13.04.1964
Efri deild: 67. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. (Auður Auðuns):

Það voru aðeins örfá orð í sambandi við ræðu hv. síðasta ræðumanns. Það er þá fyrst það, að hann sagði, að ég teldi, að með því að fresta heimild til algers banns í hálft fimmta ár væri eyðilagt gildi frv. eða l. þann tíma. Ég sagði það nú ekki, enda ætti það ekki stoð í veruleikanum, heldur sagði ég, að það mundi rýra gildi frv. En að segja hitt, að gildi þess væri að engu gert með því, það mundi ég ekki láta mér um munn fara, því að í frv. eru að öðru leyti veittar heimildir til ráðstafana, sem eru vænlegar til mikils árangurs. En ég er þeirrar skoðunar, eins og ég áðan sagði, að ef ekki er fyrir hendi það aðhald, sem heimild til algers banns veitir, minnki líkurnar fyrir því, að frv. nái tilætluðum árangri.

Þá talaði hv. þm. um það, að menn ættu að taka tillit til annarra og það væri nú einu sinni svo, að menn vildu hafa frelsi til þess að iðka það starf í tómstundum sínum, sem hugur þeirra stendur til, og það er rétt, svo langt sem það nær. En þegar tómstundaiðjan fer að verða til ama eða óþæginda fyrir aðra, fer maður að draga í efa, hve mikinn rétt hún á á sér, og getum við hv. þm. talizt bæði jafngóðir frelsisunnendur fyrir því, þó að við hljótum að taka tillit til staðreynda eins og slíkra.

Þá var það út af frestunartímanum, umþóttunartímanum, sem hv. þm. nefnir svo. Það er rétt, sem hann sagði, í n. var talað um það til samkomulags, að þessi frestunartími yrði 3 ár, sem nú hefur verið flutt brtt. um, að hin5 vegar yrði 41/2 ár. En ástæðan til þess, að ég var þessu andvíg, er sú sama og ég áður sagði, að ég held, að frv. nái ekki þeim tilgangi, sem flm. ætla, ef frestað er heimild til algers banns á tilteknu búfjárhaldi, og svo hitt, að mér finnst þessi till., eins og ég áður sagði, vera vanhugsuð. Ég sé ekki annað en að eftir þessi 3 ár stæðu fjáreigendur alveg í sömu sporum og þeir gera í dag. Um að frestunin eigi að notast til þess að ná samningum, sagði hv. þm., ef ég heyrði rétt, að hann teldi, að bæjarstjórnirnar hefðu ekki staðið í stöðu sinni, ef ekki næðust samningar á þessu tímabili. Það er nú nokkuð einhliða fullyrðing. Ég mundi hins vegar líta svo á, að viðsemjendur bæjarstjórnanna, búfjáreigendurnir, yrðu alla vega eða hefðu a.m.k. tilhneigingu til þess að verða erfiðari viðureignar í samningagerð, ef búið er að nema bannheimildina burt um tíma, þ.e. fresta henni í lengri tíma.

Ég held, að það sé ekki fleira í ræðu hv. þm., sem ég sé ástæðu til þess að gera aths. við. Hins vegar vék hann aftur að því almennt, hvaða áhrif konur eða viðurvist kvenna í þinginu hefðu á það, hvernig þm. brygðust við málum, og þá vil ég segja það, að ég álít, að þessi orð gætu gefið þingflokkunum og þ. á m. flokki hv. þm., gefið stjórnmálaflokkunum tilefni til þess að leggja á það áherzlu, að konunum fjölgaði hér á Alþingi.