03.03.1964
Efri deild: 55. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

75. mál, lóðakaup í Hveragerðishreppi

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég þakka hv. heilbr: og félmn. fyrir afgreiðslu þessa frv. N. hefur mælt með því, að frv. verði samþ. með lítilli breytingu, sem hv. frsm. hefur gert grein fyrir og er í því fólgin að bæta inn orðunum „meðal annars með makaskiptum á lóðum“. Ég hef að sjálfsögðu ekkert við þessa brtt: að athuga, og ég get samþykkt hana fyrir mitt leyti. Það er í sjálfu sér eðlilegt, að þegar lóðir eru hornskakkar við götur eða á annan hátt valda erfiðleikum í skipulagi, þá sé fysst og fremst reynt að leysa það með makaskiptum. Það er orðið aðkallandi að fá nauðsynlegar heimildir til endurbóta í lóðamálum

Hveragerðis, og ég geri ráð fyrir því, að flest af þeim aðkallandi vandamálum, ef ekki öll, sem nú blasa við, verði auðvelt að leysa með makaskiptum.

Hins vegar þykir mér rétt í þessu tilefni að vekja athygli á því, að það er ólíklegt, að hægt sé að gera ráð fyrir, að með makaskiptum sé hægt að fá endanlega lausn ú lóðamálum Hveragerðishrepps. Þar eins og annars staðar hlýtur það að vera æskilegt að koma lóðum þorpsins eða kaupstaðarins á eina hönd, ekki sízt vegna þeirra miklu jarðhitaréttinda, sem þarna er um að ræða. Þar sem það af ástæðum, sem hv. frsm. gerði grein fyrir og ég hef gert grein fyrir við fyrri umr. þessa máls, er ólíklegt, að þar verði tekin upp sú stefna, sem annars hefur verið ríkjandi upp á síðkastið, að sveitarfélögin eða hreppsfélögin eignuðust sjálf lóðirnar, þá sýnist mér, að framtíðarlausn þessa máls hljóti að verða sú, að ríkið eignist smátt og smátt allar lóðir kauptúnsins.

Þetta frv., ef að lögum verður, veitir fullnægjandi heimildir fyrir ríkissjóð og ríkisstjórn til þess að leysa þau vandamál, seni koma upp, hvort sem það yrði gert með makaskiptum eða kaupum. Það var aldrei tilgangur minn sem flutningsmanns þessa frv. að kveða á um, að neitt ákveðið skyldi gert í þessum málum, heldur aðeins skapa þær heimildir; sem ríkisstjórn á hverjum tíma er nauðsynlegt að hafa til þess að geta leyst þessi vandamál. — Ég endurtek þakkir mínar til heilbr: og félmn. fyrir jákvæða afgreiðslu málsins.