04.05.1964
Efri deild: 79. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1896 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Allt, sem hv. þm. hefur sagt um þetta mál, er að því leyti rétt, að það veitur allt á framkvæmd þessa máls. Þetta er ekki stjórnarfrv., þetta er frv. þm., sem hafa borið það fram, og það er rétt, að það vantar undirbúning málsins fyrir fram. Hins vegar hef ég lýst því yfir í Nd., að ég mundi gera það, sem ég gæti bezt, til þess að málið gæti komizt í framkvæmd á þann hátt, að iðnaðinum yrði að gagni. Og m.a. þess vegna fór ég fram á það í Nd., að það yrðu tekin út ákvæðin um tímalengd lána til þess að það kæmi fyrir bankana þannig, að það væri ekki of bundið. Og ef menn líta á þetta mál eins og það liggur fyrir, þá veltur allt á framkvæmdinni, það er rétt, og ég get ekki sagt neitt um það, hvernig framkvæmdin verður. Hitt vil ég segja, að ég mun gera allt, sem í mínu valdi stendur, til þess að framkvæmdin geti orðið iðnaðinum að gagni.

Hv. þm. spurði mig nokkurra spurninga. Ég held ég hafi svarað þeim næstum því öllum í þessu, sem ég hef sagt um mína fyrirvara um það, að það er erfitt að koma þessu máli í höfn þannig, að það verði verulega að gagni, og enda þótt Alþingi samþ. þetta, þá veltur allt á sjálfri framkvæmdinni, það er rétt. Það er langbezt, að allir viti það. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það er mikill munur á þessum lánamálum iðnaðarins og sjávarútvegsins og landbúnaðarins, og hvort þetta verður iðnaðinum að verulegu gagni, skal ég ekki segja um. Ég mundi a.m.k. sjálfur vilja reyna að gera það, sem í mínu valdi stendur, til þess að það gæti orðið honum að gagni.