12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst nóg um, að þessar umr. fari fram á þessum tíma, þó að hæstv. ráðh, væri viðstaddur, en alveg taka steininn úr, ef ætlunin er að halda þessu hér áfram, en að hæstv. viðskmrh. fjarstöddum, og vil ég nú fara fram á það við hæstv. forseta, að hann geri ráðstafanir til þess, að ráðh. verði viðstaddur umr.

Ég sé, að hæstv. ráðh. er kominn, og skal ekki tefja mál mitt. Hæstv. forseti benti á það í sambandi við þetta mál, þegar það kom fyrst til umr, í nótt, að það hefði verið lagt hér fyrir 25. nóv. í haust. Það mun vera alveg rétt. Frv. var lagt fyrir þá, og það er kannske einn af vitnisburðunum um, hversu ráðleysi ríkisstj. hefur verið mikið í vetur og hversu verkstjórnin á Alþingi af hennar hendi hefur verið léleg, að þetta mál skuli nú fyrst vera til lokaafgreiðslu hér í nótt og þá skuli þurfa að beita þeim ráðum, sem nú er gert, til þess að koma því í höfn, sem sé þeim að halda nú næturfund um málíð, taka málið fyrir kl. 1. að nóttu til og ætlast til, að umr. ljúki endanlega í nótt, eins og sýnilega er nú tilætlunin með því að halda fundinum sífellt áfram.

Öll þessi meðferð á málinu sýnist mér vera glöggur vottur um það ráðleysi og þá óstjórn, sem hér hefur átt hér stað í þinghaldinu, og forustuleysi hæstv. ríkisstj. Út yfir tekur þó alveg, þegar sá atburður hefur gerzt í sambandi við þetta mál, að það er látið taka algerum stakkaskiptum við síðustu umr. í síðari d. Þá er lögð fram brtt., sem gerbreytir öllu málinu, sem sé sú till., að það skuli vera óheimilt að stofna bankaútibú nema með leyfi ráðh. Hér er farið inn á alveg nýja braut, eins og rækilega hefur verið sýnt fram á í þessum umr. En áður en ég kem að því að ræða um það efni, vil ég fara fáeinum orðum um málsmeðferðina, því að hún út af fyrir sig er býsna athyglisverð og stórvítaverð og þannig vaxin, að það má ekki koma fyrir, að slíkt geti orðið framkvæmt fyrirhafnarlaust á Alþingi. En það, sem gerist, er þetta:

Hæstv. ráðh. leggur fram við 3. umr., síðustu umr. í síðari d., till., sem á að breyta mörgum Iagabálkum. Þessi till., sem hæstv. ráðh. leggur fram, á að breyta löggjöfinni um banka landsins, hverri löggjöf fyrir sig. Í þessum lagabálkum, sem gilda um bankana, er það yfirleitt tekið fram, að það skuli vera á valdi stofnananna sjálfra, hvar þær setja á stofn útibú, þ.e.a.s. bankaráðanna. En með þessari brtt., sem hefur verið samþ. inn í þetta mál við etna umr. í d., er gert ráð fyrir að breyta allri þessari löggjöf. Í raun og veru er hér algert brot á öllum venjulegum siðvenjum og spurning, hvort lagasetning, sem gerð er á þennan hátt, hefur fullt gildi, spurning, hvort yfirleitt er hægt að breyta l. með þessu móti.

Ef hér átti að fara eðlilega að, hefði átt að flytja frv. til l. um breyt. á löggjöfinni um hvern banka fyrir sig, og ef átti að svipta bankana, forráðamenn bankanna, þeim heimildum til þess að stofna útibú, sem í l. eru, hefði þurft að breyta hverri löggjöf fyrir sig. En nú er þessi áheyrilegi háttur á hafður, að þetta á að gera með einni brtt. við frv. um Seðlabankann, sem lögð er fram á þessa lund við síðustu umr. málsins.

Þar næst er þess að geta, að það hefði verið algert lágmark, að það hefði verið flutt sérstakt frv. um þetta mikilsverða mál, sem fjallaði um þetta út af fyrir sig, og það hefði þá verið skilmerkilega tekið fram í því frv., hvaða lögum var breytt, hvaða lagagreinum var breytt, og það frv. hefði fengið venjulega þinglega meðferð, þrjár umr. í hvorri deild. Algert lágmark hefði auðvitað verið, að svona merkilegt nýmæli hefði verið sett inn í frv. um Seðlabanka á fyrstu stigum málsins, ef það af einhverjum ástæðum láðist að setja það inn í frv. strax og það kom fram. En það er algert siðleysi að mínum dómi að setja svona víðtækt og þýðingarmikið ákvæði inn í frv. við 3. umr. í síðari d., og að mínu viti ætti að vísa þessu máli frá, eins og nú er komið. Það mun hafa verið farið fram á það í hv. Ed., að brtt. yrði vísað frá og það yrði ekki talið leyfilegt að halda svona á málinu. Þetta var ekki tekið til greina, en ég vil mótmæla kröftuglega þessari málsmeðferð.

Afleiðingin af þessum vinnubrögðum verður svo auðvitað sú, að málið fær alls ekki þinglega meðferð og ekki er hægt að láta málið fá á nokkurn hátt þá athugun, sem skylt hefði verið. Nú hefði það t.d. verið alveg sjálfsagt að senda þetta mikilsverða nýmæli til umsagnar stjórnar Seðlabankans. Það hefði verið það allra minnsta, sem hefði getað komið til greina, að þetta hefði verið sent til umsagnar stjórnar Seðlabankans, en komið hefur fram alveg greinilega í umr. í hv. Ed., að þetta hefur alls ekki verið borið undir stjórn Seðlabankans, bankaráð Seðlabankans. Mér hefur verið sagt frá því, að það muni hafa verið haft eitthvert samband við Seðlabankann, einhverja aðila í bankanum, en það liggur alls ekki fyrir umsögn frá Seðlabankanum um þetta mál, hefur ekki verið lögð fram og mun ekki vera til, og alls ekki við bankaráð Seðlabankans.

Enn fremur hefði það auðvitað átt að vera sjálfsagt, að Alþingi og hæstv. ríkisstj. hefðu borið þetta undir stjórn viðskiptabankanna hvers um sig, hvað þær hefðu að segja um þetta mikilverða nýmæli, hvort þeir væru því meðmæltar, og þá með hvaða rökum, eða hvort þær væru andvígar því, og þá hvaða ástæðu þær vildu færa fram fyrir því. Hér er ekki um neitt hégómamál að ræða, eins og ég mun koma að örlítið síðar í þeim fáu orðum, sem ég mun um þetta segja. En ekkert af þessu hefur verið gert, og er það því ekki ástæðulaust, að kröftuglega hefur verið fundið að málsmeðferðinni. Það er ósæmilegt að halda á málum á þessa lund, og í hvert skipti, sem það hefur komið fyrir hér á hv. Alþingi, að mikilsverðu nýmæli hefur verið bætt inn í frv: á seinustu stigum málanna, hefur það verið harðlega gagnrýnt. Ég held ég megi fullyrða, að það er mjög sjaldgæft, að jafnmikilvægri breytingu og hér er ráðgerð hafi verið smeygt inn í frv. á allra síðasta stigi þess. Það munu vera fá dæmi í þingsögunni um slíkt, sem betur fer, og ég minnist þess úr minni reynslu hér á hv. Alþingi, að þegar það hefur komið fyrir, að meiri háttar breytingar hafa verið lagðar fram seint við meðferð mála, þá hefur það valdið harðri gagnrýni, og sú gagnrýni hefur nálega ævinlega verið réttmæt.

Ríkisstj. var í fyrsta lagi algerlega vorkunnarlaust að gera það upp við sig strax í vetur, þrátt fyrir ráðleysi sitt, hvort hún taldi nauðsynlegt að setja lagaákvæði í þessa átt eða ekki, og fyrst hún gat ekki gert það upp við sig nægilega snemma til að koma þessu á sómasamlegan hátt inn í seðlabankafrv., átti hæstv. ríkisstj. að hafa sómatilfinningu til að flytja um þetta a.m.k. sérstakt frv., en helzt mörg frv., sem hefðu verið miðuð við að breyta l. hvers banka um sig.

Ég skal þá víkja þessu næst nokkuð að efni málsins og mikilvægi þess. Hér er sem sagt um það að ræða að banna bönkum og inniánsstofnunum að setja á fót útibú eða umboðsskrifstofur, nema ráðh. fallist á það. Ráðh. skal framvegis ráða því, hvort bessar stofnanir mega setja upp útibú eða ekki.

Það er mjög athyglisvert, að hæstv. ráðh. komst þannig að orði í þeim fáu setningum, sem hann sagði til að rökstyðja þetta mál, að það væri komin upp, — ég held, að hann hafi orðað það þannig, — það væri komin upp mikil samkeppni um að koma á fót útibúum og þess vegna yrði að gera sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir þá þróun, eins og hún hefði verið nú um sinn, Það væri komin upp mikil samkeppni um að koma upp útibúum.

Það er mjög einkennandi fyrir samkeppnisflokkinn á íslandi, sem kallar sig Sjálfstfl., að hann skuli nú eiga frumkvæði að því að setja þessi höft á bankastarfsemina, vegna þess að það sé komin upp samkeppni, eins og umboðsmaður tvíflokkanna, hæstv. viðskmrh., orðaði það hér í þessu sambandi, — það sé komin upp samkeppni í því að setja upp bankaútibú. Það er sem sé komin upp samkeppni á milli bankanna um að veita fólkinu þjónustu. Og þegar svo er komið, þá er háski á ferðum, þá verður að gera einhverjar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slíkt. Og það finnast ekki aðrar en þær, að það verði að setja á Alþingi sérstök lög um, að ráðh. skuli ráða því, hvort þessar stofnanir mega veita aukna þjónustu eða ekki. En það er yfirlýst stefna í sambandi við málið og auðheyrt á öllu því, sem í kringum það kemur fram, að það á að setja þetta ákvæði til þess að koma í veg fyrir, að bankarnir haldi áfram að fjölga útibúunum. Það er sá voði, sem talinn er vera á ferðinni, að útibúunum verði fjölgað. En hér hefur ekki verið gerð nokkur tilraun til þess að sýna fram á það, hvaða voði væri þarna á ferðinni, hvaða háski þjóðarbúskapnum væri búinn við það, þó að útibúunum fjölgaði eitthvað frá því, sem verið hefur. Hvað er svona háskalegt við það? Vill ekki hæstv. ráðh. og aðrir þeir, sem standa að þessu máli, reyna að gera mönnum einhverja grein fyrir því, hvaða hætta er á ferðum í sambandi við stofnun útibúa eða umboðsskrifstofa? Hvaða hætta er á ferðum í sambandi við það?

Hæstv. ráðh. var eitthvað að impra á því, að þetta væri dýrt. En ætli þessar stofnanir, bankarnir, og þeir, sem hér eiga hlut að máli, mundu koma upp þessum skrifstofum og útibúum, ef það borgaði sig ekki fyrir þá? Er það meiningin að taka upp þá stefnu hér í landi, að ríkisstj. skuli hafa forsjá fyrir atvinnurekendum yfirleitt og öllum þeim, sem reka hér stofnanir, og ráða því, hvað megi gera, þeir hafi ekki sjálfir vit á því að sjá fótum sínum forráð eða sjá, hvað stofnuninni er raunverulega fyrir beztu? Og það er samkeppnisflokkurinn á Íslandi, flokkur frelsisins, Sjálfstfl., sem gengst fyrir þessu nýmæli og með þessum rökstuðningi, sem umboðsmaður hans hér á Alþingi, hæstv. viðskmrh., lætur fylgja.

Það er auðvitað alveg eðlilegt, að menn spyrji, hvert á svo að verða framhaldið af þessu. Það er sagt, að bankarnir hafi ekki vit á því að sjá fótum sínum forráð í sambandi við stofnun útibúa. Þau geta orðið of mörg. Það getur vel verið, að þau verði ekki á réttum stöðum. Já, það getur náttúrlega vel verið, að þau verði ekki nákvæmlega á þeim stöðum, sem hæstv. ráðh. þóknast. En hingað til hefur það nú verið viðurkennt á Íslandi, að það væru til fyrirtæki og stofnanir, sem ættu að mega ráða því sjálf, hvar þau hafa sína starfsemi, en það ætti ekki að vera ríkisstj. eða ráðh., sem ákveða það, hvar fyrirtækin skuli setja niður sínar skrifstofur eða sín umboð og annað þess konar. Það hefur fram að þessu ekki verið talið vænlegt. Hvað eru höft, ef það er ekki að innleiða annað eins og þetta í löggjöf landsins, að einkafyrirtæki eins og t.d. Verzlunarbankinn, eins og Samvinnubankinn, eins og Iðnaðarbankinn, en þetta eru einkafyrirtæki, skuli sækja þetta undir ráðherra? En ráðherrar eiga ekki að ráða þessum fyrirtækjum, þetta eru einkafyrirtæki.

Nú á að setja sérstaka löggjöf fyrir forgöngu einkarekstrarflokksins á Íslandi, fyrir forgöngu samkeppnisflokksins á Íslandi, fyrir forgöngu frelsisflokksins á Íslandi, sem svo kallar sig, — setja sérstaka löggjöf um það, að þessi einkafyrirtæki skuli ekki ráða því sjálf, hvort þau komi sér upp umboðsskrifstofum, hvort þau komi sér upp útibúum, og ekki heldur, hvar þau komi slíkum stofnunum á fót. Það á að vera ráðh., sem raunverulega á að ráða þessu.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að þetta mundi kannske vera nokkuð dýrt fyrir þjóðarbúið og þess vegna yrði að gera þetta. En er ekki nokkuð dýrt fyrir þjóðarbúið að hafa allar þær verzlanir, sem eru í landinu? í tiltölulega litlum byggðarlögum eru kannske 2 verzlanir, R verzlanir, 4 verzlanir, 5 verzlanir eða fleiri. Í sumum stærri byggðarlögum eru tugir verzlana, hundruð verzlana í höfuðborginni. Ætli það væri ekki ákaflega auðvelt að reikna út og óvandur eftirleikurinn að reikna það út, að það væri ódýrara fyrir þjóðarbúið að hafa bara eina verzlun á hverjum stað, kannske í mesta lagi tvær, eða eina í hverri grein, og þá væri það náttúrlega sjálfsagt, að það væri ráðh., sjálfsagt viðskmrh., sem ætti að ráða því, hver fengi leyfi til að setja upp þessa einu verzlun, t.d. á hverjum stað, eða eina verzlun í hverri grein á hverjum stað? Og rökin? Jú, rökin yrðu þau, að það væri komin upp samkeppni í verzluninni, alveg eins og ráðh. segir, það er komin upp samkeppni um stofnun útibúa, — það væri komin upp samkeppni um stofnun verzlana í landinu og það yrði því að setja sérstaka löggjöf, til þess að það yrði ekki allt of dýrt fyrir þjóðarbúið. Síðan yrði að fela ráðh. að framkvæma þessa löggjöf og ráða því, ekki aðeins hverjir ættu að verzla, heldur hvar þeir ættu að verzla og hvort þeir mættu setja upp útibú eða hafa umboðsmenn og þar fram eftir götunum.

Svona getum við haldið áfram alveg endalaust. Væri nokkurt vit í því að hafa fleiri en einn rakara, eina rakarastofu á hverjum stað o.s.frv.? Er það orðin stefna Sjálfstfl. að setja löggjöf é þessum grundvelli, eins og nú er stefnt að í banka- og peningamálunum? Auðvitað eru þessar stofnanir, einkabankarnir, í eðli sínu að engu leyti frábrugðnir öðrum einkafyrirtækjum eða félagsfyrirtækjum í landinu. Og það er ekkert fremur eðlilegt að setja löggjöf um að banna einkabönkum að setja upp útibú eða umboðsskrifstofur, ekkert fremur eftir eðli sínu hægt að gera það en að banna verzlunum að setja upp útibú eða öðrum hliðstæðum stofnunum. Þessi rök, að það sé dýrara fyrir þjóðarbúið að hafa fleiri en eina stofnun af hverri gerð í hverju byggðarlagi, þau er hægt að nota til þess að eyðileggja og fella í rústir gersamlega allt frelsi í atvinnurekstri og viðskiptum. Það er hægt að nota þessi sömu rök og hæstv. viðskmrh. notaði hér áðan til þess að eyðileggja þetta allt saman og leggja í rústir.

En þetta er ekkert nema það, sem við sjáum svo oft, að Sjálfstfl. meinar ekki nokkurn skapaðan hlut með tali sínu um, að hann sé flokkur fyrir hið frjálsa framtak, fyrir frelsið eða fyrir samkeppnina. Þeir vilja enga samkeppni, þeir vilja bara, að það séu þeirra menn, sem hafi þessi málefni með höndum, þá er það í lagi, en aðrir eiga ekkert að vera að skipta sér af því. En ef ekki er hægt að bolast á öðrum öðruvísi en með löggjöf og ef þeir hafa ráð á því að setja slíka löggjöf, þá á að setja hana til hess að halda öðrum niðri.

Það dylst náttúrlega engum manni, að það er eitthvað undarlegt á bak við þessa löggjöf, sem hér er verið að setja, eitthvað annarlegt. Það getur ekki verið hugsun þessara manna. sem hallast að einkarekstri yfir höfuð, og það eru margir einkarekstrarmenn hér innan dyra. — það getur ekki verið meining þeirra, að það eigi að taka þessar röksemdir hæstv. viðskmrh. alvarlega, því að samkv. þeim mætti, eins og ég sagði, leggja allan einkareksturinn undir ráðherraúrskurð á sama hátt. En það sýnir, að eitthvað annarlegt er á bak við þetta. Það er ekki til þess að spara í þjóðfélaginu, sem verið er að þessu. Það er auðvitað meiningin að koma í veg fyrir, að þeir bankar, sem nú eru í landinu, geti þróazt með frjálsum hætti. Það er meiningin að koma í veg fyrir, að eðlileg samkeppni í bankamálum geti átt sér stað. Það er meiningin að koma í veg fyrir það. Það getur ekki verið annað.

Svo á það eftir að sýna sig í framkvæmdinni, hvernig þetta verður. En enginn efast um, á hvern hugsunin er að halla í þessu sambandi. En það sýnir dálítið, á hvaða braut er lagt í þessu sambandi og hversu skynsamlegt það er að efna til svona lagaðs, ef dæmi eru nefnd. Ég vil nefna tvo af einkabönkunum, Samvinnubankann og Verzlunarbankann. Nú skulum við hugsa okkur ríkisstj., sem vildi frekar efla Verzlunarbankann. Hvernig getur hún notað þessa löggjöf? Að vissu leyti er um samkeppni að ræða milli Verzlunarbankans og Samvinnúbankans, að því leyti, að það er einkaverzlunin, sem stendur að annarri stofnuninni. en samvinnuverzlanir að hinni stofnuninni. Og einkaverzlun og samvinnuverzlun keppa hvor við aðra til mikillar blessunar fyrir þjóðarbúið að mínu viti. Og ég vil skjóta því hér inn í, að í raun og veru er eina reglulega samkeppnin, sem til er í okkar landi, samkeppnin á milli samvinnufélaga annars vegar og einkarekstrar hins vegar. Og það er þessi samkeppni fyrst og fremst, sem gerir viðskipti bærileg á Íslandi og viðskiptakjör, það er þessi samkeppni á milli þessara tveggja kerfa. Hún er eðlileg, og hún er heilbrigð, og þjóðin hefur haft feikilega mikið gagn af þessari samkeppni alla tíð síðan til hennar var efnt. Þarna er svo um að ræða tvær bankastofnanir, önnur er tengd samvinnuverzluninni, en hin tengd einkaverzluninni. Nú skulum við hugsa okkur, að það sitji ríkisstj., sem er hlynnt einkaverzluninni. Þá getur vel farið svo, að sá ráðh., sem fer með bankamálin, misnoti þannig aðstöðu sína hreinlega, að hann banni gersamlega t.d. Samvinnubankanum að koma upp útibúum. Svo gæti hitt komið til greina, að þarna væru kappsfullir menn, sem vildu fara hina leiðina og vildu kannske taka þann sið upp að banna Verzlunarbankanum að setja upp útibú, en leyfa Samvinnubankanum aftur á móti að setja upp útibú sem allra víðast. Við sjáum á þessu, hvað verið er að fara, hvað þetta er háskalegt, að innleiða svona vald fyrir ráðh., að ráðh. geti bókstaflega ráðið því, hvaða bankar fái að reka starfsemi sína með eðlilegum hætti og hvaða bankar ekki. En þegar ráðh. hefur þetta vald, sem hér er gert ráð fyrir í seðlabankafrv. nýja, er það algerlega á valdi ráðh., hvernig farnast um útbreiðslu bankaviðskiptanna í landinu. Ráðh. getur haldið niðri einhverjum bankanum með því að banna honum að setja upp útibú, en leyft öðrum bönkum að setja upp útibú. Er þetta hægt?

Ég vil nú spyrja einkarekstrarmenn og þá, sem unna sæmilegu félagafrelsi. Er þetta hægt? Er út í það leggjandi að setja svona löggjöf? Og menn verða að athuga, þótt þeir séu kappsfullir og vilji nota vald sitt, að það getur farið svo, að þeirra vald standi ekki að eilífu, og það er ekki skynsamlegt að miða löggjöfina við það, sem mönnum í einhverju ofurkappi kann að finnast þægilegt fyrir sig op sína menn. Það er ekki skynsamleg stefna í löggjöfinni að miða við það, og menn ættu að stilla sig um það. Heldur ættu menn að skoða, eftir því sem hægt er, endinn í upphafi máls eins og þessa.

Ég sagði hér áðan, að samkeppnin væri þýðingarmikil í vissum greinum, og ég vil endurtaka það. Hún er mjög þýðingarmikil, og á beim grundvelli hef ég t.d. verið fylgjandi bæði stofnun Verzlunarbanka og Samvinnuhanka. Ég hef ætíð litið þannig á, að samkeppni, sem á sér stað í landinu milli samvinnufélaga og annarrar verzlunar, sé ein hin drýgsta kjarabót fyrir þjóðina. Ég er alveg sannfærður um, að hún er ákaflega drjúg kjarabót, einmitt þessi samkeppni, sem þarna á sér stað. Þarna eru það tvö bankakerfi, sem eru til hliðar við bessi viðskintakerfi, sem er líka algerlega heilbrigt og ætti ekki að trufla á nokkurn hátt með óeðlilegum afskiptum löggjafar- eða framkvæmdavalds, eins og gæti óneitanlega orðið, ef þetta frv., sem hér liggur nú fyrir, nær fram að ganga.

Ég sagði áðan, að það væri dálítið einkennilegt, og þó ekki einkennilegt, heldur athyglisvert, að sá flokkur, sem hefur viljað kalla sig samkeppnisflokk, skuli standa að því að setja löggjöf eins og þessa. En þetta er kannske ekki einkennilegt, eins og ég líka tók fram, vegna þess að Sjálfstfl. er enginn samkeppnisflokkur. Og sannleikurinn er sá, að þeir, sem kalla sig samkeppnismenn, eru það í raun og veru ekki. Því miður er það þannig, að þegar einkareksturinn er allsráðandi og hefur ekkert aðhald t.d. af samvinnurekstrinum, þá sækir alltaf í það að verða samkomulag á milli einkarekstrarmanna. Það eru búin til félög, félag vefnaðarvörukaupmanna, félag matvörukaupmanna og félag byggingarvörukaupmanna o.s.frv., o,g það byrja alls konar ráðstafanir til þess að koma sér saman um verðið og viðskiptakjörin. Og þannig myndast eiginlega hringar í verzluninni og viðskiptunum. Samkeppnin verður sáralítil, ef hún Verður þá í rauninni nokkur. Þess vegna er það þannig, að eina samkeppnin, sem nokkuð kveður að í landinu, er samkeppnin á milli einkaverzlana annars vegar og samvinnuverslana hins vegar. Ég álít, að sjálfstæðismenn séu ekki samkeppnismenn í þess orðs réttu merkingu, óbjagaðri merkingu, heldur séu þeir mjög hlynntir öllum samtökum til óeðlilegs framdráttar fyrir verzlunarreksturinn. Ég tel, að þeir eiginlegt samkeppnismenn, sem eiga það heiti skilið með sóma, séu einmitt samvinnumennirnir í landinu, sem hafa efnt til þeirrar heppilegustu samkeppni, sem hér hefur þekkzt og mun bezt duga þjóðinni, þ.e.a.s. samkeppni á milli samvinnunnar annars vegar og einkarekstrarins í verzlun hins vegar.

Þá er eitt í sambandi við þetta mál um að banna að setja upp útibú nema með leyfi ráðh., sem er ákaflega athyglisvert, og það er, að það skuli vera rokið í það núna að setja þetta ákvæði í lög, en samt sem áður hefur stofnun útibúa átt sér stað um æðilanga hríð. Það er æðilangt síðan farið var að tíðka það að stofnsetja bankaútibú. En hvers vegna er þá rokið í þetta núna? Það er búið að stofna hér í Reykjavík t.d. á undanförnum árum fjölda bankaútibúa, þannig, að við Laugaveginn eru t.d. mörg útibú, mjög mörg útibú. Þá hreyfði sig enginn, þá var ekki talin nein ástæða til að setja sérstaka löggjöf til þess að koma í veg fyrir stofnun útibúa, vegna þess að bað væri þjóðhagslega svo mikil eyðsla að hafa útibúin. Það heyrðist ekkert um það þá og því síður, að hér á Alþ. kæmu nokkrar till. eða frv, um slíkt. En síðan fóru útibúin að dreifast út um landið, og þá var nú annað mál. Þá byrjuðu menn að sjá voðann. En sannleikurinn er sá, að einhver allra almennasta krafa úti um landið í mjög mörgum byggðarlögum um endurbætur í fjármálum og viðskiptamálum hefur einmitt verið krafan um að fá útibú frá bönkunum. Og öllum þeim, sem eru kunnugir starfsemi hinna eldri útibúa í landinu, eins og t.d. útibúsins á Selfossi, útibúsins á Eskifirði, útibúanna á Akureyri, og þannig mætti endalaust telja, er það alveg ljóst, að þessi útibú hafa verið hinar allra öflugustu lyftistengur fyrir þessi byggðarlög. Og bað væri óhugsandi, að byggðin í þessum landshlutum og atvinnurekstur þar hefði getað fengið nokkurn þroska án þessara útibúa. En þessi útibú voru bara á allt of fáum stöðum, þau voru allt of óvíða, og mörg merkileg byggðarlög voru án þess að hafa nokkra bankaþjónustu, og það eru einmitt þessi byggðarlög, sem nú upp á síðkastið hafa verið að fá útibú, sum af þeim, en önnur hafa alls ekki fengið nein útibú enn þá, og í þeim byggðarlögum er það einhver hin sterkasta krafa til endurbóta í viðskipta- og fjárhagsmálum að fá bankaútibú. En þegar bankarnir fóru að reyna að keppast um það að verða við þessum óskum fólksins úti um landið, þá kemur hæstv. ríkisstj. og segir: Hér er á ferðinni alveg ósæmilegt bruðl og eyðsla í þjóðarbúskapnum, og nú verður að setja ákvæði um það, að ráðh. geti ráðið því, hvort útibúi megi koma upp eða ekki.

Það er ómögulegt að verjast þeirri hugsun, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé beinlínis miðað við að koma í veg fyrir, að þessi þróun, sem nú hefur orðið um skeið, að fjölga útibúunum úti um land, geti haldið áfram, þetta sé beinlínis sett inn í löggjöfina til að koma í veg fyrir, að þeir staðir úti á landi, sem hafa verið að krefjast þess að fá bankaútibú, geti fengið óskir sínar uppfylltar. Það er bókstaflega óhugsandi annað en að draga þá ályktun, að þannig sé þessu varið. Það er hlálegt að hugsa sér, að það skuli nú vera borin fram þessi röksemd um hina þjóðhagslegu eyðslu, sem af þessu stafi, þegar litið er á t.d., hvernig olíuviðskiptin í landinu hafa þróazt afskiptalaust af hálfu ríkisvaldsins og önnur viðskipti og önnur starfræksla yfirleitt.. Þetta. sem hér á að fara að gera, er í æpandi mótsögn við allt þetta, alla þessa þróun. Um þetta verður áreiðanlega ekki tekið sem góð og gild vara hjá þeim, sem hafa viðskipti með höndum og hafa áhuga fyrir framgangi þeirra byggðarlaga, sem hér eiga hlut að máli, að nú séu sett á þetta höft á þá lund, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Út yfir tekur þó alveg það gífurlega vald, sem ráðh. er ætlað í þessu sambandi. bar sem honum er ætlað að deila hér sól og regni og geta látið sína gæðinga koma upp útibúum, en bannað öðrum að koma upp eðlilegri bankaþjónustu af sinni hendi.

Í raun og veru get ég látið þetta nægja um þann þýðingarmikla þátt, sem bætzt hefur inn í þetta mál í hv. Ed., líka vegna þess, að félagar mínir margir hafa rætt þetta mál nokkuð nú í nótt, og ég hef enga tilhneigingu til þess að vera að halda mönnum hér lengur en nauðsyn ber til, svo að aðalatriði málsins komi skýrt fram og tækifæri gefist til þess, að mótmæla bæði efni málsins og allri meðferð þess.

Ég vil þá minnast á nokkur önnur atriði í sambandi við málið og lýsa hér tveimur brtt., sem ég vildi leyfa mér að koma á framfæri, þ.e. flytja, með leyfi hæstv. forseta.

Önnur brtt, er við 2. gr. frv., að upphaf greinarinnar orðist svo: „Í stað 2. og 3. mgr. o.s.frv.“ Þetta þýðir, að ég vil, að eftirfarandi grein í seðlabankalögunum fái að standa í gildi áfram, og skal ég nú lesa hana, með leyfi hæstv. forseta:

„Valdi flutningur innstæðna vegna framkvæmdar 1. og 2. mgr. í upphafi erfiðleikum fyrir ákveðnar innlánsstofnanir, skal Seðlabankinn leitast við að leysa úr því, m.a. með því að yfirtaka samtímis af viðkomandi stofnun verðbréf eða aðrar eignir, sem hann metur gildar.“

Þetta er fellt niður með frv. eins og það nú er, en ég vil leggja til, að þessi mgr. fái að standa áfram í gildi og hægt verði að greiða á þann hátt fyrir lánsstofnunum, sem gert er ráð fyrir í þessari grein.

Hin brtt., sem ég flyt, er á þá lund, að við greinina, þ.e.a.s. 2. gr., bætist ný mgr., svo hljóðandi: „Heildarupphæð bundna fjárins skal þó ekki fara fram úr 1000 millj. kr.“

Það er kunnara en ég þurfi að segja frá því enn í löngu máli, að við framsóknarmenn höfum verið algerlega mótfallnir þessari bindingu á hluta af sparifjáraukningunni, sem við höfum leyft okkur að kalla frystingu. Við höfum ekki talið, að slíkt mundi leiða til góðs. Við höfum talið, að það ætti að halda þeirri bankaútlánastefnu, sem tíðkaðist áður, en hún var í stuttu máli sú að halda sparifénu í umferð. Hér er um svo lítið fjármagn að ræða í landinu og rekstrarfjárskorturinn er svo gífurlegur, að við höfum ætíð talið, að það veitti ekki af því að hafa sparifé í umferð. Höfum við því verið mótfallnir því að ráðast í þessa bindingu á sparifénu í Seðlabankanum. Enn fremur höfum við viljað hafa aðrar endurkaupareglur afurðalána en nú hafa verið innleiddar, eða réttara sagt, við viljum halda sömu endurkaupareglum og áður voru í gildi. Þessi stefna í lánamálum, sem áður var fylgt, er kunn, og ég þarf ekki að fara langt út í að lýsa henni. Henni vildum við halda, en núv. hæstv. ríkisstj. vildi breyta hér til og minnka mjög endurkaupin á afurðavíxlunum, eins og hún hefur gert, og draga þannig saman. Enn fremur vildi hæstv. ríkisstj. ráðast í að draga verulegan hluta af aukningu sparifjárins inn í Seðlabankann. Þessu hefur ekki fengizt breytt.

Þessi brtt. mín er miðuð við að reyna að fá samþykkta þessa miðlunarleið, að setja þetta hámark á bindinguna, 1000 millj.. en nú mun bindingin vera hátt í 900 millj. Væri þá ekki hægt, ef þetta yrði samþ., að bæta við nema rúmum 100 millj. Ég vil gera tilraun til þess að fá menn til að fallast á þessa miðlunarleið. setja þetta hámark á bindinguna. Er það þó ekki fyrir það, að mér finnist ekki ofgert, ef þetta væri framkvæmt á þessa lund, en þetta yrði þó a.m.k. hámark og hefði sitt mikla gildi, því að þá yrði ekki hægt að ganga lengra en þarna væri ákveðið.

Ég vil svo leyfa mér að fara fáeinum orðum um þessa stefnu, sem nú hefur verið tekin upp, þessa lánasamdráttarstefnu, og það er þá um leið rökstuðningur fyrir þessari till. minni til miðlunar, að setja þessi takmörk.

Hæstv. viðskmrh. hefur í sambandi við umr. um þetta mál verið mjög stórorður um, að það væri lýðskrum að halda því fram, að hægt hefði verið að halda hinni sömu stefnu í lánamálum og tíðkaðist áður, það væri lýðskrum. En samt sem áður átti hæstv. viðskmrh. þátt í því löngum í ríkisstj. að framkvæma þá lánastefnu. Og í þessu sambandi vil ég leyfa mér að minna á það, að við sátum einu sinni saman í mþn., ég og hæstv. ráðh., ásamt þriðja manni. Þá var mikið rætt um, hvaða aðferðir væru vænlegar í þjóðarbúinu til þess að halda jafnvægi í viðskiptunum við útlönd, og raunar fjallaði þessi n. um gjaldeyrismál. Þá var það, að félagi okkar í n., þriðji maðurinn í n., Björn Ólafsson, hélt því mjög fram, að það væri hægt að hafa stjórn á öllum þessum málum aðeins í gegnum lánapólitíkina, með ráðstöfunum í peningapólitíkinni. En við vorum sammála um það, ég og hæstv. núv. viðskmrh., að vara mjög við þessu, og héldum því fram, að það mætti alls ekki treysta neitt nándar nærri einhliða á ráðstafanir í peningapólitíkinni eða lánapólitíkinni, það yrði fleira að koma til greina, og vöruðum mjög við ýmsum hættum, sem af því hlyti að stafa, ef farið væri að reyna að stjórna með peningapólitískum ráðstöfunum einum saman. Og það, sem við gerðum þá, var í raun og veru að vara mjög kröftuglega við þeirri stefnu í lána- og peningamálum, sem núv, hæstv. ríkisstj. hefur verið að framkvæma. Það, sem við héldum þá fram, er í aðalatriðum það, sem ég hef haldið fram og félagar mínir nú undanfarið varðandi þessi efni, en hæstv. ráðh, kallar nú lýðskrum, en sem hann áður aðhylltist.

Skal ég nú gera grein fyrir þessu, með leyfi hæstv. forseta, með því að vitna nokkuð í okkar sameiginlega álit í þessu sambandi. Við segjum m.a., ég og hæstv. núv. viðskmrh.:

„Nú ákvarðast verðlag landsins fyrst og fremst af hlutfallinu milli vörumagnsins í landinu og peningamagnsins og umferðarhraða peninganna og er hér átt við peninga í hinni víðustu merkingu, þ.e.a.s. að tékkum og hvers konar greiðslumiðlum meðtöldum. Það peningamagn, sem er í umferð, kemur fram sem ýmiss konar kaupgeta, og má þannig segja, að kaupgetan hafi bein áhrif á verðlag og kostnaðarlag í landinu.“

Eigi því að lækka verðlagið og framleiðslukostnaðinn, verði að draga úr kaupgetunni, en beinasta leiðin til þess sé að draga úr peningamagninu, sem sé í umferð, en það megi gera á tvennan hátt: Í fyrsta lagi með því að gera lántökur dýrari, m.ö.o. með því að hækka forvexti, og í öðru lagi með því að draga beinlínis mjög úr lánveitingum, og er hér auðvitað ekki einungis átt við samdrátt á lánum til atvinnurekstrar, sem stendur höllum fæti, og því fylgir nokkur áhætta, heldur við það, að dregið sé úr lánveitingum yfirleitt, jafnvel þótt þær séu algerlega öruggar. Enn fremur yrði hið opinbera að draga, svo sem unnt væri, úr útgjöldum sínum, knýja yrði fram almennar launalækkanir o.s.frv. Því skal engan veginn neitað, að nokkuð sé til í þessari kenningu. Óhagstæður greiðslujöfnuður og skuldasöfnun erlendis eru auðvitað ekki upprunaleg fyrirbæri, heldur afleiðingar, og kaupgetan innanlands hefur tvímælalaust veruleg áhrif á greiðslu jöfnuðinn. Hitt er hins vegar annað mál, hvort forvaxtahækkun og samdráttur útlána bankanna mundi geta haft veruleg áhrif á kaupgetuna, nema því aðeins að þessar ráðstafanir væru svo róttækar, að þær hefðu mjög alvarlegar þjóðfélagslegar afleiðingar, sem gerðu það að verkum, að þær yrðu taldar óæskilegar, a.m.k. ef um aðra leið að sama marki væri að ræða.

Hér er talað um þennan möguleika að draga úr peningamagninu, samdrátt á lánum og hækkun á vöxtum sem aðferð eða sem hagstjórnartæki, eins og hæstv. ráðh. er nú farinn að kalla það, og þessari aðferð lýst. Síðan vörum við mjög sterklega við því að nota þessa aðferð, vegna þess að henni fylgi svo margir ágallar, sem við drögum fram með margvíslegum rökum. Enn fremur bendum við á, að ef ætti að nota þessa aðferð svo að segja einhliða, þá yrði að notfæra sér hana svo ósleitilega, að hún mundi vafalaust hafa í för með sér verulegt atvinnuleysi undir venjulegum kringumstæðum. Enn fremur segjum við um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„En allt eru þetta almennar athugasemdir, sem ekki eiga frekar við hér á landi en víðast hvar annars staðar. Hér á landi er hins vegar einnig um sérstakt ástand að ræða í þessu tilliti, sem sérstaklega mælir gegn því, að einungis sé gripið til slíkra ráðstafana til þess að koma á hagstæðum greiðslujöfnuði.“

Og síðan segjum við, með leyfi hæstv. forseta:

„Landið er mjög fátækt af fjármagni miðað við fjármagnsþörfina. Með forvöxtunum einum hefur ekki þótt fært að samræma framboð og eftirspurn lánsfjár, og hefur því orðið að beita skömmtun á lánsfénu. Sá atvinnuvegur landsmanna, sem mesta þörf hefur fyrir fjármagn og lánsfé, er sjávarútvegurinn, en hann er mjög áhættumikill, enda er það jafnan svo um atvinnuvegi, sem eiga afkomu sína undir náttúrunni, og útgerðarkostnaður a.m.k. stærri skipanna er að verulegu leyti fastur, en af því leiðir hins vegar, að vaxtabreytingar hafa minni áhrif á það, að hversu miklu eða litlu leyti sjávarútvegurinn er stundaður, en vera mundi ella. Mjög stórfelldan almennan samdrátt útlána hjá bönkunum er og erfitt að framkvæma gagnvart sjávarútveginum á venjulegum tímum, því að hann er að verulegu leyti rekinn fyrir lánsfé, og mikill samdráttur lánanna hefði í för með sér, að skipin yrðu ekki gerð út og mikið atvinnuleysi mundi skapast, sem sé ef langt væri gengið í samdrættinum. Hinn aðalatvinnuvegur landsmanna, landbúnaðurinn, mætti og að ýmsu leyti illa við vaxtahækkunum og lánasamdrætti.“

Við segjum enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Um hinar óbeinu ráðstafanir til þess að vinna gegn óhagstæðum greiðslujöfnuði og hindra erlenda skuldasöfnun, aðrar en þær, sem gerðar eru til aukningar á útflutningi, er yfirleitt það að segja, að þær hefðu í för með sér svo mörg og mikil þjóðfélagsleg vandamál, ef beita ætti þeim einum til þess að ná settu marki, að þær verða ekki taldar æskilegar, þótt því sé hins vegar engan veginn neitað, að með þeim mætti hafa nokkur áhrif.“

Síðan höldum við áfram í sama dúr, og það er alls staðar það sama, okkar álit er að vara mjög eindregið við því, eins og hér er ástatt á Íslandi, að nota lánasamdrátt og vaxtahækkun sem hagstjórnartæki eða sem ráðstafanir til að halda jafnvæginu í þjóðarbúskapnum. Allt gengur út á þetta í okkar sameiginlega áliti, og við minnumst á, að þegar eitthvað sérstakt ber að höndum, væri skynsamlegra að nota höft, að einhverju takmörkuðu leyti a.m.k., en að grípa til þessara ráðstafana. En nú hefur hæstv. ráðh. léð sig til þess á undanförnum árum að nota þessar aðferðir sem einu tækin í þessu sambandi: Lánasamdráttinn, lánapólitíkina og vaxtapólitíkina, — einu tækin, því að allt fjárfestingareftirlit hefur verið gersamlega afnumið og er fordæmt með öllu, þveröfugt við það, sem gerist hér í nágrannalöndunum. Öll höft var búið að afnema áður, þannig að einu hagstjórnartækin, sem nokkuð kveður að í notkun, eru einmitt þessi, sem ráðh. varaði svo sterklega við, ásamt mér. En nú kallar hæstv. ráðh. þessa stefnu, sem við héldum þá fram, en ég held fram enn, lýðskrum, það séu bara lýðskrumsmenn, sem haldi fram þessari stefnu. Það sé í raun og veru engin önnur stefna til í þessum málum en sú, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, þ.e.a.s. öll önnur stefna leiði til öngþveitis í fjárhagsmálum landsins. Ég held, að hæstv. ráðh. ætti að hafa þetta minna og jafnara. Hann ætti ekki að kastast svona til og frá eins og bolti í leik eftir því, hver ýtir við honum. Hann á ekki að kastast fram og til baka eftir því, hver ýtir við honum, heldur hafa í þessu betur grundaða stefnu en fram kemur í hans málflutningi og raunar í því, sem gert hefur verið undanfarið.

Ég held, að við höfum einmitt verið mjög nærri réttu lagi í þessu, við tveir, þegar við gáfum út þetta álit, og það sé mjög nauðsynlegt fyrir hæstv. ráðh. og hans félaga að gera sér einmitt grein fyrir því, að það verður að hafa hér elns konar blandað kerfi í þessu, eins og við raunar þá lögðum mikla áherzlu á. Það er ekki hægt að hunza hin almennu lögmál peninganna, ef svo mætti segja, það verður að hafa gát á þeim. En hins vegar verðum við að tjalda með því, sem til er í þessum efnum, því að við erum svo fjármagnsfátækir, og verðum svo heldur að nota fjárfestingareftirlit og aðrar slíkar ráðstafanir til að þurfa ekki að draga um of úr lánunum.

Ég veit, að hæstv. ráðh. gæti sagt, að við hefðum talað um í nál. okkar, að ef mjög langt væri gengið í því að draga saman lánin og hækka vextina, þá mundi það leiða til atvinnuleysis, og hann gæti sagt: Þessi stefna hefur ekki leitt til atvinnuleysis undanfarið. — Og það er alveg rétt, hún hefur ekki leitt til atvinnuleysis, en eingöngu vegna þess, að þegar þeir hófu þessa stefnu, var þjóðin svo heppin, að góðæri varð með eindæmum mikið og framleiðslan þannig, að allir höfðu nóg að gera. Síldveiðin jókst gífurlega og þorskveiðin, — og þess vegna komu samdráttarráðstafanir ríkisstj. í raun og veru ekki fram nema að litlu leyti í þjóðarbúskapnum. Það varð svo náttúrlega líka til þess sumpart, að hæstv. ríkisstj. náði ekki neinu jafnvægi í efnahagsmálum, og svo það, að menn óttuðust dýrtíðarstefnu hennar í framkvæmdinni og kom upp fjárfestingarkapphlaup nálega strax, sem hefur staðið látlaust til þessa dags. Allt þetta hefur orðið til þess, að atvinnuleysi hefur ekki komið til greina, en jafnvægispólitík ríkisstj. hefur auðvitað algerlega farið út um þúfur, svo sem kunnugt er.

Ég vildi gera þessa almennu grein fyrir brtt., sem ég flyt, sem sé þeirri, að það verði ekki gengið lengra en að loka inni 1000 millj. Og er það eins konar miðlun.

Ég ætlaði um daginn að svara nokkuð gífuryrðum hæstv. ráðh., þegar hann sakaði mig um lýðskrum í sambandi við þessi mál, og minna þá á þetta sameiginlega álit okkar, en vegna þess að umr. voru þá orðnar æði langar, vildi ég ekki fara út í það nánar þá. En fyrst málið kom hingað aftur og tækifæri gafst til að ræða það enn á ný, vildi ég ekki láta hjá líða að segja þessi fáu orð um málflutning ráðherrans og þd um leið sem stuðning fyrir brtt.

Ég vil svo aðeins í lokin minnast á eitt atriði. Það er í sambandi við þessa stefnu, sem hæstv. ráðh. var mér sammála um hér á árunum, en er nú ekki sammála mér um. Hæstv. núv. forsrh. kemur þar líka dálítið við sögu. Það var hér á árum áður, þegar hann var í stjórnarandstöðu, en hæstv. viðskmrh. var þá í stjórn. Þá var hæstv. viðskmrh. að tæpa á því, að það yrði kannske að fara varlega í útibúnunum, og lét þá skína í svipað og hefur komið fram hjá honum síðar, núna greinilega. En það er athyglisvert, að núv. hæstv. forsrh. tók sig þá til og fordæmdi algerlega þann málflutning hjá hæstv. núv. viðskmrh. Hæstv. núv. forsrh. segir um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:

„En við vitum líka, að út af fyrir sig er verðbólga og erfiðleikar af verðbólgu ekkert sérstakt íslenzkt fyrirbæri. Það má segja, að það sé allsherjarfyrirbæri um allan hinn vestræna heim, þar sem er verið með örar framkvæmdir og þar sem menn, án þess að beita heraflinu og kúguninni, sem kommúnistar gera, telja stolt sitt að forðast atvinnuleysi, sem var tíðkanlegt í þessum löndum fyrir 1939.“

Síðan segir hæstv. forsrh. núverandi:

„Nú eftir á eru hagfræðingarnir búnir að finna út, að sá, sem hafi haft mesta ábyrgð á atvinnuleysinu á árunum 1927–1939, hafi verið aðalbankastjóri Englandsbanka, vegna þess að hann ha.fi haldið of mikið í lánveitingar. En það er sama stefnan og hæstv. menntmrh, segir nú að eigi umfram allt að halda jafnvægi. Bankarnir verða að fara svo varlega í sínum útlánum, að þetta jafnvægi haldist og yfirboð sé ekki gert í vinnuna.“

En síðan segir hæstv. forsrh., og það mundi sennilega vera talið lýðskrum núna, ef við segðum eitthvað svipað:

„Ég hef sagt áður og ég segi það enn, að ég vil miklu heldur, að það sé gert yfirboð í vinnuna og verkamaðurinn þurfi að láta ganga á eftir sér, heldur en verkamaðurinn þurfi að ganga á eftir öðrum um það að fá vinnu, eins og á árunum 1934–1939, og einmitt þrátt fyrir alla galla undanfarinna ára hefur tekizt þetta allt í senn, að halda fullri vinnu, jafnvel þannig, að stundum hefur kannske þurft að ganga helzt til mikið á eftir verkamanninum, a.m.k. að dómi hæstv. menntmrh. En það hefur líka fram á þennan dag, með þeim fjármálaráðstöfunum, sem fyrrv. ríkisstj. hafa gert, tekizt að forða frá því hruni, sem hæstv. forsrh. hefur alltaf sagt frá 1942, að hann hætti að vera forsrh., að væru á næsta leiti. Það hefur tekizt að forða þessu, og ég segi: Ég á enga betri ósk til hæstv. núv. ríkisstj. en að henni takist að forða hruninu og hún fari ekki of mikið eftir þeim kenningum, sem hæstv. menntmrh. hélt hér fram í gær og færðar yfir í mennskra manna mál eru þær, að hann vill fá hæfilegt atvinnuleysi, til þess að kaupgjaldið hækki ekki um of. Ég segi, það er miklu betra að halda fullri vinnu, jafnvel fara dálítið óvarlega í lánveitingum, í fjárveitingum, í Keflavíkurvinnu og hvað við vildum segja, halda fullri vinnu, halda fullum framkvæmdum og gera svo ráðstafanir aðrar á eftir, til þess að ekki keyri sig allt um koll, heldur en halda jafnvæginu með sultarólinni á fólkinu, en það er boðskapur hæstv. menntmrh. og það, sem hann gerði sig að talsmanni hér fyrir í gær.“

Þetta sagði hæstv. núv. forsrh. um núv. viðskmrh. þá, en þetta minnir óglæsilega mikið á það, sem verið hefur að gerast undanfarið, þó að það hafi náttúrlega aldrei tekizt til fulls. vegna þess að góðæri hefur komið barna á móti og gert þessi mál óviðráðanleg frá sjónarmiði hæstv. ríkisstj.

En samt sem áður verður nú að segja, að allmikill árangur í þessa átt hefur komið fram, þegar við athugum ýmislegt, sem upp hefur verið rifjað núna og síðast í kvöld í eldhúsumr. og í gærkvöld, eins og t.d. það, að með öllum þessum aðförum, sem þeir hafa nú gengizt fyrir sameiginlega, hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh., því að nú eru þeir orðnir sammála um þetta allt, skuli vera búið að koma þannig málum, að verkamannakaupið er 77 þús. kr., en vextir af lítilli íbúð, bara vextirnir, eru a.m.k. 50 þús. kr. Og þetta hefur skeð í einhverju því mesta góðæri, sem íslenzka þjóðin hefur lifað.

Einhverjar ekki smávægilegar ráðstafanir hafa verið gerðar á þessu tímabili til þess að draga úr kaupgetu almennings, ef við lítum á þjóðartekjurnar annars vegar og svo þessa útkomu hjá verkamannaheimilinu hins vegar. Og skyldu þessar ráðstafanir, sem hæstv. viðskmrh. hefur verið að gangast fyrir alla tíð og hæstv. forsrh. er svona innilega sammála um núna og þetta frv. fjallar einmitt um, lánasamdrátturinn, ekki eiga allverulegan þátt í þessu, því að ef við athugum útlánin í landinu í heild og berum þau saman við dýrtíðarþróunina, sjáum við, að útlánin hafa verið stórkostlega dregin saman. En það hefur auðvitað komið niður á atvinnuvegunum á þann hátt, sem við hæstv. núv. viðskmrh. vöruðum sterklega við, þegar við vorum saman í mþn. og fjölluðum um þessi mál.

Góðærið undanfarið hefur að vísu bjargað mörgum, vegna þess að menn hafa haft út í mikið að ganga og getað haft mikla vinnu. En það hefur ekki bjargað því, að það er búið að setja þjóðarbúið í þessa sjálfheldu, sem hér hefur verið lýst svo rækilega nú undanfarið, og það er ekki búið að bíta úr nálinni með þetta. Og svo mikið er alveg víst, að þær ráðstafanir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að viðhalda og auka, ganga ekki í þá átt að bæta úr þeim vanda, sem nú er búið að færa yfir þjóðina.

Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta hinar skriflegu brtt. mínar.