11.05.1964
Efri deild: 90. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur legið fyrir hv. Alþingi svo til í mestallan vetur, og það undarlega skeður á síðustu dögum þingsins, að hæstv. viðskmrh. kemur með gerbreytingar á þessu frv., og er það varla fyrir það, að sá hæstv. ráðh. sé seinn að hugsa, því að ég held, að honum sé borið margt annað frekar á brýn. Eitthvað annað hlýtur að liggja þar að baki en það, að bankamálaráðherra hafi ekki verið búinn að hugsa sér þetta fyrr en á síðasta kvöldi þeirrar umr., sem þetta mál er í seinni deild Alþingis.

Það er svo ráð fyrir gert, að hvert frv, hljóti sex umr., þrjár umr. í hvorri deild. En þeirri meginbreytingu, sem hér er varpað fram á þskj. 647, er ætluð aðeins ein einasta umr, í hvorri d. Þetta mun að vísu ekki vera neitt einsdæmi hér á hv. Alþingi og allra sízt eins dæmi hjá hæstv. núv. ríkisstj. Ég held, að hæstv. viðskmrh. hafi leikið þennan leik oft og mörgum sinnum áður, að ýmist komi breyt. við mikilvæg mál á síðustu dögum Alþingis eða lögð séu fram stórkostleg frv., sem hafa verið knúin í gegnum þingið með afbrigðum á svo skömmum tíma, að afgreiðsla þeirra mála hefur varla verið sómasamleg fyrir hv. Alþingi. Ég tel líka varðandi þær brtt., sem hér liggja fyrir, að það geti varla verið sómasamleg afgreiðsla að kasta fram brtt. við 3. umr. í seinni d. og láta þann meginkjarna málsins hljóta aðeins eina umr. í hvorri d. á móti sex umr., sem frv. eiga yfirleitt að hljóta á Alþingi.

Þegar núv. stjórn kom til valda, rétt fyrir áramótin 1959 og 1960, varð meginstefnubreyting í fjármálalífi þjóðarinnar. Þá átti að afnema allt, sem hétu hóft eða bönd eða fjárfestingareftirlit, gefa allt frjálst. Það átti að ríkja frelsi, á öllum sviðum í landinu. Þeir, sem þurftu að byggja yfir sig og sína, áttu ekki að sækja undir neitt ráð með að fá leyfi til slíks. Þeir voru sjálfráðir að því, hvenær þeir byrjuðu á sínum byggingum og sínum framkvæmdum, og töldu þá, að hnúturinn væri leystur, þegar þetta frelsi hófst.

En einhvern veginn er það þannig eftir stjórnarferil þessarar hæstv. ríkisstj., að þá hefur skapazt í landinu af þessu frelsi mikið ófrelsi. Og hvað er það þá, sem veldur þessu ófrelsi? Maður skyldi ætla, að ekki stæði á því að fá lán til framkvæmdanna, og allra sízt þegar tekið er tillit til þess, hversu gífurleg sparifjáraukningin hefur verið einmitt í tíð núv. hæstv. ríkisstj., þar sem innstæðuaukning landsmanna nam við síðustu áramót 5365 millj. kr., og að því er sagt er, þá hefur þessi innstæðuaukning tvöfaldazt í tíð hæstv. núv. ríkisstj. Þó er ástandið svo í landinu, að það er varla hægt að selja fyrir Pétur og Pál meir en 10–15 þús. kr. víxil, og það er meira frelsið þetta fyrir þá, sem standa í framkvæmdum, þurfa ekki að sækja sitt undir neitt fjárfestingareftirlit, að fá frelsi til þess að ganga inn í banka og fá 10 eða 15 þús. kr. í víxlum að láni hjá bönkum, sem ráða yfir 5365 millj. kr. alls. Ég held, að svo smátt hafi aldrei verið skammtað af neinum bankastjóra hér á landi fyrr en nú, þegar miðað er við verðgildi íslenzkrar krónu, og ég efast um það líka, að það hafi nokkurn tíma verið jafnilla búið að framfaramönnum í þessu landi og einmitt nú. Og stefnubreytingin, þetta frelsi, sem átti að verða og var prédikað fyrir 1960, ég held, að það hafi aldrei orðið nema í orði, því að fæstir hafa notið þess á borði. Og hæstv. ríkisstj. hefur sjálf á sviði fjármálanna orðið að éta ofan í sig allt, sem hún lofaði, og allt, sem hún ætlaði að gera. Hún hefur sjálf lagt fram frv. á Alþingi til þess að leiðrétta það, sem hún hefur áður vangert, og það, sem hún hefur misgert við sina þegna. Stefnubreytingin, sem tekin var 1960, var sú, í staðinn fyrir fjárfestingu að láta banka landsins vera hemil á fjárfestinguna í landinu. Og það hefur sýnt sig, að þessi hemill hefur verkað á suma, en hann hefur ekki verkað á aðra.

Ég ætla ekki hér að rekja ástæður til þess, hvers vegna hann hefur ekki verkað jafnt á alla, en fyrir því liggja að sjálfsögðu ýmsar ástæður. Við sjáum það, þegar við förum hér inn með Suðurlandsbrautinni, þær stóru byggingar, sem þar hafa risið upp á undanförnum árum. við sjáum það líka víða, þegar við ferðumst úti á landsbyggðinni, að það eru hálfkláraðar byggingar og margir, sem standa þar í framkvæmdum, þeir eiga ekki völ á því að fá af sparifé landsmanna að láni til þess að ljúka sínum framkvæmdum, á meðan aðrir njóta þess stuðnings að geta fengið, að manni virðist, nokkurn veginn endalaust að láni. Og þarna finnst mér vera mjög gert upp á milli.

Þegar vaxtahækkunin var gerð 1960, varð að afnema löggjöf, gamla löggjöf, sem var um svokallaða okurvexti, því að svo hátt er boginn spenntur, að það varð að afnema þá löggjöf, sem var um okurvexti áður fyrr, og víxlavextirnir voru settir upp í 12%. En Adam var ekki lengi í Paradís, því að hæstv. bankamálaráðherra uppgötvaði það um áramótin 1960 og 1961, að boginn var svo hátt spenntur, að atvinnuvegir landsmanna þoldu ekki þessi vaxtakjör, sem hann bauð þeim. Og þess vegna var þá við áramótin, að það varð strax að slaka nokkuð á þeim boga, sem spenntur hafði verið, og lækka vextina niður í 10% af almennum víxlum, sem þeir hafa verið síðan. Og enn fremur varð að grípa til sérstakra ráðstafana vegna atvinnuveganna. Fyrst var byrjað á því að koma með sérstaka löggjöf um lausaskuldir í sjávarútvegi, að fastsetja lán, sem myndazt höfðu, til margra ára á lægri vöxtum en þau höfðu áður verið, og þetta kom til m.a. vegna þess, að vaxtakjörin voru svo há, að það var útilokað, að atvinnuvegirnir gætu risið undir svo miklum lausaskuldum með svona háum vöxtum, jafnhliða ekki hærri stofnlánum en veitt höfðu verið.

Nokkru eftir að þessi löggjöf um lausaskuldir sjávarútvegsins hafði verið lögfest, varð að grípa til hliðstæðra ráðstafa í landbúnaðinum. Þar gátu bændur ekki risið undir þeim lausaskuldum, sem myndazt höfðu, með það gífurlegum vöxtum, sem þá giltu í landinu og gilda enn í dag. Varð að fastsetja það fé hjá þeim stofnunum, sem skuldirnar höfðu myndazt hjá, og lækka vextina og lengja afborgunartímann upp í tvo áratugi. Og það eru ekki ýkjamargir dagar síðan lögfest var hér á Alþingi þriðja löggjöfin varðandi þriðja atvinnuveginn, þ.e. iðnaðinn, um lausaskuldir iðnaðarins. Og þá liggur það nokkurn veginn ljóst fyrir, hver afleiðing þessarar stefnubreytingar í fjármálum þjóðarinnar hefur verið fyrir atvinnulíf landsmanna, síðan hæstv. ríkisstj. kom til valda 1959. Það hefur líka sýnt sig, hvernig atvinnuvegirnir hafa þrifizt undir hinni frjálsu samkeppni, sem átti að ríkja hjá hæstv. ríkisstj.

Samhliða þessu, að almennir vextir voru hækkaðir, þá var jafnframt því tekið valdið af þeim einstöku stofnlánadeildum bankanna, bæði varðandi fiskveiðasjóð og ræktunar- og byggingarsjóð landbúnaðarins, iðnlánasjóð og raforkusjóð. Það var numið úr lögum, að vaxtakjörin væru bundin, heldur eiga þau af stofnlánum að vera í höndum Seðlabankans og hæstv. ríkisstj., og þessir vextir, þeir voru allir hækkaðir svo mikið, að þeir voru álíka háir og víxlavextir voru hér á landi fyrir u.þ.b. tíu árum, og þótti, þá engin sæld að þurfa að taka víxil að láni. Það gefur því nokkurn veginn auga leið, hvernig gengur hjá landsmönnum, hvort heldur er til sjávar eða sveita, að rísa undir þessum lánum samhliða því, sem lánstíminn var líka styttur. Hér var gripið það hastarlega inn í atvinnulíf landsmanna, að voði var fyrir höndum, og það er ekki enn búið að bíta úr nálinni með það, hver endanleg afdrif þessi stefnubreyting í fjármálalífi okkar Íslendinga kann að hafa. Og það er víst, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er einn angi af þeim erfiðu viðfangsefnum, sem hæstv. ríkisstj. hefur við að glíma í þessum efnum.

Nú er það svo, að það er sagt, að það séu tvær meginbreytingar frá gildandi löggjöf í þessu frv. fyrir utan þá þriðju meginbreytingu, sem lögð var fram hér í dag — eða kannske réttara sagt í gær. Það er látið í veðri vaka, að sparifjárbindingin, aukningin á sparifjárbindingunni, hún eigi að verða til þess að auka afurðalánin. En tryggingin er bara engin fyrir því í þessu frv., að svo muni verða. Það er margsinnis búið að ræða afurðalánin, bæði varðandi landbúnaðinn, sjávarútveginn og iðnaðinn. Þessi mál hafa öll verið til umr. á undanförnum þingum og það er ekki að ástæðulausu, vegna þess að með vaxandi afurðamagni og vaxandi dýrtíð hefur svo til tekizt, enda þótt sparifjáreign landsmanna sé að krónutölu til miklu meiri en nokkru sinni áður, þá hafa afurðalánin farið lækkandi. Þau hafa farið lækkandi þannig, að t.d. varðandi afurðalán landbúnaðarins, þá voru þau lengst af, eftir að þau komust á, til 1959, 67% af verðgildi landbúnaðarafurðanna, en lengst af hafa þau verið hjá núv. hæstv. ríkisstj. um eða yfir 50%, og þetta hefur valdið bændum landsins óskaplega miklum búsifjum, samhliða því sem allar rekstrarvörur til landbúnaðarins hafa stórhækkað, og nú síðast um daginn hækkaði áburðarverðið til bænda um 20%, og vitað er líka, að á s.l. hausti hækkaði fóðurbætirinn um 20%. Hækkunin ú afurðaverðinu til bændanna vegur skammt á móti þeim gífurlegu hækkunum, sem hæstv. ríkisstj. er völd að vegna bændastéttarinnar.

Það má líka um margt annað ræða, bæði varðandi sjávarútveginn og landbúnaðinn. Það má líka minna á það, að á því tímabili, sem þessi dásamlega viðreisnarstefna er búin að ríkja í landinu, hafa yfirleitt öll tæki til lands og sjávar, sem eru flutt inn, hækkað um 100% í innkaupi. Og sá bóndi, sem kaupir dráttarvél í dag, hann fékk árið sem leið 30% af kostnaðarverði aflvélarinnar úr stofnlánadeild landbúnaðarins. Nú liggur hins vegar ekkert fyrir um það, hvenær hægt er að veita slík lán eða hvort hægt verður að veita þau eftir þeim upplýsingum, sem fengizt hafa, enda ekki kosningar, að vitað er, á þessu ári. Og sama er með ýmsar aðrar framkvæmdir varðandi landbúnaðinn.

Það var mjög gumað af því árið sem leið, að búið væri að hækka veðdeildarlánin upp í 100 þús. kr. til jarðarkaupa úr 35 þús. kr. En nú er það svo, að ekki virðist vera hægt að fullnægja sömu reglum í þessum efnum og árið sem leið, þannig að samdrátturinn hjá bönkunum til að veita þá þjónustu, sem lög heimila, fer minnkandi, enda þótt sparifjáreign landsmanna fari vaxandi. Og slíkt er mjög bagalegt. Og þótt hæstv. ríkisstj. viðurkenni það ekki, að hún hafi margt misgert á sviði fjárméla landsmanna, þótt hún viðurkenni það aldrei, eru þó staðreyndirnar, sem sanna það, sem ég hef minnt hér á varðandi atvinnuvegina, að það hefur orðið að grípa til sérstakrar löggjafar varðandi alla atvinnuvegi þjóðarinnar, vegna þess að svo óframsýn var hæstv. ríkisstj., þegar hún kom til valda, að við slíkt var ekki hægt að una, því að allt var að fara í strand. Og mér er nær að halda, að enda þótt eitthvað sé kannske hægt að fleyta skútunni, fleyta atvinnuvegunum áfram að sinni, verði þess ekki langt að bíða, að enn þá verði að grípa til hliðstæðra ráðstafana og gert var á síðasta kjörtímabili með að fastsetja eitthvað af þeim lausaskuldum, sem myndazt hafa, og framselja þær til margra ára og þar með lækka vextina, svo að atvinnulíf landsmanna geti undir því risið.

Ég minni á þetta hér nú, þegar verið er að ræða um þá æðstu stofnun, sem til er í bankamálum landsmanna, það er Seðlabanki Íslands. En völd hans hafa farið ört vaxandi í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Áður fyrr hafði Alþingi vald til að ákveða gengi íslenzkrar krónu miðað við erlent gengi. Nú þarf engin ríkisstj: að spyrja Alþingi lengur um, hvert gengi íslenzkrar krónu verður. Hæstv. ríkisstj. getur breytt genginu, þegar henni sýnist, í samráði við Seðlabanka Íslands. Og það er býsna margt annað, sem hæstv. ríkisstj. getur gert í samráði við Seðlabanka Íslands. Nú á að taka 1 kr. af hverjum 4 af sparifjáraukningu landsmanna og frysta í Seðlabankanum og bæta við þær 860 millj., sem stóðu inni frystar í Seðlabankanum við síðustu áramót, 860 millj., sem komnar voru. Og þetta kalla ég ekki frjálsræði hjá hæstv. ríkisstj., sem sigldi af stað undir fánanum: frelsi á öllum sviðum, frelsi á viðskiptasviðinu og frelsi einstaklinganna til að framkvæma allt, sem mögulegt er, og greiða þeirra götu á sem beztan hátt. En mér finnst, að þróunin sé að fara smám saman í þá átt, að Seðlabankinn eigi að vera nokkurs konar fjárfestingarstofnun hjá Íslendingum, hann eigi að koma í stað þeirra stofnana, sem áður giltu varðandi skipulagningu á fjárfestingu landsmanna. Nú er það Seðlabankinn, sem á að fá hlutdeild í svo og svo miklu af fjármagni landsmanna og þar með ráða úrslitum um það, hvað viðskiptabankarnir hafa til umráða til þess að fullnægja því frelsi, sem hæstv. ríkisstj. lofaði, er hún kom til valda. Og enginn efast um það, að þessi aðstaða Seðlabankans verður á allan hátt notuð til þess ýtrasta, enda hefur það komið fram í þeim umsögnum, sem hér liggja fyrir varðandi þetta frv. frá bönkunum, að þeir eiga í miklum erfiðleikum varðandi viðskipti sín við Seðlabankann. Og ég held, að ef hæstv. ríkisstj. væri sjálfri sér samkvæm, ætti hún frekar að veita meira frelsi til viðskiptabankanna í þeim efnum að ráða yfir því fjármagni, sem þar til fellur, í stað þess að taka svo og svo mikið til bindingar í Seðlabankanum, og ekki sízt þegar það er gert á þeim forsendum, sem vafasamt er, að hæstv. ríkisstj. hugsi sér að framkvæma, og fáum dettur í hug, að hæstv. ríkisstj. muni nota aukna fjárbindingu til afurðalána, út frá þeirri reynslu, sem verið hefur í þeim efnum.

Ég held, að sú löggjöf, sem hér hefur verið samþykkt á sviði sparifjárins í vetur, bæði varðandi aukinn skyldusparnað og aukna bindingu hjá Seðlabankanum, komi fyrst og fremst hart niður á þeim, sem eru víðs vegar úti á landsbyggðinni, því að þetta fjármagn fer hingað til Reykjavíkur, hvort heldur það, sem er skylda fyrir æskulýðinn að spara, það er ekki heimilt að leggja það inn í lánsstofnanir úti á landi, heldur á það að fara hingað til borgarinnar ásamt því fé, sem Seðlabankinn tekur af lánsstofnunum úti á landi til að binda hér. Og þess vegna er það svo, að frelsi þeirra, sem standa í margs konar framkvæmdum úti á landsbyggðinni, fer minnkandi með hverju árinu sem líður, bæði vegna þess, að framkvæmdirnar eru svo dý rar, að það þarf svo mikið fjármagn til framkvæmdanna, og í öðru lagi, að það, sem lánsstofnanir hafa til umráða, fer minnkandi með hverju árinu sem líður, og ekki sízt, ef til þess kemur, að hinar einstöku, lögákveðnu stofnlánadeildir til framkvæmdanna verða að draga við sig, vegna þess að þær geta ekki innt sínar skyldur af hendi, af því að ríkisvaldið stendur sig ekki nógu vel til að útvega fjármagn til lögbundinna lána. Og þessi þróun er á allan hátt mjög óæskileg. Og þá finnst mér, að það sé ekki sízt óæskilegt, að Seðlabankinn skuli enn þá fá aukin yfirráð yfir því, hvernig viðskiptabankarnir haga sínum viðskiptum utan sinna höfuðstofnana, sem hér eru í bænum, þ.e.a.s. með útibúum víðs vegar á landsbyggðinni. Nú skal ég ekkert um það fullyrða, þar sem rekstur sparisjóða er í góðra manna höndum og lánveitingum hefur verið hagað skynsamlega, hvort nokkur ástæða sé til undir slíkum kringumstæðum að leggja sparisjóðina niður og þar með vald héraðanna yfir þeim stofnunum og fela þá einhverjum banka úr Reykjavík eða útibúi frá einhverjum banka. Og ég held, að slíkt eigi vart rétt á sér, nema því aðeins að einhver trygging sé fyrir því, að hlutaðeigandi bankastofnun, sem tekur að sér slíkan sparisjóðsrekstur, ætli sér til verulegra muna að auka það fjármagn, sem hlutaðeigandi hérað hefur til umráða. Að öðrum kosti held ég, að það geti ekki verið til bóta fyrir héruðin að afsala sér rétti yfir góðum sparisjóðum og fela þá bönkum eða útibússtjórum frá bönkum, ef þeir hafa ekki neina hugmynd um, að það geti orðið til þess að greiða betur götu þeirra, sem byggja hlutaðeigandi héruð. Og vonandi er það einmitt þetta sjónarmið, sem ríkir hjá bankaráðum og bankastjórum, þegar þeir mynda útibú víðs vegar úti á landsbyggðinni. Vonandi er það sjónarmiðið að veita auknu fjármagni út á landsbyggðina, en ekki hitt, að þeir nái betri eða meiri tökum á því fjármagni, sem fyrir er, og geti þar með smám saman lokkað það og togað hingað í höfuðborg landsins. Það tel ég mjög óæskilegt sjónarmið. Þess vegna held ég, þegar maður hugleiðir þá brtt., sem hér liggur fyrir frá hæstv. viðskmrh., og afskipti Seðlabankans af sparifjáreign landsmanna, að verði sú brtt. samþykkt, geti hún sízt orðið til þess að rétta hlut landsbyggðarinnar í þessum efnum.

Ég treysti miklu frekar viðskiptabönkunum, sem hafa orðið að greiða fyrir atvinnulífi landsmanna, til að hafa fullkomna yfirsýn yfir þarfirnar á hverjum stað í þessum málum og gera það, sem réttast er, án þess að til komi nokkur skipun þar um frá stjórn Seðlabanka Íslands eða bankastjórnin Seðlabanka Íslands. Ég held einmitt, að þarna ætti hæstv. ríkisstj. að sigla undir sínu upprunalega flaggi og láta ríkja sem mest og bezt frelsi. En einhvern veginn er það þannig, að þetta frelsi, sem boðað var eftir kjördæmabreytinguna 1959, virðist smám saman vera að verða að ófrelsi. Það er verið að setja ýmiss konar höft á það frelsi. Það virðist vera, að hesturinn, sem átti að hlaupa frjáls í haga, fær aðeins innan vissra marka að hoppa nú, þar sem hæstv. ríkisstj. er smám saman að setja fjötur um fætur hans. Og einmitt þetta frv. og sú brtt., sem hér liggur fyrir, miðar fyrst og fremst í þá átt, að hæstv. ríkisstj. geti fjötrað fjármagnið meira en hún treystir sér til að öðrum kosti. Ég skal ekki um það ræða, hver hugur hæstv. ríkisstj. er til einstakra banka og bankastofnana, en það hefur margsinnis verið á það bent í þessum umr. hér í þessari hv. d., varðandi ýmiss konar bankaviðskipti og það hjá sjálfum ríkisbönkunum, að þar er mjög upp á milli gert, þar sem einn ríkisbankinn hefur aldrei fengið gjaldeyrissölu, en aftur á móti tveir ríkisbankarnir hafa um langan tíma haft á hendi gjaldeyrissölu. Og þetta er ekki fyrir það, að hlutaðeigandi bankastjórar eða bankaráð hafi ekki eftir þessu óskað, heldur hitt, að sú stofnun, Seðlabanki Íslands, sem mestu virðist ráða í þessum efnum, hefur verið þar fjötur um fót. Og þarna er verulega gert upp á milli ríkisbankanna. Aðrir bankar eru líka til í þessu landi, og skal ég engu um það spá, hver hugur hæstv. ríkisstj. er til þeirra banka. En ábyggilega er það margt, sem er að koma í ljós, sem sýnir það, að bankakerfi landsins hvílir ekki á jafntraustum fótum og þjónar almenningi eins og margur hefði ætlað undir því frelsi, sem boðað var 1959. Og fróðlegt væri, af því að hér eru bankafróðir menn inni, að fá að vita, hvar stærsti hlutinn af sparifjáreign landsmanna, af þessum 5365 milljónum króna, er niður kominn. Er það í atvinnuvegum landsmanna, og hvernig er sú skipting þá milli atvinnuveganna, eða er stærsti hlutinn í heimi verzlunarviðskiptanna hér á landi, og er hann í þágu atvinnuveganna varðandi fjárfestingu til þeirra, eða er hann í þágu viðskiptalifsins varðandi fjárfestingu fyrir viðskiptamennina? Það væri gaman, ef hæstv. viðskmrh. vildi upplýsa þetta hér, vegna þess að það er fróðlegt fyrir landsmenn að vita, hvar þessar krónur eru niður komnar. Og ákaflega er hætt við því, enda þótt vaxtakjörin í landinu séu mjög óhagstæð, að þegar þrengist á lánamarkaðinum og fleiri og fleiri krónur verða fastsettar í Seðlabanka Íslands, þá fari ýmsir að ávaxta sitt fjármagn utan bankakerfisins. Um þetta hefur maður oft og einatt heyrt, og ég er hræddur um, að þróunin sé að verða sú, að margur hugsi sér að ávaxta sitt fjármagn utan við bankakerfi landsins og reyna sjálfur að skapa sér þær tryggingar og þau kjör á fjármagninu, sem hann á kost á á þeim sviðum. En þetta er óæskilegt, og til þessa þyrfti ekki að grípa, ef landsmenn ættu nokkurn veginn kost á lánum, þótt með þeim kjörum væri, sem nú er boðið upp á, enda þótt þau séu á engan hátt æskileg og miklum mun óhagstæðari þeim vaxtakjörum, sem hér hafa áður verið.

Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti einmitt að veita meira fjármagn út í atvinnulífið, í stað þess að binda meira og meira fjármagn og enn fremur að ætla sér að setja meiri og meiri fjötra á fjármagnið en verið hefur. Ég hef aldrei talið hyggilegt að binda jafnmikið af fénu í Seðlabankanum og nú er. En mörg ár eru liðin, og þróunin virðist ganga í gagnstæða átt við það, sem þá var haldið fram, þar sem nú á að taka meira fé og binda inni í Seðlabankanum. Og enda þótt það sé látið í veðri vaka, að sú fjárbinding sé vegna aukinna afurðalána, þá held ég, að það væri nær að taka aukin afurðalán af því fjármagni, sem þegar er búið að binda, í stað þess að taka meira fé af landsmönnum í því skyni. Á þann hátt væri vafalaust hægt að leysa mörg vandamál á sviði fjármálanna, og vænti ég, enda þótt ég sé þess fullviss, að stjórnarsinnar samþykki þetta frv. og þær brtt., sem hér liggja fyrir, eins og allt annað, sem á borð er borið, þá vænti ég þess, að hæstv. ríkisstj. endurskoði sína afstöðu til þessara mála og sjái sér fært að greiða betur hag sinna borgara, að því er lán varðar til uppbyggingar í landinu, heldur en nú virðist horfa. Á ég þar einkum við tvennt: Í fyrsta lagi, að fullkomlega sé staðið við að veita þau lán, sem einstakar stofnlánadeildir, bæði varðandi sjávarútveg, landbúnað og iðnað, eiga að veita lögum samkv., og í öðru lagi, að til þess, sem á skortir, að slík lán dugi til uppbyggingar í landinu, eigi hlutaðeigandi aðilar kost á því að fá fjármagn með þeim kjörum, sem nú ríkja, til þess að ljúka við þau verkefni, sem þeir hafa staðið í og standa í nú á næstu árum, því að það gefur auga leið, að það er kostnaðarsamt að vera lengi með uppbyggingu, sem byrjað er á. Það er ekki einungis dýrt fyrir þá einstaklinga, sem standa í slíkum framkvæmdum, heldur engu síður fyrir þjóðina alla, því að á meðan nýtur hún ekki þeirra ávaxta, sem af því hljótast, eftir að tæknin hefur rutt sér fullkomlega til rúms og aðstaða skapazt á því sviði.

Ég vænti því þess, að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir því, að fullkomlega verði séð fyrir þeim lánaþörfum til framkvæmda, sem lög gera ráð fyrir, og í öðru lagi, að hinir sömu aðilar eigi jafnframt kost á fjármagni af hinu almenna sparifé til þess að ljúka við sínar framkvæmdir án þess að þurfa að bíða eftir því í mörg ár og kannske komast aldrei frá þeim vandræðum, sem af því hljótast. En þetta frv. miðar í þveröfuga átt, og af þeim ástæðum og öðrum, sem hér hafa verið ræddar, mun ég ekki fylgja frv. eða þeim brtt., sem fyrir liggja.