08.05.1964
Neðri deild: 95. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. meiri hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti: Frv. til l. um búfjárhald í Reykjavíkurborg og þremur kaupstöðum hefur undanfarna daga verið til athugunar hjá heilbr.- og félmn. hv. d. Frv. var sent til umsagnar Skógræktarfélagi Íslands og Skógræktarfélagi Reykjavíkur, og leggja báðir þessir aðilar til, að frv. verði samþ. óbreytt. Til n. barst erindi frá Páli A. Pálssyni, forstöðumanni tilraunastöðvar háskólans í meinafræði að Keldum, þar sem athygli n. er vakin á því, að samþykkt frv. óbreytts muni valda verulegum vandræðum í sambandi við þá tilraunastarfsemi, sem þar er rekin. Einnig barst til n. nokkru síðar erindi frá prófessor Davíð Davíðssyni, deildarforseta í læknadeild Háskóla Íslands, sem gekk mjög í sömu stefnu.

Heilbr.- og félmn. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. n., sem saman stendur af þeim hv. þm., sem undirritað hafa nál. á þskj. 604, telur, að eðlilegt sé, að í l. verði leidd almenn heimildarákvæði, er opni möguleikana fyrir sveitarstjórnir í kaupstöðum og í hreppum af tiltekinni stærð til þess að banna búfjárhald innan endimarka sveitarfélagsins að meira eða minna leyti. Hins vegar taldi þessi sami meiri hl., að óeðlilegt væri að samþ. frv. óbreytt, eins og það kemur frá hv. Ed., þar sem þar er aðeins gert ráð fyrir því, að fjórir tilteknir kaupstaðir, þ.e.a.s. Reykjavík, Akureyri, Hafnarfjörður og Kópavogur, hafi þessa heimild, því að það er nærri því gefið, að í framtíðinni munu berast erindi frá fleiri sveitarfélögum um að koma á svipaðri skipan innan endimarka þeirra, og raunar hefur eitt erindi þegar borizt um þetta, þ.e.a.s. frá Garðahreppi í Gullbringusýslu.

Af þessari ástæðu hefur meiri hl. lagt til á þskj. 605, að á frv., eins og það var samþ. í hv. Ed., verði gerðar tvær breyt. Sú fyrri lýtur að 1. gr. frv. og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta, að í stað 1. mgr. 1. gr., eins og hún er á þskj. 468, komi eftirfarandi ný málsgrein:

„Sveitarstjórn í kaupstað eða kauptúni með eitt þúsund íbúa eða fleiri er heimilt með samþykki ráðh. að setja reglugerð um búfjárhald í kaupstaðnum eða kauptúninu. Með slíkum reglum má þó ekki skerða rétt tilraunastöðvarinnar að Keldum eða annarrar hliðstæðrar tilraunastöðvar til búfjárhalds.“

Og sem eðlilega afleiðingu af þeirri breyt. leggur meiri hl. n. til, að fyrirsögn frv., þ.e.a.s. um búfjárhald í Reykjavíkurborg og þremur kaupstöðum, breytist þannig, að frv. nefnist: Frv. til laga um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum.