21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ætli ráðh. sé ekki við? Það er dálítið óviðkunnanlegt að tala um þetta mál, án þess að ráðh. sé við.

Hæstv. viðskmrh. hélt hér ræðu áðan. Hann ræddi um, að það væri meira fé í umferð nú en nokkru sinni fyrr. Þetta er vitanlega hárrétt, þegar miðað er við krónutölu. En þess ber að gæta, að krónan hefur sífellt verið að lækka í verðgildi og auk þess hefur afurðamagnið og heildarþjóðarbúskapurinn farið vaxandi, þannig að það þarf ólíkt fleiri krónur nú en áður.

Það er allmikið látið af því, að spariféð hafi aukizt, en þegar þess er gætt, hve gengið hefur lækkað mikið, þegar miðað er við verðgildi sparifjárins nú og fyrir 3–4 árum, þá hefur aukningin verið tiltölulega lítil.

Hæstv. ráðh. taldi upp úr reikningum Seðlabankans áðan það fjármagn, sem bankinn gæti lánað eða ætti í bundnu fé erlendis. Þetta var vitanlega rétt hjá hæstv. ráðh., enda er þetta, held ég, í þriðja eða fjórða skiptið, sem hann les þessar tölur upp, og þó að hv. alþm. séu kannske ekki neinir sérstakir bókhaldsmenn, þá ættu þeim að fara að verða þessar tölur ljósar samt sem áður. Og það vita allir, að bankinn getur ekki lánað annað fé en hann hefur, og það hefur enginn vænt bankann um það, að hann ætli að glata þeim fjármunum, sem honum er trúað fyrir, eða hafi tekið af þeim óleyfilega á nokkurn hátt.

Aðallega ver bankinn þessu fé sínu til þess að eiga erlendan gjaldeyrissjóð og lána út á afurðir hér og lána einstökum viðskiptamönnum, ef þess þarf, og eru það einkum bankar og ríki. Hæstv. ráðh. taldi upp, hverjir þessir helztu liðir eru, og það var mótvirðissjóður, seðlaveltan, bundnar innstæður hjá bönkum og sparisjóðum, frjáls innlög og svo það, sem ríkissjóður ætti hjá Seðlabankanum. Þetta er vitanlega allt saman rétt. En hæstv. ráðh. gat þess ekki, að það væri vegur að breyta einhverju í þessari tilhögun allri saman. Seðlabankinn á um 1350 millj, ytra, en skuldar líklega 800–900 millj. í greiðsluskuldbindingum og tiltölulega stuttum vörukaupalánum. Nú hlýtur öllum að vera ljóst, að það er jafnhagstætt fyrir þjóðarbúið að skulda ögn minna í þessum upphæðum og eiga minni gjaldeyrisinnstæður. Þjóðin þarf ekki að eiga jafnmiklar gjaldeyrisinnstæður, ef greiðsluskuldbindingar ytra af vörukaupalánum eru ekki miklar. Menn fengu með tiltölulega litlum hömlum að taka vörukaupalán, skip og bílar hafa verið keyptir meir en þjóðin hafði þörf fyrir, og vitanlega eyðist gjaldeyrir fyrir þetta allt saman. Það skiptir ekki máli, hvort það er greitt þegar í stað, — það er bezt að gera það, þá vita menn hvar þeir standa, — eða hvort það er lofað að gera það eftir einhvern ákveðinn tíma, en ef miklar greiðsluskuldbindingar eru, þá vitanlega þarf gjaldeyrissjóður að vera hærri. Ef það væru litlar greiðsluskuldbindingar og lítil vörukaupalán, eins og voru áður en núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, þá þyrfti gjaldeyrissjóðurinn ekki að vera svona mikill. — Ég get ekki fullyrt nákvæmlega um, vegna þess að þetta er svo breytilegt, hve miklar þessar lausaskuldir eru og gjaldeyrisskuldbindingar nú, en það er ekki ólíklegt, að þetta séu 800–900 millj. Og ef þetta er dregið frá gjaldeyrissjóðnum, þá er hann ekki nema 400–500 millj., hinn raunverulegi gjaldeyrissjóður. (Gripið fram í.) Þá hefur það lækkað mjög, og það er ólíklegt, að það lækki mjög, vegna þess að sífellt eru skipin að streyma til landsins. (Gripið fram í.) Vörukaupalánin, já, og svo eru skipin, og ætli þau séu ekki orðin 400 eða 500 millj., og þar að auki munu skuldir hafa hækkað, enda er það staðreynd, að á árunum 1961 og 1962 var hagstæður gjaldeyrisjöfnuður um 1000 millj., en það er ekki nema aðeins fyrir gjaldeyrishallanum eða hinum raunverulega tekjuhalla þjóðarbúsins árið 1959, þannig að heildarskuldirnar hafa ekki lækkað, frá því að vinstri stjórnin lét af völdum. Hinn raunverulegi halli á þjóðarbúinu, ef ekki er tekið tillit til þeirra umbóta, sem urðu, mun hafa verið um 200 millj. á síðasta ári, eftir því sem síðustu upplýsingar voru, sem gefnar voru upp í Fjármálatíðindum.

Þarna er leið, sem hægt er að fara. Það er að hafa þessi vörukaupalán sem lægst, það er að hafa einhvern hemil á innflutningnum, bæði skipum, bifreiðum og öðru því, sem þjóðin nauðsynlega þarf ekki með, og þessi mikli skipainnflutningur hefur valdið eða veldur áreiðanlega mikilli röskun í fiskveiði Íslendinga, því að vitanlega er ómögulegt að gera út minni bátana, þegar stóru skipin koma, því að sjómennirnir vilja heldur vera á stóru skipunum, þeir verða því verðlausir og verður ekkert hægt að gera við þá. Þó skal ég ekkert fullyrða um, hvað hagkvæmara reynist, því að þetta er svo miklum breytingum háð, t.d. í vetur veiðist ágætlega í nót, en svo geta komið e.t.v. önnur ár, sem ekkert veiðist í nótina, þá eru allir búnir að kaupa nætur, og þessar breytingar eru nokkuð áhættusamar og vafalaust ekki óeðlilegt að hafa einhver takmörk fyrir því, hve örar þær eru.

Ef hæstv. ríkisstj. hefði aðeins haft einhvern hemil á þessu, bílainnflutningi, skipasmíðum, byggingum ýmissa stórhýsa, sem e.t.v. er hægt að draga, eða haft m.ö.o. einhvern hemil á fjárfestingunni í landinu, þá væri alveg nóg sparifé í landinu til að fullnægja eftirspurninni, þyrfti ekki að vera nein lánsfjárkreppa. Síhækkandi verðlag á öllum hlutum krefst fleiri króna. Fyrirtæki, sem þurfa að kaupa vörur eða greiða afurðir, þurfa fleiri krónur nú en þau þurftu áður. Þetta á e.t.v. hvað drýgstan þátt í því, að sífelldur rekstrarfjárskortur er nú.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að það þekktist ekki annars staðar, að seðlabankar endurkeyptu afurðavíxla. Það má vel vera, en þá lána þeir gjarnan til annarra banka, ef á þarf að halda eða þeir þurfa á hjálp að halda, með lágum vöxtum. Seðlabankarnir hafa þau forréttindi, að þeir geta lánað seðla og tekið vexti af þeim, sem eru ekki kannske gulltryggðir nema að einhverju leyti, þannig að það er fundið fé fyrir þá. Og við vitum það, að okkar seðlar eru ekki gulltryggðir hér heima að öllu leyti a.m.k., þó að segja megi, að þeir séu tryggðir, þegar erlendur gjaldeyrir er nægur fyrir þeim. Það er ekki nema gott eitt að segja um það að hafa nægilegan gjaldeyrissjóð, það er nauðsynlegt fyrir hvert þjóðfélag. En það er blekking að halda, að það sé hrein eign þessir gjaldeyrissjóðir, — ef vörukaupalán og greiðsluskuldbindingar eða ábyrgðir, sem bankarnir standa í fyrir lánum, nema miklum hluta af þeim gjaldeyrissjóði, þá er það í raun og veru dálítið blekkjandi.

En ég sé ekki, hvers vegna Seðlabankinn þarf endilega hér að lána einn út á afurðirnar, ef þetta tíðkast alls ekki í öðrum löndum, sem vei má vera. Við höfum sérstöðu með okkar útflutningsverzlun, við höfum svo mikla útflutningsverzlun, hvað fiskafurðir snertir.

Fyrir 1960 var það þannig, að Seðlabankinn lánaði ekki meira út á fiskafurðir og landbúnaðarafurðir en hann gerir nú. Það var raunar þessi breyting á landbúnaðarvörunum að fara að miða við krónutöluna, og þegar verðið hækkaði, þá lækkaði prósentan. En þessu mun hafa verið breytt að einhverju leyti eða öllu leyti jafnvel í haust. En svo lána bankarnir út á 2. veðrétt í þessum afurðum og þeir hafa alltaf gert það út á fiskinn, því að það var ómögulegt fyrir fiskkaupendurna, — ég held þeir láni nú 15%, eða þannig, að þeir fái í raun og veru 70% lán út á fiskinn, en svo er dregið frá því fyrir fram vextir og kostnaður, þannig að það er aldrei það mikið. Hins vegar gekk illa að fá út á 2. veðrétt eða þessi viðbótarlán á landbúnaðarafurðirnar. Vera má, að Landsbankinn hafi lánað SÍS eða þeim félögum, sem mest hafa með þær að gera, eitthvað, en ég efast um, að það hafi verið í því formi, að það hafi verið veðlán. Búnaðarbankinn hefur vafalaust lánað Sláturfélagi Suðurlands eitthvað, þannig að ég hygg, að þó að Seðlabankinn hafi lánað út á landbúnaðarafurðirnar svipað og út á fiskafurðirnar, þá hafi minni lán fengizt út á þær, vegna þess að viðbótarlánin fengust ekki út á þær, hliðstæð og út á sjávarafurðirnar.

En við þurfum nú ekki að telja sérstaklega upp alla útlánaliði Seðlabankans, við skulum bara athuga, hvernig þetta frv. verkar, hvað gerist, ef þetta frv. verður að lögum og er framkvæmt.

Ég satt að segja bjóst hálfgert við því, að hæstv. ríkisstj. ætlaði að salta þetta frv., það hefur liðið svo langur tími, síðan það var til 1. umr., og það gladdi mig ef hún ætlaði að gera það. En það ber ekki á öðru nú en það eigi að hamra þetta í gegn. Hins vegar skildist mér á hæstv. viðskmrh., að þessi ákvæði mundu ekki verða framkvæmd nema að litlu leyti, því að hæstv. ráðh. lét orð liggja að því, að engra grundvallarbreytinga væri að vænta í bili. En ég skil ekki í, hvers vegna á að hespa í gegn lögum, ef ekki á að framkvæma þau, hvaða þýðingu það hefur sérstaklega.

En áhrifin, sem þetta hefur, eru einfaldlega þau, að það minnkar það fé viðskiptabankanna, sem þeir geta lánað viðskiptamönnunum. Iðnaðarbankinn, Verzlunarbankinn og aðrar lánastofnanir í landinu geta ekki lánað viðskiptamönnunum jafnmikið fé, það fer í Seðlabankann. Seðlabankinn á aftur að lána meira. Ég sé því ekki, að það sé nein lausn á heildarrekstrarfjárskorti þjóðarinnar, þó að þetta sé framkvæmt, Hins vegar vex vald Seðlabankans. Nú er það með mig þannig, að mér finnst nóg um þetta bankavald, þó að það aukist ekki meira en er, og ég minntist á þetta við einn bankastjórann í dag, og mér skildist á honum, að Seðlabankinn réði nokkuð miklu, hvort sem væri. En reynsla mín af þessum lánastofnunum er þannig, að eftir því sem þær verða ríkari, eftir því verða þær ráðríkari og hrokafyllri og skilningsminni á kjör almennings. Það er t.d. staðreynd með útibú, bæði útibú Útvegsbankans og Landsbankans, að þar eru útibússtjórarnir hjálplegri og skilningsbetri á kjör atvinnurekendanna úti á landinu en bankastjórarnir hér í bænum. Það er erfiðara að eiga við aðalbankana heldur en útibú. Hins vegar er alltaf verið að taka þessa vesalings menn, þessa útibússtjóra, og skamma þá fyrir að lána of mikið, og það er jafnvel þannig, að það var varla sú smásparisjóðshola s.l. haust, að hún fengi ekki áminningu um að draga úr útlánunum. Síðast var mér sagt það í dag, að það væri einhver smásparisjóður í Hólahreppi í Skagafirði, og þeir fengu áminningu, — ég veit ekki, hve mikið þeir hafa, 100–200 þús. líklega, — að fara varlega í útlánunum, þannig að drottnunarvald þessara háu herra er nær ótakmarkað, og svo á að gera það enn meira, það á að kreista enn meira út úr bönkunum í Seðlabankann; og hann á svo að ráða eftir sínum duttlungum.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að það, sem sérstaklega væri aðkallandi nú, væri lán til iðnaðarins. Mér hefur ævinlega verið ljóst, að þessar blessaðar lánakröfur fyrir iðnaðinn væru áróðursmál fyrst og fremst, kosningamál. En við skulum bara athuga, hvernig þetta verkar með þennan blessaða iðnað. Iðnaðurinn býr við betri kjör á vissan hátt en nokkur annar atvinnuvegur í landinu. Hann er verndaður — ýmsar iðngreinar — með 70–100% innflutningsgjöldum. Verkanirnar hafa verið einfaldlega þær, að þeir, sem hafa tíma til ferðalaga, búa í höfuðborginni stutt frá flugvellinum, skreppa til Glasgow og Bretlands og kaupa þar t.d. fatnað, sem er miklu, miklu ódýrari, flytja hann heim í töskum sínum, og mér er sagt, — ég spjalla oft við kaupmennina hérna í bænum, heildsalana, ég hitti nú marga, og ég held satt að segja, að ráðh. ættu að gera meira að, því en þeir gera að tala við þessa menn, sem eru að basla í atvinnulífinu, verzlun og öðru slíku, ég tala hér um bil aldrei við þessa menn án þess að fræðast eitthvað, — og mér var sagt, að frúrnar fari oft með pantanir fyrir heilar blokkir og skutluðu þessu inn, ekki svo gaman að vera að taka af þeim undirkjóla og kápur, ef þær hafa þetta í töskunum og eiga þetta allt saman sjálfar. Og þessi maður sagði mér, að það væri þannig fyrir jólin; að þá væri þetta svo mikill innflutningur, að tollurinn mundi nema ca. 700 þús. eða svo af hverri flugvél, sem tapaðist í þessum dýru klæðum.

Við vitum líka, að þessir iðnaðarmenn eru, sumir þeirra, það er dálítið misjafnt, einhverjir allra ríkustu menn í landinu. Þið getið bara tekið Svein Valfells. Ég hef mjög miklar mætur á manninum sem hreinu séníi í fjármálum, og hann hefur komið sér prýðilega fyrir. Það er hægt að telja alveg ótal iðnaðarmenn, sem eru með allra ríkustu mönnum í landinu. Ef þessir. blessaðir menn eiga nú að fá lán út á öll vinnuföt og Magnús Víglundsson út á skóna, sem hann á hérna einhvers staðar vestur í bæ, ég held það verði nú lítil trygging fyrir því, að þetta verði ekki notað í spákaupmennsku, eins og maður segir, kannske til að byggja villur eða slíkt, eitthvað af þessum peningum, sem þeir fá út á þessa lagera sína, þannig að ég held, að þetta sé dálítið athugavert að fara að taka iðnaðarvörur holt og bolt og lána út á þær líkt og kjöt og fisk: Það er allt annað með útflutningsvörur, sem bíða eftir því að vera fluttar út og einstaklingarnir hafa ekki fjármagn til að liggja með þær. Þetta er í raun og veru gjaldeyrir, sem er beinharður, það er allt annað með þær, og er í raun og veru alveg óeðlilegt, að bankarnir taki ekki nokkurn veginn við þessum vörum, þegar framleiðendurnir eru búnir að vinna þær og þær eru tilbúnar til útflutnings. Það eru ranglátar kröfur að heimta það, að atvinnurekendurnir bindi mikið af sínu takmarkaða fjármagni í þessum vörum, þegar þær eru fullbúnar til útflutnings og bankarnir taka við gjaldeyrinum öllum fyrir þær, hafa allan umráðarétt yfir honum. Það er ekki hægt að ætlast til þess. En hitt veit ég, að iðnaðurinn, sem nú er að komast á laggirnar, og ýmsar iðngreinar þurfa aðstoðar með. En ég bara óttast það, ef á að fara að lána út á þessar iðnaðarvörur, að það verði þannig, eins og yfirleitt er starfrækslan í bönkunum, að bankarnir eru fúsir að lána þeim ríku, en ófúsir að lána þeim, sem þeir efast um að séu alveg tryggir að standa í skilum, þannig að ef á að fara að lána út á iðnaðarvörurnar, lagerana, sem iðnrekendur eiga, þá verði það þeir ríku, sem fái lánin, sem sízt þurfa þess, en frekar verði látnir sitja á hakanum þeir fátæku, sem helzt þurfa þess.

Annað atriði er það, að það er í raun og veru ekkert vit í þessum háu innflutningstollum, eins og ég var að tala um, t.d. á fatnaði, því að það er smyglað svo miklu af þessu beint og óbeint vegna þess, hve tollmismunurinn er mikill, og þannig missa kaupmennirnir hérna í bænum af viðskiptunum, og þeim þykir þetta ekkert gott, og þetta fer alltaf vaxandi, eftir því sem samgöngurnar verða betri. Svo kemur þetta misjafnlega niður, því að það eru aðallega bæjarbúar í Hafnarfirði og Reykjavík, sem geta notað þessar ferðir, en fiskimenn og bændur úti á landi hafa engan tíma til þess að vera að fljúga og flakka um sláttinn út um öll lönd til þess að kaupa sér pjötlur utan um líkamann. En það er í raun og veru alveg óheyrilegt með nauðsynjavarning, eins og t.d. fatnaður er, skótau og annað slíkt, að hafa hærri innflutningsgjöld á því eða vernda það með hærri verndartollum en 30–40%, og það er yfirleitt ekki gert hjá öðrum þjóðum. Þetta verður til þess, að iðnrekendur hér heima leggja sig ekki nógu vel fram um að reka fyrirtækin af hagsýni, og almenningur er látinn borga, því að þetta er hlutur, sem menn komast ekki af án, almenningur er látinn borga þetta, og það er fullkomlega athugunarvert, hvort ekki er eðlilegra annaðhvort að reyna að lækka ríkisútgjöldin, þannig að það þurfi ekki að taka svona mikil innflutningsgjöld, eða í öðru lagi að taka þau á einhvern annan hátt. Mér hefur skilizt, að verzlunarmannastéttin hér í bæ sé mjög óánægð með þetta, af því að þeir tapa svo miklum viðskiptum vegna þess, hvað verðmismunurinn er mikill ytra og hér. En þetta veldur því, að sumir iðnrekendur landsins eru orðnir með ríkustu mönnum þjóðarinnar og eiga svo að fá aðgang að lánum út á sína lagera í viðbót, svo að þeir geti keypt fleiri blokkir og sem sagt leikið sér með peningana.. En ég skal játa það, að allir iðnaðarmenn eru ekki ríkir og þurfa margir aðstoðar með. Það þarf að undirbyggja iðnaðinn af viti og hagsýni í landinu, þá er hann þarfur og góður, og iðnaður, sem á að fara að starfrækja nú, hann þarf aðstoðar með. En er ekki bara betra að gera það á annan hátt en með þessum afurðalánum?

Ef þetta lagafrv. verður framkvæmt, að 25% af innstæðufé banka, sparisjóða og innlánsdeilda verður tekið í Seðlabankann, þá þrengir þetta möguleika þessara banka til að lána sínum viðskiptamönnum. Ég veit, að Iðnaðarbankinn hefur eitthvað lánað iðnaðarmönnum og eins iðnlánasjóðurinn. Þetta eru vaxandi stofnanir. Ég skal viðurkenna það, að þær hafa sýnt mikinn skilning með iðnaðarmönnum úti á landi. Þær hafa sýnt það, að þær hafa vilja til að aðstoða þá, enda eru þetta ungir menn og ekki mjög kalkaðir, margir af þeim, sem ráða þessum bankamálum. Sama er að segja um Verzlunarbankann. Hann reynir að fullnægja verzluninni, eftir því sem hann getur. Verði tekið meira fé af þessum lánastofnunum, geta þær minna greitt fyrir viðskiptamönnum. Er nokkuð unnið við það að taka fé af þessum aðilum, taka fé af Iðnaðarbankanum, láta Seðlabankann hafa það og lána það út aftur, heldur en Iðnaðarbankinn geri það bara sjálfur? Ég held, að Iðnaðarbankinn fylgist fullt eins vel með þörfum og kröfum þeirra manna, sem eru að basla af stað nú í iðnaði úti á landsbyggðinni, eins og Seðlabankinn og jafnvel betur.

Nei, við leysum engin vandamál eða rekstrarfjárskortinn með þessum ráðstöfunum, ekki nokkur. En við aukum vald Seðlabankans. Það er það, sem gerist. Svo gerist annað. Bankar og sparisjóðir hafa minni möguleika til að fullnægja viðskiptavinum sínum. Það verður til þess, að meira og minna verður farið utan við bankana. Við vitum, að mikið af peningaviðskiptum hér í Reykjavík er utan við bankana. Ég hef komizt eftir því í gegnum samtöl við menn, að heildsalar t.d. gera mjög mikið að því að taka bráðabirgðalán hjá þessum, — ég nefni þá að gamni aðstoðarbankastjórana, — það eru lögfræðingar, sem lána fyrir 21/2% á mánuði og jafnvel 3%, og þetta er ekki svo voðalegt, þegar þeir innleysa vörur, sem liggja hér á hafnarbakkanum og þeir þurfa endilega að innleysa, þetta er ekki svo voðalegt að taka tveggja mánaða víxla, — svo selja þeir þessar vörur betur, ef þeir geta selt þær með tveggja mánaða víxlum og hafa eitthvert lag á því að leggja á þetta.

Annað er það, að þessi blessuð vörukaupalán, sem menn eru að neyðast til að taka, vegna þess að það er haldið svo í útlánin, valda því, að vörurnar eru dýrari. Ég get sagt ykkur sem dæmi um síldarnætur, að ég gat fengið með bankaábyrgð síldarnót 60 þús. kr. ódýrari en ef ég gat ekki útvegað bankaábyrgð fyrir henni. Og ég keypti hana með bankaábyrgð, en hún kostaði mig 60 þús. kr. minna, af því að ég gat lagt fram bankaábyrgð. Og það er það, sem gerist, þegar þeir eru að fá þessi vörukaupalán, þeim eru seldar vörurnar dýrari í mörgum tilfellum, vafalaust allt upp í 10%, og þjóðin borgar. Þeir skaðast ekki á þessu, sem kaupa vöruna, þeir mega leggja á vissa prósentu, jafnvel græða á þessu, fá þetta vaxtalaust e.t.v. hjá þeim, sem þeir kaupa þetta hjá, en það er dýrara, af því að þeir geta ekki borgað út, og við vitum, að það er hægt að gera hagkvæmari og betri viðskipti með því að borga út. Þess vegna er sú leið, sem farin var, að neyða fyrirtækin í það að taka vörukaupalán, tvímælalaust til þess að gera vöruna dýrari og er þess vegna ekki skynsamleg leið, — hefði verið miklu betra að láta þessi vörukaupalán vera lítil sem engin og borga vöruna út, þó að gjaldeyrissjóðurinn hefði orðið minni og hefði þess vegna verið minna til þess að vitna í, þegar verið er að tala um það á fundum, hvað hann sé orðinn stór.

Nú gerist það, að bankarnir geta ekki fullnægt viðskiptavinunum og hafa ekki gert það, því að þetta eru náttúrlega alveg fullkomin vandræði, þegar farið er að útvega einhverjum lán. Við vitum það, þingmennirnir utan af landinu, þegar farið er að biðja þessa stærri banka hér, það var nú fyrir áramótin: Jú, hámark 25 þús., var okkur sagt, og svo fékkst ekki framlenging á þessu í mörgum tilfellum. Mér var t.d. stefnt fyrir einn 19 þús. kr. víxil s.l. ár og ómögulegt að fá hann framlengdan. Jæja, ég ætla nú ekki að fara út í svoleiðis sögur. En það er sem sagt svo að segja útilokað fyrir óbreyttan alþýðumann að fá bráðabirgðalán, þó að honum liggi mikið á. — Það, sem gerist því, ef á að fara að taka 25% af öllum lánastofnunum í landinu og í viðbót neyða þær til þess að kaupa ríkisskuldabréf fyrir 15% af innlánsaukningunni, — þá er tekið af þeim 40%, þær hafa 60% úr að spila, — það, sem gerist, er það, að það verður farið að lána meira utan við bankana. Reykvíkingar eru farnir að kunna þetta vel. Þeir kunna að búa út víxla og selja náunganum þá. En út um hinar dreifðu byggðir er æfingin minni. En það er ekki ómögulegt, að það sé hægt að kenna mönnum þetta. Kaupfélögin þurfa ekki annað en að taka út úr innlánsdeildunum og færa inn í viðskiptareikninga. Og eignarskatturinn er það lágur, að það er sjálfsagt fyrir kaupfélögin að gera þetta. Í flestum tilfellum eru það ekki það miklar eignir hjá þessum einstaklingum, sem eiga þetta, að það skipti neinu máli upp á eignarskattinn. Og það er ekki nokkur vandi fyrir bændur og aðra einstaklinga úti í byggðunum að læra að búa út víxla og fara að lána víxla, og þetta er ekki nema eðlilegur skæruhernaður, þetta er bara sjálfsbjargarviðleitni. Fólkið hefur ekki um annað að velja, pegar svona er þrengt að.

Svo kemur annar liður, og það eru þessi skuldabréf, sem á að fara að heimila Seðlabankanum að kaupa. Seðlabankinn getur þetta alveg áhættulaust að því marki, sem nemur þeim gjaldeyrissjóði, sem hann á ytra, því að ef gengið breytist, þá hækkar hann, það jafnar sig. Hann á því ekkert á hættu, en græðir, ef gengið fellur og hann á stórar gjaldeyrisinnstæður ytra, þá græðir hann eða ríkið, það má segja það. Aftur hækka náttúrlega skuldir þjóðarinnar ytra, þannig að það má segja, að fyrir þjóðfélagið í heild sé það ekki gott. En Seðlabankinn sem slíkur á ekkert á hættu, þó að hann kaupi þessi bréf, en þá vitanlega streyma peningarnir úr hinum lánastofnununum, menn kaupa þessi bréf, og það þrengir enn meira að lánastofnununum, þannig að þeim er í raun og veru gert ómögulegt að starfa.

Ég spurði einn bankastjóra að þessu í dag, hvernig honum litist á þetta, og hann sagði, að þetta mundi aldrei verða framkvæmt. En til hvers er þá að vera að setja löggjöf, sem aldrei á að framkvæma? Það yrði nokkurs konar kvígufrumvarp, eins og hjá Jónasi Péturssyni, því að það vita allir, ef á að lána 30 kvígur og taka eina kvígu í vexti, að það er gersamlega óframkvæmanlegt. Og það er til skammar fyrir samkomu eins og þetta þing að samþykkja svona lög, því að það tekur enginn maður 30 kvígur, og þess vegna er mönnum ómögulegt að borga með 1 kvígu, þó að maður sleppi því nú, að með framkvæmd þessa atriðis er verið að gera bændur að sveitalimum, því að sveitarfélagið á að borga vaxtamismuninn. Grannarnir geta þá spjallað um það, að þessi og þessi fái þetta mikið framlag af sinni sveit, þannig að þetta er eyðileggjandi og auðmýkjandi fyrir persónuna, sem tekur þessi kvígulán, og óframkvæmanlegt að standa í skilum með þetta. Það er ekki sæmandi, jafnvel þó að það séu samin einhver fáránleg lög, sem er ekki meiningin að framkvæma eða eru óframkvæmanleg, eins og t.d. þessi verðbréf hérna, sem Seðlabankinn á að kaupa, það verður vitanlega aldrei framkvæmt í stórum stíl, vegna þess að það gerir hinum bönkunum alveg ómögulegt að starfa. En hví að vera að setja þetta í lög? Ráðh. lét nú að því liggja, að þetta yrði ef til vill ekki framkvæmt nema að einhverju litlu leyti og í samráði við bankana. En hvað á það þá að þýða að vera að setja þessi lög?

En nú er mikið talað um það að tryggja sparifé, og ég held, að mínir hv. flokksbræður hafi komið með einhverjar ályktanir út af því. Það er nú allt gott og blessað. En það á nefnilega ekki að tryggja sparifé, heldur á að verðtryggja skuldirnar, ef þið viljið stöðva verðbólguvitleysuna. Ef það væru sett lög um það, að ef gengið breyttist, þá hækkuðu skuldirnar, þá þyrfti ekki annað til að allir, sem skulduðu, yrðu áhugasamir fyrir því, að gengið félli ekki. En meðan mikið af ríkustu mönnum þjóðarinnar rekur þá spákaupmennsku, sem fylgir því að búast við því, að gengið lækki, þá hafa þeir engan áhuga á, að gengið verði varanlegt. Ef yrði sett ákvæði um það, að skuldirnar hækkuðu, ef gengið breyttist, þá snerist allur áhugi um það að láta skuldirnar ekki hækka, það græddi enginn á því. Það vildi enginn, að skuldirnar hækkuðu. Það þyrfti í raun og veru ekki að gera aðra ráðstöfun til þess að draga úr þeim áhuga, sem vissir aðilar hafa fyrir því, að gengið lækki, heldur en að semja lög um þetta. Það hefði verið miklu réttara af mínum kæru flokksbræðrum að hafa þetta öfugt, að miða gengistryggingu við skuldir, en ekki við sparifé, það verkaði betur. Hinir ríku ráða meira en þeir fátæku.

Ég sé ekki, að við getum leyst þennan rekstrarfjárskort, sem er hjá þjóðinni, með öðru móti en því að setja einhvern hemil á eyðsluna h já þjóðinni. Við leysum hann ekki með því að þrengja enn meir að viðskiptabönkunum, þannig að þeir geti engan veginn fullnægt sínum viðskiptavinum, það verða ekki leyst nein fjárhagsvandræði með því. Við getum ekki leyst hann með öðru en því, að þjóðin eignist beinlínis meira sparifé, og það er hægt að gera með því að setja einhverjar hömlur á innflutninginn og tryggja gjaldmiðilinn, þannig að fólkið treysti því, að gengið sé ekki alltaf að lækka, því að það er ekki eðlilegt, að fólk hafi áhuga á að safna sparifé, ef það tapar öllum vöxtunum, eins og það hefur gert s.l. 4 ár, því að þótt vextirnir hefðu verið lagðir við upphæðina, þá er hún ekki meira virði en hún var t.d. 1960 — verðgildi krónunnar hefur lækkað það mikið — núna með vöxtunum.

Með þessu eina móti getum við læknað rekstrarfjárskortinn í landinu, að setja einhvern hemil á eyðsluna og sannfæra fólkið um það, að gjaldmiðillinn sé nokkurn veginn tryggður. En við lögum ekkert með því að draga meira og meira fé í Seðlabankann, lama algerlega útlánastarfsemi sparisjóða og viðskiptabanka. Við getum ekki lagað nokkurn skapaðan hlut með því, það bara versnar, og auka svo þennan blessaða gjaldeyrissjóð ytra og e.t.v. að auka jafnmikið greiðsluskuldbindingar og vörukaupalán. Það verður bara meiri og meiri rekstrarfjárskortur, og nú er það þannig með fyrirtækin, að þau eru í lamandi rekstrarfjárskorti. Við, sem erum með einhver viðskipti, t.d. fiskafurðir og annað, vitum það, að sum fyrirtæki geta alls ekki borgað, ekki fyrr en seint og síðar meir. Meira að segja öflugustu fyrirtækin eiga mjög erfitt með að standa í skilum. Þannig er ástandið. Þessi sífellt meiri og meiri þörf fyrir fleiri krónur veldur því, að fyrirtækin þurfa að græða á vörunni. Þau geta ekki borgað eins mikið og t.d. fyrir fiskafurðirnar. Þau þurfa að leggja til hliðar stórfé til að geta staðið undir væntanlegum verðhækkunum. Það þarf meira og meira rekstrarfé. Og þessir háu vextir og þessi vaxandi þörf fyrir rekstrarféð veldur því t.d., að þeir, sem kaupa síld og fisk, geta ekki borgað jafnmikið fyrir það. Ef vextirnir væru lægri og þeir þyrftu ekki sífellt meira og meira rekstrarfé, þá gætu þeir borgað betur, og þá hefði líka verið hægt að komast hjá því að leggja þennan viðbótarsöluskatt á þjóðina til að bæta þessar afurðir, og það var leiðin, sem átti að fara. Það átti ekki að hækka söluskattinn, jafnvel hefði átt að afnema hann með öllu, lækka ríkisútgjöldin og greiða fyrir framleiðendunum, sem vinna úr fisk- og síldarafurðum, á þann hátt að lækka vextina og láta þá hafa betri og greiðari aðgang að hæfilegum rekstrarlánum. Þá hefðu þeir getað borgað þessar afurðir miklu meira, því að við vitum, að ef allt er í lagi núna með fiskvinnsluna, þá stórgræða þeir á þessu.

En það hefur bara fylgt þessari hæstv. ríkisstj., að ef hún ætlaði að gera eitthvað vel, þá hefur hún þurft að gera annað illa, svo að þetta varð gagnslaust, sem hún gerði. Þannig var það með efnahagsráðstafanirnar 1960, þegar átti að setja bremsu á útlánin og láta fólkið hætta að taka lán, hækka vextina, til þess að fólkið hætti að taka lán, þá var gengið lækkað um leið, þannig að rekstrarfjárskorturinn knúði fólkið til þess að taka lánin, hvað sem þau kostuðu, og á þann hátt var vaxtahækkunin gerð gersamlega einskis virði. Svo átti að halda kaupinu hér um bil óbreyttu, en þá voru bæði hækkaðir vextir og vörur við fólkið, sennilega hefur byggingarkostnaður hækkað allt að 50–70%, vextirnir hækkuðu um þriðjung þá í bili a.m.k., og vitanlega var fólkinu ómögulegt til frambúðar að vinna fyrir sama kaup, þegar þessar ráðstafanir voru gerðar jafnhliða. Þetta verkaði hvað á móti öðru, og þannig er þetta núna. Það verkar hvað á móti öðru, þessar ráðstafanir, og þess vegna verður enginn vandi leystur, þótt þetta verði framkvæmt, heldur er það bara gert enn verra. Eftir því sem þrengt verður meira að viðskiptabönkum og sparisjóðum, eftir því sem þeir geta minna fullnægt sínum viðskiptavinum, þeim mun meira mundi verða dregið frá bönkunum af sparifénu. Einstaklingar munu lána hver öðrum þeim mun meira og það myndast svartur markaður, sem þegar er til staðar hér í bænum meira og minna, og það verður allt stirðara og þyngra. Það verður engin lausn. Eina lausnin á rekstrarfjárskortinum er að draga úr innflutningnum, setja hömlur á eyðsluna og tryggja verðgildi krónunnar, þannig að fólkið hætti að reka þá spákaupmennsku, sem hefur verið rekin alltaf síðan 1961. Fólkið hefur verið sannfært um, að gengið mundi falla. Eina ráðið er þetta, en ekki að draga sífellt meira og meira fé í Seðlabankann, knésetja minni bankana miskunnarlaust og safna meira og minna fölskum gjaldeyrissjóðum ytra, sem svo aðallega eru til að hæla sér af, og verða svo að kaupa vörurnar miklu dýrari en annars þarf með, ef þær eru borgaðar út. Það verður enginn vandi leystur, þó að þetta frv. verði samþykkt. Það myndast aðeins skæruhernaður, meira að segja úti á landsbyggðinni, en er þegar til staðar hér í Reykjavík. Sem sagt, bankarnir geta ekki annað því hlutverki, sem þeir eiga að leysa, og einstaklingarnir fara þá sjálfir að reyna að leysa verkefnin.