18.11.1963
Neðri deild: 17. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Flm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 73 hef ég ásamt formanni iðnn. Nd., hv. 2. þm. Norðurl. e., lagt fram frv. til l. um breytingu á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán. Hliðstæðar aðgerðir hafa verið gerðar til þess að bæta fjárhagsaðstöðu sjávarútvegsins með l. nr. 48 frá 1961 og landbúnaðarins með l. nr. 15 frá 1962. Í grg. með frv. er nokkuð gerð grein fyrir aðstöðu íslenzks iðnaðar nú, og í byrjun segir svo:

„Eitt af erfiðustu viðfangsefnum iðnfyrirtækja undanfarna áratugi hefur verið skortur á lánsfé. Hin þráláta verðbólga, sem ríkt hefur tvo síðustu áratugi, hefur haft í för með sér, að sífellt fleiri krónur hefur þurft til að viðhalda ákveðinni framleiðslustarfsemi.“

Þessi orð þurfa ekki skýringa við. Það er þessi draugur, sem allir landsmenn glíma við, hin sífellda verðbólga og kapphlaup um krónuna.

Frv. þetta er flutt samkv. eindregnum óskum landssamtaka iðnaðarins. Á 25. iðnþingi Íslendinga, sem haldið var hér í Reykjavík í síðasta mánuði, var svo hljóðandi till. einróma samþykkt, með leyfi hæstv. forseta:

„25. iðnþing íslendinga beinir þeim tilmælum til ríkisstj., að unnið sé að því að ná samkomulagi við viðskiptabankana um að breyta stuttum skuldum iðnfyrirtækja við bankana í löng lán, eins og gert hefur verið varðandi lausaskuldir landbúnaðar og sjávarútvegs.“

Og á ársþingi Félags ísl. iðnrekenda, sem haldið var fyrri hluta ársins í ár, var svo hljóðandi samþykkt, með leyfi hæstv. forseta.

Ríkisstj. beitir sér fyrir samkomulagi viðskiptabankanna um að breyta stuttum skuldum iðnfyrirtækja við bankana í löng lán, líkt og átt hefur sér stað um lausaskuldir sjávarútvegs og landbúnaðar.“

Hér er því um að ræða eindregna ósk frá landssamtökum iðnaðarins.

Eins og fram kemur í 2. gr., er meginatriði þessa frv. að heimila iðnlánasjóði að gefa út sérstakan flokk vaxtabréfa í þeim tilgangi að bæta fjárhagsaðstöðu iðnfyrirtækja, sem hafa ekki fengið nægilegt fjármagn til langs tíma í þær framkvæmdir, sem þau hafa ráðizt í á árunum 1957–1961, að báðum þessum árum meðtöldum. Þetta tímamark er fært fram um eitt ár, miðað við lög um lausaskuldir bænda, enda voru þau lög samþykkt á Alþingi í marz 1962. Hér í frv. er átt við þau iðnfyrirtæki, sem skylt er að greiða iðnlánasjóðsgjald, sbr. ákvæði 5. gr. l. um iðnlánasjóð, sem samþykkt voru á síðasta Alþingi. Samkvæmt því er kjöt og fiskiðnaður svo og mjólkurbú undanskilin, en þessar atvinnugreinar hafa rétt til stofnlána úr sjóðum sjávarútvegs og landbúnaðar. Gert er ráð fyrir því, að ríkissjóður ábyrgist skuldbindingar, sem iðniánasjóður stofnar til í þessu sambandi. Þar sem ekki liggur fyrir, hversu háar fjárhæðir geti orðið hér um að ræða, þótti rétt, að þessi lög tækju ekki til þeirrar lántökuheimildar, sem ákveðin var í l. mgr. 6. gr. laga um lðnlánasjóð.

Varðandi 2. gr. frv. er þess að geta, að hún er efnislega shlj. 2. gr. l. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, að öðru en því, að hámarkslánstími er hér styttri, en hins vegar sá sami og mælt er fyrir um í 12. gr. 1. um iðnlánasjóð, þ.e. 15 ára lán með fasteignaveði, en 7 ára lán með veði í vélum. Hámarkstími í lögum um lausaskuldir bænda var hins vegar 20 ár og í l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins 20 ár út á fasteignir, 15 ár út á skip, en 10 ár út á vélar. Þá er gert ráð fyrir því, að vaxtakjör lána þessara skuli ákveðin af stjórn iðnlánasjóðs að höfðu samráði við ráðherra. Útlánsvextir iðnlánasjóðs eru nú 81/2% og því eðlilegt, að vextir af þessum lánum verði ákveðnir með hliðsjón af því.

Gert er ráð fyrir í 2. gr. frv., að lán skuli aðeins veitt gegn veði í fasteignum og vélum iðnfyrirtækja. Er hér átt við þær fasteignir eingöngu, sem viðkomandi fyrirtæki nota til eigin þarfa og er eigandi að. Þannig er ekki gert ráð fyrir því, að húsnæði óviðkomandi sjálfum rekstrinum sé veðhæft eða aðili, sem rekur iðnaðarhúsnæði til útleigu, geti orðið þessara lána aðnjótandi.

Ákvæði 3. gr. eru efnislega shlj. upphafi 9. gr. l. um iðnlánasjóð, þ.e. að hámark lánsfjárhæðar megi vera allt að 60% af matsverði veðsins. Í l. um lausaskuldir bænda er þetta hámark hins vegar sett 70% af matsverði.

Í 4. gr. segir, að framkvæmd lánveitinga skuli að öðru leyti fara eftir ákvæðum laga um iðnlánasjóð, en þar sem þau þrýtur, verði nánari ákvæði sett í reglugerð, eins og fyrir er mælt í 5. gr. frv. Til frekari skýringa skal stuttlega rakið, hver háttur var á hafður með framkvæmd hjá veðdeild Búnaðarbankans við breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán. Gera má ráð fyrir því, að sú framkvæmd eigi frekar við hér en framkvæmd á breytingu lausaskulda sjávarútvegsins, þar sem þau lög voru felld inn í lög um stofnlánadeild sjávarútvegsins með brbl. Þegar lánin voru auglýst af veðdeild Búnaðarbankans, var tekið fram, að lánsumsókn skyldi fylgja veðbókarvottorð, síðasta skattframtal, skrá um bústofn, listi yfir bæði veðskuldir og lausaskuldir, svo og virðingargjörð þeirra eigna, sem boðnar voru að veði fyrir lánunum. Af hálfu veðdeildarinnar voru svo kvaddir til tveir trúnaðarmenn til að yfirfara matsgjörðir. Veðdeildin skrifaði síðan lánardrottnum umsækjenda og bað þá um skrá yfir allar skuldir þeirra og hvenær til skuldanna hafi verið stofnað, enn fremur, hvort þeir féllust á að taka veðdeildarbréfin upp í skuldir viðkomandi aðila. Að fengnum þessum upplýsingum var svo tekin ákvörðun um, að hve miklu leyti skyldi orðið við lánsumsóknunum. Heildarupphæð þeirra lausaskulda bænda, sem fram til þessa hefur verið breytt í föst lán, mun nema 66 millj. kr., en heildarupphæð sjávarútvegsins 330 millj. kr.

Varðandi framkvæmd á breytingu lausaskulda iðnaðarins í föst lán verður að hafa í huga, að þessar lausaskuldir eru í flestum tilfellum frá fleiri en einum banka eða lánsaðila. Verður því að telja nauðsynlegt, að komið sé á fót skipulegri samvinnu milli þeirra aðila, sem hér koma aðallega til með að eiga hlut að máli eða hagsmuna hafa að gæta. Er þess að vænta, að stjórn Seðlabankans hafi forgöngu um slíka samvinnu, ef þetta frv. verður að lögum.

Eins og getið er í grg. fyrir þessu frv., skipaði þáv. iðnmrh., núv. hæstv: viðskmrh., nefnd í september 1959 undir forsæti dr. Jóhannesar Nordals til að athuga lánamál íslenzks iðnaðar. Í álitsgerð lánanefndar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Breyting á stuttum skuldum iðnaðarins í lengri lán gæti átt sér stað, annaðhvort með því, að hver viðskiptabankanna um sig semdi við þá viðskiptamenn sína, sem þörf hefðu á slíkri fyrirgreiðslu, eða einn aðili, t.d. iðnlánasjóður, tæki að sér þessar lánveitingar fyrir hönd viðskiptabankanna, sem síðan keyptu verðbréf sjóðsins til greiðslu á lausaskuldum við sig.“

Síðar í grg. með frv. er skýrt frá því, á hvern hátt Danir hafa leyst þessi mál hjá sér, þ.e. með sérstakri stofnun, Finansieringsinstitutet for Industri og Händverk, A/S, sem stofnað var 1958 af peningastofnunum og samtökum iðnaðarins í Danmörku. Að síðustu er svo lauslega í grg. minnzt á till. þá, sem ég fékk samþykkta á hv. Alþingi 1958 um endurkaup Seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins. Segir í grg. m.a.:

„Enda þótt endurkaup iðnaðarvíxla hafi enn eigi náð fram að ganga, varð samþykkt þessarar till. til þess, að iðnmrh. skipaði nefnd þá, er að framan getur, til athugana á lánamálum iðnaðarins. Skilaði n. m.a. ýtarlegum till. um eflingu iðnlánasjóðs, sem síðan urðu uppistaða í nýjum lögum um sjóðinn, sem samþykkt voru á síðasta Alþingi. Að því ber að sjálfsögðu að stefna, að iðnaðurinn hljóti fyllsta jafnrétti við hina höfuðatvinnuvegina og Seðlabankinn setji reglur þar að lútandi.“

Eins og fram kemur, hefur það haft sína óbeinu þýðingu, þessi till. um endurkaup frá 1958, skapað grundvöll undir breytingu iðnlánasjóðs, orðið til þess, að lánanefnd iðnaðarins var skipuð 1959, og svo væntanlega til þess nú, að þetta frv. verði á næstunni afgreitt sem lög frá hv. Alþingi.

Hitt er svo annað mál, að enda þótt þessi sjálfsagða og raunhæfa réttarbót um endurkaup iðnaðarvíxla hafi enn ekki náð beint fram að ganga, ber að sjálfsögðu að því að stefna. Í því sambandi vil ég þakka ötulan áhuga hv. 5. þm. Reykv. á málefninu, en hann endurflytur nú till. mína í annað sinn, enda þótt hún hafi verið samþykkt 1958 sem viljayfirlýsing hv. Alþingis. Ég lít á endurflutning þessarar till. frá hv. 5 þm. Reykv. sem ótvíræða stefnubreytingu hjá Framsfl., er óskiptur greiddi atkv. á móti þáltill. 1958, að einum hv. þm. hans undanskildum. Ég fagna þessari stefnubreytingu og vænti, að þeir sýni hana í verki nú, þegar þetta hagsmunamál, lausaskuldir iðnaðarins, verður til afgreiðslu á hv. Alþingi. Ég efast ekki um það, að till. um endurkaup iðnaðarvíxla væri komin til framkvæmda, ef þm. Framsfl., annars stærsta þingflokksins á hv. Alþingi, hefðu haft viðsýni til þess að greiða henni atkv. á sínum tíma.

Ég vil aðeins minna hér á nokkur orð, sem ég viðhafði í framsögu fyrir endurkaupatill. minni 1958 hér í þd., með leyfi hæstv. forseta:

„Með framkvæmd till. mundi skapast hér myndarleg fjöldaframleiðsla á ýmsum hlutum. Framleiðendur mundu selja viðskiptabönkum sínum efnis- og framleiðsluvíxla, en viðskiptábankarnir endurselja þá Seðlabankanum eftir þeim reglum, sem Seðlabankinn mundi setja í samráði við hæstv. ríkisstj. Hvað mundi svo þetta leiða af sér? Framleiðandinn hefði bolmagn til hagkvæmari innkaupa á efnivöru. í stað þess að framleiða vöru á dýran hátt í smáum stíl mundi hann framleiða slíka vöru í fjöldaframleiðslu og útkoman verða ódýrari vara, meiri framleiðsla, betri afkoma almennings.“

Tollamálin hafa verið íslenzkum iðnaði fjötur um fót. Það er ákaflega vinsælt hjá sumum atvinnustéttum að tala um tollvernd íslenzks iðnaðar. En ef þetta er athugað nánar, kemur í ljós, að tollar á iðnaðarvörum til landsins eru fyrst og fremst til þess að skapa íslenzka ríkinu tekjur. Það er táknrænt að blaða í hinni nýju tollskrá og sjá, hversu það er orðið hefðbundið að mismuna höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar. Nauðsynjar sjávarútvegs eru svo til tollfrjálsar, einnig skip og bátar, veiðarfæri svo til tollfrjáls, nauðsynjar landbúnaðar í lægstu tollflokkum og svo mætti lengi telja. En jafnnauðsynleg hjálpartæki til iðnaðar og alls konar verkfæri eru tolluð 50%, boltar, skrúfur og margs konar efnivara með óheyranlega háum tolli. Það er lítils virði að tala um aukna hagræðingu, starfsmat og ákvæðisvinnu, ef ekki fylgir með hjá löggjafanum aukinn skilningur á réttlæti milli atvinnuveganna. Tollskráin nýja, sem tók gildi 1. maí s.l., mun nú vera í endurskoðun, eins og ráð var fyrir gert. Er þess að vænta, að teknar verði til íhugunar þær ábendingar, sem fram koma hjá samtökum iðnaðarins, til meira réttlætis í þessum efnum. Það er greinilegt, að með hinni nýju tollskrá er stefna ríkisvaldsins sú, að tollar séu lækkaðir, en ég vil benda á nauðsyn þess, að fyrst séu tollar lækkaðir á hráefnum, hráefnatollarnir séu fyrst lækkaðir, þannig að iðnaðinum sé gert kleift að samræma verðlag sitt á fullunnum vörum, áður en erlend vara með lægra tolli er sett á markað hér: Sama gildir að vísu um erlend vörukaupalán, sem nú tíðkast mjög. Það er ekki réttmætt, að verzlun og iðnaði séu sett sömu skilyrði í þessum efnum. Þegar iðnaðurinn flytur inn sitt hráefni, segjum gegn þriggja mánaða víxlum, þá á hann eftir að framleiða fullunna vöru úr þessu erlenda hráefni. Innflytjandi, sem hins vegar flytur inn fullunna vöru, getur komið henni strax á markað. Af þessu má vera ljóst, að setja verður aðrar reglur fyrir framleiðandann, nema honum séu á annan hátt opnaðar leiðir að eðlilegu fjármagni til rekstrar síns.

Þær viðræður, sem nú eru hafnar um kjaramálin milli vinnuveitenda, vinnuþiggjenda og ríkisstj., leiða væntanlega til varanlegrar lausnar á þessu sífellda vandamáli íslenzkra atvinnuvega. Eina ábendingu mundi ég vilja setja fram í því sambandi. Það er, að nákvæmlega verði athugaður möguleiki fyrir skatt- og útsvarsfrelsi af tekjum, sem erfiðisvinnumenn hafa af næturvinnu eftir fullan vinnudag. Hin mikla vinna, sem íslenzkir erfiðisvinnumenn leggja á sig við verðmætasköpun fyrir íslenzku þjóðina, er einstæð og þekkist hvergi, að ég bezt veit. Hvorki íslenzka ríkið, bæjar- né sveitarfélög geta miðað sína tekjuöflun við slíkar aðstæður. Þeir, sem leggja á sig mikið aukastarf, eiga það sannarlega skilið, að skattar og útsvör hirði þar ekki bróðurpartinn. Óheilbrigði í atvinnumálum er orðið slíkt, að það fyrsta, sem spurt er um, þegar menn ráða sig til starfa, er: hvað um næturvinnu, er hún gefin til skatts? Ef svo er, þá er málið leyst með því, að viðkomandi hættir störfum þegar að lokinni dagvinnu og ræður sig þá til frekari starfa, líklega án mikilla tekna fyrir sveitarfélög eða íslenzka ríkið. Þannig leiðast vinnufærir og vinnufúsir menn út úr framleiðslunni í alls konar vinnu, sem hefur ekki sama þjóðhagslegt gildi.

Ég hef lengt mál mitt um of. Að endingu vil ég vænta þess, að hv. alþm. geti fallizt á lagafrv. það, sem hér er fram borið.

Herra forseti. Ég leyfi mér að gera það að till. minni, að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og umsagnar fjhn. þessarar hv. þd., en sá háttur var á hafður með lausaskuldir sjávarútvegs og landbúnaðar.