13.02.1964
Neðri deild: 55. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

146. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Lög þau, sem nú eru í gildi um þingfararkaup og lífeyrissjóð alþm., eru nr. 84 frá árinu 1953, ásamt breytingu, sem gerð var með I. nr. 110 1954. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan þessi lög voru sett, hafa allar aðstæður breytzt mjög mikið, einkum við það, að nýrri kjördæmaskipun var komið á árið 1959 og kjördæmin stækkuð. Hefur síðan staðið til að endurskoða lögin um þingfararkaup o.fl., þótt ekki hafi af því orðið fyrr en nú, að árangur endurskoðunarinnar liggur fyrir í frv: því, sem hér er til umr.

Þingfararkaupsnefnd lét semja frv. um þetta efni 1962, eins og frá er sagt í grg. með frv. Það frv. var síðan endursamið af samninganefnd ríkisstj. í kjaramálum, en í henni áttu sæti ráðuneytisstjórarnir Sigtryggur Klemenzson og Gunnlaugur Briem og Jón Þorsteinsson alþm. Með n. starfaði skrifstofustjóri Alþingis, Friðjón Sigurðsson. Síðan hefur frv. verið til athugunar hjá hæstv. ríkisstj. og þingflokkunum, og endanlega var frá því gengið í því formi, sem það liggur hér fyrir, af þingfararkaupsnefnd og fulltrúa Alþb., hv. 4. þm. Norðurl. e., Birni Jónssyni, ásamt skrifstofustjóra Alþingis. Þingfararkaupsnefnd hefur svo óskað þess, að frv. yrði flutt í hv. d. af fulltrúum allra flokka, og samkv. þeirri ósk er það fram borið af mér og forseta Nd., hv. 2. þm. Vestf., Sigurði Bjarnasyni, ásamt formönnum þingflokka Framsfl. og Alþb., hv. 1. þm. Austf., Eysteini Jónssyni, og hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni.

Með frv. þessu, ef að lögum verður, er gerð sú höfuðbreyting á launakjörum alþm., að þeir fá greidd árslaun í stað dagkaups. Dagkaupið hefur einungis verið greitt yfir þingtímann og nam s.l. ár að meðtöldu orlofsfé 81464 kr. Samkv. 1. gr. frv. er lagt til, að árskaupið verði 132 þús. kr., og þýðir það þá 50536 kr. hækkun á árskaupi hvers þm., miðað við s.l. ár. Mér er það kunnugt, að sumir þeirra aðila, sem um frv. þetta hafa fjallað, hafa talið, að hækkunin þyrfti að vera meiri en hér er lagt til með tilliti til stækkunar kjördæmanna og þess aukna tíma til ferðalaga og fyrirhafnar almennt í sambandi við þingmennskuna, sem þm. hafa orðið að bæta á sig af þeirri ástæðu. Fullt samkomulag hefur þó orðið um frv. í heild og kaupupphæðina samkv. 1. gr. jafnframt gerir frv. ráð fyrir, að þingið taki þátt í auknum ferðakostnaði vegna ferðalaga um kjördæmin, svo sem gert hefur verið s.l. 2 ár, sbr. 4. og 5. gr. frv. og skýringar við þær, en til skamms tíma var það svo, að alþm. fengu aðeins greiddan ferðakostnað til Alþingis og heim aftur frá þingi.

Samkv. 2. gr. gildandi þingfararkaupslaga skyldi reisa þingmannabústað, svo fljótt sem við yrði komið. Þetta lagaákvæði hefur aldrei komið til framkvæmda, og vegna breyttra viðhorfa er það fellt niður í frv., sbr. 2. gr. og grg. með henni. Ég veit ekki, hvaða afstöðu aðrir hv, alþm. hafa nú varðandi byggingu þingmannabústaðar. Ég minnist þess ekki, að málið hafi borið á góma á Alþingi. Málið mun oft hafa verið rætt áður, en áhugi fyrir því virðist hafa farið þverrandi, og e.t.v. má segja, að það sé að mestu leyti úr sögunni í því formi, að byggður verði sameiginlegur þingmannabústaður, eins og eitt sinn mun hafa verið hugmyndin. Það er nú svo komið, að mjög margir þm. hafa eignazt eigin íbúðir í námunda við þingstaðinn og eru jafnvel búsettir þar allt árið. Vegna þeirra þm., sem eftirleiðis þurfa að leysa bústaðavandamálið, virðist mér þá, að sú leið hljóti að koma mjög til athugunar, að lífeyrissjóður alþm. verði efldur svo, að hann geti veitt einhverjar fyrirgreiðslur með lán til íbúðakaupa. Þetta þykir e.t.v. fjarstæðukennd hugmynd vegna þess, hversu sjóðurinn er nú lítils megnugur, en ég vil benda á, að bæði vegna fjölgunar þm. 1959 og vegna hækkaðs kaups á sjóðurinn fyrir sér að vaxa. Vil ég í þessu sambandi leyfa mér að upplýsa, að hæstv. fjmrh. hefur samkv. tilmælum sjóðsstjórnarinnar fallizt á að láta tryggingafræðing undirbúa breytingar á gildandi reglum um sjóðinn. Munu undirbúningsathuganir tryggingafræðingsins væntanlega leiða í ljós, hvort sú hugmynd, sem ég hef drepið hér á, sé framkvæmanleg eða ekki. Verður lífeyrissjóðsmálið lagt fyrir hv. Alþingi, þegar lokið er þeirri endurskoðun gildandi lagaákvæða um það efni, sem nú er á byrjunarstigi, en þangað til fer um gjald til sjóðsins og lífeyri alþm. og maka þeirra eftir l. frá 1953 og 1954, sbr. 9. gr. frv.

Ég vil svo að lokum láta í ljós þá skoðun, að eins og nú er háttað störfum og skyldum alþm., verði ekki lengur hjá því komizt að gera þá höfuðbreytingu á kjörum þeirra, sem í frv. þessu felst, þ.e. að greitt verði árskaup í stað dagkaups yfir þingtímann. Þingsetan sjálf tekur orðið 6–7 mánuði á ári hverju, en þar að auki þurfa margir þm. a.m.k. 1–2 mánuði til að ferðast um í kjördæmum sínum, og raunar er það svo, að þm. hafa að staðaldri margvísleg störf með höndum fyrir kjördæmi sín og kjósendur, sem gera þeim í mörgum tilfellum erfitt um vik með að sinna öðrum störfum. Það er því eðlileg og sanngjörn ósk þm., að þannig sé að þeim búið, að þeir geti sem bezt leyst af hendi þingmannsstörfin. Með frv. þessu er að verulegu leyti komið til móts við þær óskir, þó að alltaf megi um það deila, hvort menn séu nægilega rétt haldnir hvað snertir kaup og kjör. Það á jafnt við um þm. sem aðra.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.