04.05.1964
Efri deild: 79. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

91. mál, búfjárrækt

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Alþingi í þingbyrjun og virtist ekki vera um það ágreiningur í hv. Nd. Alþingis, en hér er nokkur ágreiningur um þetta frv. Sá ágreiningur er ekki að mínu áliti um þau atriði málsins, sem þurfa að leysa úr þeim vanda eða deilum, sem hafa risið á milli Húnvetninga og Skagfirðinga, þar sem 1. og 2. gr. þessa frv. kveða skýrar á um þau ágreiningsatriði heldur en lögin gera nú, og þess vegna tel ég, að þau mál og þeirra vandi, sem verið hefur, muni geta leysist á friðsamlegan hátt með því að samþykkja 1. og 2. gr. þessa frv.

En í 3. gr., þ.e.a.s. breyt. á 39. gr. búfjárræktarl., er um algera stefnubreytingu og efnisbreytingu að ræða frá því, sem hefur gilt til þessa, þar sem lagt er til, að þessi mál skuli ekki lengur heyra undir Búnaðarfélag Ílands, nema því skuli aðeins heimilt að leita álits hrossaræktarráðunautar, en það ér engin skylda að taka neitt tillit til þess álits, sem frá honum kemur, og þessi mál eiga að vera í höndum sýslunefndar. Hér er algerlega gengið fram hjá búnaðarfélagsskapnum í landinu, og má það merkilegt heita, að tveir bændur á Alþingi skuli flytja frv. um þessa hluti. Nær hefði mér fundizt, ef þykir ástæða til að taka þessi mál úr höndum Búnaðarfélags Íslands, að fela þau búnaðarsamböndum hlutaðeigandi héraða og hlutaðeigandi hreppabúnaðarfélögum, vegna þess að það er sá félagsskapur, sem á að fjalla um landbúnaðarmál öðrum fremur, og maður verður að ætla, að þeir hafi betra vit á að fara með þessi mál en þeir, sem kosnir eru í sýslunefnd, þar sem þeir eru venjulega ekki kosnir með sérstöku tilliti til þeirrar þekkingar, sem þeir hafa á landbúnaðarmálum, þó að margir hverjir séu að sjálfsögðu mjög greinargóðir einnig um þau efni.

Það virðist líka fráleitt að hugsa sér það, að sýslumenn, sem eru dómarar hver í sinni sýslu, skuli eiga að semja lög og reglur um, hvernig fara skuli með þessi ágreiningsmál og það, jafnheit ágreiningsmál og þessi málefni hafa verið á milli Húnvetninga og Skagfirðinga.

Mér finnst því, að hvernig sem ég velti þessu máli fyrir mér, sé 3. gr. frv. eða breyt. á 39. gr. l. mjög vafasöm, svo að ekki sé meira sagt, ekki bara litið á þau málefni frá ræktunarsjónarmiði hrossanna í landinu, heldur og einnig frá því að leysa ágreiningsatriði, sem upp kunna að koma, því að ég tel, að það sé ekki heppilegt, að sömu aðilar fjalli um að semja lög og reglur og þeir hafi einnig dómsvaldið í sínum höndum, eins og sýslumenn hljóta að hafa í þessum málum í undirrétti. Og nokkuð er það víst, að þó að benda megi á, að sýslumenn ráði ekki öllu í sýslunefndum, er þess að geta, að þeir hafa þar atkvæðisrétt eins og hver annar sýslunefndarmaður, og því fráleitt að ætla sýslunefndunum að fjalla um þessi mál. Nær væri, eins og ég sagði áðan, að fela þessi málefni búnaðarsamböndunum, ef fráleitt þykir, að Búnaðarfélag Íslands hafi þessi mál með höndum, eins og verið hefur.

Ég hef spurt um það á nefndarfundum og reynt að afla mér upplýsinga um það, hvort Búnaðarfélag Íslands, sem nú hefur þessi mál í sínum höndum, hafi misbeitt valdi sínu í þessum efnum, og það hef ég ekki fengið upplýst, og þess vegna ætla ég, að það sé ekki hægt að benda á slíkt, að þar hafi veríð um neina misbeitingu á rétti eða misbeitingu á valdi að ræða. Og það er ekki heldur gott, að eitt sjónarmiðið ríki í hrossaræktinni í þessari sýslu og annað í hinni, eins og ástæða er til að ætla, ef sýslunefndir, hver í sinni sýslu, eiga að fjalla um þessi málefni án þess að þurfa að taka nokkurt tillit til þeirrar sérfræðilegu þekkingar, sem Búnaðarfélag Íslands hefur jafnan á að skipa í þessum málum eins og öðrum.

Hv. 8. landsk., sem talaði hér fyrir hönd meiri hl., minnti á það, að búfjárræktarl. hefðu verið í endurskoðun og þau mundu e.t.v. koma fram á Alþingi, áður en langir tímar líða. Það er sýnilegt, að þau munu ekki koma fram á þessu þingi, en ástæða er til að ætla, að búfjárræktarfrv. verði lagt fyrir næsta Alþingi, og það er líka ástæða til að ætla, þar sem búnaðarfélögin í landinu leggja mikla áherzlu á, að það frv., sem samþykkt var á búnaðarþingi í vetur, nái fram að ganga, að Alþingi taki tillit til þess á næsta þingi. Og ég vil geta þess í leiðinni, að um þau atriði, sem þetta frv: fjallar um, var samkomulag á búnaðarþingi. Það var samkomulag milli þeirra héraða, sem hafa einkum átt í deilum um þau málefni, sem þetta frv. á að koma í veg fyrir. Og þó nokkuð er 39. gr. þess frv. frábrugðin því, sem hér liggur fyrir. Þess vegna finnst mér, að við eigum, til þess að greiða úr þeim hnútum, sem verið hafa á milli þessara tveggja miklu hrossahéraða, þ.e.a.s. Húnavatnssýslu og Skagfirðinga, að samþykkja 1. og 2. gr. þessa frv. og láta þar við sitja, vegna þess að þær greinar gera l. ljósari og geta þar af leiðandi bætt úr þeim ágreiningi, sem verið hefur að undanförnu. En ég tel mjög varhugavert, að 39. gr. l. breytist á þann veg, sem hér er lagt til. Þess vegna höfum við lagt til í minni hl. n., að sú grein verði felld, en frv, samþ. að öðru leyti. Ef brtt. okkar verður samþ., þ.e.a.s. að 3. gr. falli niður, þá erum við með frv. og samþykkjum það, en að öðrum kosti getum við ekki verið með frv., verði 3. gr. þess samþykkt. Tel ég, að ég hafi gert grein fyrir ástæðunum fyrir því, hvers vegna við erum á móti 3. gr. þessa frv., og hv. þingmönnum sé þessi ágreiningur ljós og þeir geti tekið afstöðu til málsins þess vegna. Og ég trúi því ekki fyrr en ég reyni, að hv. þm. sjái það skammt fram í tímann, að þeir vilji nú fara að gerbylta 39. gr. búfjárræktarl., þegar það liggur fyrir, að búfjárræktarl. í heild koma til Alþingis e.t.v. á næsta þingi. );g vænti því þess, að hv. þm. samþykki það, að 3. gr. þessa frv., þ.e.a.s. 39. gr. búfjárræktarl., verði felld, og þá munum við í minni hl. vera með þessu frv., en að öðrum kosti ekki.