11.05.1964
Efri deild: 87. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þetta eru alveg furðuleg vinnubrögð, sem hér eru höfð um hönd, alveg furðuleg. Og ég get ekki annað en látið í ljós vonbrigði mín yfir því, að hæstv. viðskmrh. skuli beita sér fyrir þvílíkum vinnubrögðum. Þetta frv., sem hér er fjallað um, frv. um Seðlabanka Íslands, var lagt fram snemma þings. Það hefur verið til meðferðar í Nd. svo að mánuðum skiptir, verið rætt þar mikið og nægur tími gefizt þar til athugunar á öllum atriðum í sambandi við þetta mál. En það hefur ekki á þeim tíma vaknað upp fyrir hæstv. viðskmrh., að það gæti verið ástæða til að gera frekari breytingar á seðlabankal. heldur en lagt er til í frv. Seint og síðar meir er svo þetta frv. tekið til meðferðar hér í þessari hv. d. Þá gerir hæstv. viðskmrh. við 1. umr. málsins mjög takmarkaða og stutta grein fyrir þessu frv. Ég tók síðan til máls við þá umr. og gerði allmargar aths. við þetta frv. Hæstv. viðskmrh. var þá eins og fló á skinni hér í d. og mátti ekki vera að hlusta á nema með öðru eyranu — og varla þó — það, sem fram var borið í sambandi við þetta. Síðan átti svo að taka málið til 2. umr., og var það tekið til 2. umr. hér á næturfundi, án þess að viðskmrh. léti þá svo lítið að vera viðstaddur. Og það var fyrir eindregin mótmæli mín og eindregin tilmæli, að hæstv. forseti frestaði þá afgreiðslu málsins til næsta dags, og þá fyrst var hæstv. viðskmrh. viðlátinn að vera hér staddur í d. og svara, að vísu af lítilli getu, þeim fsp., sem ég þá bar fram. Og nú er þetta mál tekið til 3. umr., þegar sennilega tveir dagar lifa þingsins. Og þá fyrst hugkvæmist hæstv. viðskmrh. að koma fram með brtt., sem fyrir liggja á þskj. 647.

Um seinni brtt. er það að segja, að hún er nánast hlægileg, það verð ég að segja, og þó kannske ekki að öllu leyti, því að í henni felst viss vitnisburður um seðlabankastjórn. Ég veit ekki betur en það hafi viðgengizt nú um alllanga hríð, að Seðlabankinn hafi tekið að sér að innheimta ávísanir, sem ekki er næg innstæða fyrir hjá innlánsstofnunum. Ég veit ekki betur en það hafi gerzt með samningi á milli Seðlabankans og viðskiptabankanna. Ég hef aldrei heyrt, að það hafi verið vefengt, að þetta hafi verið fyllilega lögmætt. Nú á að fara að koma fram með till. um að setja lagaákvæði um þetta. Þýðir þá það, að það, sem gert hefur verið í þessu máli af hálfu seðlabankastjórnar og viðskiptabankanna, hafi verið með öllu ólöglegt? Hvað á það að þýða að fara að fá þessa heimild nú? Auðvitað gerir það ekkert til, þótt þessi heimild verði samþ. í sjálfu sér, en þetta er bara alveg út í bláinn og getur ekki þýtt annað en það, að það sé vefengt af hæstv. viðskmrh., að Seðlabankinn hafi haft heimild til þess að gera það, sem hann hefur gert. En þessi brtt. er meinlaus.

Hið sama verður ekki sagt um fyrri brtt. Hún er að mínum dómi fáránleg af mörgum ástæðum. Hún er að vísu í stíl við stefnu hæstv. ríkisstj., þá sem hún hefur fylgt að undanförnu, allt frá því að hún setti seðlabankalögin 1961, en seðlabankal. táknuðu þá að vissu leyti spor aftur á bak frá því, sem verið hafði, því að gagnstætt því, sem var þá látið í veðri vaka, var með þessum l. um Seðlabankann frá 1961 verið að gera hann háðari ríkisstj. en hann hafði áður verið. Þó að það væri haft á orði, að það væri verið að stofnsetja sérstakan og sjálfstæðan seðlabanka, var raunveruleikinn þessi, að það var verið að gera bankann háðari ríkisstj. en áður var. Og síðan hefur allt miðað í þá sömu átt að setja sem mest undir ríkisstjórnarhatt í bankamálunum. Og nú við 3. og síðustu umr. málsins í þessari hv. d., síðari d., sem fær mál þetta til meðferðar, kemur hæstv. viðskmrh. fram með alveg spánnýja brtt., þess efnis, að ef innlánsstofnanir þær, sem ræðir um í þessu frv., sem hér liggur fyrir, — en það eru ekki bara bankar og ekki bara sparisjóðir, heldur einnig innlánsdeildir kaupfélaga, — að ef innlánsstofnanir þær, sem ræðir um í þessu frv„ óska þess að setja upp útibú eða umboðsskrifstofu einhvers staðar, þá skuli þurfa að fá til þess leyfi ríkisstj. Ríkisstj. ætlar sem sé sjálf að ákveða það í framtíðinni, á hvaða stöðum útibú skuli upp sett og hvaða bankar skuli gera það á hverjum stað.

Það er náttúrlega skiljanlegt, að marga langar til að hafa völd, og það getur kannske verið mannlegt, að ráðh. langi til þess að geta haft vald til þess að ráðstafa hlutunum. En ég hygg nú, — ég veit, að ég er ekki eins fróður um bankamál og hæstv. viðskmrh., — en ég vil nú leyfa mér að staðhæfa, þangað til annað upplýsist, að þess muni ekki þekkjast dæmi í öðrum löndum, að viðskiptabankar þurfi leyfi ríkisstj. til þess að setja upp útibú eða umboðsskrifstofu, hvar sem vera skal. En þessi brtt. er með sama blænum og annað í seðlabankalögunum. Það á að reyna að láta það líta svo út, að það sé verið að fela Seðlabankanum eitthvert hlutverk, gera sem minnst úr því, að það er í raun og veru ríkisstj., sem öllu á að ráða. Seðlabankinn á hér eins og annars staðar að vera skriffinnskulegur milliliður á milli. Það á sem sé, þegar viðskiptabanki óskar að setja upp útibú einhvers staðar, þegar sparisjóður óskar að setja upp einhvers staðar umboðsskrifstofu, þegar innlánsdeild kaupfélags vildi gera það til hagræðis viðskiptamönnum kaupfélags að setja upp umboðsskrifstofu einhvers staðar annars staðar á félagssvæðinu heldur en þar sem höfuðstöðvar félagsins eru, þá á að senda þá umsókn til Seðlabankans, og svo má Seðlabankinn athuga þá umsókn, og hann má láta í ljós álit sitt á henni, en síðan verður að senda umsóknina upp í stjórnarráð, og þar verður ráðh. að segja til, hvort við þessum tilmælum skuli orðið eða ekki. Það eru miklar umbúðir um okkar Seðlabanka, og í orði er honum sums staðar fengið dálítið vald, og honum stýra þrír ágætir bankastjórar og svo er þar yfirbankaráð, en ekki þykir nú þessari stofnun samt, þjóðbankanum sjálfum, sem svo er kallaður, trúandi fyrir að skera úr því, hvort viðskiptabankar eða innlánsstofnanir skuli setja upp útibú á þessum eða þessum stað. Nei, hann má ekki hafa fullnaðarráð um það, ráðh. skal hafa valdið. Það er ráðh., sem á að taka ákvörðun um það, hvort leyfi skuli veitt. Þannig er þetta allt á eina bókina lært, að það er verið að fara í feluleik með hlutina og reyna að breiða yfir það, sem raunverulega vakir fyrir hæstv. ríkisstj, og er hennar vilji. Hún er að sölsa undir sig vald, sem hún hefur ekki og hefur ekki haft til þessa. En hún er að reyna að breiða yfir það með því að láta líta svo út, að hún sé að fá Seðlabankanum eitthvert hlutverk í þessu sambandi, og skýtur svo þessu ákvæði um vald ríkisstj. inn í frv. til seðlabankalaga.

Nú er það reyndar svo, að þessi brtt. fjallar ekki um seðlabanka. Hún fjallar um viðskiptabanka og þeirra starfsemi og innlánsstofnanir þeirra, og það vill nú svo til hjá okkur, þó að það megi kannske segja, að það sé dálitið einkennilegt og óvenjulegt, miðað við það, sem er annars staðar, að það hafa verið sett hér sérstök lög um hvern viðskiptabanka, sem hér hefur verið settur á stofn. Það hafa ekki enn verið sett almenn bankalög, svo sem eðlilegt mætti teljast. Mér er það að vísu kunnugt, að hæstv. viðskmrh. hefur gert ráðstafanir til þess, að samin verði slík almenn bankalög fyrir viðskiptabanka og innlánsstofnanir, því að þau eiga að ná til allra innlánsstofnana. En það virðist liggja svo mikið á þessari breytingu, að hún hafi ekki mátt bíða eftir því, og hana á að gera hér með þessum hætti, að láta samþykkja hana við eina umr., síðustu í þessari d., fara svo til neðri deildar, og þar á hún að samþykkjast við eina umr., og þá eiga þetta að heita lög. En það er nú þannig fyrir mælt í okkar stjórnarskrá, að hvert lagafrv. eigi að ganga í gegnum þrjár umr. í hvorri d. En í þessu tilfelli hagar svo til, eins og ég sagði áðan, að um hvern einasta viðskiptabanka eru sérstök lög, og það er í þeim lögum, sem mælt er fyrir um þetta efni, sem hér er verið að skipa fyrir um. Og ef þeim lögum á að breyta með þessum hætti, sem ég hef hér bent á og augljóst er að ætlunin er, þá sér það hver heilvita maður, að ákvæðum þessum, sem standa t.d. í lögunum um Landsbanka Íslands og í lögunum um Útvegsbanka Íslands og í öðrum hinum einstöku bankalögum, þá sér hver maður, að breyting á þeim lögum hefur ekki gengið í gegnum neinar 3 umr., en þessi brtt. er í raun og veru brtt. við hin einstöku bankalög. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — benda á lög nr. 11 1961, um Landsbanka Íslands. Þar segir í 4. gr. skýrum stöfum:

„Landsbanki Íslands hefur heimili sitt og varnarþing í Reykjavík: Auk þess getur hann haft útibú, þar sem bankastjórn og bankaráð ákveða.“

Hér er alveg skýrum stöfum mælt í 1., hvaða aðilar það eru, sem ákveða það, hvar Landsbankinn skuli geta sett upp útibú. Ef því fyrirkomulagi á að breyta, þarf að breyta þessari gr., 4. gr. landsbankal. Það sér hvert sæmilega þroskað barn, það er ekki hægt að fara öðruvísi að. Og alveg sama verður upp á teningnum, þegar flett er upp á l. um Útvegsbanka Íslands, nr. 12 frá 1961. Þar segir svo í 4. gr.:

„Útvegsbanki Íslands hefur heimili sitt og varnarþing í Reykjavík, en auk þess getur hann haft útibú, þar sem bankastjórn og bankaráð ákveða.“

Það eru bankastjórar Útvegsbankans og bankaráð hans, sem ákveða það, hvar Útvegsbankinn skuli hafa útibú samkv. l. um Útvegsbanka. Og ef á að breyta því ákvæði, þá á að breyta því með breyt. á I. um Útvegsbanka eða í almennum bankalögum, sem kæmu í stað eða leystu af hólmi þessi einstöku bankalög. Þannig gæti ég haldið áfram og lesið upp úr öllum þeim bankalögum, sem sett hafa verið viðskiptabönkum, eða þá þeim samþykktum, sem settar hafa verið um einkabanka til viðbótar þeim l., sem um þá hafa verið sett. Þetta er því alveg furðulegt, að fara að koma með þetta á síðasta stigi málsins og ætla að fara að koma hér — ég vil segja: aftan að mönnum um þetta. Þegar það hefur verið gert ráð fyrir því, að þinginu væri að ljúka, þá er komið þarna með spánnýtt mál. Við stjórnarandstæðingar hér í Ed. verðum áreiðanlega ekki sakaðir um það að hafa haldið hér uppi málþófi yfirleitt. En ef það á að fara svona að, þá verður að grípa til einhverra ráða.

Nú er það alveg rétt, sem hæstv. viðskmrh. drap á í ræðu sinni hér áðan, að það hefur nokkuð mikið kveðið að því, að bankaútibú væru sett upp, og það má vel vera, að mörgum hafi sýnzt, að í því hafi ekki gætt fullrar hagsýni, hafi ekki alltaf verið farið sem skynsamlegast að, þannig að tveir bankar hafa kannske sett upp útibú á sama stað og það kannske ekki í sérlega fjölmennum byggðarlögum. Það má kannske í sjálfu sér gagnrýna þetta. Og það má gagnrýna það kannske, að þessir sömu bankar hafa sett upp útibú nokkuð víðs vegar hér um bæinn og lagt talsvert fé í húsnæði hér og þar, að því er virðist í því skyni. En ég held, að það sé samt ekki hægt að gagnrýna það svo sterklega, að það réttlæti þessa ráðstöfun, sem hér er gerð, að fara að taka alveg ráðin af stjórnum viðskiptabankanna í þessu máli, svipta þær alveg forræði í þessum málum. Þó að það megi kannske finna að einstökum ráðstöfunum þar, þá held ég, að það réttlæti ekki það vantraust, sem kemur fram í þessari brtt. í garð viðskiptabankanna og stjórna þeirra. Og þó að hæstv. ríkisstj. vilji fá meiri völd í þessu efni, er það nú ekki svo, að þessir viðskiptabankar séu svo ákaflega fjarlægir hæstv. ríkisstj., af því að a.m.k. í bankaráðum flestra ríkisbankanna mun ráðh., einn eða fleiri, eiga sæti, þannig að það eru hæg heimatökin fyrir ríkisstj. að fylgjast með í þessu efni, því að það er alveg ljóst af þessum lagaákvæðum, sem ég las upp hér áðan, að það er bankaráðið líka, sem verður að segja sitt orð um það, hvort upp skuli sett útibú eða ekki. Og það má þess vegna vissulega segja, að það sé meira en lítið vantraust, sem felist í þessari brtt. frá hæstv. viðskmrh. í garð samráðh. síns, hæstv. utanrrh., Guðmundar Í. Guðmundssonar, sem er formaður í bankaráði Útvegsbanka Íslands, þegar það á nú með þessari breytingu og þessum hætti að fara að taka af honum ákvörðunarvald um þetta efni.

Það getur vel verið samt, eins og ég sagði, að það megi gagnrýna eitthvað þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í þessu efni, og það má vel vera, að þetta mál þurfi að taka nokkuð til athugunar. En þá er það eðlilegast, að það sé gert í sambandi við setningu almennra bankalaga, sem leystu hin einstöku bankalög af hólmi, en það sé ekki hrapað að neinu í þessu efni. Og ef ætti að setja einhverja yfiraðila yfir viðskiptabankana að þessu leyti til, þá væri vitaskuld eðlilegt, að sá aðili væri þjóðbankinn, en ekki ráðh. eða ríkisstj. Það er náttúrlega forkastanlegt að ætla að fá jafnpólitískum valdhafa og ráðh. eru úrskurðarvald um efni sem þetta, hvar ein peningastofnun megi setja upp útibú eða umboðsskrifstofur, ekki bara í einstökum landshlutum, heldur innanbæjar, því að þessi brtt. nær alveg jafnt til þess að setja upp útibú eða umboðsskrifstofur innanbæjar.

Ég hef bent á, hve hér er um fjarstæðukennd vinnubrögð að ræða, að ætla sér að fara að koma fram með jafnróttæka breytingu og þessa á síðasta stigi þessa máls, sem að öðru leyti hefur verið mikið deilumál og hefði verið alveg fullkomið tilefni til að koma fram með þessa breytingu á fyrri stigum málsins, þannig að um hana hefði verið hægt að fjalla í nefndum með eðlilegum hætti, fá umsagnir. Þetta er náttúrlega engin hæfa, að ætla að fara að setja þetta svona og senda það ekki einu sinni til umsagnar þeim stofnunum, sem þetta snertir og á að fara að taka valdið þarna af. Þetta eru engin vinnubrögð: Það hefur verið alveg nægur tími til þess að koma fram með þetta á fyrri stigum, og tilefni til þess var þá alveg eins fyrir hendi og það er nú, ef það er fyrir hendi nú á annað borð, vegna þess að það er ekkert, sem gerzt hefur í síðustu viku eða síðasta mánuði, — það er ekki nýtilkomið, að það væri verið að setja upp útibú hér og þar.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vænta þess, að þessi brtt. hæstv. ráðh. sé nú sett fram í nokkru fljótræði og hann sjái, þegar hann íhugar málið betur, að það muni vera skynsamlegra að draga hana nú til baka, íhuga þetta mál með eðlilegum hætti og láta heldur næsta Alþingi fjalla um það með eðlilegum hætti. Ég held, að hann hljóti að sjá, þegar hann hugsar málið nánar, að það séu skynsamlegri og eðlilegri vinnubrögð, og ég held líka, að hann hljóti að sjá það, þegar hann íhugar málið, að það er ekki skynsamlegt af hæstv. ríkisstj. og honum, sem hefur gert ráð fyrir því, að þingi yrði lokið nú eftir 2–3 daga, að fara að stofna til slíks sem þessa, að koma með þetta þannig á — eiginlega má nú segja: síðasta degi þings að því leyti til, að ég hygg, að það sé gert ráð fyrir því, að þetta mundi verða síðasti fundardagurinn í þessari hv. d., því að það eru líka eftir fleiri mál, sem hæstv. ríkisstj. leggur áherzlu á að fari hér í gegn og eftir er að ræða hér í d. Og ef okkur stjórnarandstæðingum finnst, að það eigi að fara að beita hér einhverjum bolabrögðum, þá munum við að sjálfsögðu taka á móti samkv. því, þannig að það er á allan hátt skynsamlegt af hæstv. ráðh. að velta þessu nokkuð fyrir sér, hvort hann hafi ekki hrapað nokkuð að þessu. T.d. er alveg furðulegt, að þetta skuli ekki hafa verið borið undir þá n., sem annars hefur um þetta mál fjallað hér, fjhn. Það er alveg einkennilegt, að þetta skuli koma fram svona alveg á síðasta degi. Það er vandfundin á því skýring. En hitt er náttúrlega alveg augljóst mál og þarf um það engum að blandast hugur, að þessi brtt. er gerbreyting á stjórnarfyrirkomulagi viðskiptabankanna, sem er ákveðið í lögum þeirra. Þess vegna er það eðlilegt, að hæstv. forseti taki það til athugunar, hvort svona brtt. við það mál, sem hér liggur fyrir til umr., eigi ekki að vísa frá, vegna þess að í henni felst gerbreyting á öðrum l., og slík gerbreyting á öðrum l. en þeim, sem hér er fjallað um, á vitaskuld að ganga gegnum þrjár umr. í hvorri d. samkv. skýrum ákvæðum stjórnarskrár.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri að sinni, en vænti þess, að hæstv. viðskmrh. taki þetta mál til athugunar, og ef hann vill ekki líta með sanngirni á þær aths., sem ég hef hér gert, og taka til greina þær ábendingar, sem ég hef borið hér fram, þá er alveg auðsætt, að það býr hér eitthvað meira undir, og þá er ekki hægt að afsaka framkomu till. á þessu stigi með því, að hún sé fljótræðisverk, heldur er hún þá borin fram af ráðnum hug og borin fram á þessu stigi málsins af ráðnum hug, þannig að það má nokkuð sjá af því, hver viðbrögð ráðh. verða, hvernig þetta allt er til komið og í pottinn búið.