09.03.1964
Neðri deild: 67. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

88. mál, eyðing refa og minka

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. frsm., þá er ekki ágreiningur í landbn. um meginefni þessa frv., sem er að gera tilraun til að bjarga arnarstofninum, sem enn er til í landinu. Hins vegar er, eins og brtt. okkar 3 nm. ber vott um, ágreiningur um, hversu langt tímatakmark á að hafa, sem eitrun verður bönnuð. Það má segja, að þetta sé eða geti verið mikið álitamál og kannske jafnlétt að rökstyðja bæði tímatakmörkin. Það verður þess vegna að nokkru leyti mat manna á því, hvort þeir telja líklegt, að unnt sé að ná þessu aðalmarki á 3 árum eða það þurfi til þess 5 ár. Við erum þeirrar skoðunar, að það muni a.m.k. nokkuð verða komið í ljós að 3 árum liðnum um árangur af þessari tilraun. Það eru nokkur rök líka í mínum huga, að veiðistjóri, sem er áreiðanlega orðinn allra manna kunnugastur íslenzka refnum og öllu, sem að eyðingu hans lýtur, hann hefur lagt með því, að þessi tími yrði aðeins 3 ár.

Það er ekki því að leyna, að á nokkrum stöðum á landinu er refurinn talsvert mikill skaðvaldur. Hitt er aftur á móti rétt, að hv. frsm. benti á, að það eru allmjög skiptar skoðanir um það, að hve miklu liði eitrunin kemur við eyðingu refsins. En margir telja þó, að hún geri nokkurt gagn. Ég ætla ekki að fjölyrða neitt um þetta. Ég get a.m.k. sagt fyrir mig, að ég fylgi frv., jafnvel þó að 5 ára takmarkið verði ofan á. En ég teldi betur farið, að það yrði miðað við aðeins 3 ár, og það er mín skoðun, að þetta 3 ára bil muni geta gefið allmikil svör við því, sem hér er verið að leita eftir. Hitt er að vísu sennilegt, að málið komi til kasta Alþ. eftir 3 ár, jafnvel hvort tímatakmarkið sem verður ofan á. En ég vil sem sagt mæla með því og við þessir þrír, sem að till. stöndum, að hv. Alþ. vildi fallast á, að þessi tími yrði aðeins 3 ár.