19.12.1963
Neðri deild: 36. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

97. mál, ríkisreikningurinn 1962

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Nál. frá okkur í minni hl. fjhn. hefur enn ekki verið útbýtt, en hæstv. forseti gat þess áður, að það mundi verða mjög fljótlega, sem það kæmi fram, enda var því skilað árdegis í gær.

Það, sem hér liggur fyrir, er frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1962. Það er galli á þessum ríkisreikningi, að hann er ekki réttur. Árið 1962 var unnið að vegargerð í svonefndum Keflavíkurvegi, og eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, hefur verið varið til þeirrar framkvæmdar á því ári kr. 29 549 984.89. En þetta er ekki fært með öðrum vegagerðarkostnaði ríkisins á ríkisreikning, eins og átt hefði að gera, og ríkisútgjöldin eru því vantalin um þessa fjárhæð. Samkv. upplýsingum, sem fjhn. bárust, voru skuldir ríkisins vegna Keflavíkurvegarins í árslok 1962 þessar: PL-480 lán 25.7 millj. og skuld við Seðlabanka Íslands 4 millj. Þetta eru alls 29.7 millj., u. þ. b., en þær skuldir eru ekki færðar á efnahagsreikning ríkisins 31. des. 1962, og eru því ríkisskuldirnar vantaldar á reikningnum um þá fjárhæð. Yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins hafa gert aths. um þetta, sem ég hef nú frá skýrt. Þeir benda réttilega á, að kostnaður við framkvæmd vegagerðarinnar hefði átt að berast á ríkisreikninginn og einnig þær skuldir, sem stofnað hefur verið til í því sambandi.

Það var á árinu 1961, sem framkvæmdir hófust við Keflavíkurveginn nýja, og það ár nam kostnaður við vegagerðina rúmlega 7.8 millj. kr. og þá voru einnig tekin lán til greiðslu á kostnaðinum. En þau útgjöld voru ekki heldur færð á ríkisreikninginn 1961, frekar en gjöldin 1962, og skuldirnar ekki heldur í umr. um ríkisreikninginn fyrir árið 1961, er fram fóru hér í Nd. Alþingis 17. des. í fyrra, lét hæstv. fjmrh. svo ummælt, að þessar greiðslur yrðu færðar á ríkisreikninginn 1962, en við þá yfirlýsingu hefur ekki verið staðið. Þetta hlýtur að teljast aðfinnsluvert, að allstórum upphæðum af gjöldum og skuldum ríkisins sé þannig haldið utan við ríkisreikninginn.

Fjhn. óskaði upplýsinga um, hvað liði starfi endurskoðunarskrifstofu ríkisins að endurskoðun reikningsins fyrir árið 1962. N. fékk grg. frá ríkisendurskoðuninni um þetta efni. Sú grg. er dags. 15. okt. s.l. og hafði verið send yfirskoðunarmönnum ríkisreikningsins. Nýrri upplýsingar fengum við ekki um, hvað þessu starfi liði. En með nál. okkar í minni hl. er birtur útdráttur úr þessari grg., sem sýnir, hvað eftir var að endurskoða, þegar grg. var gefin út 15. okt. í haust. Það kom fram í þessari grg., að þá hafði verið lokið að fullu við að endurskoða reikninga 77 stofnana og annarra aðila, en eftir var að ganga frá reikningum rúmlega 100 aðila, en endurskoðun þeirra mjög misjafnlega langt á veg komin. Nú má að sjálfsögðu gera ráð fyrir því, að endurskoðuninni hafi miðað áfram á þeim tveim mánuðum, sem liðnir eru, síðan þessi grg. var gefin út, en þó tel ég alveg víst, að töluvert sé enn óunnið að endurskoðuninni.

Samþykkt Alþingis á ríkisreikningi má skoða sem kvittun til rn. fyrir reikningsskil. Minni hl. fjhn. telur ekki rétt að láta þá kvittun, fyrr en endurskoðun ríkisreiknings og þeirra reikninga, sem hann byggist á, er að fullu lokið. Við lítum svo á, að meðan endurskoðuninni sé ekki lokið, sé ekki rétt af Alþingi að samþykkja reikninginn. Til samanburðar má geta þess, að reikningar sveitarfélaga eru ekki samþykktir, fyrr en þeir hafa verið endurskoðaðir, ekki heldur reikningar t.d. atvinnurekstrar- og viðskiptafyrirtækja, sem rekin eru af félögum, svo sem hlutafélögum og samvinnufélögum, og mörg fleiri dæmi mætti nefna. Hér á landi er mikill fjöldi félaga auk þeirra, sem ég nefndi hér áðan. Hver sá, sem tæki sér fyrir hendur að kasta tölu á íslenzk félög, mundi fá út mjög háa tölu. Flest þessi félög hafa einhverja fjármunameðferð, og það mun algild regla hjá þeim, að ársreikningar þeirra eru ekki samþykktir, fyrr en þeir hafa verið endurskoðaðir af þar til kjörnum mönnum. Þetta gildir jafnt um hin stærstu og voldugustu félög sem hin minnstu þeirra og lítilmótlegustu. Hví skyldi þá ekki þessi góða regla einnig gilda um hið stóra félag allra félaga, ríkið sjálft.“ Auðvitað ætti hún að gilda þar eins og annars staðar.

Ég hef áður við umr. um ríkisreikninga haldið því fram, að Alþingi ætti ekki að samþykkja reikningana, fyrr en endurskoðun þeirra væri að fullu lokið. Í samræmi við þá skoðun, leggjum við tveir fjhn.-menn, ég og hv. 11. þm. Reykv., til, að afgreiðslu frv, verði frestað þar til síðar. Á framhaldsþingi, sem væntanlega verður síðar í vetur, mætti taka málið til athugunar á ný og fá þá nýjar upplýsingar frá endurskoðunardeild fjmrn. um það, hvað starfi hennar líður að endurskoðun reikninganna fyrir árið 1962.

Ég sé ekki ástæðu til að gera þennan ríkisreikning frekar að umræðuefni, a.m.k. ekki að svo stöddu, þó að margt í honum sé athygli vert. Ég vil ekki eyða tíma þingsins í slíkt nú. En það er till. okkar í minni hl. n., hæstv, forseti, að meðferð þessa frv. verði frestað þar til síðar á Alþingi og þá verði athugað, hvort endurskoðuninni sé lokið, þannig að tímabært gæti þá talizt að samþykkja reikninginn.