09.05.1964
Neðri deild: 96. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ef þetta mál fer til n. aftur, vildi ég beina því til hennar, hvort hún vildi. ekki gera nokkra lagfæringu á 2. gr. frv., og á ég þá við að fella niður úr gr. það, sem snertir heimild til þess að banna algerlega búfé í viðkomandi kaupstað eða kauptúni. Ég mundi sem sagt leggja til, að 2. gr. hljóðaði á þessa leið:

„Í reglugerð má ákveða, að tiltekið búfjárhald sé takmarkað að því er snertir fjölda hverrar tegundar eða bundið við tiltekin svæði innan bæjarlandsins eða borgarlandsins“ eða hvað menn vilja hafa það, sem kemur svo þarna á eftir. Sem sagt, að bæjarstjórnir eða sveitarstjórnir fái heimild til þess að takmarka búfjárhald innan lögsagnarumdæmisins eða umráðasvæðis sveitarfélagsins og einnig til að banna búfjárhald.

Ég held, að við meðferð málsins hér í þinginu sé búið að gera þær breytingar á þessu máli, að það sé eðlilegt að breyta því í þetta horf, Í fyrsta lagi er búið að gera þá breyt. frá því, sem var upphaflega í frv., að leyfa hestahald, ef það er í umsjón hestamannafélaga, og það er einnig búið að veita hinu opinbera leyfi til þess að hafa búfjárhald eins og því sýnist í sambandi við rannsóknarstöðvar innan viðkomandi lögsagnarumdæma, og ég held, að þegar þannig er komið, að það er bæði búið að veita félögum rétt til skepnuhalds og það er búið að veita ríkinu einnig leyfi til skepnuhalds, sé nokkuð langt gengið í þessu þjóðfélagi, sem við viljum þó telja frjálst þjóðfélag, að einstaklingunum sé algerlega bannaður sams konar réttur innan eðlilegra takmarka. Það getur verið alveg rétt, sem hefur komið fram í umr. um þetta mál, að það sé nauðsynlegt fyrir bæjarfélögin að fá heimild til þess að setja ákveðnar reglur um skepnuhald. En ég held, að það sé alveg óþarfi að veita þeim heimild til þess að banna það með öllu, og þess vegna vil ég fara fram á það við hv. n., þegar hún fær þetta mál til athugunar á ný á annað borð, eins og hæstv. forsrh. hefur lagt til, að hún taki það til athugunar, hvort ekki sé rétt að fella niður úr 2. gr. heimild sveitarfélaga til að setja algert bann á búfjárhald.