06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

91. mál, búfjárrækt

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. talaði hér á móti þeirri brtt., sem ég flyt, og fannst honum, að sá frestur, sem ég vil heimila samkv. þessum l., eitt ár, mundi vera of stuttur. En ég tel bað vera aðalkost till. að hafa frestinn stuttan, vegna þess að fimm ára frestur, ef lögin reynast illa í framkvæmdinni, er allt of langur, og mér finnst það vera glannalegt af Alþingi að samþykkja svo langan frest án nokkurs fyrirvara, þar sem við vitum, að ýmiss konar deilur hafa verið í sambandi við þessi mál.

Þess vegna held ég, að það sé hyggilegt að fara að ráðum fróðra manna og hafa frestinn aldrei lengri en eitt ár í senn, enda þótt heimamenn verði að hafa nokkuð fyrir því, að slíkur frestur fáist, eins og hv. þm. benti á.

En það, sem hv. 8. landsk. þm. og fleiri hér virðast trúa á, er, að þetta mál komi í veg fyrir þær deilur, sem verið hafa uppi á milli Skagfirðinga og Húnvetninga. En ég hef kynnt mér þetta mál, og ég hef líka hlustað á umr. á búnaðarþingi milli Húnvetninga og Skagfirðinga um þessi mál. Og þar varð samkomulag um breytingar á 39. gr. búfjárræktarl. á allt annan veg en sú breyting, sem hér liggur fyrir á 39. gr. l. Og þess vegna held ég, að það sé skakkt af Alþingi nú að vera að samþykkja 3. gr. þessa frv., þar sem það er sýnilegt, að hún kemur ekki í veg fyrir þær deilur, sem upp kunna að rísa. Það eru 1. og 2. gr. þessa frv., sem kveða skýrar á um þau ágreiningsatriði, sem verið hafa, og geta þar af leiðandi komið í veg fyrir það, að deilur verði út af þeim málum, sem verið hafa. Það eru fyrst og fremst þær greinar, og höfum við verið sammála meiri hl. n. um það, hv. 4. þm. Austf. og ég. En ég get aldrei fallizt á það, að 3. gr. þessa frv. verði samþ., nema því aðeins að sú breyting, sem ég legg hér fram, verði jafnframt samþykkt. Að öðrum kosti er ég alveg á móti þessu frv. Og ég vænti þess, að hv. alþm. geti fallizt á þetta tvennt, sem ég fer fram á í þessari till., þ.e. í fyrsta lagi, að fresturinn verði færður úr 5 árum, eins og hann er nú í frv., niður í eitt ár, eins og ég legg til í minni brtt., og enn fremur það, að skylt verði að taka fullt tillit til álits sérfræðings á þessu sviði, þ.e.a.s. hrossaræktarráðunautar Búnaðarfélags Íslands, og finnst mér það vera mjög til samræmis við ýmis önnur mál, sem við höfum verið að samþykkja á þessu þingi og undanförnum þingum um það að fara að áliti sérfræðinga á mörgum sviðum. Og í einni mjög umdeildri löggjöf hér á landi, sem var til umr. fyrir nokkrum árum, fólum við sérfræðingi geysimikið vald samkv. þeirri löggjöf. Og ég hef ekki orðið var við það síðan, að miklar deilur hafi risið út af þeim málum og alls ekki eins og vænta mátti. Það var veiðilöggjöfin, þar sem veiðimálastjóra voru falin víðtæk völd á sviði veiðimála í landinu. Ég sé ekki, að á þessu tvennu sé sá reginmunur, að sérfræðingar í búfjárrækt séu þeim mun hættulegri búfjárræktinni í landinu heldur en veiðimálastjóri kann að vera lax- og silungsveiði almennt í landinu.