08.05.1964
Efri deild: 85. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Hv, frsm. meiri hl. hefur gert grein fyrir störfum fjhn. í aðalatriðum í sambandi við þetta mál. N. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þess, og við höfum tveir skilað minnihlutanál., hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég, þar sem við leggjum til, að þetta frv, verði fellt; en meiri hl. n. hefur, eins og hv. 10. þm. Reykv. hefur gert grein fyrir, lagt til, að frv, verði samþykkt. Aðalatriði frv. eru tvö. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að sparifjárbindingin verði stórlega aukin. Sparifjárbindingin hefur nú verið framkvæmd um 4 ára skeið og hefur valdið viðskiptabönkunum og sparisjóðunum stórfelldum erfiðleikum. Hámark bindingarinnar er ákveðið í l. um Seðlabankann þannig, að bindingin megi ekki fara fram úr 15% af innlánum viðskiptabanka og sparisjóða og 20% af veltiinnlánum þeirra. Þetta mark á nú að hækka þannig, að Seðlabankinn geti tekið 25% af öllum innlánum banka og sparisjóða. Sparifjárbindingin, sem núna nemur um það bil 860 millj. kr. og mundi, ef ég man rétt, geta numið um 940 millj. kr., þegar núgildandi lagaheimildum væri beitt að fullu, getur samkv. ákvæðum þessa frv., ef það yrði að l., hækkað upp í 1400 millj. kr. að óbreyttum innlánum, og að sjálfsögðu miklu meir, eftir því sem innlánin hækka.

Hv. fjhn. Nd. leitaði umsagnar viðskiptabankanna um þetta frv., og tveir þeirra svöruðu þeirri málaleitan hennar og þeir lögðust báðir mjög eindregið gegn samþykkt þessa frv., sérstaklega þessu atriði, sem ég nú er að gera að umræðuefni, aukinni bindingu, og töldu, að hún mundi rýra alvarlega þá möguleika, sem þeir hefðu til þess að gegna þeim hlutverkum, sem þeim eru ætluð. Það segir í þessu frv., eins og hv. frsm. meiri hl. hefur gert grein fyrir, að megintilgangur sparifjárbindingarinnar sé að standa undir afurðalánunum, afla fjár til þess, að Seðlabankinn geti endurkeypt afurðavíxla. Það eru þó engin ákvæði í þessu frv., sem tiltaka neitt um það, hversu mikinn hluta af framleiðsluverðmætunum skuli lána út á með þessum hætti, og það eru ekki heldur nein ákvæði í þessu frv., sem gera ráð fyrir því, að Seðlabankinn skuli taka upp endurkaup á afurðavíxlum iðnaðarins, eins og þó í öðru orðinu er látið að liggja af hálfu hæstv. ríkisstj., að sé tilgangurinn með þessu frv. m.a. En meðan ekkert liggur ákveðið fyrir um það, hverjar skyldur Seðlabankinn tæki á sig gagnvart atvinnuvegunum, ef þetta frv. yrði samþykkt og hann fengi þessa fjármuni til ráðstöfunar, þá er ekki hægt að gera sér neina grein fyrir því, hvert gagn þetta frv. gerði eða hver áhrif yrðu af því að gera þetta frv. að lögum fyrir atvinnuvegi þjóðarinnar. Það eitt liggur ljóst fyrir í því sambandi, að möguleikar viðskiptabankanna til þess að veita atvinnuvegunum fyrirgreiðslu mundu stórlega rýrna.

Mér þykir í þessu sambandi rétt að minna á það, að fram til þessa hefur ríkisstj. og talsmenn hennar jafnan látið það í veðri vaka, að megintilgangur sparifjárbindingarinnar sé að standa undir gjaldeyrisforðanum. Nú þykir líklegra, til þess að þetta frv. geti náð einhverri hylli, að segja, að það eigi að standa undir afurðalánunum. Hér er auðvitað um hreinan orðaleik að ræða. Seðlabankinn getur ekkert sagt til um það, hvaðan sú króna kemur, sem fer í gjaldeyrissjóðinn, og hvaðan sú króna kemur, sem fer til afurðalána. Og hér er auðvitað ekki um neitt annað að ræða en orðaleik í áróðursskyni af hálfu hæstv, ríkisstj.

Í byrjun seinasta stríðs og þar áður munu viðskiptabankarnir í landinu hafa haft möguleika á því að veita atvinnuvegunum nauðsynlegustu rekstrarlán, og það verður raunar alltaf að teljast eðlilegt hlutverk viðskiptabankanna að veita atvinnuvegunum rekstrarlán. Afurðalánin eru einn mikilvægasti þátturinn í því. En eftir að verðbólgan tók til að spenna upp allan tilkostnað atvinnuveganna í landinu og rýra alla sjóði, sem landsmenn höfðu getað komið sér upp, fór að bera á því, að viðskiptabankarnir gætu ekki til fulls valdið þessu hlutverki, og þá varð Seðlabankinn að koma til í sívaxandi mæli og leggja fram fé með því að endurkaupa afurðavíxla viðskiptabankanna. Þegar Seðlabankinn byrjaði á því, og eftir því sem hann jók þá starfsemi á árunum kringum 1950 og upp úr því, var það í þeim tilgangi að leggja fram fé, sem viðskiptabankarnir höfðu ekki, til að mæta þessum þörfum. Þetta leiddi að sjálfsögðu til skuldasöfnunar viðskiptabankanna hjá Seðlabankanum, og það liggur auðvitað alveg ljóst fyrir, að Seðlabankinn hafði enga möguleika til þess að leggja þessu máli lið með öðrum hætti en að leggja fram fé, þ.e.a.s. þola skuldasöfnun. En nú segir í grg. þess frv., sem hér liggur fyrir, að það hafi verið eitt af meginatriðum þeirra peningalegu ráðstafana, sem gerðar voru í sambandi við efnahagsaðgerðirnar í febr. 1960, að aukning endurkaupanna yrði stöðvuð og þar með sú skuldasöfnun bankakerfisins við Seðlabankann, sem henni hafði fylgt. Það virðist þess vegna hafa vakað fyrir mönnum þá, að Seðlabankinn skyldi hætta að leggja fram fé til þessara þarfa. Og hvernig er svo komið málum nú í þessu tilliti? Svörin við því er einnig að finna í grg. með frv., sem liggur hér fyrir, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það má segja, að nú láti nærri, að innistæðubindingin nægi til þess að standa undir þeim útlánum Seðlabankans, sem í endurkaupunum felast “

Þarna hafa menn þá það, að hlutverk Seðlabankans í því að leysa þennan vanda, sem hér er um að ræða, er ekki orðið annað en það að taka peninga af viðskiptabönkunum og sparisjóðunum, afhenda þeim það aftur, kannske í eilitið öðrum hlutföllum, en leggja ekkert fram af sinu ráðstöfunarfé. Þannig virðist manni, að hlutverk Seðlabankans í þessum málum sé orðið næsta veigalítið. Og nú er lagt fram frv. um það að auka sparifjárbindinguna til þess að geta aukið afurðalánin, að því er sagt er, en það er ekki gert ráð fyrir því í þessu frv., að Seðlabankinn skuli leggja neitt til þessara mála af sínu ráðstöfunarfé. Hver getur þá verið tilgangurinn með þessu? Ég sé ekki, að annar tilgangur geti verið með þessu en að gera Seðlabankann að fjárhaldsmanni fyrir viðskiptabankana í landinu, vegna þess að hæstv. ríkisstj. treysti þeim ekki til að gegna því hlutverki, sem þeim er ætlað í þessu þjóðfélagi. Það á að setja þá undir opinbera „administration“, og það á að stjórna þessu öllu úr stjórnarráðinu, og þannig á viðskiptafrelsi viðreisnarinnar að birtast á þessu sviði.

Það er ástæða til þess, þegar þetta hefur verið rifjað upp, að gera sér ljóst, hvernig Seðlabankinn ráðstafar því fé, sem hann hefur undir höndum. Þarna er annars vegar um að ræða eigið fé bankans og hins vegar andvirði seðlaveltunnar í landinu. Það kemur í ljós, að þessu fé og raunar meira til, sem bankinn hefur undir höndum, t.d. frá ríkinu, er ekki ætlað það hlutverk að verða að liði við úrlausn þess stórfellda vandamáls, sem lánsfjárþörf íslenzkra atvinnuvega leggur okkur á herðar. Þessu fé er öllu ætlað að ávaxtast erlendis, og það er kallað gjaldeyrisforði. Gjaldeyriseign Seðlabankans nemur nú milli 1300 og 1400 millj. kr., en þess er að gæta, að þessi gjaldeyrisforði er algerlega falskur, vegna þess að myndun hans hefur leitt til svo stórfellds lánsfjárskorts innanlands, að atvinnuvegirnir hafa í vaxandi mæli orðið að leita starfsfjár síns erlendis. Í þessu sambandi má fyrst nefna það, að verzlunin hefur tekið viðskipta- og vörukaupalán til stutts tíma, sem námu, þegar þau voru hæst, 600–700 millj. kr., en munu nú ekki nema nema rúmlega 400 millj. kr. Auk þess hafa ýmis fyrirtæki orðið að taka lán erlendis, bein rekstrarlán, til þess að forða rekstri sinum frá stöðvun eða stórfelldum erfiðleikum, og jafnvel hefur hringavitleysan gengið svo langt, að viðskiptabankar hafa orðið að taka skyndilán í erlendum bönkum til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar, á meðan Seðlabankinn geymir 1300–1400 millj. í erlendum verðbréfum og erlendum bönkum. En þannig er það, að þegar þessar gjaldeyrisskuldbindingar, sem felast í þessum skyndilánum, sem ég hér hef verið að tala um, eru dregnar frá gjaldeyriseign Seðlabankans, þá fyrst er hægt að tala um þann mismun, sem þá kemur fram, sem hinn raunverulega gjaldeyrisforða þjóðarinnar, og þá kemur í ljós, að hann nemur þá eftir allt saman ekki nema líklega um 700–800 millj. kr. — Ég við sízt segja, að það sé of mikið, en ég vil samt vekja athygli á því, að það hlýtur að vera algert einsdæmi, að þjóðbanki verji öllu andvirði seðlaveltunnar, öllu eigin fé og allmiklu að auki, þannig, að hann láti það standa í erlendum bönkum og verðbréfum.

Ég og hv. 1. þm. Norðurl. e., sem með mér stendur að þessu nál., höfum ekki lagt til, eins og mér virtist í öðru orðinu koma fram hjá hv. frsm. meiri hl., að rýra gjaldeyrisforðann, enda kom það fram síðar í ræðu hv. frsm., að hann sagði, að við hefðum þó eftir allt saman komizt að þeirri niðurstöðu, að gjaldeyrisforðinn mætti ekki minni vera. Við höfum ekki lagt þetta til, og þess vegna hefur verið þarna um að ræða misskilning af hálfu hv. frsm. meiri hl. En þetta hvort tveggja, sem ég hef rakið, sýnir bara það eitt, að sparifjárforðinn í landinu er algerlega ófullnægjandi til þess að mæta þörfum þjóðarinnar og atvinnuvega hennar. Og hann er það vegna þess, að þau ferlegu dýrtíðarflóð, sem stjórnarstefnan hefur steypt yfir þjóðina, hafa aukið allan tilkostnað atvinnuveganna og þar með lánsfjárþörf þeirra miklu meira en sparifjáraukningin hefur í rauninni numið. Það eru að vísu stundum nefndar allháar tölur um það, hvað sparifjáraukningin hafi verið mikil á undanförnum árum, og það kemur í ljós, að í krónum talið hefur hún aukizt allmikið á seinustu 4 árum, þótt að sjálfsögðu beri að gá að því, að það er ekki sama krónan hér í þessu landi í dag og var fyrir 4 árum.

En þrátt fyrir þetta liggur það alveg ljóst fyrir, að sparifjárforðinn nægir verr núna, hann nægir verr en hann hefur gert nokkru sinni áður. Og það á rætur sínar í þeirri dýrtíðarpólitík, sem hér hefur verið rekin undanfarandi ár. Þessi vandi, sem okkur er hér á höndum, verður þess vegna ekki leystur með því að vera með einhverjar hókus-pókus tilfærslur á sömu peningunum innan bankakerfisins úr einum bankanum í annan. Það verður einungis leyst með því að auka sparifjárforðann í landinu, og það verður ekki gert, nema upp sé tekin ný stefna í efnahagsmálum, sem endurvekur traust þjóðarinnar á gjaldmiðli sínum og tryggir sparifjáreigendunum eðlilega vörn gegn holskeflum áframhaldandi dýrtíðar.

En annað meginatriðið í þessu frv. er svo ákvæði um það, að Seðlabankanum sé heimilt að gefa út verðbréf með ákvæðum þess efnis, að höfuðstóll og vextir af honum sé bundið gengi erlends gjaldeyris, og þetta á sjálfsagt af hálfu hæstv. ríkisstj. að vera tilraun til þess að gefa sparifjáreigendum nokkra tryggingu í dýrtíðarflóðinu. En eins og hv. frsm, meiri hl. tók mjög réttilega fram, þá er þetta algerlega ófullnægjandi lausn á verðtryggingarmálinu, eins og hann orðaði það. Og þetta er vissulega mjög ófullnægjandi lausn. Seðlabankinn hefur að vísu vissar ástæður til þess að vilja haga málunum þannig, vegna þess að hann getur litið á þann gjaldeyrissjóð, sem hann á, sem baktryggingu þessara bréfa, en gjaldeyrissjóðurinn mundi að sjálfsögðu hækka í verði í krónutali, ef af gengislækkun leiddi hækkun verðs á þessum bréfum. En fyrir sparifjáreigandann er hér ekki um mikla vörn að ræða. Hér hefur ekki verið breytt gengi um allmörg ár, þó að dýrtíðarflóðið hafi verið stórfellt. Og fyrir þá dýrtíðaraukningu lengi eigandi bréfa, slíkra sem hér um ræðir, ekki neinar bætur. En hins vegar er rétt að gera sér það ljóst, að á meðan ekki er neinnar annarrar verðtryggingar völ en þessarar gengistryggingar, sem hér er boðið upp á, þá er það mjög trúlegt, að sparifjáreigendur tækju þessa tryggingu þrátt fyrir allt fram yfir enga. En með því að leggja til, að Seðlabankinn fái einkarétt til útgáfu á slíkum bréfum, hafa menn væntanlega gert sér ljóst, að vegna þess, hvað þörfin fyrir einhverja verðtryggingu, hvað ófullkomin sem hún er, er orðin mikil, þá gæti slíkt fyrirkomulag sem hér er lagt til leitt til útstreymis eða a.m.k. minnkandi sparifjársöfnunar í viðskiptabönkum og sparisjóðum.

Hv. frsm. meiri hl. tók mjög undir það í framsöguræðu sinni, að okkur væri nauðsynlegt að verðtryggja sparifé. Og hann notaði þau orð, að honum væri ekki launung á því, að hann teldi þá þáltill., sem þm. Framsfl. hafa flutt um það mál hér á hv. Alþ., vera mjög athyglisverða. En hann harmaði það aðeins, hversu seint hún væri fram komin, auk þess hlyti athugunin að taka tíma og þess vegna gæti þetta ekki verið lausn í þeim vanda, sem kallaði að hæstv. ríkisstj. nú einmitt þessa stundina.

Þegar hv. frsm. meiri hl. kvartar yfir því, að þessi till. sé svo seint fram komin á þinginu, mætti kannske minna á það, að hún mun þó líklega hafa legið eina tvo mánuði hér fyrir hv. þingi eða jafnvel meira, ég þori ekki að fara með það nákvæmlega. En hitt þori ég að fullyrða, að hún hefur legið fyrir tveimur þingum áður. Hún hefur legið fyrir tveimur þingum áður, án þess að hv. frsm. meiri hl. legði krafta sína fram, svo að nægði, til þess að fá félaga sína til að samþykkja hana. Það er þess vegna alveg óþarft að kvarta yfir því, að hún sé seint fram komin á þessu þingi. Þessi till. er búin að liggja fyrir í mörg ár.

Ég vil lýsa þeirri skoðun okkar, sem stöndum að nál. minni hl., að það sé ekki hlutverk Seðlabankans að keppa við viðskipabankana og sparisjóðina um spariféð, hvorki með því að rífa það af þeim með ráðstöfunum löggjafans né heldur með því að afla sér einkaaðstöðu til þess að taka á móti peningum til ávöxtunar með þeim hætti, sem gera má ráð fyrir að almenningi muni þykja einna skástur af þeim, sem hann á völ á nú á næstunni. Okkur er þess vegna algerlega ómögulegt að fallast á þennan þátt frv. eins og hinn fyrri, og við leggjum til, að í staðinn sé undinn að því bráður bugur að taka verðtryggingarmálin fastari tökum á breiðari og almennari grundvelli:

Það virðist ljóst, að bæði meginatriði þessa frv. miða að því, að Seðlabankinn fari í veigamiklum atriðum inn á starfssvið viðskiptabankanna, og það liggur við, að manni finnist, að vantraust hæstv. ríkisstj. á bönkum og sparisjóðum í landinu sé svo mikið, að hún stefni að því að láta Seðlabankann smátt og smátt taka við allri starfsemi þeirra. Nú er það að vísu ærið umhugsunarefni, að bankakerfið í okkar litla þjóðfélagi er orðið feikilega viðamikið og auk Seðlabankans eru hér 3 ríkisbankar, sem starfa sem viðskiptabankar, 3 einkabankar með mikinn fjölda útibúa, fjöldi sparisjóða og þar að auki fjórði bankinn, sem er þó ekki beinlínis viðskiptabanki, heldur framkvæmdabanki. Ef það er ætlunin, að Seðlabankinn geri þessar stofnanir óþarfar og komi algerlega í þeirra stað, — það má sjálfsagt færa ýmis rök fyrir því, að það sé hentugt, það má líka færa rök gegn því, — en ef það er það, sem fyrir mönnum vakir, þá er bezt að snúa sér að því viðfangsefni að kanna það. Ef menn vilja breyta uppbyggingu bankakerfisins algerlega, þá er bezt að snúa sér að því að kanna það á breiðum almennum grundvelli, í stað þess að láta Seðlabankann vera smátt og smátt að seilast inn á svið þessara stofnana.

Hlutverk Seðlabankans er í rauninni mjög skarplega ákveðið í lögunum um Seðlabankann. 3. gr. þeirra 1., sem ég ætla að leyfa mér að vitna til, með leyfi hæstv. forseta, hljóðar þannig:

„Hlutverk Seðlabankans er:

1) Að annast seðlaútgáfu og vinna að því, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt, miðað við það, að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.

2) Að efla og varðveita gjaldeyrisvarasjóð, sem nægi til þess að tryggja frjáls viðskipti við útlönd og fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar út á við.

3) Að kaupa og selja erlendan gjaldeyri, fara með gengismál og hafa umsjón og eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum.

4) Að annast bankaviðskipti ríkissjóðs og vera ríkisstj. til ráðuneytis um allt, sem varðar gjaldeyris- og peningamál.

5) Að vera banki annarra banka og peningastofnana og hafa eftirlit með bankastarfsemi og stuðla að heilbrigðum verðbréfa- og peningaviðskiptum.

6) Að gera sem fullkomnastar skýrslur og áætlanir um allt, sem varðar hlutverk hans.

7) Að annast önnur verkefni, sem samrýmanleg eru tilgangi hans sem seðlabanka.“

Hér eru það auðvitað 1. og 2. tölul., sem mestu máli skipta. Og ef við lítum nú á ástand íslenzkra efnahagsmála í dag, þá geri ég ráð fyrir því, að menn geti orðið sammála um það, stjórnarliðarnir hv. líka, að Seðlabankanum hafi ekki tekizt allt of vel að gegna þessu hlutverki sínu. Ég vil þó ekki láta hjá líða að vekja athygli á því, að hér er ekki við stjórn Seðlabankans að sakast. Þau örlagaríku mistök, sem hafa orðið í stjórn efnahagsmála undanfarin ár, eru pólitísk, og Seðlabankinn hefur ekki haft skilyrði til þess að ráða við þau vegna ákvæða 4. gr. seðlabankal., sem fær ríkisstj. öll völd í hendur yfir bankanum, en 4. gr. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstj. og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining við ríkisstj. að ræða, er seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar. Hún skal engu að síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því, að sú stefna, sem ríkisstj. markar að lokum, nái tilgangi sínum.“

Þannig er seðlabankastjórn rétt að kvaka, en heldur ekki meir.

Þegar við hugleiðum þetta hlutverk Seðlabankans, hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu, að það sé ekki samrýmanlegt hlutverki hans sem þjóðbanka að heimta fé af viðskiptabönkum og sparisjóðum til þess að taka að sér hlutverk þeirra.

Við höfum, framsóknarmenn, ekki haldið því fram, að einhver sparifjárbinding á vegum Seðlabankans geti ekki verið réttlætanleg, þegar svo ber undir. En hún getur þó því aðeins verið það, að það sé í fyrsta lagi nauðsynlegt til þess að afla fjár til verkefna, sem eru þjóðarnauðsyn, og í öðru lagi, að það verkefni liggi utan eðlilegs starfssviðs viðskiptabanka og sparisjóða. Í þessu sambandi má nefna dæmi eins og þau, þegar Seðlabankinn leggur fram fé til eða stuðlar að íbúðarbyggingum, sem er auðvitað þjóðfélagslegt verkefni að koma áfram, eða sérstaklega þó t.d. raforkuframkvæmdum eða öðrum nauðsynlegum framkvæmdum í þágu alþjóðar eða uppbyggingu á vegum atvinnuveganna.

Bönkunum og sparisjóðunum veitir ekki af því, og alveg sérstaklega ekki viðskiptamönnum þeirra, að innlánsfé þessara banka sé í umferð, til þess að þessir bankar geti gegnt hlutverki sinu og skyldum sínum gagnvart atvinnuvegunum, að veita þeim nauðsynleg rekstrarlán. Þess vegna höfum við framsóknarmenn lagt til, að sparifjárbindingunni yrði hætt í því formi, sem hún er, enda er þetta, eins og fram kom í grg. með frv., ekki annað en peningar viðskiptabankanna og sparisjóðanna, sem eru notaðir til þess að taka að sér hlutverk þeirra, ganga inn á þeirra svið. Þess vegna leggjum við til, að sparifjárbindingunni verði hætt í því formi, sem hún er, og Seðlabankinn aðstoði eftir föngum viðskiptabankana á þann hátt, sem áður var, að hann leggi fram fé, eftir því sem hann hefur tök á, af öðru ráðstöfunarfé en því, sem tekið er af viðskiptabönkunum sjálfum. Við gerum okkur það hins vegar ljóst, að til þess að bankakerfið yfirleitt geti gegnt hlutverki sínu, þarf sparifjárforði þjóðarinnar að aukast, eins og ég gerði grein fyrir áðan. Það vinnst ekkert við einhverjar hókus-pókus tilfæringar milli bankanna innan kerfisins, það eykur ekki ráðstöfunarféð um einn eyri, og mér virðist vera rétt að benda á það, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er líklegra til þess, ef það verður að lögum, að minnka sparifjáraukninguna heldur en auka hana. Og það er vegna þess, að með þessu frv. eru sparifjáreigendur að mjög verulegu leyti sviptir ákvörðunarvaldi um það, í hvaða banka þeirra fé er ávaxtað, en það hugsa ég, að flestir hv. þm. geri sér ljóst, að er nokkurt atriði í sambandi við sparifjármyndunina, að menn viti, hvar þeir geyma peninga sína, og ráði því sjálfir.

Við teljum það ekki vera verkefni Seðlabankans að vera að ráðsmennskast í því, hvar Jón Jónsson vill ávaxta sparifé sitt. Við teljum það vera veigamesta hlutverk Seðlabankans nú að vinna að því að koma í veg fyrir áframhaldandi óheillaþróun í verðlags- og dýrtíðarmálum, sem ríkt hefur á stjórnartímabili hæstv. núv. ríkisstj., raunar ekki í fyrsta sinn að vísu, en það hefur þó aldrei verið eins og nú, dýrtíðarflóðið, sem yfir okkur hefur gengið. Það er veigamesta verkefni Seðlabankans að vinna að því að stemma stigu við þessari verðlagsþróun, en það er einmitt um leið fyrsta forsenda þess, að sparifjáraukningin geti verið viðunandi, að dýrtíðin sé hamin.

Það var liður í stefnu núv. hæstv. ríkisstj. að stórhækka vexti, og það var sagt, að með því mundu sparifjáreigendur loksins fá fullnægt öllu réttlæti. En hlutur þeirra hefur aldrei verið lakari en á undanförnum árum. Þetta kemur til af því, að fyrir sparifjáreigendur skipta nafnvextir bankanna ekki miklu máli. Það, sem máli skiptir fyrir þá, er, hvort þeir geti fengið sömu verðmæti út úr bönkunum aftur eftir nokkur ár og þeir lögðu inn í þá. Það eru raunvextirnir, sem þeir fá, sem skipta þá máli.

Háu vextirnir hafa önnur áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar en að auka sparifjármyndunina. Þeir eru stórfelldur þáttur í þeirri dýrtíð, sem hér hefur ríkt. Þetta höfum við rætt svo oft, að ég skal ekki fara frekar út í það núna, en það liggur ljóst fyrir, að á undanförnum 4 árum hefur vöruverð og þjónustuverð í landinu aukizt milli 80 og 90%, en almennar launahækkanir munu hins vegar nema um 55%.

Hlutur launþeganna í heildarafla þjóðarinnar hefur farið minnkandi. Hvert hefur mismunurinn farið? Hann hefur fyrst og fremst farið í aukinn fjármagnskostnað. Það er fyrst og fremst aukinn fjármagnskostnaður, sem hefur dælt upp þeirri verðbólgu, sem ætlar allt að kæfa í þessu þjóðfélagi nú. Við framsóknarmenn höfum lagt fram frv. um það, að vextir yrðu lækkaðir, og við höldum því fram og höfum leitt að því rök, að það mundi, ef rétt og vel og skynsamlega væri á haldið, hafa þau áhrif á verðlagið í landinu, að vaxtalækkun, lækkun nafnvaxta bankanna, mundi í rauninni þýða hækkun raunvaxta sparifjáreigendanna. Verðtrygging sparifjárins er nauðsynleg, ekki gengistrygging, eins og við hv. frsm. meiri hl. erum alveg sammála um, að er algerlega ófullnægjandi. Verðtrygging sparifjárins er mikið nauðsynjamál, og verðtrygging þess mundi að sjálfsögðu auðvelda mjög lækkun vaxtanna.

Ég geri ráð fyrir því, að ýmsir hv. þdm. hafi fylgzt með því, að á undanförnum árum hafa viðar verið umr. um verðtryggingu sparifjár heldur en bara á Íslandi, þó að engin þjóð í nágrenni okkar hafi haft svipað því eins mikið tilefni til slíkra umr. og við höfum haft. Og ég geri ráð fyrir því, að það séu fleiri en ég, sem hafa tekið eftir því, að þær umr. hafa mjög hnigið í þann farveg, einkum í seinni tíð, bæði í Svíþjóð og Danmörku, að aukin verðtrygging sé rétt leið í þessum efnum til þess að lækka vaxtabyrði atvinnuveganna, og þó hafa vextir í þeim löndum ekki verið svipur hjá sjón við það, sem okkar atvinnuvegir eiga að búa við. Það er ljóst af þeim umr., sem þarna hafa farið fram, að á þeirri stefnu, sem við framsóknarmenn höfum verið að tala fyrir í efnahagsmálum undanfarin 4 ár á hv. Alþingi og annars staðar, er sífellt að vaxa skilningur meðal annarra þjóða, og viss er ég um það, að henni er einnig að vaxa skilningur hér innanlands, þó að hv. þm. stjórnarliðsins haldi áfram að berja höfðum sínum við steininn.

Ég skal nú ekki orðlengja þetta, enda orðið framorðið. Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til, að þetta frv. verði fellt, og í nál. okkar höfum við hv. 1, þm. Norðurl. e. lagt það til og einnig hitt, að hv. alþm. snúi sér í staðinn að því að afgreiða núna fyrir þinglokin efnahagsmálatill. okkar framsóknarmanna.