11.02.1964
Efri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

88. mál, eyðing refa og minka

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að gera hér nokkra grein fyrir frv, þessu, er snertir kostnað ríkissjóðs af eyðingu refa og minka. Til viðbótar þeim kunnugleika, sem ég þykist hafa á þessum málum gegnum sveitarstjórnarstörf, hef ég leitað til veiðistjóra um upplýsingar um tölur, að því er snertir útgjöld vegna laga um eyðingu refa og minka nú hin síðustu ár. Samkv. skýrslu frá honum hafa verið felldir 2408 refir 1961, þar af hlauparefir, sem svo eru nefndir, 517. Kostnaður á hvert hlaupadýr samkv. l. er 350 kr., en kostnaður á hvert grendýr, að viðbættum þeim dýrum, sem eytt hefur verið af eitri, er liðlega 1000 kr. til jafnaðar. 81 dýr er talið hafa farizt af eitri þetta ár, samkv. skýrslum, sem veiðistjóra hafa borizt. Tel ég efalaust, að kostnaður við eitrun hafi aldrei verið minni á hvert þetta dýr, en jafnaðarmeðalkostnaðurinn á grendýr varð um 1000 kr. á dýr. Mundi það gera 80 þús. kr. 1.962 voru felldir alls 2065 refir, þar af eru hlaupadýr 375 eða 142 færri en árið áður. Kostnaðurinn varð enn sem fyrr um 1000 kr. á grendýr eða liðlega það, en þá fundust 45 refir, sem höfðu farizt af eitri, og eru þeir þar með taldir. Kostnaður á hlaupadýr var þá líka 350 kr. samkv. þeim lögum, sem gilt hafa um verðlaun fyrir að vinna þau dýr. Þó nú að verðlaun hækki upp í 700 kr., eins og hér er gert ráð fyrir, verður kostnaður miklu minni samt á hvert dýr heldur en á hin dýrin, eða 300–400 kr. a.m.k. Er því sýnilegt, að það er ódýrast að vinna dýrin með þessum hætti, ef á annað borð er hægt að fá menn til þess. En það er nú orðið svo til ógerlegt fyrir þá greiðslu, sem greidd er fyrir þetta, sem eru 5–6 ára gömul ákvæði og allir hlutir hafa hækkað síðan, eins og menn vita. Gera má ráð fyrir, að aukin verðlaun örvi hlaupadýraveiðar, svo að ekki dragi úr þeim, ef þau eru hækkuð. Með sömu verðlaunaveitingum leggjast þær veiðar áreiðanlega svo til niður. En segjum, að skotin verði 400 dýr, ef verðlaunin verða hækkuð. Þá nemur hækkunin 140 þús. kr. Þar frá tel ég, að megi draga a.m.k. 50 þús. kr. vegna sparnaðar við eitur, ef það ákvæði frv, verður samþykkt. Aðrar hækkanir, sem kunna að verða á kostnaði við eyðingu refa á næstunni, stafa þá ekki af ákvæðum þessa frv., ef samþ. verða, heldur af auknum vinnulaunum og aukinni dýrtíð.

Þá kem ég aftur að því er snertir minkana. Alls var 1961 felldur 2881 minkur. Kostnaður varð um 768200 kr. Felldir minkar 1962 alls 26.58, kostnaður 764200 kr. Sannast að segja eru þetta ótrúlega lágar kostnaðartölur í sambandi við eyðingu minkanna, og stafar það af því, að gilt hafa gömul ákvæði síðan 1957 um að greiða aðeins 200 kr. í verðlaun fyrir að eyða minkum, en nú er sýnt, að enginn maður fæst til þess að vinna minkana upp á þessi kjör, heldur verður að semja við þá um einhverja dagpeninga og tímakaup og ferðakostnað.

Ef till. þær, sem fluttar hafa verið, verða samþykktar, mundi kostnaður við minkaveiðar hækka um 300–400 þús. kr., miðað við það, að jöfn tala dýra ynnist eins og meðaltalið 1961 og 1962. En þessi verðlaun eru nú svo lág, eins og ég sagði áðan, að það er, held ég, útilokað, að nokkur maður fáist til að sinna þessari starfsemi upp á þau ein, eins og aðalreglan hefur verið hingað til. En ég tel af allmiklum kunnugleika á þessum málum, að hafi megi með engu móti minnka sú ástundun, sem hafa verður á að veiða minkinn, vegna þess að allt fuglalíf hér á landi er í stórhættu, ef þessu dýri fjölgar úr því sem er. Nú mun minkurinn vera kominn svo til um allt land.

Brtt. við 8. og 9. gr. laganna eru gerðar mjög í samráði við veiðistjóra, sem er þessum málum allra manna kunnugastur. Og það skal tekið fram, að hækkun sú, sem talað er um vegna verðlaunanna, sem ég ræddi hér um áðan, og allur annar kostnaður verður greiddur að 1/3 af sveitarsjóðum og sýslusjóðum samkv. l., og virðist mér veiðistjóri reikna í sínum útreikningum alls staðar með öllum kostnaði af þessari starfsemi. kostnaðarhluti ríkissjóðs samkv. þessu ætti þá að hækka um eitthvað liðlega 300 þús., miðað við það, að viðlíka mörg dýr vinnist og hafa unnizt tvö síðustu ár að meðaltali. Hámarksákvæði, sem nefnd eru í sambandi við 8. gr., eru aðeins gerð til þess að. stemma stigu fyrir því, að kröfur verði gerðar um að verðlaun fyrir grendýr hækki til samræmis við verðlaunin fyrir hlaupadýr. Og þær tölur, sem þar eru nefndar, eru aðeins hinar sömu tölur og yfirleitt hafa gilt fyrir að vinna þessi dýr í grenjum, svo að þar held ég að sé engin breyting á, að því er snertir útgjöld ríkissjóðs.

Um 11. gr. l. skal ég vera fáorður og þá till. frv. að fresta framkvæmd hennar um 5 ár. Ég gerði nokkra grein fyrir nauðsyn þess við 1. umr., einnig í grg. og nál. Vil ég vísa til þess og taka fram sérstaklega, að í áliti dr. Finns Guðmundssonar kemur fram eindreginn stuðningur við að leggja niður eitrun fyrir refi. Álit veiðistjóra og stjórnar Búnaðarfélags Íslands er einnig jákvætt að því leyti, að þeir menn telja skynsamlegt að gera þar hlé á um 3 ár, en frv. gerir ráð fyrir 5 ára hléi. Það er aðeins það, sem á milli ber, hvort þessi reynslutími eigi að vera 3 ár eða 5. Ég tel, að hann megi ekki vera minni en 5 ár, til þess að séð verði, hvort aðaltilgangi þessarar breytingar á 11. gr. l. verði náð, þ.e.a.s. að koma í veg fyrir, að eitrunin eyði arnarstofninum. Og ég vænti þess, ef þetta 5 ára tímabil verður ákveðið, að aukinn skilningur vaxi á þeim tíma fyrir því, að stryknin-eitrun, sem nú hefur verið framkvæmd meira og minna síðan um það bil 1890, verður að afnema sem allra fyrst.