er núna miklu verri mælikvarði á dýrtíðarvöxtinn en var þá, — eða hvað vill hæstv. ráðh. segja um þá vísitölu, þar sem gert er ráð fyrir því, að meðalfjölskyldan hafi rúmlega 900 kr. í húsnæðiskostnað á mánuði eða 10800 kr. á ári, — liður, sem væri nær, að þyrfti að vera a. m. k. 30–40 þús. kr. á ári? En þetta er mælikvarðinn, sem notaður er núna á dýrtíðarvöxtinn og ég notaði í þessum samanburði. Og svo kemur hæstv. ráðh. og vill halda því fram, að það sé vafasamt að nota vísitölusamanburðinn, því að þar muni máske hallað á þá, sem hafa staðið fyrir framkvæmdum á síðara tímabilinu. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann, hvort hann óski eftir því að ljúka ræðu sinni á fáum mínútum eða fresta framhaldinu.) Ég held, að það sé þá ekki til neins annað en fresta, nema ég mætti bæta við þremur setningum eða svo, áður en ég hætti, herra forseti, til þess að slíta ekki allt of mikið í sundur.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri alveg rangt, að peningapólitíkin ætti að gæta þess, að stöðugt verðlag héldist í landinu, það væri eiginlega algert aukaatriði í þessu sambandi. Á hinn bóginn ætti hún að hafa ákaflega mikið að segja um afkomu landsins út á við. En hvað segja sjálf seðlabankalögin um þetta? Við hvað á að miða peningapólitíkina, með leyfi hæstv. forseta: „Hlutverk Seðlabankans er,“ það er fyrsti liður, ég bið menn að taka eftir því, það er fyrsti liður, — „hlutverk Seðlabankans er að annast seðlaútgáfu og vinna að því, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt, miðað við það, að verðlag haldist stöðugt.“ Þetta er fyrsta boðorð seðlabankalaganna. En þetta hefur farið þannig, að dýrtíðarveltan hefur orðið háskalegri en nokkru sinni fyrr, þrátt fyrir þessi nýju „patent“ í peningapólitíkinni, sem hæstv. ráðh. og hans félagar hafa verið að framkvæma og þeir segja að séu það eina, sem komi til greina, og allir þeir, sem vilja ekki aðhyllast þetta, séu lýðskrumarar og tali alveg óraunhæft, út í bláinn. En niðurstaðan er sú, að það hefur tekizt svona að uppfylla þetta fyrsta boðorð, sem á að vera markmið peningamálastefnunnar, að verðbólguþróunin hefur verið miklu örari, dýrtíðarvöxturinn stórkostlegri, eftir að nýja lánastefnan var tekin upp, stefnan, sem átti að leiða til þess, að þessu fyrsta markmiði Seðlabankaris yrði náð, stöðugu verðlagi. En ég mun svo í framhaldi ræðu minnar athuga nánar um afkomuna út á við og fleira í þessu sambandi, sem hæstv. ráðh. gaf tilefni til. [Frh.]