20.03.1964
Neðri deild: 72. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

196. mál, sala jarðarinnar Áss í Hafnarfirði

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 3 öðrum hv. þm. þessarar d. að flytja frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Hafnarfjarðarkaupstað land jarðarinnar Áss í Hafnarfirði. Eins og fram kemur í grg, með þessu frv., er frv. flutt að ósk bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, en jörðin Ás kom inn í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1959, við síðustu breytingu, sem gerð var á lögsagnarumdæminu. Á þingi 1935 flutti þáv. þm. Hafnf., núv. hæstv. sjútvmrh., frv. um heimild til handa ríkisstj. til þess að selja Hafnarfjarðarkaupstað allt óræktað land þessarar sömu jarðar, sem þegar hefur verið gert. Hér er um að ræða að afla heimildar fyrir ríkisstj. til þess að selja Hafnarfjarðarkaupstað það, sem eftir er, þ.e.a.s. ræktaða landið, ásamt öðru því tilheyrandi. — Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv: landbn.