12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst byrja á því að lýsa óánægju minni yfir því, að þessi umr. skuli hafin á svo óhentugum tíma sólarhringsins, þar sem hér er til umr. mjög þýðingarmikil breyting á l. um Seðlabanka, sem gerð var í gær í hv. Ed. Eins og fram hefur komið nú við þessa umr. og raunar fyrir hana, er sjálft frv. ekki nýtt fyrir okkur, sem hér eigum sæti, þar sem það var í upphaflegri mynd lagi, fyrir Alþingi 25. okt. En síðan fékk það mjög hægan framgang, vildi ég segja, tók alveg óvenjulega langan tíma af stjórnarfrv. að vera að fá venjulega afgreiðslu á Alþingi, en þó kom þar um síðir, að það var samþykkt hér í þessari hv. d. og sent Ed. En þá skeði það milli 2. og 3. umr., að fram er lögð brtt., sem breytir þessu frv. mjög verulega og þannig, að í rauninni er um nýtt mál að ræða að talsverðu leyti. Þessi málsmeðferð er nokkuð óvenjuleg, ekki sízt þegar þess er gætt, að sú brtt., sem ég tel hina meiri, þ.e.a.s. um heimildir fyrir bankaútibúum, fjallar í rauninni um efnisbreytingar á l. um alla viðskiptabanka landsins.

Eins og hæstv. ráðh. greindi frá í framsöguræðu sinni hér áðan, er í l. um alla viðskiptabanka landsins sérstaklega tekið fram, að þeir hafi réttindi til að stofna útibú og afgreiðslustofur eða umboðsskrifstofur, eftir því hvaða lög er um að ræða, eftir eigin vali, þ.e.a.s. eftir ákvörðun bankaráðs. Það frv., sem hér er nú komið til okkar á ný, gerir þannig ráð fyrir því, að við eina umr. hér í hv. d. verði tekin ákvörðun, sem snertir lagabreytingar alls viðskiptabankakerfis landsins. Það er mjög óvenjuleg afgreiðsla, að ég held, og tæplega í anda þingskapa, sem kveða á um það, að allar lagabreytingar skuli fá meðferð við 3 umr. í hvorri d., og tilgangur l. um þetta atriði hlýtur vitanlega að vera sá, að málin fái þinglega og rækilega athugun. Hér verður þessu ekki til að dreifa, ef það verður ofan á að afgreiða þessa breytingu hér við eina umr., þá verður það ekki venjuleg, þingleg meðferð. Þá er enn fremur venja, að lagabreytingar fari til starfsnefnda hv. Alþingis til að fá þar athugun. Það er ekki ætlazt til, að þessi breyting fái slíka meðferð. Þar með verður ekki heldur tækifæri til þess fyrir Alþingi að fá umsagnir þeirra aðila, sem þetta mál snertir sérstaklega. Einnig það er óvenjulegt og óheppilegt. Þess vegna vil ég lýsa því hér í upphafi, að mér kemur þessi vinnuaðferð nokkuð einkennilega fyrir sjónir, þegar þess er gætt, eins og ég hef áður sagt, að frv. er búið að vera til meðferðar hér á hv. Alþingi nú í bráðum 7 mánuði, þá skuli það ekki vera fyrr en tvær nætur eru til þingslita, að hæstv. ríkisstj. tekur ákvörðun um það að bera fram svona róttæka brtt. Þetta eru einkennileg og óheppileg vinnubrögð. En sjálfsagt þýðir ekki að sakast um það. Það er orðinn hlutur, og valdið er notað svona, og þess vegna er þá ekki annað fyrir hendi en ræða efnislega þær brtt., sem hér liggja fyrir. Það mun ég nú leyfa mér að gera.

Þær brtt., sem eru komnar inn í frv., eru tvær, eins og hæstv. ráðh, gerði grein fyrir. Fyrri breytingin fjallar um það, að komi ósk frá innlánsstofnun um að setja á stofn útibú eða umboðsskrifstofu, skuli hún sækja um leyfi til þess til Seðlabankans. Seðlabankinn á að leggja þessa leyfisumsókn ásamt umsögn sinni fyrir þann ráðh., sem fer með mál viðkomandi stofnunar, og ráðh. tekur ákvörðun um það, hvort leyfið skuli veitt. Þetta er fyrri brtt., sem komin er inn í frv.

Síðari brtt. er viðbótarákvæði við 2. mgr. 16. gr. l. um Seðlabanka Íslands og fjallar um það, að Seðlabankanum skuli heimilt að taka að sér innheimtu ávísana, sem innlánsstofnanir hafa keypt og ónóg innstæða er fyrir, og áskilja innheimtugjald frá útgefanda samkv. nánari reglum, er ráðh. setur. Um þá brtt., sem ég síðar nefndi, þ.e.a.s. brtt. við 16. gr. l. um Seðlabanka Íslands, er það að segja, að hún er að sjálfsögðu ekki neitt háskaleg. Hún getur e.t.v. átt rétt á sér, ég vil ekki alveg fella dóm um það, en hún er meinlaus og sjálfsagt óþörf líka. Í 16. gr. l. um Seðlabankann, eins og hún er nú, segir, að bankinn skuli starfrækja greiðslujöfnunarkerfi til að auðvelda ávísanaviðskipti og vinna á annan hátt að því að greiða fyrir peningagreiðslum innanlands. Ég vil strax segja það, að ég tel, að samkv. þessari grein hafi Seðlabankinn unnið mjög gott starf fyrir íslenzk peningamál. Samkv. þessari grein starfrækir Seðlabankinn greiðslujöfnunarviðskipti eða svokölluð clearing-viðskipti, ávísanaskipti milli bankanna, og það er geysileg framför frá því, sem áður var í bankamálum, þar sem þá tíðkaðist, að bankarnir skiptust á ávísunum innbyrðis. Nú fara öll þessi ávísanaskipti fram gegnum Seðlabankann, og það er framför. Seðlabankinn hefur ýmsu öðru góðu til leiðar komið í sambandi við ávísanaskipti og viðskipti banka yfirleitt. T.d. hefur hann nú upp á síðkastið, eins og hæstv. ráðh. gat um, unnið gott starf í því að koma í veg fyrir þau ávísanaskipti, sem mjög hafa farið í vöxt að undanförnu og hæstv. ráðh. gerði að umtalsefni, þ.e. þegar í umferð eru innstæðulausar ávísanir. Að því eru talsverð brögð, eins og allir vita, og Seðlabankinn hefur tekið þetta mál upp á síðkastið mjög föstum tökum, þar sem hann hefur látið fara fram ávísanaskipti umfram þau venjulegu, sem eru tvisvar á dag. Þá hefur Seðlabankinn beitt sér fyrir sérstökum ávísanaskiptum, sem hafa leitt í ljós, að talsvert magn af innstæðulausum ávísunum er í umferð, og þessi tilhögun hefur áreiðanlega orðið til þess að draga úr þessum óheppilegu viðskiptaháttum. Nú alveg síðustu mánuðina eða vikurnar hefur svo Seðlabankinn tekið upp þá nýbreytni að taka við þessum ávísunum frá viðskiptabönkunum og beita sér fyrir innheimtu þeirra. Einnig það er geysileg framför frá því, sem áður var, því að eins og kunnugt er voru þessi mál þannig áður, að ef banka barst innstæðulaus ávísun, kærði hann sjálfur málið til sakadómara, sem hafði oft mjög mikið öðrum störfum að sinna og átti erfitt með að sinna þessu eins og þurfti, og varð það til þess, að málsmeðferð dróst oft lengur en æskilegt er og mönnum stóð ekki eins mikil ógn af innheimtuaðgerðunum og nú. En nú er þetta þannig, að bankarnir senda daglega þær innstæðulausu ávísanir, sem þeim hafa borizt, og Seðlabankinn beitir sér fyrir innheimtu þeirra, og þetta fyrirkomulag hefur gefizt afar vel. Fyrir þessa þjónustu hefur Seðlabankinn tekið gjald, sem eðlilegt er. Það er ekki hægt að inna slíkt starf af hendi fyrir ekki neitt, og það er líka ástæðulaust, að þeir, sem á þennan hátt gerast brotlegir við tékkalöggjöfina, komist upp með það að sleppa skaðlausir frá þeim leik. Það er þess vegna ekkert nýtt, sem fjallað er um í þessari grein.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að það væri talið óeðlilegt, að gjaldskrá einkaaðila væri lögð til grundvallar innheimtulaunum. Ég get nú út af fyrir sig ekki séð, hvað óeðlilegt er við það að nota þessa gjaldskrá. En má þó vera, að stjórnarvöldunum þyki það ekki viðkunnanlegt og þess vegna vilji þau nú afla sér þessarar heimildar til þess að setja nýjar reglur. En í sambandi við þær nýju reglur vaknar þá sú spurning, sem æskilegt væri að svar fengist við, og það er: Er gjaldskrá lögfræðinganna of há, þannig að Seðlabankinn telur sér ofborgað samkv. þeirri gjaldskrá, eða er hún kannske of lág, þannig að Seðlabankinn fái ekki kostnað sinn uppi borinn? Þetta væri mjög fróðlegt að fá upplýst í sambandi við afgreiðslu þessa máls hér á hv. Alþingi. Einhver ástæða hlýtur að vera til þess, að ekki er hægt að notast við algenga innheimtuskrá, sem gildir við allar lögfræðilegar innheimtur og viðskiptabankarnir einnig hafa notað í þeim tilfellum, sem þeir hafa sjálfir þurft að beita sér fyrir innheimtu, því að eins og kunnugt er, hafa a.m.k. hinir stærri viðskiptabankar sjálfstæða lögfræðinga í þjónustu sinni, sem þeir fela innheimtu skulda, hverjar svo sem þær kunna að vera, og við þá innheimtu er gjaldskrú Lögfræðingafélagsins notuð. Og nú, þegar upplýst er, að Seðlabankinn getur af einhverjum ástæðum ekki einn allra notað þessa innheimtugjaldskrá, er fróðlegt að fá að vita það, af hverju það er. Er gjaldskráin of há, eða er hún kannske of lág?

Síðari breytingin, sem ég nefni, fjallar um það, að nú skuli ekki lengur frjálst að stofna útibú frá viðskiptabönkunum eða umboðsskrifstofur. Nú á, eftir að þetta frv. Verður að l., að skylda þá til þess að senda umsókn til seðlabankastjórnarinnar, sem á svo að afgreiða það eins og einhvers konar fyrirgreiðsluskrifstofa til hæstv. ríkisstj. eða til þess ráðh., sem fer með mál þess banka, sem um ræðir. Þessi breyting finnst mér ákaflega einkennileg, og ég get út af fyrir sig ekki fallizt á þann rökstuðning, sem hæstv. viðskmrh. færði hér fram fyrir nauðsyn breytingarinnar. Mér sýnast rökin ekki sannfærandi, og ég mun leitast við að færa rök að þeirri skoðun minni.

Það er þá í fyrsta lagi þess að geta, að hér eru aðeins starfandi viðskiptabankar. Þar af eru þrír hreinir ríkisbankar. Tæplega getur þurft lagaheimild fyrir hæstv. viðskmrh. eða hæstv. ríkisstj. til þess að hafa hönd í bagga með því, hvar og hvenær ríkisbankarnir stofna útibú. Það hlýtur hæstv. ríkisstj. að hafa algerlega í hendi sinni. Hæstv. ríkisstj. hlýtur að hafa það algerlega í hendi sinni, hvenær og hvar bankaráð ríkisbankanna taka þá ákvörðun að stofna útibú eða umboðsskrifstofu. Lagaheimildarinnar getur þess vegna ekki þurft að afla vegna þess. Þá eru eftir þrír viðskiptabankar, sem lúta ekki beint stjórn ríkisvaldsins. Þó mun sú staðreyndin vera sú, að í a.m.k. tveimur þessara banka muni ríkisstj. eiga nokkuð innangengt og geta, ef hún beitir sér verulega, sjálfsagt haft nokkur áhrif á það, hvar og hvenær einnig þeir viðskiptabankar stofna útibú eða umboðsskrifstofu. Það er sagt, að kostnaður bankakerfisins af útibúum sé óhæfilega mikill og að þess vegna þurfi ríkisstj. að skerast í leikinn. Ég held, að þessi röksemd sé ekki heldur haldgóð, vegna þess, eins og ég áður greindi, að í fyrsta lagi ræður ríkisstj. yfir þeim bönkum, sem ráða yfir 80% af öllu innstæðufé í landinu. Þess vegna getur hún, hvenær sem henni sýnist, séð svo til, að þeir bankar, sem ráða yfir 80% af innstæðufjármagni í landinu, stofni ekki fleiri útibú en fjárhagur þeirra þolir. Umhyggjan fyrir minni bönkunum er góð og þakkarverð, en þó verður, finnst mér, að gera þá kröfu til þeirra, sem stjórna bönkum, þ.e.a.s. stofnunum, sem settar eru á laggirnar með sérstökum lögum, að einnig þeir sjái svo fótum sér og sinna stofnana forráð, að þeir gangi ekki lengra í því að stofna útibú og umboðsskrifstofur en fjárhagur bankans leyfir. Ég held, að það sé ákaflega ósennilegt, að þeir, sem stýra peningastofnunum, gangi svo langt í því að stofna útibú, að þeir stofni fjárhag fyrirtækisins í hreinan voða. Það eru ekki góðir peningamálastjórnendur, sem það mundu gera. Þess vegna héld ég, að þessi ótti hæstv. ríkisstj. við það, að bankakerfið kollsigli sig af útibúastofnunum, sé algerlega óþarfur, og ef þetta er eina ástæðan, sem fyrir liggur fyrir þessum frv. flutningi, sé alveg óhætt að kalla það aftur, hætta við það, vegna þess að hættan, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, er ekki fyrir hendi.

Hæstv. ráðh. sagði um þetta, að tilgangurinn með lagasetningunni, fyrir nú utan það að draga úr kostnaði við bankakerfið, væri sá að tryggja það, að útibúin skiptust sem jafnast eða dreifðust sem jafnast, þannig að allir staðir á landinu fengju þá bankaþjónustu, sem þeir þurfa. Það má vel vera, að þetta sé tilgangur frv.-flutningsins, ég vil ekki draga góðvild hæstv. viðskmrh. í þessum efnum neitt í efa. En ég vil þó benda á, að það virðist gæta nokkurs ósamræmis milli skilnings hæstv. viðskmrh. á þessu ákvæði og þess skilnings, sem Alþýðublaðið, málgagn hæstv. viðskmrh., virðist leggja í það, hvað þessi lagaákvæði muni þýða í reynd, því að fyrirsögnin á forsíðu Alþýðublaðsins í dag um þetta frv. er svona: Verður fjölgun bankaútibúanna stöðvuð?“ Er það kannske það? Er það kannske réttur skilningur, sem kemur fram á forsíðu Alþýðublaðsins, að tilgangurinn með flutningi frv. sé sá að stöðva fjölgun bankaútibúanna? Það væri ákaflega æskilegt, að það gætti meira samræmis í málflutningnum að þessu leyti, ekki sízt þegar ætlazt er til þess, að svona þýðingarmikil breyting sé afgreidd við eina umr. að næturlagi. Ef tilgangur frv. er sá, sem Alþýðublaðið segir, að stöðva fjölgun bankaútibúa, þýðir það auðvitað ekki, að það sé verið að bæta bankaþjónustuna í landinu. Þá er tilgangurinn ekki sá. Þá er tilgangurinn allt annar. Þá er tilgangurinn að koma í veg fyrir eðlilega þróun þessara mála, því að það er eðlileg þróun, að bankarnir bæti við sig starfsliði og fari víðar, og ég mun kannske víkja örlítið að því síðar. Hér er sem sagt ósamræmi, sem ákaflega æskilegt væri að skorið yrði úr, áður en endanleg afgreiðsla þessa frv. fer fram.

Hæstv. ráðh. sagði, að bankaþjónustan væri ekkert betri, þó að útibúunum fjölgaði, að mér skildist, og nefndi sem dæmi um það, að í Keflavík hefðu þegar verið stofnuð þrjú bankaútibú og þar hefði, að því er mér skilst, bankaþjónustan ekkert batnað. Þessir bankar hafa þá ekki greitt neitt fyrir Keflvíkingum umfram það, sem Sparisjóður Keflavíkur hafði áður gert undanfarin 60–70 ár, sem hann hefur starfað. Ég held, að það sé út af fyrir sig nokkuð skrýtin túlkun á því, hvað sé bætt þjónusta, að halda því fram, að bankaþjónustan hafi ekki batnað í Keflavík, af því að þar var fyrir sparisjóður og af því að það eru ekki nema 50 km milli Keflavíkur og Reykjavíkur. En ætli mörgum hafi ekki þótt og þyki ekki enn nokkuð langt að skreppa í bankann, það að það sé ekki nema 50 km? Ég gæti vel trúað því. Af þessum þrem útibúum, sem stofnuð hafa verið í Keflavík, eru tvö frá ríkisbönkunum, og það sýnist hafa verið nokkuð í lófa lagið fyrir yfirvöldin að fækka a.m.k. þessum útibúum um eitt, þannig að þau væru þá ekki nema tvö, ef ekki hefði verið hægt að komast að samkomulagi við Verzlunarbankann um að stofna þar ekki útibú, sem ég skal ekki um segja, hvort hefur verið reynt eða hvort ekki hefur tekizt, ef reynt hefur verið. Þessi breyting miðar að því að draga úr frelsinu og það hefði einhvern tíma, svona í kringum 1960, þótt koma úr hörðustu átt, að þessir hæstv. ráðh. mundu beita sér fyrir því að draga úr viðskiptafrelsinu. í Viðreisnarbókinni, sem gefin var út 1960, er heill kafli, langur kafli, sem sérstaklega fjallar um það, sem þeir kalla heilbrigt viðskiptalíf. Þar er því lýst, hversu hin frjálsa samkeppni og haftalausa muni tryggja eðlilega viðskiptahætti á öllum sviðum. Ég mundi segja það, að í bankakerfinu hafi upp á síðkastið aukizt þjónustuvilji bankanna, þar sem þeir hafa stofnað útibú víðar en þau hafa áður verið, og það mundi vera liður í því heilbrigða viðskiptafrelsi, sem hæstv. ríkisstj. vill beita sér fyrir og ég a.m.k. vil eindregið taka undir að hér ríki. En þessi frv.-flutningur miðar ekki í þá átt. Hann miðar í áttina til hafta, til þeirra stjórnarhátta, sem hæstv. ríkisstj. hefur mest fordæmt.

Það má vel vera, að það sé rétt, að einhverjar reglur þurfi að taka upp um það, að ekki séu stofnuð allt of mörg bankaútibú á sama staðnum. Það getur vel verið, að það verði nauðsynlegt að taka upp einhverjar reglur í þá átt. En ég held ekki, að leiðin til þess sé að fela hæstv. ráðh. hverju sinni að skera úr um það eftir vild og geðþótta, hverjum skuli heimilað að stofna útibú og umboðsskrifstofu og hvar, það verði að vera miklu almennari reglur. Og ef reglur á að setja um það, verður sjálfsagt að móta ramma þeirra á Alþingi. Ég held, að þessar reglur mundi þó vera hægt að fá fram og alveg nothæfar einfaldlega með því að beita sér fyrir samstarfi milli bankanna, eins á þessu sviði og svo mörgu öðru og eins og ég hef áður lýst, að stjórn Seðlabankans hefur beitt sér fyrir mjög heillavænlegu samstarfi milli viðskiptabankanna á mörgum sviðum. Og ég tel alls ekki, að það sé neitt útilokað, að með samningum og góðum vilja væri hægt að koma hér á fyrirmyndarskipulagi á útibúamálin líka, en það hefur mér vitanlega alls ekki verið reynt, og það hefur ekki einu sinni mér vitanlega verið reynt að koma á samstarfi milli ríkisbankanna sjálfra, sem ríkisstj. er þó vitanlega algerlega í lófa lagið. Ríkisbankarnir hafa átt í harðri samkeppni hver við annan. Eins og ég nefndi áðan, hafa ríkisbankarnir stofnað tvö útibú í Keflavík, í Rangárvallasýslu hafa verið stofnuð tvö ríkisbankaútibú, og þykir það ekkert of mikið, og þannig er hægt að telja lengur. Samstarf milli bankanna mundi að mínum dómi geta leyst þetta mál, sem nú á að þröngva með lagasetningu.

Þá er það ákaflega einkennilegt við meðferð þessa máls, að við umr. um það í hv. Ed. í gær var upplýst, að bankastjórn Seðlabankans hefur aldrei fjallað um þetta mál. Hún hefur ekki verið spurð að því einu sinni, hvort hún telji ástæðu til þess að setja slíkar reglur. Hún hefur ekki átt kost á því að segja álit sitt um þetta. Hún hefur þar af leiðandi ekki verið spurð að því, hvort hún mundi ekki geta náð sama árangri með því að beita sér fyrir frjálsum samningum. Það sýnir, hve málið er flausturslega undirbúið, að það er ekki einu sinni borið undir bankastjórn þess banka, sem á þó að verða aðili að málinu. Hin rétta málsmeðferð væri auðvitað sú á þessu stigi að fresta umr. eða hafa aðra umr. um málið og senda það til n. á venjulegan, þingræðislegan hátt og að fjhn., eða hvaða n. sem það mundi verða falið, beitti sér fyrir því að hafa samráð og samtöl við viðkomandi stofnanir og þó bankastjórn Seðlabankans alveg sérstaklega.

Eftir þessu frv. á Seðlabankinn ekki að hafa neinn ákvörðunarrétt. Hann á aðeins að vera þarna milligönguaðili fyrir úthlutunarskrifstofuna í stjórnarráðinu. Hann á að vísu að senda inn álit um þær umsóknir, sem berast, en hæstv. ráðh. er ekki bundinn við það álit, ekki frekar en það hefði aldrei komið fram. Það er honum algerlega í sjálfsvald sett og eftir hans geðþótta og vilja, hvenær það verður leyft og hvenær bannað að stofna útibú. Þá er náttúrlega líka nokkuð einkennilegt, að úrskurðarvaldið er falið sitt hverjum ráðh. Hingað til hafa öll bankamálin lotið bankamálaráðh. eða ríkisstj. í heild. Nú á að fella þann sið niður, og nú á að ákveða það, að margir ráðh. fari með stjórn bankamálanna og hver í sinni sérgrein. Það er nýmæli, sem mér vitanlega hefur ekki verið reynt hér áður, og þyrfti athugunar við, hvort þetta er heppilegast. Þegar bankarnir fram að þessu hafa opnað útibú, hefur það aðallega verið hér í Reykjavík. Ég tel, að það sé alls ekki neitt athugavert við þá þróun, að fólki sé gerður greiðari aðgangur að bönkum hér í höfuðstaðnum með því, að bankarnir stofni útibú. Ég tel, að það sé þjónusta við fólkið, sem bankarnir séu ekkert of góðir til að veita og enginn ástæða sé til að stemma stigu við, enda hefur það ekki verið gert. Það hefur verið alveg frjálst og verið látið fyllilega viðgangast. Það er fyrst núna á síðustu mánuðum, þegar meiri brögð hafa verið að því en áður, að bankarnir hafi fært starfsemi sína út á landsbyggðina með því að stofna útibú úti á landi, — það er fyrst þá, sem ástæða þykir til að setja skorður við þessum heimildum. En það er þeim mun einkennilegra, þegar þess er gætt, að hvarvetna utan af landi, má ég segja, eða mjög víða hafa borizt óskir og áskoranir, ýmist til viðskiptabankanna eða til hæstv. ríkisstj., um það, að stofnuð verði útibú á hinum ýmsu stöðum, og meira að segja hafa till. um það efni verið fluttar hér inn á hv. Alþingi. Þm. nokkurra kjördæma hafa fundið svo sárt til þess, að heimabyggðir þeirra hafa ekki átt aðgang að bankaútibúi, að þeir hafa ekki séð aðra leið til að koma því máli í höfn en að flytja um það sérstakar þáltill. hér á hv. Alþingi. Þetta sýnir vitanlega, hver þörf er á því, að bankastarfsemin færist út.

Hæstv. viðskmrh. vék að því, að slíkar hömlur væru víða í gildi erlendis. Það kann að vera, að það séu einhverjar reglur um stofnun bankaútibúa erlendis. En mér er fullkunnugt um það, að a.m.k. í þeim löndum, sem ég hef komið í, eru bankastofnanir miklu algengari og meira áberandi en þær eru hér á landi, og það hygg ég, að allir hv. alþm. geti dæmt um af eigin raun. Hvort sem ferðazt er um í borgum eða sveitum, er ekki farin löng leið, svo að ekki sé á næsta horni banki eða sparisjóður og víðast hvar hvort tveggja þetta, bæði banki og sparisjóður, vegna þess að þar hafa viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir nokkuð mismunandi hlutverki að gegna, og þess vegna er þar ekki þörf fyrir báðar þessar starfsgreinar, þannig að ég held, að við séum ekki að semja okkur neitt frekar að siðum erlendra þjóða, sem við viljum sjálfsagt allir gjarnan gera, þ.e. taka upp það, sem gott er frá þeim, þó að við bönnum það, að bankarnir færi út starfsemi sína. Það er öðru nær.

Hlutverk bankanna er í vaxandi mæli þjónusta við fólkið. Við Íslendingar höfum orðið nokkuð seinir til þess, að ég hygg, að notfæra okkur þá þjónustu, sem bankar og peningastofnanir hafa að bjóða. En ég held, að við séum núna að vakna til skilnings á því. Og þegar ég tala um þjónustu bankanna, er það ekki fyrst og fremst útlánastarfsemin, sem ég hef þar í huga, heldur ekkert síður ýmis önnur fyrirgreiðsla, sem bankar og slíkar stofnanir inna af hendi fyrir fólkið, alls konar innheimta, sem stunduð er í bönkunum t.d., og margs konar fyrirgreiðsla á allan hátt. Er ákaflega algengt, að mönnum, sem eiga t.d. skulum við segja skuldabréf eða aðrar skuldaviðurkenningar, þyki hagkvæmt að fela banka eða sparisjóði innheimtu þess fyrir sína hönd, og þá er það ekkert síður þægilegt fyrirkomulag fyrir skuldarann, að það skuli vera einhver ákveðinn staður, sem hefur opið á vissum tíma, þangað sem hann getur snúið sér með greiðsluna, í stað þess að þurfa oft og tíðum, eins og áður var, að eltast við skuldareigandann kannske dögum og jafnvel vikum saman til þess að koma í hendur hans afborgun og öðrum greiðslum. Ég gæti náttúrlega greint frá margs konar annarri þjónustu, sem bankar inna af hendi og fólki þykir þægilegt að geta notfært sér, og mörg þjónusta af því tagi er þannig vaxin, að hún kemur ekki að fullum notum, nema bankaútibúið eða bankinn sé ekki allt of langt frá manni. Manni, sem búsettur er í Keflavík, getur þótt nokkuð langt að sækja bankafyrirgreiðsluna til Reykjavíkur, þó að það séu ekki nema 50 km á milli og steyptur vegur hálfa leiðina.

Í frv. um Seðlabankann eru auðvitað fleiri ákvæði, sem ég tel óheppileg, og það eru þau ákvæði, sem voru í því, þegar það fór héðan til hv. Ed., þau tvö atriði þar, sem ég tel mjög óheppileg og ég tel að muni hafa þær afleiðingar fyrir viðskiptabankana að gera alla starfsemi þeirra mjög erfiða. Þau atriði hafa nokkuð verið rædd hérna. En þrátt fyrir talsverðar umr. um þetta seðlabankafrv., eins og það var fyrir breytinguna, eru ýmsir liðir í því enn þá algerlega óupplýstir, og þrátt fyrir margendurteknar fsp. í þá átt hafa engin svör fengizt frá hæstv. ríkisstj. um það, hvernig þetta frv. verði framkvæmt, þótt að lögum verði. Nú styttist óðum í það, að þessi lög taki gildi, og það er ekki seinna vænna fyrir hv. alþm., þ.e.a.s. þá, sem vilja vita, hvað hér er á ferðinni, að fá svör við þeim spurningum, sem hér hefur verið hreyft, en ekki fengizt svar við. Ég mun því í stuttu máli leyfa mér að ítreka þessar spurningar, til þess að freista þess enn á ný að fá upplýst, hvað það er, sem hér á að samþykkja.

Eins og hv. alþm. muna, eru efnisatriði seðlabankafrv., þau gömlu efnisatriði, ef svo mætti segja, sem eru búin að vera í frv. síðan 25. okt., tvö: Annars vegar að stórhækka innstæðubindingu Seðlabankans, stórhækka þann hluta af sparifénu, sem viðskiptabankar og sparisjóðir og innlánsdeildir kaupfélaga eiga að eiga á bundnum reikningi í Seðlabankanum. Í sambandi við þetta var spurt, á hvern hátt bindiskyldan mundi verða framkvæmd, hvort hún yrði strax færð upp í hámark, sem mundi þýða það, að úr bankakerfinu yrði til viðbótar tekið inn í Seðlabankann 555 millj. kr., en það er sú upphæð, sem vantar nú miðað við síðustu tölur upp á það, að sparifjárbindingin í heild nemi 25% af heildarinnstæðu í bönkum og sparisjóðum. Ef þetta verður ekki gert strax, sem hæstv. viðskmrh. hefur sagt að ekki mundi verða gert, þá kemur til álita, hversu fljótt þessu takmarki eigi að ná, hvað verður bindingarprósentan há, þ.e.a.s. af innlánsaukningunni, eða verður hætt við það að miða bindinguna við innlánsaukningu, þannig að peningastofnanirnar verði, eftir að þetta frv. verður að l., einnig skyldaðar til að greiða inn á bundna reikninginn, þótt um enga sparifjáraukningu hafi verið að ræða eða jafnvel þótt spariféð hafi minnkað. Einu svörin, sem fengizt hafa við þessu, eru, að þetta muni fara eftir mati Seðlabankans og ríkisstj. En hvernig verður þetta mat? Það veit enginn. Um það hafa engin svör fengizt. Hvernig verður þetta mat hæstv. ráðh. og seðlabankastjórnarinnar? Það er það, sem máli skiptir. Í þriðja lagi mætti spyrja um og hefur verið spurt um það, hvernig þessum auknu fjármunum Seðlabankans mundi verða varið. Í aths. við seðlabankafrv. segir, að takmark innlánsbindingar sé að auka afurðalánin með því að endurkaupa afurðavíxlana. En hver verður prósentan t.d. af endurkeyptum afurðavíxlum landbúnaðarins? Hver verður prósentan í sjávarútveginum? Eða hvað á iðnaðurinn að fá mikið? Þessu hefur ekki verið svarað. Við fyrri umr. um þetta mál sagði hæstv. viðskmrh., að það væri ósanngjarnt að ætlast til þess, að þessum spurningum væri svarað, og hann sagði, að 1957, þegar bindingarákvæðin voru fyrst tekin í lög, þá hefði stjórnarandstaðan sýnt þann þroska, að henni hefði ekki dottið í hug að spyrja um þetta. En það gegnir vitanlega allt öðru máli, vegna þess að þá var ekki slegið neinu föstu um það, í hvaða tilgangi innstæðubindingin væri gerð eða að hún ætti að ganga til þess að greiða fyrir atvinnuvegunum á þennan hátt. Nú er það gert, nú er það meginástæðan fyrir flutningi frv. Og er þá óeðlilegt, þó að þeir þm., sem ætlazt er til að samþykki frv., vilji vita, hvað það þýðir í raun og veru? Það held ég ekki. Ég held, að það sé sanngjörn spurning og það sé sjálfsagt að fara fram á, að henni verði svarað.

Hitt ákvæðið í frv. fjallaði um útgáfu gengistryggðra verðbréfa. Samkv. því ákvæði átti að gefa Seðlabankanum einum allra heimild til þess að hefja útgáfu gengistryggðra verðbréfa. Þetta ákvæði mundi vitanlega þýða það, að spariféð leitaði í stórum stíl í þennan farveg. En hvaðan kæmi það sparifé? Ætli það sé nokkur ósanngirni að segja, að það mundi koma a.m.k. fyrst og fremst frá viðskiptabönkunum og sparisjóðunum, því að hvar annars staðar ætti það að vera? Þess vegna skiptir það ákaflega miklu máli fyrir þessar stofnanir — og ekki bara fyrir þessar stofnanir, heldur fyrir alla þá, sem notið hafa fyrirgreiðslu hjá þessum stofnunum, að fá að vita. með hvaða kjörum og hvaða skilmálum þessi verðbréfaútgáfa á að verða leyfð, því að verði t.d. bréfin með háum vöxtum til skamms tíma, verður ákaflega freistandi fyrir sparifjáreigendur að kaupa þau. Verði þau hins vegar til lengri tíma með eitthvað lægri vöxtum, minnkar auðvitað freistingin.

Nú er ég ekki að halda því fram, öðru nær, að sparifjáreigendum veitti út af fyrir sig af því að eiga þess kost að verðtryggja sparifé sitt eitthvað á líkan hátt og hér er gert ráð fyrir. Það er fjarri mér, og við framsóknarmenn hér á Alþingi höfum sýnt alveg ákveðinn vilja í því efni með því að flytja þáltill. um athugun á verðtryggingu sparifjár, og það er ekki í fyrsta skipti, sem sú till. er flutt. Hún hefur verið flutt á mörgum undanförnum þingum, svo að því verður alls ekki haldið fram, að við framsóknarmenn séum á móti verðtryggingu sparifjár, enda hefur það ekki verið gert það skal ég viðurkenna. En það, sem ég held fram í þessu sambandi, er það, að verðtrygging sparifjár eigi ekki og megi ekki fara fram með þessum hætti, að einum aðila sé veitt leyfi til þess að gefa út slík bréf. Verðtryggingin hlýtur að verða að gerast með almennum hætti, þannig að allt banka- og peningamálakerfi landsins sporðreisist ekki af þeim sökum, og það á að vera hægt. Það skiptir þess vegna ákaflega miklu máli fyrir bankakerfið að fá að vita, með hvaða kjörum þessi bréf verði gefin út, enda kom fram í umsögnum þeirra tveggja viðskiptabanka, sem umsagnir sendu til hv. fjhn. þessarar d., alveg greinilegur beygur við það, hvaða áhrif þessi ákvæði hefðu. Bæði bankastjórn Verzlunarbankans og Iðnaðarbankans fjölluðu alveg sérstaklega um það í umsögnum sínum, hversu varhugaverð braut það væri, sem hér væri lögð til, og hversu varlega þyrfti að fara í að gefa þannig einum aðila kost á því að hafa til sölu svo freistandi varning fyrir sparifjáreigendur.

Svo hefur ekki heldur komið neitt í ljós um það mér vitanlega, hvað eigi að gera við það fjármagn, senn Seðlabankanum áskotnaðist með þessum hætti. Á að nota það líka til þess að endurkaupa afurðavíxla, eða á að lána það út með sérstökum hætti með gengisáhættu, þannig að lántakinn eigi að bera gengisáhættuna? Það er sjálfsagt ekkert ósanngjarnt á verðbólgu- og gengislækkunartímum, að útlán yrðu framkvæmd með þeim hætti, að þeir, sem lánin taka, hafi líka áhættuna. Það getur vel verið, að það vaki fyrir hæstv. ríkisstj. með þessu frv. En ef það vakir fyrir hæstv. ríkisstj., er vitanlega engin ástæða til annars en að leyfa öllum bönkum að gefa út slík bréf. Þá geta allir annazt þá milligöngu, sem þar mundi ein verða hlutverk Seðlabankans. Ef hins vegar er til þess ætlazt að nota þetta fjármagn í öðru skyni, t.d. í þágu ríkisins sjálfs, og að Seðlabankinn eða ríkisvaldið með einhverjum hætti ætli að taka á sig þau skakkaföll, sem af gengislækkunum getur leitt, er gott, að það komi fram. Þá er nauðsynlegt, að það komi fram, til þess að hv. alþm. viti, hvað hér er verið að fara fram á og hvað hér á að gera.

Þá er eitt atriði enn, sem mér finnst vera algerlega óupplýst í þessu sambandi. Eins og kunnugt er og hér hefur verið rakið við umr. fyrr, hafa verið samningar svokallaðir milli ríkisstj. og viðskiptabankanna um það, að bankarnir keyptu ríkistryggð skuldabréf og ríkisskuldabréf fyrir 15%, af sparifjáraukningunni. Þessir samningar voru í gildi árið 1963. Þeirra hefur ekki verið leitað síðan. En verður þeirra leitað? Það skiptir miklu máli. Hér er verið að fara fram á og lögbjóða nú senn að taka vaxandi hluta af sparifénu, af ráðstöfunarfé banka og sparisjóða, undan þeirra stjórn og fela öðrum, með þeim afleiðingum, að þessir aðilar verða mjög vanmegnugir að gegna hlutverki sínu og þeirra kostur þrengist enn. Það skiptir mjög miklu máli fyrir þessar stofnanir og fyrir það hlutverk, sem þeim er falið samkv. l., að fá úr því skorið, hvort þessara samninga, sem voru nokkuð fast sóttir af hendi hæstv. ráðh., verður leitað á ný. Verði þeirra ekki leitað, má segja, að álögurnar séu þolanlegri en annars væri.

Þannig finnst mér, að í sambandi við þetta frv. sé mjög mörgum atriðum ósvarað, sem þó er að mínum dómi nauðsynlegt að vita skil á, áður en endanleg afgreiðsla frv, fer fram. Og þessar spurningar, sem ekki hefur verið svarað, eru bæði um þau atriði frv., sem hafa verið hér til meðferðar síðan 25. okt., og eins hin, sem síðar eru til komin, sem komu inn í fyrradag. Um þau atriði, sem búin eru að vera síðan 25. okt., má með sanni segja, að nægilegt tóm hafi nú gefizt hæstv. ríkisstj. til þess að ákveða sig um það, hvaða svör eigi að gefa við þessum spurningum. Aftur á móti er það skiljanlegra, að svörin leiki þeim ekki eins á tungu við þeim ákvæðum, sem kastað var hér inn í fyrrinótt á hv. Alþingi í þeim flýti, að ekki einu sinni bankastjórn Seðlabankans hafði fengið tækifæri til þess að yfirlíta þau. En þá er ráð við því. Það er að fresta þessari umr. eða hafa tvær umr. og gefa sér tóm til þess að undirbúa svör við þeim spurningum, sem ósvarað er, en svara þarf.

Hæstv. bankamálaráðh. sagði áðan, að það væri háskalegt fyrir afkomu bankanna að stofna svona mörg útibú, það mundi keyra fjárhag þeirra algerlega í rúst. Ég þóttist nú reyna að færa líkur að því, að þeir, sem falin er stjórn peningsstofnana, mundu ekki fara svo gálauslega með fé þeirra stofnana, sem þeim er trúað fyrir, að þeir mundu ganga lengra í bankaútbússtofnun en fjárhagsgeta viðkomandi leyfði. En ég get þó ekki stillt mig um það, fyrst þessu máli hefur aðeins verið hreyft, að segja það, náttúrlega sem mína skoðun sem starfsmanns í banka, að kostur bankanna hefur ákaflega mikið verið þrengdur að undanförnu. Ég er ekki að segja, að það komi að sök fyrir þá banka, sem eiga mikið fé og eru gamlir og rótgrónir. En fyrir nýja banka getur það haft töluvert alvarlegar afleiðingar. Þarna á ég vitanlega við þann minnkandi vaxtamismun, sem í lög hefur verið leiddur hér á undanförnum árum, og þó alveg sérstaklega þrengingu vaxtakjaranna í Seðlabankanum af bundnu innstæðunum, þar sem Seðlabankinn borgar, eins og kunnugt er, aðeins 1% yfir meðalvexti hvers banka. 1% vaxtamismunur af svo háum fjárhæðum sem nú eru farnar að verða bundnar í Seðlabankanum er hvergi nærri nægur til þess, að bankinn geti haft sæmilega frjálsar hendur og innt af hendi þá þjónustu, sem ætlast verður til að hann geri.

Ég skal ekki á þessu stigi fjölyrða um þetta mál meira en orðið er. Ég vil aðeins, áður en ég fer úr ræðustólnum, leyfa mér að leggja fram eina brtt. við það frv., sem hér er til umr. Mér er ljóst, að brtt. er of seint fram komin og það þarf afbrigða við. Einnig er hún skrifleg, þar sem ekki hefur verið hægt að prenta hana hér um þetta leyti sólarhrings, prentarar eru í fríi. En brtt. er við 1. gr., og hún er stutt og laggóð, þannig: „Greinin falli niður.“ Ég tel, að ég geti vísað um rökstuðning fyrir þeirri till. til þess, sem ég hef hér sagt.