19.12.1963
Neðri deild: 36. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

97. mál, ríkisreikningurinn 1962

Frsm, minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru nokkur orð í tilefni af ræðu hæstv. fjmrh. um það atriði, sem ég nefndi, að framkvæmdir við Keflavíkurveg hefðu ekki verið færðar á ríkisreikning og ekki heldur ríkisskuldir, sem til hefur verið stofnað í því sambandi. Hæstv. ráðh. segir, að þetta sé bara bókhaldsatriði. Ég veit ekki, hversu margir hv. þm. fallast á, að það sé bara bókhaldsatriði, hvort reikningar séu réttir eða rangir. Hæstv. ráðh. vitnar þarna í ummæli yfirskoðunarmanna, en þeir segja, með leyfi hæstv. forseta, um þetta:

„Eins og venja er til, hefði átt að færa þetta á eignaskýrslu ríkisins, bæði eigna- og skuldamegin, og kostnaður við framkvæmd verksins að færast á reikning ríkisins og vegamálanna á 13. gr.

Það er rétt hjá þeim, þetta átti náttúrlega að færast á reikning ríkisins og vegamálanna á 13. gr., og skuldin átti að teljast með öðrum ríkisskuldum eða skuldirnar. En ég get ekki verið þeim sammála, hv. yfirskoðunarmönnum, um, að þetta hefði átt að færast á eignaskýrslu ríkisins, því að ég kannast ekki við það, að þjóðvegir hér á landi séu taldir með ríkiseignum í efnahagsreikningi ríkisins. Vegir eru alls ekki taldir með ríkiseignum á efnahagsreikningi. Nú er þetta fært á reikning hjá vegagerðinni, og þar er þetta talið til eignar, þar eru taldar skuldirnar og þar er talin eign á móti. Þetta mun vera þar innifalið í lið, sem heitir „skuldir eða útistandandi eignir“ hjá vegagerðinni, talið með eignum á móti skuldunum. Það er alveg nýtt, ný uppfinning að telja vegi, ríkisvegi, með eignum. Auðvitað er alveg út í hött að vísa í þennan reikning vegagerðarinnar. Þarna er um að ræða framkvæmd ríkisins, sem átti að færast með öðrum vegagerðarkostnaði á 13. gr. reikningsins, og þarna er um að ræða ríkisskuldir. Það eru ekki skuldir vegagerðarinnar. Vegagerðin er ekki stofnun, sem á að taka lán. Þetta er ekki skuld vegagerðarinnar, þetta er skuld ríkisins, sem ríkið verður að standa straum af, og þess vegna er það alrangt að sleppa að færa þessar skuldir með öðrum skuldum ríkisins. Hæstv. ráðh. segir, að þetta sé hreint bókhaldsatriði, — um hreint bókhaldsatriði að ræða, hvort reikningurinn er réttur eða rangur.

Þá er það viðkomandi endurskoðuninni hjá hinni svonefndu ríkisendurskoðun. Hann segir, að hún hafi alltaf verið á eftir og aldrei verið lokið, þegar ríkisreikningar hafa verið samþykktir. Þetta dreg ég mjög í efa, að sé rétt.

Um þetta hefur oft verið rætt hér á undanförnum árum, og ef þetta er rétt hjá ráðh., er það þannig, að Alþingi hefur verið ókunnugt um það, að endurskoðuninni væri ekki lokið, vegna þess að yfirskoðunarmenn ríkisreiknings hafa ekki getið um það í sínum aths., ekki getið um annað en endurskoðuninni væri lokið.

Hæstv. ráðh. segir, að þessu þurfi að koma í lag með þessa endurskoðun, og ég er honum sammála um það. Hann segir, að það kosti aukið starfslið. Ég efast um, að það kosti nokkuð aukið starfslið. Þetta er verk, sem á að vinna, og mér skilst, að það sé meiningin að vinna þetta, þó að það sé að nokkru leyti eftir að búið er að samþykkja reikninginn á Alþingi. Það er ekkert meira verk að framkvæma þessa endurskoðun á réttum tíma heldur en láta þetta dragast árum saman, vera með langan hala á eftir sér í þessari stofnun, það er ekkert léttara. Það getur ekki kostað aukið starfslið. Þessu þarf vitanlega að koma í lag. Þessari endurskoðun þarf að vera lokið að fullu, áður en Alþingi gefur kvittun fyrir reikningsskilin.

Hæstv. ráðh. segir, að ég hafi fundið upp á því fyrir tveimur árum að finna að þessu, af því að mér hafi gramizt það, að verið væri að koma betra lagi á málið, og hjá mér hafi verið og fleirum einhver tregða og mótstaða í þessu máli. Allt eru þetta tómir hugarórar hjá hæstv. ráðh. Ég hef lýst því yfir, bæði nú og áður, að ég tel, að þessu þyrfti að koma í betra lag en verið hefur. En það er bara ekki komið í lag, og þess vegna er ekki tímabært að samþykkja þennan reikning.

Hæstv. ráðh. segir og vitnar í ummæli yfirskoðunarmanna um það, að nú sé endurskoðuninni lengra komið en áður. Ég veit ekki um það. En ef menn athuga nál. minni hl., sjá þeir þar lista, sem ríkisendurskoðunin gaf út í október um það, hvað eftir væri að endurskoða, og það eru yfir 100 aðilar, sem þá er eftir að skoða reikninga fyrir. En hinir voru 77, sem var að fullu lokið, þegar þessi grg. var út gefin. Ég veit ekki, hve mikið af þessu er eftir nú, en það er vitanlega töluvert mikið.

Það, sem hæstv. ráðh. ætti að gera, er að koma þessari endurskoðun í rn. í betra horf, koma henni í lag. Þetta er á hans verksviði. Hann er yfirmaður yfir þessari stofnun, þetta ætti hann að gera, og þá fyrst, þegar hann er búinn að því, þá getur hann komið hér og heimtað, að ríkisreikningur sé afgreiddur á næsta ári eftir reikningsár. Fyrr getur hann það ekki, fyrr hefur hann engin efni á því að koma hingað með ríkisreikning og heimta, að hann sé tafarlaust samþykktur. Þetta ætti hæstv. ráðh. að gera sér ljóst. Og svo ætti hann náttúrlega að taka til greina þessa ábendingu yfirskoðunarmanna um að færa framvegis vegagerðarkostnaðinn á réttan stað í ríkisreikningnum. En í fyrra var það fyrir ári og 2 dögum, það var 17. des. í fyrra, sem rætt var um ríkisreikninginn 1961. Þá hafði verið fundið að þessu, að kostnaðurinn við Keflavíkurveg hafði ekki verið færður með gjöldum á ríkisreikning og skuldir vegna þeirrar framkvæmdar ekki heldur, og þá sagði hæstv. fjmrh. m. a. þetta um málið:

„Hefur komið skýrt fram, hvernig á þetta er litið af þeim embættismönnum, sem fjalla um málið. En ég vil endurtaka það, að því fer fjarri, að nokkur ráðh. hafi gefið nokkur fyrirmæli um að hafa þessar greiðslur ekki með í reikningi 1961, auðvitað koma þær í ríkisreikninginn 1962.“

Þetta sagði hæstv. ráðh, hér í þessum stól 17. des. í fyrra, en hann hefur bara ekki staðið við þetta. Hæstv. samgmrh. sagði við þær umr. einnig um þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Og Keflavíkurvegurinn, eins og sagt var hér áðan, kemur vitanlega fram í ríkisreikningnum fyrir árið 1962.“

Hann gaf þessa yfirlýsingu líka. En það hefur ekki verið við þetta staðið. Hæstv. fjmrh. var að tala um það hér áðan, að það væru vegagerðin og samgmrh., sem hefðu ráðið um þetta bókhaldsatriði, sem hann kallar. En ég hefði haldið, að það væri fjmrh., sem ætti að annast um ríkisbókhaldið eða væri yfirmaður þess og það sé þess vegna ekki drengilegt af honum að vera að koma sök í þessu efni yfir á meðráðh. sinn eða embættismann ríkisins eða vegamálastjóra. Hann ætti ekki að gera slíkt, því að vitanlega er það hans verk að hafa eftirlit með því, að ríkisreikningurinn sé eins og hann á að vera.