09.05.1964
Efri deild: 96. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara hér að ræða þetta mál almennt, þótt það væri freistandi að ræða ýmis atriði þess, sem víssulega hafa mikla þýðingu fyrir allt efnahagskerfið. Ég vil taka það fram, að ég er sammála hæstv. ríkisstj. og stjórn Seðlabankans um nauðsyn þess að framkvæma vissa bindingu á innlánaaukningu banka og annarra lánastofnana, með hliðsjón af því ástandi, sem ríkjandi er og hefur verið að undanförnu í okkar efnahagskerfi, og þeirri miklu þenslu, sem þar er. Eitt vil ég taka skýrt fram, að ég álít, að það verði að fara með fullri varfærni í slíka bindingu, og það er full ástæða til að leggja áherzlu á, að þess verði vendilega gætt að ganga þar ekki lengra en góðu hófi gegnir. Það er auðvitað alltaf viss hætta í því, að menn hugsi sem svo, að það sé nauðsynlegt að ganga svo og svo langt í þessum efnum sem öðrum. og það er erfitt að setja markið, hvenær nógu mikil trygging er fengin fyrir þeirri peningamálapólitík. sem nauðsynlegt er talið að reka, og ég skal ekki dæma um það, hvort hægt er að ákveða það nánar en gert er í þessu frv. En ég hygg þó, að það hljóti að koma að því innan tíðar, að það komi ekki til, að frekari binding eigi sér stað.

Það er alveg rétt, að Seðlabankinn verður að sjálfsögðu að hafa fé til þess að standa undir sínum skuldbindingum, meðan á hans vegum eru þær lánveitingar, sem nú eru þar og hæstv. viðskmrh. lýsti hér áðan í sambandi við afurðalánin. En það hljóta auðvitað að verða viss mörk á því, nema aðeins að þar verði um verulega aukningu slíkra lána að ræða, og það ber að leggja áherzlu á það, og það er skilningur viðskiptabankanna á þessu ákvæði, að þess verði vandlega gætt að ganga ekki lengra í bindingunni en brýnasta þörf krefur.

Það er einnig rétt, að komi hér fram, að að sjálfsögðu verður að beita með mjög mikilli varfærni því heimildarákvæði, sem er um skuldabréfaútgáfu, útgáfu gengistryggðra verðbréfa Seðlabankans, af því að það er ljóst, að ef þau bréf yrðu þannig úr garði gerð varðandi kjör, að þau væru sérstaklega aðlaðandi fyrir sparifjáreigendur, væri með því einnig hægt að auka verulega á bindinguna á þann hátt.

Ég tel hins vegar ekki ástæðu til þess að álíta, að þess verði ekki fullkomlega gætt, að það raski ekki eðlilegri starfsemi viðskiptalánastofnana, því að að sjálfsögðu mega menn ekki álíta, að stjórn Seðlabankans sé sérstaklega umhugað um að skapa einhver vandræði fyrir viðskiptalánastofnanir í landinu. Það hlýtur auðvitað að vera hennar skylda að sjá til þess, að þessi mál þróist á þann hátt, sem farsælast megi telja á hverjum tíma.

Það er hins vegar skiljanlegt, að það er erfitt um vik fyrir lánastofnanir, sem liggja undir miklu meiri eftirspurn fjár af hálfu sinna viðskiptavina en mögulegt er að lána, að þurfa að binda mjög háar fjárhæðir, og það gefur auga leið, eins og bent hefur verið á af stjórnum vissra banka, sem látið hafa í ljós skoðun sína á þessu máli, að vitanlega rýrir þetta möguleika bankanna til að veita fyrirgreiðslu þeim aðilum, sem til þeirra leita. En þetta mál verður auðvitað að skoðast í ljósi þeirrar staðreyndar, hvort frá efnahagslegu sjónarmiði og peningapólitísku sjónarmiði í landinu er nauðsynlegt að viðhafa ráðstafanir sem þessar eða ekki. Það atriði hlýtur að ráða úrslitum um viðhorf manna almennt til þessara reglna.

Það var annars ekki ætlun mín, eins og ég sagði áðan, að fara að ræða þetta mál í einstökum atriðum. En það er eitt atriði, sem ég get ekki stillt mig um að minnast hér á og hv. 3. þm. Norðurl. v. vék að í ræðu sinni áðan og raunar einnig við 1. umr. um þetta mál, en það var um það, hvort ekki væri tímabært orðið og eðlilegt, að Búnaðarbanki Íslands fengi gjaldeyrisréttindi eins og allir aðrir ríkisbankar hafa.

Ég er honum fullkomlega sammála um þetta, og ég er honum jafnframt mjög þakklátur fyrir, að hann hefur alla tíð drengilega stutt þetta viðhorf, og innan Seðlabankans hefur hann einnig gert það, mér er kunnugt um það, því að sannleikur málsins er sá, og ég hef sannfærzt um það því betur sem ég hef kynnzt betur bankastarfsemi, að það eru ekki til nokkur rök fyrir því, að Búnaðarbankinn fái ekki þessi réttindi. Það hefur verið haldið fram vissum kenningum um það atriði, sem ég skal ekki fara út í og ekki fara að efna til umræðna um þetta mál, en ég hef grandskoðað þær kenningar og er sannfærður um það og tel mig mæla þar fullkomlega öfgalaust, að þær fá á engan hátt staðizt sem röksemdir fyrir því, að þessi breyting verði ekki gerð. Það er hins vegar svo, að það er alltaf tilhneiging til vissrar íhaldssemi í þessum málum sem öðrum, og mér er kunnugt um þær skoðanir, sem fram hafa komið frá vissum aðilum í stjórn Seðlabankans, að sú skipan, sem verið hafi í þessum málum, hafi reynzt svo vel, að það sé ekki nein ástæða til breytinga. Á slíkt mega menn auðvitað ekki blína, heldur horfa á það, hvort um eðlilega skipan mála er að ræða eða ekki, miðað við allar aðstæður, eins og þær eru. Ekki hvað sízt vegna þess, hvað viðskiptalíf er nú orðið miklum mun frjálsara en verið hefur, liggur í augum uppi, að það er óumflýjanlegt annað en taka þetta mál til endurskoðunar.

Ég átti þátt í því beinlínis, þegar hv. 3. þm. Norðurl. v, flutti till. um þetta hér á sínum tíma, að fara þess á leit við hann, að hann drægi þá till. aftur, vegna þess að ég taldi ekki æskilegt að efna til deilna um það mál hér, ekki sízt ef till. næði ekki fram að ganga, og vegna þess að ég treysti því, að skilningur stjórnar Seðlabankans mundi vera fyrir hendi á þessu máli, og í seðlabankalögunum er heimild seðlabankastjórninni til handa til að veita öðrum bönkum en þar eru nefndir slík réttindi. Því miður hefur þessi skilningur ekki verið fyrir hendi, og það er búið að sækja eftir þessu allan tímann síðan, að þetta mál var hér til umr., án nokkurs árangurs. Ég verð því miður að segja, að mér finnst, að athuganir á þessu máli séu búnar að taka æðilangan tíma, og sannast sagna hef ekki fundið ástæðu fyrir því, af hverju er ekki endanlega hægt að gera út um þetta mál, og ég get ekki fallizt á þá skoðun, að breyting sem þessi sé ekki tímabær. Ég er ákveðið þeirrar skoðunar, að það sé fráleit og fáránleg skipan að ákveða, að vissir viðskiptabankar skuli hafa gjaldeyrisréttindi, og ég veit ekki til, að þetta tíðkist í nokkru einasta landi, hér a.m.k. í okkar nálægu löndum, að slík skipan mála sé.

Hitt finnst mér eðlilegt og sjálfsagt að setja í I. um seðlabanka, að það væri skylt, að bankar uppfylltu viss skilyrði til þess að geta fengið þessi réttindi, því að það gefur auga leið, að það verður að vera fyrir hendi viss reynsla af starfi banka og að bankinn sé svo sterkur fjárhagslega, að hann geti risið undir þeim skuldbindingum, sem af þessu leiðir, og skapi ekki hættu fyrir efnahagslegt traust þjóðarinnar út á við með því að geta ekki staðið við þær skuldbindingar, sem hann hefur tekizt á hendur. Þetta allt saman er eðlilegt, og ég tel, að það væri sjálfsagt og í rauninni ákaflega einföld breyting og þyrfti engra bollalegginga við að ákveða, að bankar, sem, eins og ég sagði, uppfylltu viss skilyrði, hefðu vissa upphæð innlánsfjár, sem vitanlega er mesta tryggingin fyrir þeirra skuldbindingum, skyldu hafa réttindi til að verzla með erlendan gjaldeyri. Þeir verða svo auðvitað að gæta þess að uppfylla þær skyldur aðrar, sem á hverjum tíma eru af löggjafans hendi eða framkvæmdavaldsins settar um meðferð þeirra réttinda.

Þetta vildi ég láta ákveðið koma hér fram í sambandi við þau orð, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði áðan. Og ég við ákveðið harma það, að ekki skuli hafa tekizt á þann hátt, sem ég vonaðist til að hægt væri að leysa þetta mál, með friðsamlegu samkomulagi og virðingu fyrir öllum staðreyndum málsins að fá þetta leyst á viðunandi hátt. Það eitt út af fyrir sig, að Búnaðarbankinn, sem er yfir 30 ára gamall banki og er, eins og ég sagði áðan, eini ríkisbankinn, sem hefur ekki þessi réttindi, — það eitt mál út af fyrir sig er þess eðlis að skapa nægilegan rétt bankanum til handa, miðað við þá þróun, sem hann hefur haft, og hans stöðu í þjóðfélaginu í dag. En ég vil einnig láta það koma skýrt fram, að ég er ekki með því að halda því fram, að það eigi sérstaklega að binda þetta við ríkisbanka, eins og ég sagði, ef bankar eru búnir að öðlast vissan styrkleika og hafa sýnt það um — við skulum segja: tiltekið árabil, að þeir hafi þróazt með eðlilegum hætti, þannig að þeim sé treystandi sem lánastofnunum, þá beri að veita þeim þessi réttindi. Það liggur alveg ljóst fyrir,. að banki, sem búinn er að fá vissan starfsgrundvöll, það verður honum því erfiðara, eftir því sem tímar líða og eftir því sem hann verður stærst, að hafa ekki aðstöðu til þess að veita viðskiptavinum sínum þá fyrirgreiðslu, sem hér er um að ræða.

Þetta vil ég ákveðið láta koma hér fram í sambandi við þessar umræður, sem hér hafa komið fram. Út af fyrir sig þykir mér vænt um, ef áfram er til athugunar lausn þessa máls, en mér þykir, eins og ég sagði áðan, að sú athugun hafi gengið harla hægt og það eigi ekki að þurfa stórkostlegar bollaleggingar í því sambandi, og vil að lokum láta í ljós von um það, að þetta mál leysist á þann eina hátt, sem viðunandi er.