12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var til meðferðar í þessari hv. d. snemma í vetur, urðu um það allmiklar umr. Ég tók ekki þátt í þeim þá, og m.a. af þeim ástæðum vildi ég mega nú, þar sem frv. er nú komið hingað aftur frá Ed., segja örfá orð um málið í heild.

Eins og kunnugt er, gerir frv. ráð fyrir tveimur meginbreytingum á gildandi l. um Seðlabanka Íslands. Hin fyrri breytingin er sú, að heimilt skuli vera að binda á reikningi í Seðlabankanum allt að 25% af heildarinnstæðufé hjá hverri innlánsstofnun, í stað þess að nú er heimilt eins og er samkv. l. að binda á þennan hátt um 15% af sparisjóðsinnstæðum og 20% af hlaupareikningsinnstæðum. Síðari breytingin er fólgin í því, að Seðlabankanum er með frv. heimilt að stofna til skuldbindinga innanlands með útgáfu verðbréfa með ákvæðum þess efnis, að höfuðstóll og vextir sé bundið gengi erlends gjaldeyris.

Heimildin fyrir Seðlabankann að ákveða, að bankar og sparisjóðir skuli eiga innstæður í bankanum á bundnum reikningi, var fyrst lögleidd 1957 með breytingu, sem þá var gerð á l. um Landsbanka Íslands. Þessi heimild var þó eigi notuð fyrr en á árinu 1960, en þá ákvað núv. ríkisstj. að skylda innlánsstofnanir til að binda verulegan hluta af innstæðuaukningunni á þennan hátt í Seðlabankanum. Þá var jafnframt lögunum breytt á þann veg, að umrædd skylda var einnig látin ná til Söfnunarsjóðs Íslands og innlánsdeilda samvinnufélaganna. Þessar ráðstafanir hlutu að torvelda eða gera a.m.k. nokkuð erfitt viðkomandi peningastofnunum að gegna hlutverkum sínum, og það var gengið of langt í upphafi á þeirri braut að svipta þær ráðstöfunarrétti yfir því starfsfé, sem þær hver og ein höfðu yfir að ráða. Þetta bundna fé var svo innheimt hjá hinum smáu innlánsstofnunum, og þeirra tillag, þótt smátt væri að vísu, varð til þess að stofna þeim í nokkra hættu og var þeim í raun og veru fjötur um fót. Á árinu 1961 var nokkuð slakað á bindingarskyldunni, og þá héldu ýmsir, bæði ég og aðrir, að ríkisstj. mundi sjá að sér og afnema þessi höft í áföngum. Þær vonir urðu að engu, eins og kunnugt er. En nú er ráðgert með þessu frv. að herða þessi tök enn til mikilla muna:

Í frv. segir, að megintilgangur innlánsbindingarinnar sé sá að afla fjár frá bankakerfinu í heild til þess að standa undir lánveitingum Seðlabankans innanlands, þ. á m. endurkaupum afurðavíxla. Þar eru þó engin ákvæði um það, hversu háum hundraðshluta endurkaupin á afurðavíxlum sjávarútvegs og landbúnaðarins skuli nema eftir að slík lagaákvæði hafa tekið gildi. Þar eru ekki heldur nein ákvæði um það, að Seðlabankanum skuli skylt að endurkaupa afurðavíxla iðnaðarins. Er þá nauðsynlegt, að þessi atriði liggi ljóst fyrir, til þess að hægt sé að gera sér grein fyrir, hver áhrif kunni af þessu að verða, því að geta viðskiptabankanna til þess að veita þeim nauðsynlega fyrirgreiðslu minnkar fyrirsjáanlega til muna við ráðstafanir af slíku tagl, sem hér er um að ræða.

Frá því á árinu 1960 hefur verið framkvæmd mjög umfangsmikil innstæðubinding í Seðlabankanum, eins og kunnugt er, þannig að um s.l. áramót var búið að binda þar um 785 millj, kr. af starfsfé bankanna og sparisjóðanna og innlánsdeildanna, sem samvinnufélögin eiga og höfðu verið bundnar í Seðlabankanum. Slík skerðing á ráðstöfunarrétti yfir innstæðufé hjá þessum stofnunum hefur að sjálfsögðu valdið mjög miklum erfiðleikum, og hefur þeim þess vegna verið mjög um hönd að geta sinnt því hlutverki, sem þeim hefur verið ætlað heima fyrir, hverri á sínum stað. Þessi framkvæmd er í raun og veru ekki í anda þeirra l., sem Alþingi hefur nýlega sett um bankastofnanir til eflingar ýmsum atvinnugreinum í landinu, svo sem iðnaðinum og verzluninni, og rýrir þess vegna verulega þær hagsbætur, sem Alþingi hefur ætlazt til að af því leiddi, að stofnaðir hafa verið bankar í umræddum tilgangi. Þeir viðskiptabankar, sem hafa sent umsagnir, eins og hér hefur verið áður drepið á í kvöld, um þetta mál, hafa lagzt gegn þessari auknu bindingu, eins og kunnugt er.

Það er nú þannig, að ríkisstj. er ekki nóg að gera ráð fyrir að herða þessi ákvæði um þessa bindingu og auka það fé, heldur vill hún skerða frelsi landsmanna enn frekar á þann hátt, sem felst í þeim ákvæðum, sem brtt. sú, er samþykkt var í Ed., gerir ráð fyrir. Hæstv. ríkisstj. fleygir þessari brtt. inn í Alþingi á síðustu dægrum þingsins og vill herða enn betur á ófrelsinu í peningamálunum með því að fá til þess lagaákvæði að mega banna stofnun bankaútibúa, þegar búið er að stofna mikinn fjölda þeirra í höfuðborginni og nágrenni hennar. Þessi brtt. er sýnilega til þess flutt að fá vald til þess að neita ýmsum dreifbýlishéruðum um sama rétt í þessu efni og þéttbýlið er búið að fá.

Ég verð að segja það, að mig furðar mjög á því, að slík till. skuli koma fram og skuli vera studd af Sjálfstfl., sem hefur talið sig fram á þennan dag vera höfuðmálsvara frjálsrar samkeppni hér á landi, hefur talið sig vilja vernda frelsi einstaklinga og félaga í landinu til athafna, að sá flokkur skuli nú styðja þessa till. Ég man t.d. eftir því, að eitt slagorðið í kosningunum 1959 var, að við íslendingar ættum að eignast hlutdeild í frjálsum viðskiptaheimi. Hvernig er hægt að hugsa sér, að sú þjóð geti eignazt hlutdeild í svokölluðum frjálsum viðskiptaheimi, sem setur slík óeðlileg höft á, sem gert er ráð fyrir með þessu frv. og þeirri brtt., sem hér hefur verið lögð fram og samþ. í Ed.? Hér á landi hefur yfirleitt verið frelsi til athafna fram að þessu, svo er fyrir að þakka. Og ég hygg, að skaplyndi Íslendinga sé þannig varið, að þeir vilji aðhyllast þá stefnu að hafa frelsi til athafna. Að vísu verður það alltaf að vera innan vissra takmarka, eins og við vitum, en ég hygg, að við séum yfirleitt, meginhluti þjóðarinnar, sammála um þetta atriði.

Hér á landi er t.d. hörð samkeppni um sölu á einni vissri vörutegund. Þar á ég við olíuna og benzínið. Við höfum þrjú allstór félög, sem keppa um þessa sölu, og þau eru öll á hverjum stað með þessa vöru á boðstólum og keppast um að selja hana, keppast um að ná hylli viðskiptavinanna. Ekki hefur þetta verið bannað, og ég hef ekki heyrt, að nokkrum manni dytti í hug að banna þetta. En ef tvær eða þrjár stofnanir vilja keppa um hylli viðskiptamannanna á sviði peningamála, þá á að banna það. Ég get ekki skilið þess háttar hugsunarhátt, sem felst í slíku. Mér er alveg ómögulegt að skilja það, að það skuli vera meiri hætta í því fólgin að vilja greiða fyrir peningaviðskiptum hjá fólki heldur en t.d. selja því olíu eða benzín.

Hvað er hugsanlegt, að verði á ýmsum öðrum sviðum, t.d. um verzlanir? Ég hef ekki orðið þess var, að það sé nokkur áhugi fyrir því hjá nokkrum manni að banna það, að margar verzlanir rækju starfsemi sína á sama stað? Kannske má nú bráðum eiga von á því líka, að það verði sett lög um það, að leyfi þurfi til þess fyrir kaupmenn eða kaupfélög að stofna verzlunarútibú, að það þurfi sérstakt ráðherraleyfi til slíks.

Þá verð ég að segja það, að það vekur furðu mína, sem hv. 11. þm. Reykv, upplýsti hér í sinni ræðu og mér var ókunnugt um, að stjórn Seðlabankans hefur ekki verið spurð um álit í þessu máli. En það er þó hún, sem á að fela það með þessum l. að fjalla um þessi mál. Mér þykir það afar einkennilegt, að það skuli vera farið á bak við stjórn Seðlabankans í slíku máli og álit stjórnar Seðlabankans skuli ekki liggja fyrir um þetta atriði, sem hér er um að ræða. Það hefði þó ekki mátt minna vera en stjórn Seðlabankans hefði verið virt svo mikils af hæstv, ríkisstj., að hún hefði verið spurð um álit á þessu máli. Nei, sannleikurinn er sá, að hér er um að ræða einræðis- og ofbeldishneigð, sem einhvern veginn hefur smeygt sér inn í hugskot ríkisstj. nú um sinn. Þótt hún hafi nú breitt yfir sig sauðargæru lýðræðis- og frelsisástar, þá býr þetta einhvern veginn í henni, þessi einræðis- og ofbeldishneigð, sem ég kalla. Úlfseyrun hafa komið fram undan sauðargærunni í þessu máli, og raunar hefur það skeð við ýmis önnur tækifæri. Það sést bezt á þessu, að á bak við allt talið um frelsi og frjálst framtak einstaklingsins býr einræðis- og haftastefna. Og þó að þeir flokkar, sem styðja ríkisstj., þykist vera á móti höftum og bönnum á framkvæmdum og athöfnum og viðskiptum landsmanna, þá eru þeir til í, þegar eitthvað sérstakt liggur á bak við, að setja slík ákvæði í lög. Fólkið, sem býr til og frá um landið, vill vera frjálst og óháð um það, hvar eða við hvaða peningastofnun það hefur viðskipti sín. Hér í Reykjavík eru allar aðalbankastofnanir landsins staðsettar, og þessar stofnanir eru búnar að setja upp í höfuðborginni og nágrenni hennar fjölda af útibúum, eins og við vitum, og þau hafa gert þetta á þeim forsendum, að þetta væri nauðsynleg þjónusta við fólkið til þess að gera því viðskipti sín við þessar stofnanir auðveldari en ella og uppfylla óskir fólksins að þessu leyti. Þetta er ákaflega eðlilegt sjónarmið og í raun og veru skyldugt sjónarmið. Það er í raun og veru alveg skyldugt sjónarmið. Peningastofnanirnar í landinu eiga að hafa þetta sjónarmið, að reyna að uppfylla þá þjónustu sem bezt, sem þær eiga að veita landslýðnum. Til þess eru þær stofnaðar.

Ég bý í héraði, þar sem er búið að vera bankaútibú í rúmlega 40 ár, og ég vil taka það fram í sambandi við þetta, úr því að ég stóð hér upp til þess að segja nokkur orð, að ég hef ekki nema allt það bezta af þeirri stofnun að segja. Sú stofnan hefur veitt okkur íbúunum í kringum sig ágæta þjónustu og verið áreiðanlega mikil lyftistöng fyrir það byggðarlag, þar sem ég á heima. Og eins og hv. 11. þm. Reykv. drap hér á áðan í sinni ágætu ræðu, er tilfellið það, að bankastofnanir og bankaútibú geta tekið að sér fjölþætt verkefni, sem þau hafa enn ekki tekið að sér hér hjá okkur, en eins og kunnugt er hafa með höndum erlendis víða, t.d. alls konar innheimtustarfsemi. Mér er sagt t.d., að í sumum löndum hafi bankar og bankaútibú með höndum alla innheimtu á gjöldum sveitarfélaga og gjöldum til sveitarfélaga, alla slíka innheimtu með höndum, og sveitarstjórnirnar þurfa ekki annað en ganga inn í þessi útibú og taka þar út mánaðarlega vissan kvóta til þess að nota í sín gjöld, þessar stofnanir hafa þá verið búnar að innheimta þetta. Ég veit, að ýmsir sveitarstjórnarmenn hér á landi hafa mikinn hug á því að koma þess konar þjónustu upp í sambandi við okkar banka og okkar bankaútibú. Og auðvitað er ekkert eðlilegra en við förum þar í slóð annarra, sem hafa þetta fyrirkomulag og hefur reynzt það vel.

Eins og ég sagði, vill fólkið, sem býr til og frá um okkar land, vera frjálst sem mest og óháð um það, hvar eða við hvaða peningastofnun það hefur viðskipti sín. Við vitum, að fólkið er nú einu sinni þannig gert, að því er ekki öllu sama um það, við hvaða stofnun það hefur viðskipti. Einn vill vera þarna og annar vill vera hjá hinum o.s.frv. Þetta er svo á öllum sviðum. Og hvers vegna á að meina fólki að hafa sín viðskipti þar, sem það vill helzt og því þykir eðlilegast og bezt að hafa þau? Nei, við eigum ekki að ganga svo langt í einræðis- og haftaátt: Hér í Reykjavík eru t.d. allar aðalbankastofnanir landsins staðsettar, og eins og ég sagði áðan, búnar að setja hér upp þessi þjónustufyrirtæki úti um alla borgina og í kringum hana, og fólkið úti um landið vill fá þessi sömu kjör, sömu aðstöðu. Það verður sennilega ekki langt þangað til með sama áframhaldi, að það þarf ráðherraleyfi til þess að setja upp búð eða veitingaholu eða jafnvel verkstæði eða hvers konar aðra starfsemi, ef hún á að veita almenningi þjónustu. Ég vil nú ekki trúa öðru en ýmsum þyki þá fara að þrengjast fyrir dyrum, þegar svo væri komið, og eins og ég sagði áðan, þá þekki ég Íslendinga illa, ef þeir una slíku ástandi vel og þola það til lengdar. En það má vel vera, að það takist að beygja menn með alls konar lagaákvæðum. Kannske það verði svo á endanum, að vald núv. ríkisstj, komist á það stig, að allir verða að sitja og standa eins og hún vill. Kannske það fari svo, að henni takist að beygja Íslendinga þannig undir sinn vilja. Ég vil ekki trúa því. Ég vil vona hitt, að menn hafi þann manndóm, að þeir heimti sinn rétt, þótt þeir búi úti á landsbyggðinni, heimti sama rétt og aðrir hafa hér í höfuðborginni og nágrenni hennar.

Valdagræðgin er óhugnanlegt fyrirbrigði. Það er hörmulegt að sjá það, þegar góðir og gegnir menn, eins og t.d. hæstv. viðskmrh., þegar slíkir menn fara að sýkjast af slíkri pest, að þeir vilja setja sín boð og bönn alls staðar, hvar sem því verður við komið. Í þessu máli á auðvitað einnig hlut að sú einkennilega stefna, sem oft gerir vart við sig hjá hæstv. ríkisstj., að vilja hafa rétt fólksins í dreifbýlinu minni en þeirra, sem í þéttbýlinu búa. Til þess að hægt verði að koma böndum á bankana og stöðva þá í því að veita fólkinu úti á landi þá þjónustu í peningaviðskiptum, sem það óskar eftir og þéttbýlið hefur fengið og nýtur, þá er hlaupið til og ég vil segja svikizt að hinu háa Alþingi með því að drífa nú inn slíka breytingu á síðustu klukkutímunum, sem ákveðið hefur verið að þingið sitji. Þetta er vægast sagt heldur lítil háttvísi og hrein móðgun við þm., a.m.k. þá þeirra, sem styðja ekki hæstv. ríkisstj. og ekkert vissu fyrir fram um þetta ráðabrugg. Ég vil ekki trúa því, fyrr en ég tek á og fyrr en ég sé það með eigin augum, að hæstv. ríkisstj. hafi getað fengið stuðning allra sinna flokksmanna hér í þessari hv. d. til þess að fylgja sér í þessu máli. Það er a.m.k. ótrúlegt um þá þeirra, sem eru fulltrúar fyrir dreifbýlið, sem vill fá til sínar bankastofnanir til eðlilegrar þjónustu í peningaviðskiptum á þeim svæðum, þar sem þeir eru forsvarsmenn.

Alþingi er nú búið að standa í 7 mánuði og seðlabankafrv. var lagt fram snemma á þinginu: Það var upplýst hér í kvöld; að það hafi verið lagt fram 25. okt., þ.e.a.s. hálfum mánuði eftir að þing kom saman í haust: Þá þóttist stjórnin, ef ég man rétt, þurfa að fá þetta frv. lögfest sem allra fyrst. En hún hefur nú samt verið að velta þessu máli hér og læða inn í það á síðustu dögum þingsins, eins og ég sagði áðan, nýjum þvingunarákvæðum, sem eiga að skapa henni vald til þess að koma í veg fyrir, að íbúar hinna ýmsu héraða landsins geti fengið sams konar fyrirgreiðslu peningastofnananna og þeir hafa, sem eiga heima í þéttbýlinu. Þetta er lúaleg og lítilfjörleg aðför að fólkinu úti um landið, sem á þær óskir að njóta í einu og öllu sömu réttinda og sömu aðstöðu, eftir því sem fært er, og þeir hafa, sem búa hér í Reykjavík og nágrenni hennar. Ég tel þess vegna, að Hæstv. ríkisstj: hafi smækkað sjálfa sig með þeirri þvingunartill., sem hún hefur fengið sína menn í Ed. til að samþykkja.

Enn getur hæstv. ríkisstj. dregið frv. til baka og á þann hátt veitt sjálfri sér nokkra uppreisn að mínum dómi. Að mínum dómi væri það mikil uppreisn fyrir hana, ef hún drægi nú þetta mál til baka og léti það sofna, en ef hún gerir það ekki, vona ég, að einhverjir úr flokkum hennar hjálpi stjórnarandstöðunni til þess að fella það eða þá a.m.k. greiði atkv. með brtt. hv. 11. þm. Reykv.