06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

91. mál, búfjárrækt

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. við 3. umr. þessa máls, þar sem þær breytingar, sem minni hl. landbn. lagði til, urðu ekki samþ. við 2. umr. málsins.

Það er nú þannig, að á þeim tímum, sem við lifum, miðum við flest okkar mál við tæknimenntun og sérþekkingu. Og þegar litið er á þetta mál, búfjárræktarlögin, í því ljósi, sem lýsir okkur yfirleitt í þeim málum, sem við fjöllum um hér á hv. Alþingi, þá finnst mér, að það sé farið nokkuð marga áratugi til baka, þegar samþykkja skal þetta frv. eins og það liggur fyrir, þar sem horfið er frá því að fara eftir því, sem vísindin hafa aflað sér, og hverfa til fyrra horfs, þar sem hvorki þekkingu né vísindum var til að dreifa. Og nokkuð er það víst, að Búnaðarfélag Íslands, sem er að verða 65 ára gamalt, hefur frá upphafi haft þessi mál með höndum. En það er vitað mál, að Búnaðarfélag Íslands starfar að margháttuðum fræðilegum og hagnýtum fyrirgreiðslum og leiðbeiningum á sviði landbúnaðar og er einnig ráðgefandi fyrir Alþingi og ríkisstj. Þess vegna finnst mér það koma úr hörðustu átt, þegar Alþingi fer nú að stofna til þess, að það skuli gengið fram hjá þessum félagsskap í ríkara mæli en nokkru sinni hefur áður, þekkzt. Hér er því um stefnubreytingu að ræða, þar sem kljúfa skal út úr þeim félagsskap. sem hefur verið treyst bezt til þess að lýsa okkur á sviði landbúnaðarmála að undanförnu. Ég veit ekki heldur, hvar það kann að enda, þegar svo byrjar eins og hér virðist vera, og nokkuð er það hart, að einmitt þessi vísir skuli vera kominn úr því héraði, þar sem fyrsta búnaðarfélag landsins var stofnað fyrir 120–130 árum. Og sannarlega hafa þeir bændur, sem þá bjuggu í Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhreppi, ekki verið trúlausir á mátt samtakanna eða mátt búnaðarfélagsskaparins í landinu, og þetta félag, sem þeir stofnuðu, varð vísirinn að Búnaðarfélagi Íslands. Ég vil því sannprófa það með þeirri till., sem hér liggur fyrir, hvort það er virkilega svo, að hv. alþm. séu þeirrar skoðunar að — leita ekki álits og eftir því fara, þegar um er að ræða þau málefni, sem bændastéttina varða og Búnaðarfélag Íslands hefur jafnan fjallað um og að ég ætla bændastéttinni til gáðs og gæfu á liðnum árum, og mun einnig verða, ef til félagsskaparins verður leitað á komandi tímum. Þess vegna er það, að ég hef lagt fram þessa brtt. á þskj. 575, og vænti ég, að hv. þm. geti á hana fallizt, þar sem hún er um það, að það skuli leitað þeirrar sérfræðilegu þekkingar, sem við höfum völ á í landinu í þessum efnum, eins og á fjölmörgum öðrum sviðum, og eftir því skuli farið. Það ríkir annað viðhorf hjá okkur þá í landbúnaðarmálum en fjöldamörgum öðrum málum, ef þessi till. verður felld hér á hv. Alþingi.