21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í umr. um þetta mál, felur það frv., sem hér liggur fyrir til breytinga á lögunum um Seðlabankann, í sér tvær meginbreytingar. Önnur breytingin er sú að hækka það hámark, sem bundið hefur verið með lögum um bindingarskýldu á sparifé í Seðlabankanum. Gert er ráð fyrir því, að bindingarskyldan hækki úr 15–20%, sem hún hefur veríð, upp í 25%, og hitt meginatriði þessa frv. er um það að heimila Seðlabankanum að gefa út gengistryggð verðbréf.

Báðar miða þessar breytingar að því að gefa Seðlabankanum kost á að draga til sín meira af sparifé eða öðru söfnunarfé og binda það í Seðlabankanum eða þá að ráðstafa því út úr Seðlabankanum á þann hátt, sem stjórn hans ákveður á hverjum tíma.

Þau rök hafa verið flutt fyrir þörf á þessum breytingum nú að þessu sinni, að Seðlabankinn þurfi á auknu starfsfé að halda, sérstaklega til þess að hann geti aukið lán til undirstöðuatvinnuvega landsins, landbúnaðar og sjávarútvegs. Og á það hefur verið minnzt í leiðinni, að þetta bindingarfé hafi í rauninni verið Seðlabankanum nauðsynlegt á undanförnum árum, til þess að hann gæti eignazt þá gjaldeyrisvarasjóði, sem hann hefur verið að byggja upp.

Hér hefur verið látið að því liggja, að þetta bindingarfé hafi verið notað að undanförnu til þess að auka svonefnd afurðalán til sjávarútvegs og landbúnaðar. Og þegar mál þetta var hér síðast til umr., nefndi hæstv. viðskmrh. nokkrar tölur, sem áttu að gefa til kynna, að að undanförnu hefði verið um allverulega útlánaaukningu að ræða hjá Seðlabankanum í þessu skyni. Að vísu var það nú svo, að eftir því sem hæstv. ráðh, hélt tengur áfram að skýra frá þessum tölum, hurfu þessi rök meir og meir, og þar kom að lokum, að hann nefndi útlánatölur, þær nýjustu, sem nú liggja fyrir, sem bentu til þess, að afurðalánin til landbúnaðar og sjávarútvegs hefðu ekki aukizt frá því, sem þau hafa verið um langan tíma áður, enda er það sannleikur málsins, að það fé, sem Seðlabankinn hefur bundið að undanförnu, t.d. á undanförnum 2 árum, í svonefndum endurkaupalánum, er ekki meira, heldur í flestum greinum minna en það var áður. Hlutfallslega er það auðvitað miklum mun minna, miðað við allt verðlag. Sparifjárbindingin í Seðlabankanum hefur ekki farið til þess að auka við rekstrarlán undirstöðuatvinnuveganna, síður en svo. Þær tölur, sem hæstv. viðskmrh. nefndi í þessum efnum, miðað við nóvembermánuð 1963, — og hann gerði þar nokkurn samanburð á tölum fyrir nóvembermánuð 1962, — sá samanburður sýndi, að á þeim tíma höfðu afurðalánin til landbúnaðar og sjávarútvegs hækkað samanlagt um 180 millj. kr. Þær tölur voru að sjálfsögðu réttar. En aftur á móti tölurnar, sem hæstv. ráðh, nefndi síðast og miðaðar voru við marzmánaðarlok nú s.l. og marzmánaðarlok aftur árið 1963, og þó að hann hefði tekið einnig marzmánaðarlok 1967, sýna, að heildarlánin eru nálega jafnhá í krónum talið nú og þau voru fyrir ári og eins og þau voru fyrir 2 árum. Við vitum, að þessar tölur sveiflast svolítið til eftir því, hvernig stendur á með afurðabirgðir í landinu, t.d. varðandi sjávarútveginn. Þegar svo vill til, að óvenjumiklar birgðir af unnum sjávarafurðum liggja í landinu, bíða afskipunar, þá eru auðvitað afurðalánin heldur hærri, því að lánin eru miðuð við ákveðna prósenttölu af útflutningsverði afurðanna. En á þeim tímum, sem afskipun hefur verið tiltölulega ör og birgðirnar eru með minna móti í landinu, eru þessi lán með minnsta móti. Það er rétt, að tilhneigingin í þessum lánum, hinum svonefndu afurðalánum, hefur hjá landbúnaðinum verið nokkuð önnur. Þar hefur verið um heldur jafnari vöxt að ræða, og lengst af hafa lánin til landbúnaðar á undanförnum árum staðið mjög í stað, en hækkað nokkuð nú á s.l. ári. En þar er um mjög óverulega upphæð að ræða, þegar litið er á heildarútlán bankakerfisins.

Nei, bindingarféð hefur ekki gengið til þess, að Seðlabankinn miðlaði því fé, sem inn hefur verið dregið frá öðrum peningastofnunum og bundið í Seðlabankanum, yfir til þeirra banka, sem veita hin svonefndu afurðalán, síður en svo. Þetta kemur t.d. mjög vel í ljós, þegar maður virðir fyrir sér, hvernig dreifing þessa fjármagns hefur átt sér stað á öllu viðreisnartímabilinu, nú yfir 4 ára tímabil, sem skýrslur liggja fyrir um. Seðlabankinn hefur gefið út skýrslur um það, hvernig hin auknu útlán úr bankakerfinu hafa dreifzt á milli atvinnuveganna í landinu, og þegar árin 1960, 1961, 1962 og 1963 eru tekin, þessi fjögur ár, segja tölur Seðlabankans þetta: Heildarútlánaaukningin á þessu tímabili úr bankakerfinu er, eins og hér segir: Til sjávarútvegsins nemur aukningin 127.3 millj. kr. á 4 árum. Til landbúnaðarins nemur aukningin 211.1 millj. kr. Til iðnaðarins nemur aukningin 334.7 millj. kr. Og til verzlunarinnar nemur aukningin á þessum 4 árum 587.9 millj. kr. Þessar tölur eru allar beint upp úr skýrslum Seðlabankans. Á þennan hátt hefur fjármagnið dreifzt á þessum 4 árum til viðbótar því, sem fyrir var í upphafi viðreisnartímans. Þessar tölur sýna, að til verzlunarinnar hefur á þessum árum runnið til viðbótar við það, sem áður var, úr bankakerfínu 587.9 millj. kr., á sama tíma sem heildarútlánaaukningin til sjávarútvegs og landbúnaðar á þessu sama tímabili samkv. skýrslu Seðlabankans var 127.3 millj. til sjávarútvegs og 211.1 millj. til landbúnaðar. Það er því vitanlega algerlega rangt að halda því fram, að sparifjárbindingin hafi átt sér stað á þessu tímabili, til þess að Seðlabankinn gæti notað það fé, sem þannig safnaðist saman, og dreift því út í auknum afurðalánum til undirstöðuatvinnuveganna, sjávarútvegs og landbúnaðar, það er algerlega rangt. Þannig hefur þessu ekki verið varið. Afurðalánin til sjávarútvegs hafa minnkað mjög verulega hlutfallslega séð. Þau voru almennt, eins og hér hefur oft komið fram áður, í kringum 67% miðað við útflutningsverð vörunnar, en eru nú í kringum 55%. Og að krónutölu hafa þessi lán ekki heldur hækkað frá því, sem áður var. Afurðalánin til landbúnaðarins hafa hækkað nokkuð, en eins og ég sagði áður, er sú hækkun mjög óveruleg með tilliti til útlána bankakerfisins í heild og með tilliti til gerbreytts verðlags, sem átt hefur sér stað í landinu á þessu tímabili. En um hitt er ekkert að villast, að á þessum árum hefur útlánaaukning bankakerfisins til verzlunarinnar í landinu, eins og Seðlabankinn flokkar þessi lán, aukizt stórkostlega. Og þó má svo vitanlega bæta við þessi lán verzlunarinnar, sem aukizt hafa á þennan hátt á þessum árum, hinum stuttu, erlendu vörukaupalánum, sem nema umtalsverðum fjárhæðum og að yfirgnæfandi meiri hluta tilheyra verzluninni. Hitt vitum við svo, að verzlunin telur enn í dag, að hennar hagur sé sízt of góður. Það er heldur ekkert um það að efast, að á þeim tíma, sem verðlag almennt hækkar um helming, þurfa vitanlega þeir aðilar, sem fara með verzlun, á meira föstu fé að halda en þeir höfðu áður.

Það, sem mér finnst vera aðalatriðið í sambandi við þetta frv., eins og það liggur hér fyrir, er að fá það nægilega hreint upp, vegna hvers er verið að biðja um þessar heimildir, sem er verið að biðja um samkv. þessu frv., til hvers á að nota það fé, sem á að draga inn í Seðlabankann til viðbótar við það fé, sem þangað er búið að draga á síðustu árum? Það eiga ekki að vera hér neinar vafasamar skýringar á þessu atriði. Hér eiga að koma fram alveg glöggar skýringar frá hæstv. ráðh. um það hvernig á að nota þetta fé.

Ég veitti því athygli, að hæstv. viðskmrh. sagði nokkrum sinnum í sinni ræðu, að það væri í sífellu verið að gera kröfur til Seðlabankans um það, að hann tæki meiri þátt í lánveitingum til atvinnuveganna en gert hefði verið, það væru kröfur frá sjávarútvegi um að hækka afurðalánin til hans, það væru kröfur frá iðnaði um að fara að veita honum sérstök afurðalán og það væru kröfur frá landbúnaði um að hækka afurðalánin til landbúnaðar. Þessi atriði út af fyrir sig segja ekkert um það, hvað hæstv. ríkisstj. ætlar sér að gera í þessum efnum. Ég spyr: Hefur verið tekin ákvörðun um það að hækka þau afurðalán, sem nú eru veitt, t.d. út á sjávarafurðir? Er ætlunin að veita meira en sem nemur 55% af útflutningsverði sjávarafurða? Er það ætlunin? Er ætlunin að veita hærri afurðalán út á framleiddar landbúnaðarafurðir heldur en gert hefur verið? Eða er ætlunin að nota þessa heimild þannig, að farið verði að veita ný lán til iðnaðarins vegna framleiðslu hans? Það er þetta, sem þarf að fást upplýst.

Ég skal t.d. segja hæstv. ráðh, það, að ef þessar heimildir ættu að notast þannig, að það fé, sem safnaðist á þennan hátt og legðist inn í Seðlabankann, ef ætti að ráðstafa því aftur út á þann veg að hækka um leið afurðalánin til sjávarútvegsins, þá mundi ég greiða atkv. með frv. hiklaust. En ég veit, að þessi innlánabinding hefur ekki verið framkvæmd á þennan hátt, heldur beinlínis með þveröfugum hætti. Þeir bankar, sem veita afurðalán t.d. til sjávarútvegs og landbúnaðar, hafa verið skyldaðir til þess að binda starfsfé sitt í Seðlabankanum til jafns við aðra banka í landinu og hafa beinlínis sagt það við þá aðila, sem sækja um afurðalán, að þeir geti ekki veitt þeim ríflegri afurðalán en þeir hafa gert, vegna þess að þeirra starfsfé sé bundið á reikningi í Seðlabankanum. Og mér er fullkunnugt um það, að þessir bankar, sem annast afurðalánin til atvinnuveganna, hafa þurft að taka lán aftur í vissum tilfellum hjá Seðlabankanum með allt að 18% vöxtum, þó að þeir ættu allverulegt fé bundið inni í Seðlabankanum samkv. bindingarreglunum. Nei, þessar reglur hafa sannarlega ekki verið notaðar til þess að flytja með þessu fé yfir til þeirra banka, sem eiga að veita hin svonefndu afurðalán.

Í þessu sambandi hef ég veitt því athygli, að hæstv. viðskmrh. hefur nokkrum sinnum sagt, að Seðlabankinn geti ekki veitt meiri afurðalán en hann hefur veitt til þessa, nema hann fái meira starfsfé, hann verði því að ná í sparifé landsmanna með einum eða öðrum hætti, til þess að hann geti staðið undir því að veita frekari afurðalán. Ég hef að vísu veitt því athygli, að hæstv. ráðh. talar alltaf í þessum efnum um afurðalán almennt séð, en forðast að skilgreina það nokkru nánar, að það er verulegur munur frá bankalegu sjónarmiði séð, hvers kyns þessi afurðalán eru. Seðlabankinn þarf ekki að draga inn neitt viðbótarfé í sínar fjárhirzlur frá því, sem verið hefur, til þess að hann geti veitt lán út á þegar framleiddar útflutningsafurðir, sem aðeins bíða þess að breytast í gjaldeyri rétt innan skamms. Það er margbúið að viðurkenna þessa staðreynd. M.a. hafa þeir hagfræðingar, sem ríkisstj. hefur að mestu stuðzt við í sambandi við efnahagsmálaráðstafanir sínar, þeir hafa viðurkennt, að það sé ekki á neinn hátt verðbólgumyndandi eða óeðlilegt á neinn hátt í efnahagskerfinu, þó að Seðlabankinn veiti bráðabirgðalán út á framleiddar afurðir, sem í rauninni aðeins bíða eftir því að verða fluttar úr landi og breytast á þann hátt í handbæran pening, enda værum við nú illa komnir, ef málin stæðu raunverulega svona.

Á það hefur áður verið bent, að málin standa þannig, að bankarnir segja: Nú er allt á útlánatoppi hjá okkur. Við höfum meira að segja jafnvel lánað of mikið og við höfum ekki getu til þess að lána meira, án þess að hætta sé á því, að um verðbólgumyndandi útlán yrði að gera. — ef undir slíkum kringumstæðum það kæmi fyrir, eins og t.d. er að koma fyrir nú, að það kæmi uppgripaafli, nokkur hundruð millj. kr. í verðmæti skolaði á land með þeim mannafla, sem við eigum, með þeim skipum, sem við eigum, og gengju til vinnslu í þeim tækjum, sem við höfum þegar komið okkur upp, — þá ætti samkv. kenningunni að vera stórkostlega hættulegt fyrir efnahagskerfi landsins að veita bráðabirgðalán út á þessa gjaldeyrisöflun, sem þarna hefur farið fram. Auðvitað mundu útlánareikningarnir hjá Seðlabankanum hækka nokkuð í nokkra mánuði, en þar er aðeins verið að veita bráðabirgðalán út á raunverulegan gjaldeyri, sem liggur í framleiddri vöru. Því hefur aldrei verið haldið fram, að það væri út af fyrir sig hættulegt, það ákvæði í seðlabankalögunum, sem gerir ráð fyrir því, að Seðlabankinn láni ríkissjóði fyrri hluta ársins allverulegar fjárhæðir til sinnar starfsemi, sem eiga að greiðast aftur síðar á árinu. Það er talið, að hér væri aðeins um eðlilega starfsemi að ræða, sem Seðlabankinn ætti að hafa með höndum, og að þetta út af fyrir sig orsakaði ekki á neinn hátt verðbólgumyndandi útlán, svo framarlega sem ríkið gerði ráðstafanir til þess aftur innan tíðar að geta greitt þessar skuldir niður. Nákvæmlega sama regla gildir og er viðurkennd, eins og ég segi, af fjölda hagfræðinga, nákvæmlega sama regla gildir, þegar seðlabanki veitir bráðabirgðalán út á framleidda útflutningsvöru, sem er jafnvel seld, en aðeins bíður eftir afskipun og formlegri greiðslu. Slík skyndilán, sem auðvitað borgast aftur niður, um leið og varan er seld, eru ekki á neinn hátt hættuleg fyrir efnahagskerfið. Seðlabankinn þarf því ekki að skrapa inn neitt af sparifé landsmanna og binda það á neinum sérstökum reikningi, til þess að hann geti staðið undir slíkum lánveitingum sem þessum. Hitt er alveg rétt, að það gegnir allt öðru máli um þau lán, hvort sem þau eru kölluð afurðalán eða eitthvað annað, sem eru þess eðlis, að þau hljóta að fara hækkandi frá ári til árs og mynda þar með eins og fasta lánveitingu og eru í rauninni til almennar innanlandsþarfar eða innanlandsnotkunar. Um það gildir talsvert önnur regla. Ég álít, að það sé alveg nauðsynlegt að fá fulla viðurkenningu á þessu atriði hjá hæstv. viðskmrh., að hann á ekki að fela sig hér í umr. á bak við eitthvert óljóst orðalag í þessum efnum. Það er engin bein þörf á því að loka sparifé landsmanna inni á þann hátt, sem gert hefur verið, til þess að hægt sé að veita eðlileg afurðalán út á útflutningsframleiðsluvörur.

Ég held líka, að þær skýringar, sem gefnar eru í grg. þessa frv. og að nokkru leyti hafa komið fram hér í umr. um málið, á því, til hvers eigi að nota það fé, sem nú á að draga inn í Seðlabankann til viðbótar við það, sem þangað hefur verið dregið áður, — ég held, að þær skýringar séu algerlega rangar og bað viti allir þeir menn, sem að þessu standa. Ég held, að skýringarnar séu nú þær sömu og áður. Enn er uppi sú kenning, að kaupmátturinn í landinu almennt sé of mikill, það þurfi því með einhvers konar valdboði að draga inn talsvert mikið af hinu almenna umráðafé, það eigi að loka það inni, fyrirbyggja, að það verði notað til framkvæmda í landinu eða annarra ráðstafana, þetta séu ráðstafanir, sem eigi að miða að því að draga svolítið úr spennunni í fjármálalífinu. En hæstv. ríkisstj. virðist ekki vilja tilgreina þetta. Það er kannske vegna þess, að hún hefur þegar rekið sig á það, að þó að svona binding á sparifé kunni að verka nokkuð í þessa átt, að hefta framkvæmdir einhverra, draga úr framkvæmdum, þá er sannleikur málsins sá, að þessar ráðstafanir gera sáralítið gagn, borið saman við ýmsar aðrar ráðstafanir, sem ætti að grípa til, þegar eins háttar í efnahagsmálunum og gerir raunverulega hér í okkar landi. Það, sem mundi auðvitað skipta hér miklum mun meira máli, er það, að ríkisstj, þyrði að taka í sínar hendur fullkomna stjórn á sjálfu efnahagskerfinu, ekki þessa óbeinu stjórn, sem ekki ræður við vandann, eins og reynslan hefur sýnt okkur, heldur stjórn, sem m.a. miðaði að því að hafa nokkurn veginn vald á því, hvað þjóðin leggur mikið á hverju ári í fjárfestingu og í ýmsar aðrar framkvæmdir. Slíku er vitanlega hægt að stjórna með öðrum aðferðum en þeim, sem nú hafa verið notaðar og gefizt hafa á þann hátt, sem við öll þekkjum, sama er vitanlega um það að segja, ef ríkisstj. beitti áhrifum sínum til þess að draga nokkuð úr gróðamyndun ýmissa aðila í þjóðfélaginu, sem nú leika alveg lausir með allan sinn gróða, þá gæti það vitanlega haft mikil áhrif á það, hvernig háttaði hér til á framkvæmda- og vinnumarkaði. En þær reglur, sem hér hafa verið notaðar, einkum í sambandi við innilokun sparifjárins í Seðlabankanum, mega sín mjög lítils í þessum efnum, valda truflunum í ýmsum greinum, en þær lækna ekki þann vanda, sem hér er við að fást.

En þessar ráðstafanir, sem Seðlabankinn hefur beitt sér fyrir og hafa nú orðið að harla litlum notum, — það kemur svo að því, að Seðlabankinn sér það, að sá tími nálgast óðum, að þessar ráðstafanir verða með öllu haldlausar, algerlega gagnslausar. Það þýðir t.d. lítið að vera með ákvæði um það, að allt upp í 25% af sparifjáraukningunni skuli bindast í Seðlabankanum, þegar svo er komið, að sparifé hættir að koma inn í bankann. Þegar Seðlabankinn verður að birta reikninga eða skýrslur mánuð eftir mánuð, sem sýna það, að aukningin á sparifénu er svo að segja stöðvuð, þá skiptir það auðvitað ekki orðið neinu afgerandi máli, hvort í lögum stendur, að 15% af aukningunni skuli bindast þarna inni eða 25%. Og þá er fundið upp alveg nýtt tiltæki, sem kemur hér fram í 2. gr. þessa frv. Þá er lagt til, að Seðlabankinn megi til viðbótar við þessi bindingarákvæði einn allra banka í landinu, einn allra aðila í landinu, bjóða út skuldabréfalán, sem skuli vera gengistryggð. Þá á að reyna að elta uppi það sparifé, sem er farið að flýja fram hjá bankakerfinu, og bjóða í það með nokkuð einkennilegum hætti. Þá á að bjóða það, ef eigendur sparifjárins vilji nú koma með peninga sína í Seðlabankann, þá skuli þeir fá gengistryggingu, sem annars er bannað öllum öðrum aðilum að veita í nokkrum slíkum samningum.

En ég held, eins og ég hef sagt hér áður, að þessi tilraun muni mistakast líka. Ég held, að það fari þannig, að þegar Seðlabankinn gefur út svona gengistryggð verðbréf, þá fari þetta þannig, að ýmsir þeir aðilar, sem geymt hafa og geyma enn sparifé sitt í bönkum landsins og sparisjóðum, þá taki þeir nokkuð af þessu sparifé út, fari með það inn í Seðlabankann á þennan hátt að kaupa sér þar gengistryggð verðbréf, en hin eiginlega sparifjáraukning mun halda áfram að fara fram hjá öllu bankakerfi landsins, einnig fram hjá slíkum gengistryggðum verðbréfum, á meðan verðlagsþróunin í landinu heldur áfram að vera eins og hún hefur verið. Útkoman verður sem sagt sú: Menn þurfa auðvitað að reyna þetta í eitt eða tvö ár, og þá kemur Seðlabankinn aftur og segir, að enn hafi farið sem fyrr, aukningin hafi engin orðið. Og það kemur auðvitað að því fyrr eða síðar, að ríkisstj. verður að átta sig á því í þessum efnum, að það þarf að nota hér allt önnur ráð en notuð hafa vérið varðandi þessi vandamál.

Ég vil taka hér undir fyrirspurnir til hæstv. viðskmrh. um þessi fyrirhuguðu gengistryggðu verðbréf Seðlabankans. Það er vitanlega í mesta máta óeðlilegt að setja lög um þess háttar ákvæði, sem er að finna í 2. gr. frv., án þess að eitthvað liggi fyrir um það, hvað á að gera í þessum efnum. Hvernig á að haga þessari verðbréfaútgáfu? Hverjir eiga t.d. vextirnir að vera á þessum gengistryggðu lánum? Eiga að vera háir vextir á þeim líka? Til hve langs tíma þurfa menn að binda fé sitt í þessum verðbréfum? Og hvað er að segja um lánstímann? Verður hér kannske aðeins um það að ræða, að menn kaupi bréf til eins, tveggja eða þriggja ára? Ég hygg, að það hafi verið meining, og veit það reyndar alveg örugglega, að það var meining forustumanna Seðlabankans, að hér væri ekki aðeins — um verðbréf að ræða, heldur beinlínis, að bankinn gæti tekið við venjulegu sparifé manna, sem yrði gengistryggt. Er kannske ætlunin, að lánstími þessara bréfa verði tiltölulega stuttur? Ef vextirnir á þessum bréfum verða nokkuð háir, borið saman við önnur lán, og lánstíminn verður líka heldur stuttur, þá er auðvitað enginn vafi á því, að þá rjúka ýmsir til og taka út innstæðufé sitt núna í sparisjóðum og bönkum og fara með það inn í þessa starfsemi Seðlabankans. Um þetta eiga vitanlega að fást hér upplýsingar, hvernig þetta er fyrirhugað.

Ég held, að það sé þegar búið að fara svo langt í þeim efnum að binda sparifé bankakerfisins, að það sé ekki farandi lengra á þeirri braut. Það er sem sagt staðreynd, að verði þetta frv. samþykkt, þá er þegar búið að binda hjá bönkunum um 40% af öllu því sparifé, sem kemur inn í bankana, búið að binda það algerlega fyrir fram með þessari bindingu og svo öðrum samningum, sem ríkisstj. hefur gert við bankana um tiltekna ráðstöfun á sparifénu. Hér er vitanlega um gífurlega mikla bindingu að ræða svo mikla, að ég efast ekkert um, að hún kemur til með að valda bönkunum miklum erfiðleikum í framkvæmd. Á tímum eins og þeim, sem nú ganga yfir, sem eru mjög hagstæðir á margan hátt í okkar framleiðsluatvinnuvegum, — heildarframleiðslan er gífurlega mikil og fer alltaf vaxandi, verðlag allt fer hækkandi, meira að segja fer verulega hækkandi á okkar útflutningsafurðum líka, þá er vitanlega alveg útilokað að ætla að halda öllum lánveitingum í sömu krónutölu og áður hefur verið eða verið hefur um langan tíma undir slíkum kringumstæðum. Það er í rauninni alveg óframkvæmanlegt. Því er það, að það þarf vítanlega að gæta vel að því að ganga ekki of langt í þessum efnum, að binda þannig alveg hendur banka og sparisjóða, að þeir geti ekki sinnt eðlilegum bankastörfum.

Hitt skil ég mætavel, eins og ég hef sagt hér áður, að hæstv. ríkisstj. finnur vandann brenna á sér í þróun efnahagsmálanna. En hún er bara alltaf að glíma hér við aukaatriðin í þessum málum, en gengur fram hjá því, sem er aðalatriði málsins. Það er enginn vafi á því, að það verður erfitt, að ekki sé meira sagt, að haga málunum þannig að segja við landsmenn: Öll fjárfesting er frjáls eins og menn vilja, öll verðlagning í landinu, svo að segja, er frjáls eins og menn vilja, allur innflutningur er frjáls eins og menn vilja, — og það á slíku tímabili, sem gengur hér yfir á Íslandi í sambandi við gífurlega hagstætt árferði í allri framleiðslu, sem hlýtur að leiða af sér mikinn hraða í uppbyggingu, þar sem þörfin er mikil.

Ég er hræddur um, að hæstv. ríkisstj. eigi eftir að kanna það, að það verði erfitt að ráða við þessi vandamál, á meðan þessar reglur eru settar í þessum efnum, jafnvel þótt hún sé að fikta eitthvað í því að hækka vextina um eitt eða tvö prósent af og til, eða þá að hækka 15% bindingu upp í 20%, Það er erfitt að ætla að stjórna þessum málum með slíkum ákvæðum.

En varðandi þetta frv. teldi ég, að miklu væri eðlilegra, að hæstv. ríkisstj. játaði það eins og það er, að það fé, sem ætlað er að draga inn í Seðlabankann og binda þar eftir þeim reglum, sem þarna hafa verið í gildi, það er hugsað af hálfu þeirra, sem stjórna þessum peningamálum, til þess að draga fé úr umferð, en ekki að segja ósatt um það, að það sé ætlunin að draga þetta fé inn úr hinu almenna bankakerfi, svo að Seðlabankinn geti dreift því aftur út til undirstöðuatvinnuveganna, sjávarútvegs og landbúnaðar, í auknum lánum, því að það er alveg ábyggilega rangt. Það hefur a.m.k. ekki verið gert til þessa. Það væri miklu sæmra að segja það, sem er rétt í þessum efnum.

Að öðru leyti endurtek ég svo það, sem ég hef sagt hér ríður við fyrri umr. málsins: Ég er andvígur þessu frv. Ég álít, að það stefni í ranga átt, og það leysir a.m.k. ekkert af þeim vanda, sem það átti að leysa. Til þess þarf allt önnur ráð.