24.04.1964
Neðri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv. er komið til okkar frá Ed. og var þar flutt að tilhlutun borgarstjórnar Reykjavíkur, og ber náttúrlega að meðhöndla það með allri þeirri virðingu, sem þeirri miklu stofnun ber að hafa, og ekki minni virðingu en sú stofnun sýnir Alþingi, þegar hún t.d. ákveður að byggja ráðhús á lóð Alþingis.

Þetta frv. fjallar um búfjárhald, og ég efast ekki um, að það sé ýmislegt af rökum, sem megi mæla fram með því, og vafalaust ýmis óþægindi, sem menn hafa af búfjárhaldi í Reykjavík. En ég vildi samt skjóta því til þeirrar n., sem þetta mál fer til, að athuga þetta dálítið vel. Það er satt að segja það mikil breyting, sem er að gerast í okkar kynslóð á Íslandi, að það er ekki vert að hlaupa svo mikið að því að höggva á öll þau tengsl, sem eru enn þá við sveitirnar hjá þeim helmingi þjóðarinnar, sem nú býr brátt í Reykjavík og næstu bæjum við hana. Það eru ekki það mörg tækifari, sem t.d. börnin í Reykjavík hafa til þess að alast upp í nokkurn veginn náttúrlegu umhverfi, svipuðu umhverfi og því, sem kynslóðir Íslendinga hafa alizt upp í fram að þessu, að það sé rétt að fara allt of geyst í það að slíta öll slík bönd, a.m.k. ekki meðan ekki eru því sterkari rök, sem með því mæla. Ég held, að það sé bezt, og það vildi ég mælast til að sú n. athugaði, sem þetta mál fær til umr. og meðferðar, að athugað yrði mjög vel, að það yrði haft nokkurn veginn hlutfall í öllum þeim ákvörðunum, sem teknar eru. Vissulega geta ýmis þau dýr, sem hér eru, kindur og hestar og annað slíkt, verið dálítið erfið stundum, en flest eru þetta þó tamin dýr, og ýmsir hafa af þeim ánægju. En nú virðist eiga að innleiða það, að menn þurfi að sækja um leyfi til bæjarstjórnar Reykjavíkur fyrir hvert af slíkum dýrum, sem menn hafa einhvers staðar nærri sér eða vilja stunda einhvers staðar í því stóra landi, sem Reykjavík hefur til umráða.

Hins vegar virðist ekki sama gegna, þegar um er að ræða þau vélrænu villidýr, sem vaða hér eftir götunum stundum, slasa menn, drepa bæði unga og gamla og jafnvel þannig, að fullhraustir menn verði fyrir þeim líka. Það er svo, að þau vélrænu villidýr, sem þarna er um að ræða, — og ég á við bílana, stundum með vitlausum mönnum í, — æða hér um göturnar, og ég sé ekki betur en það sé orðið stundum hættulegra að vera hér á götum Reykjavíkur en að veiða á okkar sollna hafi fyrir sjómenn okkar eða a.m.k. séu slysin álíka mörg, sem íbúar Reykjavíkur verða fyrir af bílunum, eins og af því, að sjómenn okkar í Reykjavík stundi sjóinn. Ég hef ekki orðið var við, að neinum hafi dottið í hug að banna bíla í Reykjavík eða banna þá í bæjarlandinu, né heldur að það þurfi að sækja um leyfi til bæjarstjórnar Reykjavíkur fyrir hverjum bíl, sem menn fá. Ég vil bara biðja menn að meta þessa hluti dálítið í hlutfalli hvorn við annan: Bílarnir eru þannig orðnir eitthvert helzta drápstæki nútímans á friðsamlegu landi eins og Íslandi, og það er vert að reyna að hafa dálítið hef í þessum hlutum. Það eru fáir menn nú orðið, sem verða fyrir mannýgum nautum og drepnir af þeim, og ég man varla eftir því, að það hafi komið fyrir í Reykjavík um langt skeið, þannig að það er rétt að athuga alla þessa hluti. Við skulum ekki vera allt of fínir með okkur í öllu þessu og taka ofur lítið tillit til þess lífs, sem er í kringum okkur. Það er ekki nema eðlilegt, að svona hugmyndir komi fram hjá bæjarstjórn Reykjavíkur, en ég held, að menn eigi ekki að flýta sér of mikið að slíku. Það hefur verið oft góður siður um ýmis frv. sem fram hafa komið, jafnvel þótt þau hafi síðar meir átt að fara í gegn, að þau hafa verið athuguð, þegar ekki lá sérstaklega á á því þingi, sem þau komu fram, ekki endilega afgreidd þá, mönnum gefið tækifæri til þess að íhuga sitt mál og fylgjast með þessu, og ég held, að það væri rétt fyrir þá n. sem þetta frv. fær til umr., að athuga þetta mál mjög gaumgæfilega. Það er engin pólitík í þessu máli, skiptir ekki neinum flokkum eða neinu slíku, það er aðeins mannleg afstaða, sem þar kemur fram, og við vitum, að innan Reykjavíkur eru sterkar raddir bæði með og móti þessu máli, án tillits til allrar flokkaskiptingar. Og þegar slík mál eru á döfinni, vitum við hvort sem er, að það er ekkert sérstakt, sem á liggur með þetta, og það má vei gefa bæjarstjórn Reykjavíkur tækifæri til þess að reyna enn þá á grundvelli þeirrar reglugerðar, sem hún getur stuðzt við, að laga þetta vandamál sitt, og ég vildi mjög mælast til þess, að sú n., sem fær þetta til umr., athugi það vel frá öllum hliðum.