06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

200. mál, vegalög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka þessum tveimur hv. þm., sem hér hafa talað og eru þeirrar skoðunar, að það sé nauðsynlegt að leysa þetta vandamál. Hins vegar vil ég benda á það, að þetta vandamál verður tæplega leyst með reglugerð, því að reglugerð hlýtur að verða að byggjast á einhverjum lagabókstaf, og lögfróðir menn hafa tjáð mér, að það sé skylt að endurgreiða þungaskatt af dísilbílum, en hvergi tekið fram í 1., að það sé skylt að endurgreiða benzínskatt af þeim bifreiðum, sem brenna benzíni, það sé hvergi tekið fram, að landbúnaðarbifreiðar falli þar undir. Þess vegna held ég, ef það er verulegur áhugi og vilji þeirra manna, sem hér hafa talað í þessu máli, og þeir fylgja fram því, sem þeir hafa sagt, þá á þetta frv. ekki að fara svo nú frá Alþingi, að við breytum því ekki á þann veg, að leiðrétting fáist á þessu ári og sú reglugerð, sem samin verður síðar á árinu, verði í samræmi við vilja manna hér í málinu. Hitt væri hrein og klár vitleysa, ef menn á annað borð vilja breyta um í þessum efnum, að hleypa frv. nú í gegn án þess að breyta því, en ætlast þó jafnframt til, að lagfæring fáist, sem lögfróðir menn hafa þegar upplýst að muni ekki geta fengizt nema með lagabreytingu.