09.05.1964
Efri deild: 96. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal í fáeinum orðum gera tilraun til að svara þeim fyrirspurnum, sem hv. 3. þm. Norðurl. v: hefur borið fram til mín.

Hann spurði í fyrsta lagi, hvort þær reglur, sem hér hafa verið í gildi síðan 1957 og nú er gert ráð fyrir að gera nokkru víðtækari, muni ekki vera einsdæmi.

Um þetta vildi ég segja, að það er eitt þekktasta hagstjórnartæki, sem seðlabankar allra landa beita, að hagnýta sér heimildir, sem eru í nær allri seðlabankalöggjöf, sem ég þekki til, að binda nokkurn hluta af annaðhvort innstæðuaukningu eða innstæðum viðskiptabanka í seðlabanka. Það er mjög algengt, og slíkar heimildir eru yfirleitt í seðlabankalöggjöf nágrannalandanna. Hitt er rétt hjá hv. þm., að það hlutfall, sem hér er gert ráð fyrir, það hámark, sem hér er gert ráð fyrir, er hærra en tíðkast í líklega flestum nágrannalandanna. Það á sér þá einföldu skýringu, að íslenzki seðlabankinn hefur með höndum lánastarfsemi, sem enginn seðlabanki, sem ég þekki til, í nálægum löndum annast. Enginn seðlabanki, a.m.k. ekki á Norðurlöndum og í helztu löndum Vestur-Evrópu, þar sem ég þekki til skipunar þessara mála, enginn þessara seðlabanka annast endurkaup á viðskiptavíxlum með sama hætti og íslenzki seðlabankinn gerir. Ástæða þess, að gert er ráð fyrir jafnháu hámarki innstæðubindingar og hér á sér stað, er einfaldlega þessi, að Seðlabankanum hér hefur verið fengið verkefni, sem aðrir seðlabankar annast ekki, og meiningin, að hann haldi því áfram. Ef sú kvöð yrði tekin af íslenzka seðlabankanum að annast endurkaup afurðavíxla af sjávarútvegi og landbúnaði, mundi það gerast sjálfkrafa, að Seðlabankinn neytti ekki þessarar heimildar.

Ég get gjarnan skýrt frá því hér, að á s.l. ári var athugað mjög ýtarlega og rætt mjög ýtarlega í ríkisstj. og Seðlabankanum, hvort ekki ætti að reyna að koma á því samkomulagi milli Seðlabankans og viðskiptabankanna, að þeir tækju að sér þau lán, þau endurkaupaviðskipti í víxlum, sem Seðlabankinn nú hefur með höndum. Niðurstaðan af þeim miklu umræðum, sem þá áttu sér stað, var sú, að sú skipulagsbreyting á aðstoð bankakerfisins við sjávarútveg og landbúnað, sem slíkt mundi hafa í för með sér, væri ekki tímabær og á henni væru ýmsir mjög alvarlegir framkvæmdaörðugleikar, svo að frá því ráði var horfið. Og ég tel, að eins og nú standa sakir, mundi það sízt, eins og ég hef sagt áður í þessum umr., vera til hagsbóta fyrir sjávarútveg og landbúnað, ef slík breyting ætti sér stað.

Þessari spurningu er því svarað sumpart með jái og sumpart með neii, þ.e.a.s. bindiskylda almennt er ekki einsdæmi, en hins vegar má segja, að það hámark, sem hér er gert ráð fyrir, sé einsdæmi, vegna þess að einsdæmi er sú kvöð, sem hér er á Seðlabankanum, þau verkefni, sem hann hefur varðandi lánveitingar til sjávarútvegs og landbúnaðar, og þannig leiðir hina háu bindiskyldu hér beinlínis af þeim kvöðum, sem hér eru á Seðlabankanum.

Í sambandi við þetta vildi ég og enn undirstrika það, sem ég hef raunar gert áður í þessum löngu umr., Sem um málið hafa farið fram, að vara við þeim misskilningi á þeim orðum, sem notuð eru í sambandi við frv., að Seðlabankinn bindur þetta fé, sem hann fær frá viðskiptabönkunum, ekki í þeim skilningi, að féð sé ekki áfram í umferð hjá atvinnuvegunum. Allt þetta fé Seðlabankans er að sjálfsögðu í umferð, svo sem greinilegast kemur fram af því, að það er nokkurn veginn sama upphæðin, 700–800 millj. kr., sem Seðlabankinn hefur fengið frá viðskiptabönkunum skv. þessum reglum og hann hefur varið til endurkaupa á afurðavíxlum sjávarútvegs og landbúnaðarins.

Er á hreinu hagsmunasjónarmiði Seðlabankans, ef nota má það orð, mætti því vel hugsa sér, að þessi bindiskylda væri algerlega felld niður og þá líka afurðalán Seðlabankans algerlega felld niður. Og ef menn tala um þessar bindingarreglur sem kvöð á atvinnuvegunum, er það að því leyti alger misskilningur, að ef þessar reglur væru afnumdar og afurðakaupunum einnig hætt, yrðu að sjálfsögðu viðskiptabankarnir að lána nákvæmlega sömu upphæð beint til sjávarútvegs og landbúnaðar og þá, sem þeir nú eiga inni í Seðlabankanum. En það er ekki aðeins, að fulltrúar sjávarútvegs og landbúnaðar hafa ekki óskað eftir, að slík breyting yrði gerð, heldur er viðskiptabönkunum sjálfum það þvert um geð, a.m.k. eins og sakir standa, að slík breyting yrði gerð.

Hitt er auðvitað áróður af allra ódýrustu tegund, að gera því skóna, að unnt yrði að létta þessari svokölluðu innstæðubindingu af viðskiptabönkunum og láta Seðlabankann eftir sem áður lána jafnmikið fé til sjávarútvegs og landbúnaðar og hann hefur gert.

Þá spurði hv. þm., hvers vegna felldar væru niður ákveðnar setningar í 11. gr. seðlabankalaga frá 1961 um það, að Seðlabankanum skuli heimílt að taka verðbréf frá viðskiptabönkum, ef bindireglurnar valdi þeim sérstökum erfiðleikum. Það hefur verið talið, að ekki sé lengur þörf á þessum reglum, vegna þess að framkvæmd þessa máls er komið í algerlega fast form. Þessar reglur, þessar undanþáguheimildir, voru taldar nauðsynlegar í upphafi, meðan ekki var auðvelt að sjá fyrir, hvernig framkvæmd þessara reglna mundu Verka, en það hefur ekki verið þörf á því að neyta þessara heimilda fram til þessa, og málið er sem sagt allt komið í svo fast horf, að þeirra er ekki lengur talin nauðsyn.

Í þriðja lagi spurði hv. þm., hvort ætlunin væri að nota allt bundna féð til afurðalána. Ég sagði í ræðu minni, þegar ég lagði frv. fyrir þessa hv. deild, að um slík atriði væri ógerningur að gefa nokkra yfirlýsingu fyrir fram. Það hlýtur að sjálfsögðu að fara eftir fjárhagsástandinu á hverjum tíma, eftir því, hversu innstæðuaukningin er mikil og þörfin fyrir lánsfé er mikil, hvernig Seðlabankinn ráðstafar því fé, sem hann fær yfirráð yfir skv. þessum reglum. Það er hins vegar alkunna, að mjög háværar óskir hafa verið uppi um það af hálfu þriðja aðalatvinnuvegar landsmanna, iðnaðarins, að hann fái að njóta einhverra hliðstæðra reglna og sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn njóta nú hjá Seðlabankanum. Og ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að það eigi að taka til mjög ýtarlegrar athugunar alveg á næstunni, hvort ekki sé rétt að reyna að liðsinna iðnaðinum með þessum hætti. En það getur því aðeins orðið, að Seðlabankinn fái aukið fé skv. þessum reglum. Og haldi innstæðuaukningin áfram og fái Seðlabankinn aukið fé, þá mun það verða tekið til athugunar að hefja í einhverju formi endurkaup á afurðavíxlum iðnaðarins.

Varðandi fjórðu spurningu hv. þm. hef ég raunar ekki annað að segja en vitna í 2. gr. frv., eins og hún er, þar sem gert er ráð fyrir því, að Seðlabankinn fái heimild til að gefa út verðbréf með gengisákvæði. Afleiðingin af því er auðvitað sú, að eigendur verðbréfanna bera gengisáhættuna, en ekki Seðlabankinn.

Fimmta og síðasta spurning hv. þm. var sú, hvaða afstöðu ég hefði til þeirra tillagna, sem uppi hafa verið um það, að Búnaðarbankinn fái gjaldeyrisréttindi. Um þetta get ég á þessu stigi aðeins sagt það, að ég tel, eins og nú standa sakir, ekki tímabært að gera breytingar á því skipulagi varðandi gjaldeyrisréttindi, sem nú á sér stað. Hitt er annað mál, að ég geri ráð fyrir því, að þetta skipulag muni ekki standa um alla eilífð. Það hefur verið rætt undanfarin ár, hvort ekki sé rétt að gera á þessu breytingar, ekki aðeins að það sé gert í Búnaðarbankanum, heldur og við aðra viðskiptabanka í landinu. Það mál er áfram til athugunar. Það verður haldið áfram athugunum á því, hvort ekki sé rétt, að viðskiptabankar landsins yfirleitt fái rétt til að verzla með gjaldeyri í einhverju formi. Um þetta hefur ekki verið tekin nein endanleg ákvörðun, en málið er í athugun, og þeirri athugun mun verða haldið áfram.