12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þetta þinghald, sem nú er senn að ljúka, hefur mikinn hluta vetrarins verið heldur aðgerðalítið. En nú þessa tvo síðustu daga þingsins virðast vera dregin fram mál, sem verið hafa eins og feimnismál hjá hæstv. ríkisstj. Í dag var verið að ræða hér um frv. viðvíkjandi kjörum verkfræðinganna, sem var 36. mál þingsins og lagt fram í október og er samt ekki búið að fá afgreiðslu, og þetta frv., sem hér er nú til meðferðar, var — samkv. upplýsingum, sem ég fékk frá skrifstofunni í dag, lagt fram 25. nóv., og það sýnist sem svo, að hæstv. ríkisstj. hefði getað verið búin að koma þessu frv. áleiðis, ef ekki hefðu verið einhverjir meinbugir á, sem hafa tafið málið. Enda er það á allra vitorði, að þetta mál hefur hlotið mikla andstöðu í liði ríkisstj. hjá þeim mönnum, sem vel til þekkja um bankastarfsemi í landinu og gera sér fullkomlega grein fyrir því, til hvers sú pólitík leiðir, sem frv. boðar. Og ekki sízt er þetta fullkomin ástæða til, að þetta frv. hafi mætt andstöðu, þegar það er haft í huga, að hæstv. ríkisstj. hefur boðað það sýknt og heilagt og síðast í kvöld var einn af stuðningsmönnum hennar, þm, af Vestf., Þorvaldur Garðar, að tala um frelsi, sem þeir væru boðberar fyrir, en forðuðust höft. Og ef hæstv. ríkisstj, kallar það frelsi í peningamálum, sem þetta frv. boðar, er ekki undarlegt, þó að hæstv. viðskmrh. gangi út, þegar um frelsið er rætt.

Aðgerðir hæstv. ríkisstj. í peningamálum eru mjög ólíkar því að eiga skylt við frelsi. Með þessu frv., eins og það var upphaflega lagt hér fyrir á hv. Alþingi, er gert ráð fyrir því, að Seðlabankanum sé heimilt að taka 25% af öllum innstæðum í viðskiptabönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum í landinu. Þetta er veruleg fjárhæð, sem hér er um að ræða, og það hefur þegar sýnt sig, að þetta hefur mikil áhrif á starfsemi peningastofnana, ekki sízt hinna minni, og það er eitt af þeim atriðum, sem eru veigamikill þáttur í jafnvægi í byggð landsins eða í starfsemi héraðanna úti um landsbyggðina. Það — er eins og vitað er, að fjármunirnir eru afl þeirra hluta, sem gera skal, og það er fjárskorturinn, sem fyrst og fremst stendur þessum byggðarlögum fyrir þrifum. Og það hefur verið og er hugsun þess fólks, sem par býr og leggur sína peninga inn í peningastofnanir heima fyrir, að þeir séu þar til geymslu og ráðstöfunar, en þeir séu ekki teknir undir verndarvæng Seðlabankans í Reykjavík. En með þessu móti er nú ætlunin að taka 25% af þessum fjárhæðum hér í fjárhirzluna í Reykjavík, en ekki nota þær til aukinnar starfsemi úti um landsbyggðina. Og það orkar ekki tvímælis, að þessi stefna og ýmsar aðrar hliðarráðstafanir koma til með að verka verulega í þá átt að minnka möguleika landsbyggðarinnar til athafna.

Ég benti á það hér í vetur í sambandi við umr. um breyt. á l. um húsnæðismálastjórn, að þó að ég væri fylgismaður þess að hækka skyldusparnaðinn, leiðir það ákvæði til þess að soga fjármagnið burt úr byggðarlögunum, því að unglingurinn, sem sendir 15% af tekjum sínum í Seðlabankann eða byggingarsjóðinn, geymir þann hluta sparifjár síns ekki í peningastofnuninni heima fyrir, og þegar þar við bætist, að 25% af þeim fjármunum, sem hann hefur leyfi til þess að ráðstafa þar, fer einnig í Seðlabankann hér, er mjög búið að skerða þennan hluta. Þess vegna var með því ákvæði í raun og veru nógu langt gengið í að skerða frelsi í peningamálum, þótt fleira bættist þar ekki við. En auk þessa ákvað svo ríkisstj. að heimila Seðlabankanum með þessu frv. að selja verðbréf, sem væru gengistryggð að einhverju eða öllu leyti, og á þann hátt að veita þeirri stofnun einni, einni peningastofnun í landinu, forréttindi umfram aðrar stofnanir til þess að auðvelda það að ná til sparifjárins. Nú er það að vísu sagt, að þeir fulltrúar í þingflokki stjórnarliða, sem vita, hvar skórinn kreppir að í þessum efnum, hafi þrengt svo að hæstv. ríkisstj., að hún hafi gefið þeim fyrirheit um að framkvæma ekki þetta verðtryggingarákvæði. Og ég hygg, að það muni vera rétt, því að þeir hafi alls ekki ætlað að samþykkja frv., ef þeir fengju ekki einhverja slíka tryggingu, en því hafi verið haldið fram, að heiður hæstv. viðskmrh. væri í veði, ef frv. dagaði uppi, og það verður að segjast eins og það er, að leiður hans er ekki orðinn mikill, ef hann byggist á þessu lagafrv. og þá hafi fyrirheitið verið gefið um það, að þetta skyldi ekki vera framkvæmt, þó að lagabókstafnum yrði komið á.

Nú er það um þetta ákvæði að segja, eins og hefur komið hér fram, t.d. hjá hv. 11. þm. Reykv., að það að verðtryggja spariféð, er atriði, sem við Framsóknarflokksmenn höfum lagt hér fram þáltill. um að yrði athugað. Og það hefur sýnt sig á þessum verðbólgutímum, sem hafa orðið mestir nú á valdatíma þessarar hæstv. ríkisstj., þá hefur spariféð rýrnað svo geysilega, að raunverulega verður ekki hjá því komizt að verðtryggja það, ef eðlileg sparifjársöfnun á að halda áfram í landinu. Það kemur mjög til álita einmitt í sambandi við það ástand, sem er í okkar efnahagsmálum, að verðtryggja sparifé, og þá kemur það einnig til að verðtryggja útlánastarfsemina eða lánin að einhverju leyti a.m.k., eftir að vextir hefðu verið lækkaðir: Þetta atriði um verðtryggingu sparifjár og útlána er mál út af fyrir sig, sem þarf rækilegrar athugunar við. En það á ekki að gerast í því formi að veita einni peningastofnun í landinu forréttindi til þess, heldur eiga viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir allir að njóta slíkra kjara. Þess vegna verður þetta atriði í þessu frv. síður en svo til þess að auðvelda athugun á þessu veigamikla máli, þar sem þessu er hent hér fram í fullkominni andstöðu við viðskiptabankana í landinu. En hinu verðum við að trúa, þangað til annað reynist, að þrátt fyrir það að þetta ákvæði standi þarna, sé búið að beygja ríkisstj. svo, að hún geri ekki tilraun til þess að framkvæma það, enda væri það hreint gerræði gagnvart viðskiptabönkunum í landinu, ef það væri gert.

Þetta voru hin tvö meginatriði, sem fólust í þessu frv., þegar það var til meðferðar hér í hv. Nd. En þegar það var til 3. umr. í seinni d., var það, sem birtust brtt. frá hæstv. viðskmrh., og meginmál þeirra till., sem í voru tvö atriði, var það, að banna skyldi stofnun útibúa eða umboðsskrifstofa af hálfu bankanna, nema leyfi ráðh. kæmi til. Á síðari árum hefur orðið nokkur fjölgun á bönkum hér á landi. Lengi vel voru hér aðeins tveir bankar, en 1930 bættist Búnaðarbankinn við í hópinn og síðan voru ríkisbankar, Landsbankinn og Búnaðarbankinn, og fyrir nokkrum árum var Útvegsbankinn einnig gerður að ríkisbanka. Þessi útfærsla bankastarfseminnar í landinu hefur oft verið til umr., og það hafa verið skiptar skoðanir manna um það, hversu heppileg hún væri. Ég held, að það orki ekki tvímælis, að stofnun hinna nýrri banka hefur orðið til hagsbóta fyrir almenning í landinu, og ég leyfi mér að halda því fram í fullri vinsemd við ríkisbankana, sem ég hef ekkert nema gott af að segja, að stofnun eins og Iðnaðarbankinn hafi unnið hér gott verk og fyrir tilveru hans hafi þróun iðnaðarins orðið fyrr á ferðinni en ella hefði orðið. Það var a.m.k. þannig, að ný fyrirtæki áttu nokkuð erfitt uppdráttar hjá ríkisbönkunum og Iðnaðarbankinn greiddi þar verulega úr. Síðar hafa komið Verzlunar og Samvinnubankinn. Báðir þessir bankar hafa að sjálfsögðu aukið þjónustu og viðskipti þeirra fyrirtækja, sem þeir eru fyrst og fremst kenndir við. Á síðari árum hefur líka orðið veruleg breyting í okkar þjóðlífi, þar sem við höfum horfið frá hinu gamla bændaþjóðfélagi í viðskiptsbúskap. Viðskiptalífið krefst aukinna skulda og mikilla viðskipta, og ekki sízt nú á tímum, þegar fjárhæðirnar eru orðnar svo stórar sem raun ber vitni um, þá verður nauðsynin fyrir eðlileg og hagkvæm bankaviðskipti þeim mun meiri, og það er nú orðið talið hvorki heppilegt, æskilegt né gert af því meira en þörf gerist, að menn flytji með sér stórar fjárhæðir af peningum. Þó hefur það verið svo og er svo enn þá úti á landsbyggðinni, að þar hefur víða orðið að hafa slíkan hátt á. Nú á allra síðustu árum hafa ríkisbankarnir sérstaklega stofnað til nokkurra útibúa úti á landsbyggðinni. En ég vil leyfa mér að halda því fram, að yfirleitt hafi þeir verið heldur seinvirkir við að koma slíkum framkvæmdum á. Og ég held, að þessi útibúastarfsemi, þar sem hún hefur verið, eins og hv. 2. þm. Sunnl. tók fram á Selfossi, hafi verið mikil lyftistöng fyrir þau byggðarlög, sem þeirra hafa notið. Og það orkar ekki tvímælis, að einmitt þau byggðarlög, sem annaðhvort hafa haft góð útibú eða sterka sparisjóði, eru komin miklu lengra á veg með uppbyggingu og örugga viðskiptahætti en annars staðar hefur verið.

Núna á síðustu árum hefur útibúastofnun átt sér stað hjá Landsbankanum á Húsavík. Það fór fram með þeim hætti, að Landsbankinn samdi við sparisjóðinn á Húsavík um að yfirtaka þá stofnun. Þessir samningar fóru allir fram með eðlilegum hætti, og það var vilji héraðsmanna, að þessi sameining ætti sér stað og Landsbankinn hefði þarna starfsemi. Ég hef engan heyrt undan því kvarta, að Landsbankinn stofnaði þetta útibú og samningar tækjust við sparisjóðinn. Hins vegar hef ég heyrt aðra láta vel af þessari breytingu. í vetur stofnaði Landsbankinn útibú á Hvolsvelli. Og nú um þessar mundir eru að takast samningar á milli Landsbankans annars vegar og sparisjóðsins á Akranesi hins vegar. Það rekur engin nauðsyn sparisjóðinn á Akranesi til þess eða þá heimamenn þar til þess að gera þessa samninga. Ástæðan til þess, að þeir gera þessa samninga, er bara sú, að heimamenn á Akranesi telja sig hafa betri aðstöðu eftir en áður, þeir geti sparað –sér ferðir til Reykjavíkur og þeirra viðskipti verði heppilegri eftir þessa breytingu en áður var. Að öðrum kosti mundu þeir ekki hafa gert þessa samninga, vegna þess að það var engin ástæða til þess, að þeir gerðu neina samninga aðra en þá, sem þeir sjálfir teldu að yrðu til bóta. Sparisjóður þeirra var sterk og myndarleg stofnun, og þess vegna gátu þeir haldið þeirri starfsemi áfram, nema af því, að þeir töldu þetta heppilegra. Og mér er ekki kunnugt um það, að Landsbankinn hafi á einn eða annan hátt sótt þetta mál nema eftir eðlilegum samningaleiðum og í fullri vinsemd, og ég sé ekki, að framkvæmd á því atriði gefi ástæðu til þeirrar lagasetningar, sem hér á að fara að gera.

Búnaðarbankinn hefur og sett upp útibú á síðari árum. Hann var með útibú á Akureyri og síðar á Austurlandi, og ég verð að segja það sem mína skoðun, að sú stofnun hafi verið of seinvirk í að koma upp útibúum úti á landsbyggðinni. Það er því ástæðulaust að halda því fram, að þar hafi verið gengið of hratt, heldur hið gagnstæða.

Á s.l. sumri setti Búnaðarbankinn svo upp útibú á Blönduósi. Það var gert með sama hætti og ég skýrði frá áðan um Landsbankann, að samningar tókust á milli heimamanna um sparísjóð þeirra þar og Búnaðarbankans. Og ég er sannfærður um það, að þeir samningar tókust vegna þess, að heimsmenn töldu sig vera að koma sínum málum betur fyrir en áður var. Það var einnig sömu sögu um þá að segja og um Akranes, að þeir áttu góðan sparisjóð, og það var engin ástæða til að gera þennan samning, nema af því að þeir teldu, að sínum málum væri betur borgið. Ég held líka, að það sé skoðun manna, að svo sé, og ég er sannfærður um, að þessi starfsemi á eftir að færast í aukana og útibúin að taka upp þjónustu í sambandi við hin föstu lán þessara stofnana meira en nú er.

Nú í vetur stofnaði Búnaðarbankinn fyrsta útibú sitt á Suðurlandi, á Hellu, og þar var líka samkomulag um sparisjóð í nágrenninu. Ég hef ekki heyrt undan því kvartað, að bankinn hafi á neinn hátt gengið þarna lengra í samningum eða sótt á með meira kappi en eðlilegt var. Og ég þekki til þess, að Búnaðarbankinn hafði hugsað sér að setja upp útibú í byggðarlagi, sem ekki óskaði eftir því, að það yrði gert, og fyrir var myndarlegur og vel rekinn sparisjóður, og þá féll bara bankinn frá þeirri ákvörðun sinni og gerði á engan hátt tilraun til þess að troða sér inn á héraðsbúa.

Nú hefur verið ákveðið að setja upp útibú vestur í Stykkishólmi, og ég verð að segja það eins og er, að ég fagna mjög þeirri ákvörðun. Það hefur ekki verið neitt til þæginda fyrir atvinnurekstur vestur á Snæfellsnesi að verða að flytja peninga héðan úr Reykjavík til þess að annast með útborganir þar vestra, ef pósthúsin á staðnum hafa ekki getað lagt þeim til fjármuni vegna sinna viðskipta. Sparisjóðir í heimabyggðinni hafa ekki rekið þá starfsemi, sem hefur gert það að verkum, að þeir hafi getað séð fyrir fjármunum til útborgunar á vinnulaunum og öðru slíku. Og enn þá er það svo í stöðum eins og Ólafsvík og Grundarfirði, að útgerðarmenn og frystihúsaframkvæmdastjórar keyra stórar fjárhæðir héðan úr bönkum í Reykjavík og borga út þar vestra. Þessi starfsemi eða framkvæmd er ekki æskileg, og ég verð að segja það sem mína skoðun, að ég tel, að þarna þurfi fleiri útibú frekar en það sé of mikið af þessu gert. Enn fremur hefur Búnaðarbankinn ákveðið að setja upp útibú í Búðardal, og ég veit ekki annað en það eigi að fara fram með sama hætti og annars staðar, að það eigi að semja við sparisjóðinn, sem fyrir er á staðnum, um það, að hann renni inn í útibúið og það verði í fullri vinsemd gert.

Þau kynni, sem ég hef haft af þessum málum óbeint, eru á þann veg, að ég sé ekki, að það sé nein ástæða til lagasetningar út af stofnun útibúa, sem ég þekki til. Og ég vil endurtaka það, að ég álít, að það eigi að gera meira af þessu en enn er, og t.d. var hér þáltill: á Alþingi í vetur frá tveim þm., hv. 5. landsk., Ragnari Arnalds, og hv. þm. Jóni Þorsteinssyni, og þeirra þáltill. var um að skora á ríkisstj. að hlutast til um að koma upp útibúi á Sauðárkróki. Þetta sýnir, að það er einmitt áhugi fyrir því að fá útibúin út um landsbyggðina, enda er það, sem bankarnir hér eiga að gera til stuðnings við landsbyggðina, þeir eiga að setja upp útibúin, og ekki eingöngu það, heldur eiga þeir a.m.k. fyrstu 2 árin að flytja fjármagn héðan í útibúin, sem þeir setja upp úti á landsbyggðinni.

Sömu sögu er að segja um þau útibú, sem hafa verið sett upp af einkabönkunum. Þau hafa verið samkv. ósk og vilja heimamanna. Það hefur engu verið þröngvað upp á menn, en hins vegar verið mikið á það sótt að fá þetta. Og ég sé ekki, að þær framkvæmdir hafi átt sér stað í bankakerfinu nú síðustu mánuði, að það gefi tilefni til þeirra lagaákvæða, sem hér á að fara að setja.

Eins og hefur verið tekið fram, ræður hæstv. ríkisstj. í öllum ríkisbönkunum því, sem hún vill ráða um þessa hluti. Ekki orkar það tvímælis, að hæstv. landbrh. getur haft þau áhrif í Búnaðarbankanum að stöðva þá, ef þeir ætla að fara að gera einhverja vitleysu í útlánamálunum. Og ég held, að það muni vera sömu sögu að segja um Landsbankann og Útvegsbankann, að hæstv. viðskmrh. geti beitt sínum áhrifum til þess að stöðva þar framkvæmdir, sem væru óheppilegar að hans dómi. Þá virðist, að það sé umhyggjan fyrir einkabönkunum, sem er undirrót þessarar lagasetningar, sem hér á að setja. Og eins og hv. 11. þm. Reykv. tók fram, er það nú svo, að þeir menn, bankaráð og bankastjórar, sem falin er þar forstjórn. eiga að vera þeim vanda vaxnir, að þeir fari ekki út í slík ævintýra að ástæðulausu, heldur sjái fótum sínum sæmilega forráð. Og ég hygg, að það sé ekki heldur til dæmi um annað en það hafi verið fullkomlega gætt hófs í þessu. Ég verð því að segja það, að þegar ég velti þessu fyrir mér, geri ég mér ekki almennilega ljóst, hvað það er, sem vakir fyrir hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál. Og ég vil endurtaka það, að mér finnst það skrýtin stjórn frelsisins, sem reynir að koma í veg fyrir, að slík mál sem þessi séu gerð með frjálsum samningum, eins og átt hefur sér stað hingað til. Þetta lögbann, sem hér á að fara að setja, mun verða til þess, að frjálsir samningar verði ekki eins eðlilegir um þessi mál hér eftir sem hingað til, enda er það svo, að þó að slikir samningar tækjust milli aðila, þá getur hæstv. ráðh., sá sem fer með málið í það skipti, stöðvað þetta gersamlega.

Ef þarf að hafa einhverja sérstaka umhyggju fyrir bönkum landsins, vegna þess að þeir sýni of mikið gáleysi í útbreiðslustarfsemi sinni, þarf þetta eftirlit að vera víðar, og ég held, að það gæti þá verið, að hæstv. ríkisstj. þyrfti að fara að ferðast um landið og athuga, hvort það væri ekki of mikið að hafa tvo og þrjá benzínafgreiðslutanka á einum og sama veitingastað, því að það er hægt að fara með fjármuni þjóðarinnar í aukinn rekstrarkostnað á fleiri sviðum en í bankamálum. Og ég hefði haldið, að það væri einna minnst þörfin þar til þess að hafa eftirlitið, því að yfirleitt hefði það verið þannig, að það hefði orðið að sækja bankana, en þeir ekki boðið fram sína þjónustu í þessum efnum.

En ekki orkar það tvímælis, að þó að nokkuð hafi verið úr því bætt á síðari árum að koma upp útibúum frá bönkunum, þarf meira að gera, ef sæmilega á að vera séð fyrir við skiptamálum landsbyggðarinnar, því að það er ekki hægt í þeim efnum frekar en öðrum að miða við það, sem áður var og áður gat gengið. Það þurfti ekki að flytja héðan úr Reykjavík um hálfa millj. til þess að borga út hálfs mánaðar vinnulaun í frystihúsi, eins og nú þarf að gera, á ýmsa staði, sem ég þekki til, og eru það þó ekki stærstu frystihúsin, sem þurfa að eiga svo stórar fjárhæðir við útborgun fyrir hálfsmánaðartíma. En þetta segir það, að það verður að koma upp stofnunum, sem annast eðlileg hlaupareikningsviðskipti og þannig, að hægt sé að afgreiða málin með ávísunum, en ekki flutningi á fjármagni, eins og gert hefur verið. Og jafnvel þó að hæstv. ríkisstj. takist nú í nafni frelsisins að koma á lagafrv. eins og þessu, sem er hrein andstaða frelsis, — og er það í samræmi við aðrar framkvæmdir á fyrirheitum hæstv. ríkisstj., að þar ganga nú flestir hlutir öfugt, því að meðal fyrirheitanna var stöðvun verðbólgu, en allir vita um framkvæmdina í því sem öðru, — þá mun það sýna sig, að þegar hér rofar til aftur og þessi ríkisstj. hafta og ófrelsis leggur niður völd, þá mun aftur verða breytt í þessu efni.