18.11.1963
Neðri deild: 17. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Menntmrh. (Gísli Þ. Gíslason):

Herra forseti. Astæða þess, að ég sagði nokkur orð í þessum umr., var sú, að ég misheyrði það áreiðanlega ekki, að hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ) vitnaði í ræðu sinni til áhuga síns á efni till. frá 1958 og talaði þannig, að sá áhugi hans og hans flokks hefði ávallt verið fyrir hendi. Ég vitnaði þá til þess, að hv. frsm. hefði sagt, að aðeins einn þm. Framsfl, hefði greitt atkvæði með till. sumarið 1958. Ég hafði ekki skoðað atkvæðatölur um þetta, en sé í Alþt. nú, að með till. hafa greitt 29 þm. atkvæði af 52. Sjálfstæðismenn voru þá 19, sem eflaust hafa allir greitt atkvæði með till. Alþýðuflokksmenn voru 7, svo að einhverjir fleiri hafa greitt atkvæði, en augljóst er, að meginþorri Framsfl., sem var næststærsti þingflokkurinn, og meginþorri Alþb. hafa ekki greitt atkvæði með till., þegar hún var endanlega afgreidd. Annars er þetta algert aukaatriði í málinu og atriði, sem ég hafði ekki gefið tilefni til þess að drægist inn í umr. Það, sem mér þótti ástæða til að bæta við, var, hvernig um efni málsins fór í sjálfri ríkisstjórninni á sínum tíma. Og það er sérstaklega minnisstætt vegna þess, að þessi till. var fyrst send iðnmrh. til fyrirgreiðslu af Alþ. af misgáningi. þannig að hún lenti á mínu borði, en ég benti á það, að till. væri bankamál og ætti heima hjá þeim ráðh., sem færi með bankamál, sem var forsrh., og þess vegna kom hún til meðferðar okkar í milli, og um hana mun einu sinni hafa mjög lítillega verið rætt á ráðherrafundi með þeim hætti, að þáv. hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, sem þá mun líka hafa verið form. Framsfl., lýsti mjög stutt og gagnort þeirri skoðun sinni, að hann teldi ekki koma til mála, að ríkisstj. beindi tilmælum til Seðlabankans um það, að hann framkvæmdi efni till. Þetta var afstaða Framsfl., þegar hann var í ríkisstjórn, til þess máls, sem hv. 5. þm. Reykv. hefur flutt tvívegis nú eftir að Framsfl. er kominn í stjórnarandstöðu. Er þetta aðeins eitt af mýmörgum dæmum þess, að þessi flokkur, Framsfl., hefur ekki aðeins gerólíkar, heldur þveröfugar skoðanir nú í stjórnarandstöðu við það, sem hann hafði meðan hann var sjálfur í ríkisstjórn.

Hv. 5. þm. Austf. lýsti eftir skoðunum mínum efnislega á þessu máli og skal ég gera grein fyrir þeim í mjög stuttu máli. Það er rétt hjá honum, það kom fram í umr. um þetta í þeirri stjórn, sem við áttum sæti saman í, og raunar hef ég enga dul á það dregið, að ég tel það hvorki vera lausn á lánsfjárvandamálum iðnaðarins né heldur æskilega og heppilega stefnu í peningamálum, að Seðlabankinn taki þetta upp sem almenna reglu, að endurkaupa það, sem hv. 5. þm. Reykv. kallar hráefnavíxla iðnaðarins, Hitt er annað, og það hef ég sagt oftar en einu sinni og á réttum vettvangi hef ég gerzt talsmaður þeirrar stefnu, að Seðlabankinn kaupi útflutningsvíxla iðnaðarins með sama hætti og hann nú kaupir útflutningsvíxla sjávarútvegs og landbúnaðar. Með því væri iðnaðinum tryggt fullkomið jafnrétti við sjávarútveg, og það er sú eðlilega regla, sem seðlabanki í þessu efni getur takmarkað starfsemi sína við og ber að starfa eftir, að gera öllum útflutningsatvinnuvegum landsmanna jafnhátt undir höfði.

En við skulum minnast þess, hver erfiðleiki hefur verið á því, að Seðlabankinn gæti tekið upp þessa reglu. Seðlabankinn, eins og raunar allir aðrir bankar, hefur takmarkað fé til útlána, ef forðast á óeðlileg útlán, ef forðast á verðbólgumyndandi útlán. Sannleikurinn er sá, ef litið er aftur í tímann til síðustu tveggja, þriggja áratuga, þá hefur það verið einn megingallinn, sá hlekkurinn, sem fyrst og fremst hefur brostið í íslenzku bankakerfi, að Seðlabankinn hefur veitt meiri lán, hefur endurkeypt afurðavíxla fyrir meiri upphæð en Seðlahankinn hafði raunverulega til ráðstöfunar í þessu skyni og þess vegna átt verulegan þátt í verðbólgumyndandi útiánum. Ein frumorsök þeirrar verðbólgu, sem hér hefur verið undanfarna áratugi, við hlið kapphlaupsins á milli verðlags og kaupgjalds, við hlið vísitöluskrúfunnar, hefur einmitt verið reglurnar, sem Seðlabankinn hefur fylgt að fyrirmælum ríkisvalds á hverjum tíma um sjálfkrafa endurkaup, ekki aðeins á útflutningsvíxlum sjávarútvegsins, sem ekkert er við að athuga, heldur á öllum framleiðsluvíxlum íslenzks landbúnaðar. Það er hetta, sem valdið hefur því, að Seðlabankinn hefur haft allt sitt starfsfé bundið í afurðavíxlum sjávarútvegs og landbúnaðar og raunar meira en hann gat bundið með eðlilegum hætti án þess að stofna fjármálalegu jafnvægi í hættu. Höfuðástæða þess, að Seðlabankinn hefur ekki treyst sér til þess að endurkaupa útflutningsvíxla íslenzks iðnaðar, er sú, að hann hefur haft svo að segja hvern eyri sinn og raunar meira bundið í afurðalánum sjávarútvegsins með algerlega eðlilegum hætti og í afurðavíxlum landbúnaðarins að verulegu leyti með óeðlilegum hætti, því að það má mjög deila um þá reglu, sem Seðlabankinn hefur fylgt að opinberum fyrirmælum um það að endurkaupa með sjálfkrafa hætti alla framleiðsluvíxla landbúnaðarins, svo sem átt hefur sér stað um langt skeið undanfarið. Ég segi: Um það má mjög deila. Höfuðástæðan til þess, að Seðlabankinn hefur ekki getað sinnt útflutningsvíxlum iðnaðarins, hefur verið fyrst og fremst hin miklu lán hans til landbúnaðarins. Að óbreyttu starfsfé Seðlabankans er því alveg augljóst mál, að það, sem hv. 5. þm. Reykv. vill kalla jafnrétti í garð iðnaðarins, mundi fyrst og fremst verða á kostnað þess lánsfjár, sem landbúnaðurinn hefur úr Seðlabankanum, fyrst og fremst á kostnað afurðavíxlanna, sem Seðlabankinn kaupir af framleiðendum íslenzkra landbúnaðarafurða, svo að á Seðlabankann í sjálfu sér er ekki hægt að deila fyrir tilhneigingu hans til þess að láta ekki iðnaðinn njóta jafnréttis eða njóta sannmælis, því að Seðlabankinn hefur ákveðið fé, hefur takmarkað fé til umráða með eðlilegum hætti, og það fé og raunar meira hefur verið bundið í víxlum sjávarútvegs og víxlum landbúnaðar. Hitt er annað mál, að nauðsyn ber til, m.a. vegna þess að iðnaðurinn fær ekki sína útflutningsvíxla einu sinni endurselda í Seðlabankanum, að endurskoða nokkuð þær reglur, sem Seðlabankinn fylgir um þetta efni. Að því hefur ríkisstj. einmitt verið að vinna undanfarið. Ég vona, að áður en mjög langt líði verði langt fyrir hið háa Alþ. stjórnarfrv., sem m.a. fjallar um endurskoðun á þeim reglum, sem Seðlabankinn fylgir við endurkaup afurðavíxla.

Það er algerlega rangt hjá hv. 5. þm. Reykv., að núverandi stjórnarflokkar hafi ekki haft opin augun fyrir því, að þær reglur, sem um þetta gilda, þurfi nokkurrar endurskoðunar við. En höfuðástæðan til þess, að ég blandaði mér í umr., var sú og það vil ég endurtaka, að benda á það ósamræmi, sem er í málflutningi hv. Framsfl. nú í stjórnarandstöðunni, við það, sem afstaða þeirra var fyrir fáeinum árum, þegar þeir voru í ríkisstjórn og töldu efni þeirrar till., sem hv. þm. hefur tvíflutt, vera algera fjarstæðu. Af hálfu þeirra framsóknarmanna, sem þá fóru með bankamál, var engin tilraun gerð í vinstri stjórninni til þess að taka lánamál iðnaðarins upp til nokkurrar endurskoðunar.

Eins og fram hefur komið í umr. áður. féll það í minn hlut haustið 1959, eftir að ríkisstjórn Emils Jónssonar var tekin við völdum, að skipa nefnd til að endurskoða lánamál iðnaðarins. Sú nefnd vann mjög gott starf, og til hennar má a.m.k sumpart rekja þá endurskoðun, sem þegar hefur farið fram á iðnlánasjóðslögunum, og efni þess frv., sem að mörgu leyti er mjög athyglisvert; sem nú er hér til umr. Ásakanir í garð okkar, sem nú stöndum að ríkisstj., um áhugaleysi á lánsfjármálum iðnaðarins, eru því algerlega úr lausu lofti gripnar og vægast sagt mjög ósanngjarnar.