11.02.1964
Efri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1839 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

88. mál, eyðing refa og minka

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara í neinar kappræður um þetta mál, því að sannast að segja ber ekki ýkjamikið á milli, þar sem er álit meiri hl. og minni hl. landbn. í þessu máli, og get ég verið mjög ánægður með það.

En viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Vesturl. sagði hér um gildi eitrunar fyrir refi, þá vil ég benda á, að samkv. skýrslum veiðistjóra, — ég gat um það raunar áðan, — hafa ekki fundizt nema 45 refir 1962, sem hafa farizt af eitri. Ég get alveg tekið undir það, að þar muni ekki vera alveg allt fram talið, því að öll eiturdauð dýr hafa að líkindum ekki fundizt. En ég held, að það sé miklu færra af dýrum, sem ferst af þessum sökum, heldur en margir þeir, sem mikla trú hafa á þessari starfsemi, halda. Og ég held, að mér sé einnig óhætt að leyfa mér að benda á grein, sem birtist í Morgunblaðinu núna fyrir 2 dögum frá einum allra þekktasta manni, sem fengizt hefur við refaveiðar um 44–50 ára bil. Hann er algerlega á þeirri skoðun, að eitrun sé ekki jákvæð til þess að halda niðri dýrbítum, heldur þvert á móti. Og reynsla þeirra sveitarfélaga, þar sem ég þekki bezt til, er sú, að þar sem engin eitrun hefur verið framkvæmd um mjög langan tíma, þar fjölgar refum ekkert meira en annars staðar, og það merkilega er, að í þeim byggðarlögum kemur það tæplega fyrir, að refur taki lamb.

Það er að sjálfsögðu eðlilegt, að það séu mismunandi skoðanir á þessu. En ég tel, að ég hafi allmikla reynslu í þessu og nokkra þekkingu, og mín skoðun er sú, að eitrun hafi svo til ekkert gildi fyrir það að halda refastofninum niðri. Þar fyrir utan er svo það, að þessi eyðingaraðferð er afskaplega óhugnanleg. Látum vera, að það verði kannske að viðhafa óhugnanlegar aðferðir til að halda niðri skaðsömum dýrum. En þetta gengur yfir margt annað en aðeins refi. Ég gæti sagt fjöldamargar sögur af því, hvernig önnur dýr hafa farizt af eitri, sem borið hefur verið út fyrir refi, fyrst og fremst hundar, jafnvel kýr og kindur, og þar að auki örninn, eins og allir vita, að er svo til aleyddur úr landinu, að miklu leyti, að því er ég álít, fyrir útburð á eitrinu, og fálkinn er að fara sömu leið. Því var lengi trúað, að fálkar tækju ekki fugla, nema þeir veiddu þá sjálfa. En ég veit mýmörg dæmi til þess, að þeir hafa tekið fugla, sem bornir hafa verið út eitraðir fyrir refi, og ég gæti nærri trúað því, að fleira af rjúpum, sem borið hefur verið þannig út, fari ofan í aðrar skepnur en refinn.

En ég skal ekki þreyta menn á orðræðu um þetta efni. Ég hef áður talað um þetta við 1. umr. þessa máls og einnig nokkuð hér áðan, auk þess í þáltill. um ráðstafanir til að reyna að vernda arnarstofninn, og skal ekki endurtaka það. En ég vænti þess, að hv. þdm. sjái sér fært að samþykkja einmitt þessa grein, þar sem ekki ber meira á milli en þetta. Það er að vísu rétt hjá hv. frsm. minni hl., það mundi vera möguleiki eftir lögunum að fá reglugerðinni breytt. En ég álít, að það sé eðlilegt, að Alþingi segi sjálft til um það, að það vilji breyta l., ef það á annað borð telur það þarflegt að afnema eitrunina. Og án þess að ég beri minnsta vantraust til veiðistjóra eða Búnaðarfélags Íslands, gæti ég vel hugsað mér, að það yrðu þó einhverjir erfiðleikar á því að fá reglugerðinni breytt, og a.m.k. þyrfti eitthvert framtak, einhverjir að hafa framtak um það og ganga í það, að reglugerðinni verði breytt. Ég sé ekki, að það sé neitt auðveldari leið en einfaldlega að breyta greininni eða leggja hana niður.