06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

200. mál, vegalög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það er þannig ráð fyrir gert í þeim l., sem samþykkt voru í vetur, að þeir, sem eiga dísilbifreiðar, eigi, eins og þar stendur í 88. gr. I., rétt á endurgreiðslu skatts samkv. a- og b-liðum 87. gr. En eins og hv. þm. muna, er 87. gr. l. þannig, með leyfi forseta:

„Árlega skal greiða þungaskatt af bifreiðum, sem hér segir: a. Af bifreiðum, sem aðallega eru gerðar til fólksflutninga og nota benzín að eldsneyti, kr. 72.00 af hverjum fullum 100 kg þunga þeirra. b. Af bifreiðum, sem nota annað eldsneyti en benzín“ — og þungaskattur, minnsti þungaskattur, sem er af bifreið, er 8500 kr. samkv. núgildandi 1., en var áður 2700 kr., hefur þannig hækkað um 5800 krónur.

Samkv. gildandi l. eiga eigendur jeppabifreiða rétt á endurgreiðslu skatts af þessum dísilbifreiðum og fá þá 8.500 kr. endurgreiddar. En í vetur var ekki tekið með í reikninginn, að þarna væri mikið misræmi á milli þeirra, sem eiga dísilbifreiðarnar, og hinna, sem eiga jeppabifreiðarnar, og ofan á skattinn, sem var fyrir, 1.47 kr. á hvern benzínlítra, var bætt 1.30 kr., þannig að hann er 2.77 kr. nú, og því var haldið fram, að þegar sá, sem á benzínbifreið, sé búinn að aka 17 þús. km., sé hann búinn að greiða álíka mikið í skatt til þess opinbera og sá, sem borgar 8500 kr. þungaskatt af sinni bifreið. En samkv. núgildandi lögum á sá, sem á benzínbifreiðina, ekki neinn rétt á því að fá neitt endurgreitt af sínum benzínskatti, þótt hann noti bifreið sína mikið til landbúnaðarstarfa, og þarna finnst mér töluvert upp á milli gert, þar sem bóndi, sem hefur dísilbifreið, fær 8500 kr. endurgreiddar, en hinn, sem notar sína bifreið á sama hátt til landbúnaðarstarfa og greiðir jafnmikið í skatt til ríkisins, á ekki rétt á neinni endurgreiðslu. Till. mín miðar að því, að þarna sé brúað bilið á milli þeirra bænda annars vegar, sem eiga dísilbíla og fá endurgreiðslu samkv. gildandi 1., og hinna, sem eiga benzínbifreiðar og eiga ekki rétt á neinni endurgreiðslu annarri en þungaskattinum, sem er sáralítil upphæð eða 72 kr. af hverjum 100 kg, og mundi undir flestum kringumstæðum, þar sem jeppabifreiðar eiga í hlut, ekki nema hærri upphæð en 1000 kr. á móti 8500 kr. hjá þeim, sem dísilbifreiðarnar eiga.

Nú er það svo, að till. er þannig orðuð, að það mundi aldrei koma til endurgreiðslu á meira benzíni en hægt væri að færa sönnur á að notað hefði verið, og víðast hvar hygg ég, að þar sem bændur eiga bifreiðar, sé ekki um mikla keyrslu að ræða yfirleitt, og ég efast um, að hjá mörgum þeirra sé keyrslan yfir 10 þús. km á ári. Þess vegna mundi þessi skattur ekki nema eins hárri upphæð og þungaskattur bifreiða er, en allajafna þó koma verulega við þeirra pyngju, þar sem benzín hefur hækkað gífurlega mikið og fer mjög hækkandi. Þess vegna vil ég mælast til þess, að hv. þm. samþykki þessa till., vegna þess að hér er um réttlætismál að ræða milli aðila, þar sem annar fær endurgreiðslu samkv. l., en hinn á engan rétt á því. Löggjafinn getur varla verið þekktur fyrir það að gera verulega þarna upp á milli, og því vænti ég þess, að hv. alþm. samþykki þessa brtt., sem liggur hér fyrir á þskj. 550 frá hv. 4. þm. Austf. og mér.