28.11.1963
Efri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

75. mál, lóðakaup í Hveragerðishreppi

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara mörgum orðum um þetta frv., sem ég hef leyft mér að leggja fram á þskj. 82. Hreppsnefnd Hveragerðishrepps hefur skrifað mér og hv. 5. þm. Sunnl., sem einnig á sæti í þessari hv. d., hinir þingmenn Sunnl. eiga, eins og kunnugt er, sæti í hv. Nd., og það er í samráði við 5. þm. Sunnl., sem ég flyt þetta frv. Bréf Hveragerðishrepps er prentað sem fskj. með þessu frv.

Þannig stendur á í Hveragerði, að ríkið á þar flestar lóðir og mestallt landið. sem þorpið er byggt á. En inn á milli eru nokkrar landspildur og lóðir, sem eru í eigu annarra, og eftir að skipulagsuppdráttur hefur verið gerður af þorpinu, valda gömul og óhentug mörk milli þeirra lóða, sem ríkið á, og þeirra lóða, sem eru í annarra eigu, oft erfiðleikum við nýtingu lóðanna og framkvæmd skipulagsins. Það er til þess að leysa þennan vanda, sem þetta frv. er flutt.

Nú kann ýmsum að þykja, að þarna sé farið aðra leið en nú hefur verið stefnan um alllangt skeið, — nefnilega sú, að hreppsfélögin eignist sjálf lóðirnar. En í Hveragerði gegnir nokkuð sérstöku máli um þetta. Ríkið á nú, eins og ég sagði, mestallt land í hreppnum, og það hefur eignazt það og er líklegt að það vilji halda áfram að eiga það vegna jarðhitans, sem þarna er, en þarna er, eins og kunnugt er, eitt mesta jarðhitasvæði landsins, sem gera verður ráð fyrir að verði hagnýtt í náinni framtíð, ekki aðeins í þágu hreppsbúa, heldur einnig í þágu fjöldamargra annarra landsmanna. Þess vegna verður að gera ráð fyrir því, að Hveragerði verði áframhaldandi undantekning frá þeirri reglu, að bæjarfélögin eða hreppsfélögin eignist sjálf lönd sín, en ríkið haldi áfram að eiga það og muni þá smátt og smátt eignast líka þær lóðir, sem það á nú. En þá virðist jafnframt augljóst, að það sé eðlilegt, að ríkið, en ekki hreppsfélagið, taki að sér þau lóðakaup — eða hugsanlega makaskipti, sem fram þyrftu að fara, til þess að skipulag og nýting landsins í hreppnum yrði framkvæmanleg. Af þessum ástæðum hefur hreppsnefndin í Hveragerði óskað eftir því, að ríkissjóði yrði veitt heimild til að kaupa þessar lóðir og landspildur, og mér hefur virzt og okkur þm. Sunnl., sem ég hef rætt þetta mál við, eðlilegt, að orðið sé við þeim óskum, og því er þetta frv. flutt.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.