02.04.1964
Neðri deild: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég tel litlu máli skipta og skal ekki blanda mér í þann meting, sem fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns um það, hvort landbúnaður, sjávarútvegur eða iðnaður búi við betri eða lakari kjör í þessu þjóðfélagi.

Út af því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, að það væri síður en svo, að iðnaðurinn væri verr settur en aðrar atvinnugreinar, vegna þess m.a., að ýmsar greinar íslenzks iðnaðar nytu gífurlegrar tollverndar, þá vil ég segja það, að það hefur víða komið fram á undanförnum árum þessi sami hugsunarháttur, að iðnaðurinn hafi lifað í skjóli tollverndar og hafta. En ég get ekki varizt því að láta það koma fram, að þegar norskur sérfræðingur var fenginn til þess ekki alls fyrir löngu að gera álitsgerð um iðnaðinn, — aðlögunarhæfileika iðnaðarins í sambandi við breytingar á tollum o.fl., — var það eitt, sem vakti mest undrun hans, og það var hin hæga þróun, sem átt hefði sér stað í iðnaði í ýmsum greinum hér, meðan henni fleytti stórlega fram í öðrum löndum, og hans niðurstaða varð sú, að skýringin á þessu væri höftin og tollarnir, sem hefðu orðið iðnaðinum til bölvunar á þróunarskeiði hans. Menn hafa þannig nokkuð mismunandi skoðanir á þessu, og sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að það mundi á mörgum sviðum vera öðruvísi umhorfs í iðnaði okkar, ef hann hefði notið meira frjálsræðis á undanförnum árum, minni hafta. Þá hefði fyrr verið unnið að því, að hann gæti starfað samkeppnisfær við innfluttar iðnaðarvörur og án tollverndar.

Við vitum, að það hefur mjög mikið verið gert að því í sambandi við breytingar á tollskrá og tollalögum á undanförnum árum að draga úr tollvernd iðnaðarins, og það verður ekki séð, að það hafi orðið iðnaðinum neinn fjötur um fót, þvert á móti.

Það hefur ekki verið haft neitt sérstakt samráð við mig sem iðnmrh. um þetta frv., sem hér er á dagskrá, og ég er því ekki neitt sérstaklega undir það búinn að svara þeirri fsp., sem fram kom hjá hv. 5. þm. Austf., hvernig hugsuð væri framkvæmdin í þessu máli. En samt sem áður vil ég taka það fram, að ýmsar efasemdir ekki svipaðar þeim, sem komu fram hjá hv. þm., mátti heyra hér, þegar frv. til laga um breytingu á lausaskuldum sjávarútvegsins í löng lán var lagt fyrir Alþingi. Ég man eftir því, að það voru þá þm., sem sögðu, að það væri einskis virði og ekkert í frv., sem benti til þess, hvernig ætti að framkvæma lögin, og það mátti heyra margar úrtölur. Þetta frv. er, eins og fram hefur komið, sniðið nokkuð í samræmi við sambærilega löggjöf um sjávarútveginn og landbúnaðinn, sem má í raun og veru skoðast sem nokkurs konar rammalöggjöf. Ég er sammála því hjá hv. 5. þm. Austf., að það veltur auðvitað allt á því, hvernig framkvæmdin verður, og það hefði auðvitað verið æskilegra að tryggja fyrirkomulag framkvæmdarinnar meir í upphafi en mér skilst að gert hafi verið, eins og gert var a.m.k. í sambandi við löggjöfina um lengingu lána til sjávarútvegsins. En hins vegar er á það að lita, að undanfari þessa frv. eru tvenn hliðstæð lög varðandi sjávarútveg og landbúnað, og það er enginn vafi á því, að þar hefur skapazt jarðvegur fyrir framkvæmd þessarar löggjafar, sem ekki var í upphafi, þegar var verið að undirbúa, hvernig mætti koma þessu fyrir með fyrstu lögin, sem snertu sjávarútveginn.

Ég get vel lýst því yfir hér, að að sjálfsögðu mundi ég telja mér skylt sem iðnmrh. að beita mér fyrir framkvæmd á þessari löggjöf í samræmi við framkvæmdina, sem varð á I. varðandi lausaskuldir sjávarútvegsins og landbúnaðarins. Ég þykist alveg viss um það fyrir fram, að viðskiptabankarnir munu telja sig að verulegu leyti umkomna þess að kaupa bréf eins og hér er um að ræða upp í þær lausaskuldir iðnaðarins, sem hjá þeim eru. Ég miða það við þá reynslu, sem ég hef í þeim efnum, að þar er um lausaskuldir að ræða, sem staðið hafa árum saman og frekar bætt á sig heldur en minnkað, og ég tel það nokkurs virði fyrir viðskiptabankana að fá slíkar skuldir greiddar með bréfum, sem eru tryggð með ríkisábyrgð og ákveðin afborgun á, hvort sem það er nú til 7 eða 15 ára eða eitthvert tímabil styttra, eins og vænta má að geti orðið.

Þó að það liggi ekki fyrir og hafi ekki verið skýrt, hvernig þessi framkvæmd sé hugsuð, held ég, að þess megi vænta með þeirri reynslu, sem fengizt hefur af hliðstæðri löggjöf varðandi sjávarútveg og landbúnað, að þetta frv., ef að lögum verður, geti orðið raunverulega veruleg lyftistöng fyrir iðnaðinn. Ég vil lýsa því sem skoðun minni, að ég tel fáa löggjöf á síðari árum hafa orðið sjávarútveginum meira virði en lögin, sem sett voru 1961 um að breyta lausaskuldum sjávarútvegsins í föst lán, og það var m.a. vegna mjög gaumgæfilegrar framkvæmdar á þeim lögum, sem fólst í því, að heildarmat var látið fara fram um allt land og samræmt heildarmat á eignum landbúnaðarins og efnahagsreikningum útvegsfyrirtækjanna stillt öllum í sambærilegt form. Hér var um mikla hreinsun frá reikningslegu sjónarmiði að ræða, og það er enginn vafi á því, að l. urðu sjávarútveginum verulega til styrktar og þóttu einnig mikils virði í þeim peningastofnunum, sem þó þurftu að leggja nokkuð á sig, til þess að framkvæmdin gæti orðið sjávarútveginum til liðsinnis.

Ég skal ekki heldur blanda mér í nokkrar smávegis deilur, sem hér hafa orðið um það, hvað lánstíminn á að vera langur, 7 ár og 15 ár eða 10 ár og 20 ár. En ég hygg nú, að þetta hafi í framkvæmdinni ákaflega litla þýðingu, ef það hefur nokkra þýðingu, því að hér er verið að breyta lausaskuldum, sem fyrir eru og búið er að setja veð fyrir í eignum. Það er að vísu nokkurs virði, hvort lánin eru 15 eða 20 ár, en allur lánstíminn verður að sjálfsögðu að regúlerast miðað við það, hvað eignirnar eru gamlar eða veðin eru gömul, sem tryggingin er í, og verður lánstíminn þeim mun styttri að sjálfsögðu sem fasteignirnar og vélarnar eru eldri, sem veðsettar eru sem trygging.

Að lokum vildi ég aðeins segja, að ég tel þetta mál mikils virði og mun fylgja því. En það kann að vera, að ég vildi gera smábreytingu á þessu frv., sem ég er þó ekki reiðubúinn til þess að gera grein fyrir á þessu stigi málsins, en vildi láta það koma fram, þennan fyrirvara, svo að það kæmi ekki á óvart á síðara stigi málsins eða við 3. umr.