09.04.1964
Efri deild: 66. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið alllengi til athugunar hjá heilbr.- og félmn. N. hefur rætt það á nokkrum fundum og leitað álits nokkurra aðila á frv., þ.e.a.s. Búnaðarfélags Íslands, lögreglustjórans í Reykjavík, garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar og Fjáreigendafélags Reykjavíkur. Það bárust umsagnir til n. frá þessum aðilum öllum, og umsagnirnar voru í stuttu máli á þá leið, að þrír þeir fyrst nefndu, þ.e.a.s. Búnaðarfélagið, lögreglustjóri og garðyrkjustjóri, leggja til, að frv. verði samþ., en Fjáreigendafélagið leggur gegn samþykkt frv.

Eitt af því, sem valdið hefur nokkrum drætti á því, að málið væri afgr. úr n., var, að það var vitað, að von var á erindum frá nokkrum kaupstöðum, þar sem áhugi var á að afla sér slíkra heimilda sem í frv. felast. N. bárust erindi frá bæjarráðunum á Akureyri og í Kópavogi þess efnis, að frv. væri einnig látið ná til þeirra kaupstaða, og frá bæjarstjórninni í Hafnarfirði, þar sem þess er óskað, að frv. verði látið ná til kaupstaða almennt. N. varð sammála um að verða við þessum erindum, þannig að frv. yrði látið ná til þessara þriggja kaupstaða líka, og í þeim tilgangi flytur n. brtt. við frv. á þskj. 432. Þær brtt. skýra sig algerlega sjálfar, ég sé ekki ástæðu til þess að víkja nánar að þeim.

Það er rétt að láta þess getið, að í þessum erindum, sem ég áðan nefndi og heilbr.- og félmn. hafa borizt, koma fram einróma óskir bæjarráðanna á Akureyri og í Kópavogi og bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði, þ.e.a.s. á engum þessara staða hefur orðið neinn ágreiningur um þetta mál, heldur hafa þá væntanlega fulltrúar allra flokka verið sammála um að óska heimildanna, sem í frv. felast, þessum kaupstöðum til handa einnig. Ég vil geta þess, að frá borgarstjórninni í Reykjavík liggur fyrir, — það má rifja það upp, það mun enda hafa komið fram hér við 1. umr. málsins, — einróma ósk um, að frv. yrði flutt hér á hv. Alþ., og það má líka minna á það, að frv, lá fyrir landsþingi Sambands ísl. sveitarfélaga á s.l. sumri og hlaut þar einróma meðmæli. Að vísu var það ekki alveg í því sama formi og það var lagt fram hér á hv. Alþ., heldur var það enn þá rýmra þá að því leyti, að þá tók það til kaupstaða og kauptúna yfirleitt.

Þrír nm., þeir hv. 1. þm. Norðurl. e„ hv. 9. landsk. þm. og hv. 1. þm. Vesturl., lýstu því yfir í n., að þeir mundu flytja brtt. við 2. gr. frv. Er sú brtt. á þskj. 438. Ég og hv. 4. þm. Vestf. vildum ekki standa að þeim tillöguflutningi og erum brtt: andvígir. Ég tel rétt að skýra afstöðu mína til brtt., þegar hv. flm. hafa fylgt henni úr hlaði. Að öðru leyti en ég hef nú rakið leggur heilbr.- og félmn. til, að frv. verði samþykkt.