02.04.1964
Neðri deild: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. frsm. fjhn., 1. landsk. þm., lét þess getið, að þetta atriði, sem við flytjum brtt. um á þskj. 416, hv. 11. þm. Reykv. og ég, hefði ekki verið rætt í fjhn. Þetta er rétt hjá hv. þm., en það stafar af því, að við höfðum ekki athugað þetta atriði sérstaklega, þegar málið var rætt í n., en gerðum það hins vegar eftir að hún hafði skilað áliti. En um þetta er ekkert sérstakt að segja eða ekkert við það að athuga, því að eins og hann líka benti á, segir í nái., að einstakir nm. áskilji sér rétt til að flytja brtt. við frv., og því höfum við borið fram þessa till. Ég vil minna á það, eins og fyrri flm. till., hv. 11. þm. Reykv., gerði áðan, að þegar sett voru hér á þingi lög um svipaða lagfæringu fyrir sjávarútveginn 1961, — það er gert með lögum um breytingu á lögum um stofnlánadeild sjávarútvegsins, eins og menn muna, - þá var ákveðið í þeim lögum, að hámarkslánstími útgerðarfyrirtækjanna skyldi verða 20 ár, þegar um fasteignarveð var að ræða, en 10 ár, ef lánað var út á vélar. En í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er hámarkslánstíminn styttri, 15 ár, þegar lánað er út á fasteignir, og 7 ár, þegar lánað er út á vélar. Nú er það að vísu alveg rétt, sem hæstv. ráðh. gat um áðan, að lánstíminn hlýtur að vera mismunandi og verða það eftir því, hvernig veð er, t.d. þegar um vélar er að ræða. En það breytir því ekki, að okkur þykir rétt að veita heimild til þess, að lánstíminn hjá iðnaðinum verði jafnlangur og hjá sjávarútveginum á sínum tíma og eins og var hjá landbúnaðinum ári síðar, þegar lausaskuldum bænda var breytt í föst lán. Þá var að vísu aðeins lánað út á fasteignir, en þar var hámarkslánstíminn ákveðinn 20 ár, og brtt. okkar er um þetta, að hámarkslánstíminn hjá iðnaðinum verði þessi, 20 ár, þegar lánað er út á fasteignir, og 10 ár, þegar lánað er út á vélar. Ég tel víst, að þetta geti komið sér vel fyrir ýmis iðnaðarfyrirtæki, að hámarkslánstíminn verði settur sá sami og var hjá sjávarútveginum, eins og við gerum till. um. Það er engu slegið föstu um það, að þetta skuli vera í öllum tilfellum. Þarna er bara um hámarkstíma að ræða, og margt af lánunum yrði trúlega til styttri tíma. En óefað gæti þetta komið sér vel fyrir ýmis fyrirtæki, að það væru möguleikar til að hafa lánstímann þetta rúman.