05.12.1963
Neðri deild: 25. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

91. mál, búfjárrækt

Flm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 5, þm. Norðurl. v. að flytja frv. til l. um breyt. á búfjárræktarlögunum, en þau eru l. nr. 54 frá 1957, en frv. er að finna á þskj. 104. Þær breytingar, sem hér er um að ræða við þann kafla búfjárræktarlaganna, sem fjallar um hrossaræktina, eru ekki stórvægilegar. En það er álit okkar flm., að gera þurfi víðtækar breytingar á búfjárræktarlögum í heild, en okkur er kunnugt um það, að einmitt nú þessa dagana fer fram endurskoðun l. að tilhlutan Búnaðarfélags Íslands, og það er engan veginn ætlan okkar með flutningi þessa frv. að taka fram fyrir hendur þeirra manna eða þeirrar nefndar, sem þetta starf er að vinna fyrir Búnaðarfélagið og er í samræmi við ályktun, sem gerð var á síðasta búnaðarþingi. En telja má nokkurn veginn víst, að. búfjárræktarlög, sem nú eru í endurskoðun og eiga eftir að leggjast fyrir búnaðarþing, verði ekki afgreidd á Alþingi því, sem nú situr. Til þess vinnst tæplega tími, því að væntanlega verða störf Alþingis komin langt áleiðis, begar búnaðarþing hefur fjallað um þetta mál. En ástæðan til þess, að við flm. höfum áhuga á því, að þær breytingar, sem við leggjum til að gerðar verði á búfjárræktarlögunum, nái fram að ganga á þessu þingi, er einfaldlega sú, að við viljum reyna að koma í veg fyrir, að endurtaki sig leiðindi og jafnvel málaferli, sem orðið hafa í okkar kjördæmi vegna framkvæmda á þeim kafla búfjárræktarlaganna og þó alveg sérstaklega vegna framkvæmda á 36. gr. l., þeim kafla, sem við leggjum til að breyting verði gerð á.

Ég ætla ekki hér að fara að rekja það, sem í blöðum hefur verið nefnt stóðhestastríð Skagfirðinga og Húnvetninga. En ég hygg, að undirrót þess stríðs sé sú, að menn hafa annars vegar ekki gætt þess nógu vel að halda ákvæði l., og hins vegar það, að sá skilningur hefur verið lagður í ákvæði 36. gr., að það væri hverjum framtakssömum manni heimilt að taka sig upp og gera sér ferð inn í heimalönd jarða og í afrétti og handsama stóðhesta, sem þar kunna að ganga lausir ólöglega, og síðan flytja þá til hreppstjóra, jafnvel utan þess lögsagnarumdæmis, þar sem hestarnir hafa fundizt. Ég efast nú alveg stórlega um, að það hafi verið tilgangur löggjafans að veita mönnum svo mikið frjálsræði í þessum efnum. En hvað sem um það er, hafa ákvæði l. verið skilin á þessa lund og sá skilningur l. hefur verið staðfestur með dómi.

En það er ljóst, að ef hver sem er getur tekið sér þessi löggæzlustörf á hendur, veldur það sífelldum árekstrum og leiðindum Því. er það, að við leggjum til, að umráðamönnum jarða, þ.e. ábúendum og hreppsnefndum eða fjallskilastjórum, þegar um afrétt er að ræða, verði gert að sjá um handsömun stóðhesta, sem í óleyfi ganga, og flytja þá til þess hreppstjóra, sem næstur er í því lögsagnarumdæmi, þar sem hesturinn finnst. Að sjálfsögðu geta svo allir sem vilja kært lausagöngu stóðhesta, ef þeir víta um hana eða hafa grun um, að hestar gangi lausir.

Þær breytingar, sem felast svo í 2. gr. frv., eru nær eingöngu til samræmís við ákvæði l. gr. Svo er t.d. um það ákvæði, að andvirði seldra stóðhesta, sem eigendur eiga ekki rétt á að fá, skuli renna í fjallskilasjóð í stað sjóðs búnaðarfélags, eins og nú er gert ráð fyrir í l., því að eftir að fjallskilastjórum eða stjórnum hefur verið gert að annast handsömun stóðhestanna, má líta á þetta sem fjallskilamál.

Svo leggjum við að lokum til, að rýmkuð verði nokkuð heimildarákvæði búfjárræktarlaganna um lausagöngur stóðhesta. Samkv. 39. gr. l. er Búnaðarfélagi Íslands heimilt að veita hreppsfélögum, einu eða fleiri, undanþágu frá ákvæðum um einangrun stóðhesta, ef það telur, að beitilönd þau, sem um er að ræða, séu svo einangruð, að öruggt megi teljast. í frv, er lagt til, að í þeim héruðum, þar sem um verulegan hrossabúskap er að ræða, geti sýslunefndir veitt þessar undanþágur og nokkru rýmri en búfjárræktarlögin gera ráð fyrir, en þó því aðeins að sjálfsögðu, að fullnægt hafi verið þeim skilyrðum, sem nefnd eru í frv., svo sem að meiri hl. bænda á viðkomandi svæðum hafi óskað eftir þessum undanþágum og ekki verði notaðir aðrir hestar en þeir, sem hafa verið merktir af hrossaræktarráðunaut eða viðurkenndir sem kynbótahestar.

Eins og ég sagði í upphafi, er hér ekki um neinar stórvægilegar breytingar að ræða á búfjárræktarlögunum. Ég sé því enga ástæðu til þess að vera að fjölyrða um þetta mál frekar, en óska eftir því, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.