11.02.1964
Efri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

88. mál, eyðing refa og minka

Frsm. minni hl (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Að miklu leyti er landbn. sammála um það frv., sem hér liggur fyrir. Þau verðlaun, sem veita skal samkv. lögum, og þær breytingar, sem gerðar eru í þeim till., sem hér liggja fyrir, er enginn ágreiningur um. Við teljum, að það sé nauðsynlegt, ekki sízt vegna þeirra miklu breytinga, sem orðið hafa í kaupgjaldsmálum allt frá 1957, að skotverðlaun séu hækkuð allverulega frá því, sem þá var ákveðið í lögum, og einnig, að það séu tekin upp verðlaun fyrir grendýr, en það hefur ekki verið til þessa. Og það er enginn vafi á því, að þegar þessi háttur verður á hafður, verður mun auðveldara en verið hefur að fá menn til að vinna greni og einnig að vinna hlaupadýr en verið hefur að undanförnu, vegna þess að sum sveitarfélög hafa átt í miklum erfiðleikum með að fá hæfa menn til þessara starfa. En þegar hægt er að benda á, að þessir menn beri meira úr býtum en verið hefur í þessu skyni. efast ég ekki um, að það geri sitt til þess, að hæfir menn fáist til þess að annast grenjavinnslu á vorin.

Hv. frsm. meiri hl. n., hv. 8. landsk., gerði hér nokkra grein fyrir þeim kostnaði, sem ríkið þarf að leggja fram árlega til þess að vinna greni og minka. Að sjálfsögðu er hægt út frá þeim skýrslum, sem fyrir liggja, að reikna út kostnað ríkisins við þessa hluti. En annað mál er svo hitt, hvernig til tekst með að gera sér ljóst, hverjum skaða bændur verða árlega fyrir í þessum efnum. Ég held, að það verði mjög erfitt að reikna út þann skaða, sem þeir kunna að verða árlega fyrir, og hef ég aldrei séð neinar tölur um það, þótt einstaka bændur hafi stundum gizkað á, hve mörg lömb hafi farið á vorin í refinn af þeim lömbum, sem fæðzt hafa. Og þótt kostnaður ríkisins kunni að verða nokkur af þessum sökum, hygg ég þó, að oft hafi verið allmiklu meiri sá kostnaður eða sá skaði, sem einstakir bændur hafa orðið fyrir í þessum efnum.

Spurningin er því sú, hvaða meðul eru tiltæk, til þess að við getum verið bezt á verði gegn því, að bændur bíði stórtjón árlega af völdum refa og minka. Og hv. 8. landsk. hefur lýst því greinilega, að það muni verða til mikilla bóta hækkun á þeim verðlaunum, sem veitt verða samkv. þeim till., sem hér liggja fyrir, og gerði hann það réttilega og erum við honum algerlega sammála í því. En mér er það minnisstætt, að frá því að þau lög, sem nú gilda í þessum efnum, voru lögfest vorið 1957, voru miklar umr. í hv. Alþingi um viss atriði laganna, vegna þess að með þeirri löggjöf var horfið yfir til margs konar nýjunga frá því, sem lög höfðu fyrir mælt áður. M.a. var þá stofnað nýtt embætti til þess að sjá um þessa hluti, þ.e. veiðistjóri, og ég hygg, að þar hafi verið valið vel og hann hafi staðið vel í sinni stöðu. Eitt atriði var það þó, sem mest var um deilt, því að mþn. sú, sem skipuð var samkv. þál. frá 1956, lagði til, að það skyldi skylt að eitra árlega fyrir refi og minka alls staðar á landinu. Þegar frv. var lagt fyrir Alþingi, hljóðaði 11. gr. þess svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skylt er að eitra fyrir refi og minka ár hvert í afréttum og heimalöndum, þar sem þessara vargdýra hefur orðið vart. Skal við eitrun fylgja leiðbeiningum og fyrirmælum veiðistjóra. Stýfa skal hægri væng fugla, sem eitraðir eru. Oddvitar eða bæjarstjórar sjá um eitrun hver á sinu svæði. Héraðslæknar og lyfjaverzlanir láta oddvitum í té eitur samkv: fyrirmælum landbúnaðar- og heilbrmrn.“

Ég vil vekja athygli á því og sé sérstaklega ástæðu til þess að gera það hér við þessa umr., að það varð gerbreyting á þessari 11. gr. við meðferð málsins í Alþingi 1957. En það skal fram tekið, að einn þeirra nm., sem áttu þátt í að semja upphaflega frv., vildi hafa þetta ákvæði heimildarákvæði, en það var yfirdýralæknir, Páll A. Pálsson, en hinir, sem voru í mþn. og sömdu frv., voru Andrés Eyjólfsson bóndi í Síðumúla og Páll Zóphóníasson, þáv. alþm. Þetta frv. var lagt hér fyrir hv. Ed. og hlaut þar fáar breytingar, en í Nd. urðu þó nokkrar breytingar á frv., og m.a. breyttist þá 11. gr. frv, í það horf, sem hún er nú í lögum, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana:

„Skylt er oddvitum og bæjarstjórum að sjá um eitrun fyrir refi og minka samkv. fyrirmælum stjórnar Búnaðarfélags Íslands og á þeim svæðum, er veiðistjóri — telur líklegust til árangurs hverju sinni. Skal veiðistjóri hafa eftirlit með því, að eitrun sé framkvæmd eins og til er ætlazt. Skal við eitrun fylgja leiðbeiningum og fyrirmælum veiðistjóra. Héraðslæknar og lyfjaverzlanir láta oddvitum í té eitur samkv. fyrirmælum landbúnaðar- og heilbrmrn.“

Mér finnst, að þessi grein laganna sé það rúm, að það sé hægt að koma á móts við óskir fjölda manna, bæði þeirra, sem enga eitrun vilja hafa, og einnig hinna, sem telja útilokað annað en eitra fyrir refi og minka á vissum svæðum á landinu. Og samkv. núgildandi reglugerð eru, eins og fram hefur komið í þessum umr. og fram er tekið í grg. hv. flm., nokkrar sýslur, þar sem eitrun hefur algerlega verið bönnuð. Og það hefur ekki komið fram í þessum umr., að lagðar hafi verið fram neinar óskir til stjórnar Búnaðarfélags Íslands eða veiðistjóra um það að undanþiggja fleiri eða stærri svæði á landinu frá eitrun en nú er gert. Og mér er nær að halda út frá þeim ummælum, sem Búnaðarfélag Íslands og veiðistjóri hafa látið frá sér fara, þegar þeir voru aðspurðir um þetta frv., að það hefði verið auðsótt að fá reglugerðinni breytt í það horf, að það væri ekki eitrun viðhöfð nema á sárafáum stöðum í landinu, en slíkt er, að ég held, algerlega til samræmis við gildandi lög.

Ástæðan fyrir því, að við erum í minni hl. landbn., er einungis þetta ákvæði laganna, að við teljum, að hér sé um það þýðingarmikið atriði að ræða við útrýmingu þessara vargdýra, að það sé vart hægt að hugsa sér að útrýma þeim eins og þarf, án þess að eitrun sé viðhöfð. Þess vegna höfum við ekki getað fallizt á að fresta eitrun um næstu 5 ár, heldur viljum við benda á það, að farin sé sú leiðin að fá reglugerðinni breytt í það horf, að það sé hægt við að una fyrir alla aðila; að það séu undanþegin stærri svæði en nú er, jafnframt því sem eitrun er viðhöfð á þeim svæðum á landinu, þar sem kunnugir telja að útilokað mál sé annað en eitrun sé viðhöfð, til þess að hægt sé að útrýma refum og minkum.

Ég efast ekki um, að það sé rétt, sem hv. 8. landsk. þm. sagði, að það væri ekki vitað um á árunum 1961 og 1962 nema eitthvað á milli 120 og 130 dýr, sem hefðu drepizt af völdum eitrunar. Ég efast ekkert um, að það sé rétt. En hitt er svo annað mál, að það er útilokað mál fyrir hvern og einn að fylgjast með því eða finna þau dýr, sem farast af völdum eitrunar árlega, því að það er margsannað mál, að refir geta komizt þó nokkurn spöl, frá því að þeir éta eitrið og þar til það drepur þá algerlega. Og því er það, að þessi aðferð til að útrýma þessum vörgum kann að hafa miklu viðtækari og meiri áhrif í þessari útrýmingarstarfsemi en menn ætla og gera sér ljóst. Og það kemur greinilega fram í þeim umsögnum, sem birtar voru í frv., sem lagt var fyrir Alþingi 1957, að það eru vissir hreppar á landinu og jafnvel sýslur, sem telja útilokað annað en viðhafa eitrun. Og af þeim ástæðum, þar sem ég ætla, að þetta hafi ekki breytzt neitt, frá því að lögin voru sett, á þann veg, að það sé ástæða til, að eitrun sé ekki viðhöfð, sé ég ekki ástæðu til þess, að eitrun sé bönnuð hvar sem er á landinu, heldur vil ég leyfa mér að benda á, að það sé skorað á stjórn Búnaðarfélags Íslands og veiðistjóra að endurskoða núgildandi reglugerð og undanþiggja öll þau svæði, sem tiltækilegt þykir vegna útrýmingar refa og minka, en á öðrum svæðum. þar sem það hefur sýnt sig, að eitrunin hefur borið ríkan árangur og er næstum eina leiðin, sem hægt er að nota til að útrýma þessum dýrum, þar verði áfram eitrað.

Að því er varðar fuglastofninn í landinu, þ.e.a.s. arnarstofninn, sem í raun og veru virðist vera aðalgrundvöllurinn fyrir því, að þetta mál er hér fram komið á Alþingi, þá skal ég ekki móti því bera, að það kann að hafa haft sín áhrif á árum áður að fækka örnum í landinu. En ég held þó, að þar sem arnarfuglinn er yfirleitt bundinn við viss landssvæði nú, þá ætti þetta að vera mun auðveldara nú en áður var. Og svo er þetta, sem er aðalkjarni þessara laga, að vernda sauðfjárstofninn í landinu fyrir ágangi þessara vargdýra, og þar verður að gera upp á milli þess gildis, sem arnarstofninn kann að hafa fyrir landsmenn, annars vegar og sauðfjárstofninn hins vegar. Og þegar þarf að gera það dæmi upp, er ég ekki í neinum vandræðum, vegna þess að ég tel, að sauðfjárstofninn hafi það miklu meira gildi fyrir landsmenn en arnarstofninn, að mér finnst, að þar verði heldur á hann á halla, ef það er nauðsynlegt, sem ég tel að þurfi ekki að vera, þegar búið er að skoða þetta mál niður í kjölinn.

Ég vænti því þess, að hv, þm. íhugi þetta mál og sjái sér fært að láta 11. gr. laganna vera óbreytta áfram, en það verði reglugerðin, sem verði breytt, án þess að til þess þurfi að koma að undanþiggja eitrun um næstu 5 ár og með því móti e.t.v. valda einstaka bændum í landinu stórkostlegum fjárskaða.