19.12.1963
Neðri deild: 36. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

97. mál, ríkisreikningurinn 1962

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil þakka meiri hl. hv. fjhn. fyrir skjóta afgreiðslu á málinu.

Hv. frsm. minni hl., sem nú lauk máli sínu, hafði tvær aths. að gera. Önnur er sú, að ríkisreikningurinn sé ekki réttur, það séu vantaldar skuldir og gjöld varðandi Reykjanesbraut eða Keflavíkurveginn. Hér er um að ræða bókhaldsatriði, sem yfirskoðunarmenn gerðu aths. við, og sú aths. er náttúrlega í allt öðrum anda og dúr heldur en ræða þessa hv. þm., sem gefur í skyn, að hér sé verið að fela eitthvað til þess að gera útgjaldaupphæð og skuldaupphæð lægri en raun er á, eins og mátti álykta af málflutningi hans. Út af þessu máli er rétt að rifja það upp, hvað yfirskoðunarmenn segja um þetta mál.

Í 21. aths. yfirskoðunarmanna segir svo: „Yfirskoðunarmenn veittu því athygli, að engar greiðslur eða lán eru færð á reikning ríkisins vegna þeirra framkvæmda, sem byrjað var á árinu 1961 og haldið áfram á árinu 1962 á Reykjanesbraut. Upplýst hefur verið, að lán hafa verið tekin til þessara framkvæmda. Eins og venja er til, hefði átt að færa þetta á eignaskýrslu ríkisins, bæði eigna- og skuldamegin, og kostnaður við framkvæmd verksins að færast á reikning ríkisins og vegamálanna á 13. gr. Af hverju hefur þetta ekki verið gert?“ spyrja yfirskoðunarmenn. Samgmrn. svarar þessu, — eins og birt er á bls. 275, og gerir þar grein fyrir því, hvernig þessum færslum sé háttað, að þær greiðslur, sem hér hafa verið inntar af hendi vegna Reykjanesbrautar, og enn fremur þau lán, sem tekin hafa verið, eru færð í reikning vegagerðarinnar, en hins vegar ekki tekin inn á heildarreikning ríkisins. Sem sagt, í hinum prentaða ríkisreikningi koma allar þessar greiðslur og lántökur fram, svo að því fer fjarri, sem hér er verið að gefa í skyn, að einhverju sé verið að leyna. En um þetta segir samgmrn., — og ég vil taka það fram, að að sjálfsögðu er það fyrst og fremst samgmrn. og vegagerð ríkisins, sem ráðið hafa þessari bókfærslu, — þar segir í svari samgmrn.:

„Samkv. framansögðu innifelur efnahagsreikningur vegamálanna bæði kostnaðarverð Reykjanesbrautar og skuldir vegna hennar hin umræddu ár, jafnframt því sem mismunur á þessu tvennu, raunveruleg skuld 1961, er nemur kr. 1878 077.32, og raunveruleg eign síðara árið, að upphæð kr. 2 286 834.02, koma fram í tilgreindum höfuðstól stofnunarinnar á eignaskýrslum.“

Með þessu hefur náttúrlega málið verið fyllilega upplýst, enda segja yfirskoðunarmenn í sínu svari aftur eða till.: „Gefin er skýring á færslu fjármunanna við vegagerðina og lántökum til hennar.“ Varðandi hins vegar, hvort réttari sé sú bókhaldsaðferð, sem vegagerðin hefur notað í þessu efni eða yfirskoðunarmenn óska eftir, þá verður að sjálfsögðu farið eftir till. yfirskoðunarmanna um það atriði. Þeir segja í sínum till.: „Framvegis er rétt að færa þetta á þann hátt, er segir í aths.“ Að sjálfsögðu hafa því vegagerðinni og ríkisbókhaldinu verið gefin fyrirmæli um að færa þessi útgjöld og lán með þeim hætti, sem yfirskoðunarmenn telja æskilegra. Um þetta þarf auðvitað ekki að fara fleiri orðum. Hér er um hreint bókhaldsatriði að ræða.

Önnur aths. hv. frsm. minni hl. var sú, að hinni umboðslegu endurskoðun ríkisreiknings væri ekki lokið. Nú er rétt að taka það fram, að endurskoðun ríkisreikninga er með tvennum hætti. Annars vegar eru það hinir þrír kjörnu yfirskoðunarmenn Alþingis, sem fara yfir ríkisreikninginn og gera sínar aths. við hann og till. Hins vegar er hin svokallaða umboðslega eða embættislega endurskoðun, sem er í höndum ríkisendurskoðunarinnar. Þar vinna að því fastir starfsmenn allan ársins hring undir yfirstjórn ríkisendurskoðanda að endurskoða reikninga ríkisins og stofnana þess. Eins og þessari svokölluðu umboðslegu endurskoðun hefur verið háttað, hefur hún alltaf verið mörg ár á eftir lokum reikningsárs að ljúka allri endurskoðun. Ég ætla, að yfirleitt hafi endurskoðun á öllum tekjum og gjöldum, eignum og skuldum fyrir tiltekið reikningsár hjá öllum ríkisstofnunum ekki verið lokið fyrr en mörgum árum eftir lok reikningsárs. Hins vegar hefur nú síðustu árin þokazt mjög í réttari átt í þessu efni, eins og kemur beinlínis fram í aths. yfirskoðunarmannanna nú við reikninginn. Þar segir í 37. aths., með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirskoðunarmenn hafa fengið skýrslu um það, hve langt er komið endurskoðun ríkisendurskoðunarinnar. Er hún nú komin talsvert lengra en verið hefur, þótt talsvert skorti á, að hún hafi afgreitt alla reikninga til ársloka 1962.“

M. ö. o.: það er óhætt að slá því föstu, að þegar yfirskoðunarmenn hafa endurskoðað reikninginn, skilað sínum till. og þegar Alþingi hefur fengið reikninginn til meðferðar og afgreitt hann, þá hefur allri hinni umboðslegu endurskoðun aldrei verið lokið. Hins vegar er í öðru lagi hægt að slá því föstu, að nú á þessu og allra síðustu árum hefur þessu þó miðað miklu betur en áður. Að því er að sjálfsögðu stefnt, að ekki aðeins verði allri endurskoðun lokið, áður en reikningur er afgreiddur á Alþingi, heldur að sem allra mest af hinni umboðslegu endurskoðun geti farið fram samtímis eða jafnóðum, eins og ég hef áður skýrt frá hér á Alþingi. Þá aðferð er búið að taka upp varðandi nokkrar stofnanir ríkisins, þannig að á sjálfu reikningsárinu fer endurskoðunin fram öðru hverju, þannig að henni er í rauninni lokið um eða skömmu eftir lok reikningsársins. Hins vegar hef ég skýrt frá því hér á Alþingi, að þessi aðferð, sem er vafalaust sú æskilega, kostar mjög aukið starfslið og þar með aukið fé. En sem sagt, að því er unnið að koma á endurskoðun jafnóðum, þar sem unnt er að koma því við, og að hraða sem mest í heild hinni umboðslegu endurskoðun.

Hv. frsm. minni hl., hv. 1. þm. Norðurl. v., fann upp á því nú fyrir tveimur árum, þegar verið var að reyna að koma lagi á endanlega afgreiðslu ríkisreikninga, þá fann hann upp á því tiltæki, sem honum hafði ekki dottið áður í hug í rúm 20 ár, sem hann hafði setið á þingi, að endanlegri afgreiðslu ríkisreikninga ætti að fresta, þangað til allri umboðslegu endurskoðuninni væri lokið. Fann hv. þm. upp á þessu vegna þess, að af einhverjum ástæðum gramdist honum það, að verið væri að reyna að koma betra lagi á afgreiðslu þessara mála. Svo hafði nefnilega verið háttað undanfarin ár, við skulum taka sem dæmi áratuginn milli 1950 og 1960, þá voru ríkisreikningar yfirleitt ekki afgreiddir á Alþingi fyrr en mörgum árum eftir lok reikningsárs, 3–4 árum á eftir. Slík meðferð á ríkisreikningum er auðvitað óhafandi. Vitanlega á Alþingi að leggja síðustu hönd á og afgreiða endanlegan ríkisreikning á næsta ári eftir reikningsárið. Þegar reynt var að kippa þessu í lag og það tókst í fyrsta sinn á síðasta ári, varðandi ríkisreikninginn fyrir 1961, að hann var afgreiddur endanlega frá Alþingi á árinu 1962, — þegar tilraunir voru hafnar til þess að kippa þessu ófremdarástandi í lag, kom upp undarleg tregða og mótstaða hjá þessum hv. þm. og formanni hans flokks, sem verið hafði fjmrh. lengst af þennan áratug, sem ég nefndi, og þeir hafa á hverju einasta þingi lagt sig fram um að reyna að tefja þessa umbót og þá eðlilega afgreiðslu ríkisreikninga. Og eitt af því, sem þeir hafa fundið upp á og þessi hv. þm. hefur nú verið að tönnlast á í 2–3 ár, er þetta, að Alþingi ætti að fresta afgreiðslu ríkisreikninga, þangað til allri hinni umboðslegu endurskoðun væri lokið.

Ég tók það fram og veit, að það er rétt, að Alþingi hefur aldrei afgreitt ríkisreikning þannig, að allri umboðslegri endurskoðun hafi verið lokið. Þessi hv. þm. var fyrst kosinn á Alþingi 1937, ef ég man rétt, og hafði því setið hér á þriðja áratug, samþ. ríkisreikninga á hverju einasta ári án þess að hreyfa aths. við þetta. Svona uppfundnar röksemdir, ef slíkt má kalla það, eða öllu heldur átyllur er auðvitað ekki hægt að taka alvarlega.