08.05.1964
Neðri deild: 95. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er að sjálfsögðu ekki neitt stórmál, en þess vegna skil ég það ekki heldur, af hve miklu ofurkappi það virðist vera sótt hér í þinginu að koma þessu endilega fram að þessu sinni. Mér virðist það koma fram eða sjást á þeirri aths., sem hæstv, forsrh. gerði hér áðan, að þetta mál sé enn þá hvergi nærri nægjanlega athugað, og þess vegna mætti það vel bíða næsta þings, að betri athugun færi fram á því, hvort það væri nokkur nauðsyn á að setja lög eins og þessi.

Því hefur verið haldið fram, að garðeigendur hér í bænum hefðu sérstakan áhuga á þessu máli, en mér er tjáð, að nokkru eftir að það kom til meðferðar hér á þinginu, hafi verið haldinn sérstakur fundur í félagi garðeigenda hér í bænum, en hann verið svo fámennur, að það hafi orðið fundarfall, þannig að áhuginn virðist ekki vera meiri en þetta hjá þessum aðilum fyrir framgangi þessa máls. Hins vegar var haldinn mjög fjölmennur fundur hjá þeim, sem eiga enn þá búfé hér í bænum, og þar voru samþykkt eindregin mótmæli gegn þessu frv.

Ég hef ekki heyrt færð fram veruleg rök fyrir því, að t.d. það búfjárhald, sem hér er í bænum, ylli einhverju tjóni eða usla, þannig að það væri nauðsynlegt að hespa illa undirbúnu frv. í gegnum þingið af þeim ástæðum. En eins og kom fram hjá hæstv. forsrh., finnst mér, að málið liggi þannig fyrir hér, að það sé a.m.k. þörf nánari athugunar, og ég vildi þess vegna mælast til þess við hæstv. forseta, hvort það væri ekki hægt að fresta málinu að þessu sinni, til þess að þessi brtt., sem hér liggur fyrir, fái nánari athugun.